Mál nr. 305/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 305/2024
Fimmtudaginn 26. september 2024
A
gegn
Reykjanesbæ
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 2. júlí 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Reykjanesbæjar vegna skuldar hennar við sveitarfélagið.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með ákvörðun velferðarsviðs Reykjanesbæjar, dags. 18. mars 2020, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um lán að fjárhæð 500.000 kr. hefði verið samþykkt. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 2. júlí 2024 og vísaði til þess að hún væri mjög illa stödd fjárhagslega og sæi ekki fram á að geta greitt skuld sína við Reykjanesbæ. Hún óskaði því eftir að skuldin yrði felld niður.
Með bréfi, dags. 11. júlí 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum frá Reykjanesbæ vegna kærunnar. Svar barst 24. júlí 2024 og var það kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. júlí 2024. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hafa fengið lán hjá Reykjanesbæ í apríl 2020, að fjárhæð 500.000 kr., vegna leigutryggingar. Kærandi hafi verið og sé enn mjög illa stödd fjárhagslega. Hún hafi séð fram á að verða húsnæðislaus ef hún myndi ekki koma með tryggingu fyrir því húsnæði sem hún hafi verið í og sé enn. Stuttu síðar hafi kærandi fengið greiðsluseðil upp á rúmar 13.000 kr. í heimabankann. Kærandi hafi strax látið vita að það væri allt of há upphæð og að hún réði við 5.000 kr. á mánuði. Mál kæranda sé búið að fara í marga hringi hjá Reykjanesbæ og sé nú komið til innheimtufyrirtækis. Kærandi hafi ítrekað reynt að hafa samband við einhvern hjá Reykjanesbæ en svo í desembermánuði hafi henni verið tjáð að starfsmaðurinn sem hafi átt að sjá um mál hennar væri farinn úr starfi og að hún yrði að kæra til úrskurðarnefndar. Hins vegar liggi hvergi fyrir nein ákvörðun og kærandi hafi hvorki haft líkamlega né andlega orku til að takast á við þetta mál. Nú hafi kærandi enn og aftur verið að fá ítrekun frá innheimtufyrirtækinu og því hafi hún ákveðið að skrifa þennan rökstuðning.
Kærandi tekur fram að hún sé að kljást við mikil andleg og líkamleg veikindi og hafi ekki tök á því að liggja yfir svona málum. Hún sé mjög illa stödd fjárhagslega og sjái ekki fram á að geta greitt þessa skuld. Hún fari því fram á að skuldin verði felld úr gildi þar sem hún sé stofnuð til vegna neyðar hennar varðandi húsnæði á sínum tíma og enn sé sama staða uppi. Kærandi hafi einnig verið á lista hjá Reykjanesbæ vegna húsnæðis en það virðist ekki vera neitt í boði þar heldur. Ef kærandi hefði ekki fengið þessa upphæð á sínum tíma hefði hún staðið uppi heimilislaus með barn og hefði orðið að treysta á Reykjanesbæ til þess að útvega henni húsaskjól.
III. Sjónarmið Reykjanesbæjar
Í svari Reykjanesbæjar við fyrirspurn úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að sveitarfélagið hafi samþykkt lánveitingu til kæranda að andvirði 500.000 kr. á fundi áfrýjunarnefndar velferðarráðs þann 13. mars 2020. Lánið hafi verið veitt þann 27. apríl 2020 með skuldaviðurkenningu þess efnis að kæranda myndi greiða lánið að fullu með 36 afborgunum frá og með 1. júlí 2020, 13.889 kr. á mánuði. Lánið hafi verið greitt út 28. apríl 2020 og kærandi hafi verið upplýst um það í tölvupósti 5. maí 2020. Þann 1. október 2020 hafi kærandi haft samband við félagsráðgjafa og þá strax upplýst að hún ætti í vandræðum með að greiða af láninu. Kærandi hafi þá verið upplýst um að greiðslutilhögun hefði verið samþykkt á áfýjunarfundi og ef breyta ætti þeirri tilhögun þyrfti málið að fara aftur fyrir áfrýjunarfund. Félagsráðgjafi hafi bent kæranda á að næsti áfýjunarfundur yrði 23. október 2020. Kærandi hafi móttekið þau skilaboð með „ok, takk“. Beiðni um áfrýjun hafi ekki verið send til Reykjanesbæjar í framhaldinu, ekki séu frekari samskipti við kæranda vegna lánsins né heldur frekari afgreiðslur.
IV. Niðurstaða
Kærð er afgreiðsla Reykjanesbæjar vegna skuldar kæranda við sveitarfélagið. Um er að ræða lán að fjárhæð 500.000 kr. sem kærandi tók í apríl 2020 vegna húsaleigutryggingar. Kærandi hefur vísað til þess að hún sjái ekki fram á að geta greitt skuldina þar sem hún sé mjög illa stödd fjárhagslega. Hún fari því fram á að skuldin verði felld niður.
Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga kemur fram að aðila máls hjá félagsþjónustu sveitarfélaga sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þannig er grundvöllur þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þær ákvarðanir stjórnvalda sem ekki eru teknar í skjóli stjórnsýsluvalds, til dæmis þær sem eru einkaréttarlegs eðlis, teljast ekki stjórnvaldsákvarðanir.
Fyrir liggur að tekin var stjórnvaldsákvörðun hjá Reykjanesbæ 13. mars 2020 þegar samþykkt var að veita kæranda lán til tryggingar húsaleigu, að hámarki til þriggja ára. Kærandi skrifaði þann 27. apríl 2020 undir skuldaviðurkenningu þar sem fram kemur að lánið yrði greitt að fullu með 36 afborgunum frá 1. júlí 2020, 13.889 kr. á mánuði. Einnig kom fram að samkomulagið myndi falla strax úr gildi yrðu vanefndir á því og að Reykjanesbær áskildi sér rétt til þess að innheimta lánið með hefðbundnum hætti félli samkomulagið úr gildi. Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar var löngu liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 þar sem fram kemur að kæra skuli berast nefndinni innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt fyrir um í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Þá segir í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.
Reykjanesbær hefur vísað til þess að ekki hafi verið frekari samskipti við kæranda vegna lánsins eftir tölvupóstsamskipti sem hún átti við félagsráðgjafa í október 2020 né frekari afgreiðslur á málinu.
Að framangreindu virtu er ljóst að ekki lá fyrir önnur stjórnvaldsákvörðun í máli kæranda, tekin samkvæmt lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, eða reglum settum á grundvelli þeirra, þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Vegna þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir