Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 57/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 57/2024

Fimmtudaginn 4. apríl 2024

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. febrúar 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 18. október 2023, um að synja umsókn hans um akstursþjónustu fatlaðs fólks.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 8. september 2023, sótti kærandi um akstursþjónustu fatlaðs fólks í 24 mánuði. Með bréfi miðstöðvar Reykjavíkurborgar, dags. 18. september 2023, var umsókn kæranda synjað og var sú ákvörðun staðfest af áfrýjunarnefnd velferðarráðs 18. október 2023. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi, dags. 23. nóvember 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. febrúar 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. febrúar 2024, var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst úrskurðarnefndinni 22. febrúar 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. febrúar 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að kærandi hafi neyðst til þess að hætta að aka bifreið árið 2020. Kærandi hafi þá byrjað að nýta sér strætóferðir í og úr vinnu og við önnur erindi. Þar sem kærandi hafi ítrekað verið að fá flogaköst á leið í strætó, á biðstöð strætó og inni í strætó og verið nánast ósjálfbjarga, umkringdur fólki sem viti ekki hvað sé í gangi eða hvernig bregðast skuli við hafi hann hætt að treysta sér í strætó. Þessar aðstæður séu kæranda þungbærar þar sem hann sé í dag háður því að maki hans aðstoði sig á milli staða og það hafi verið mjög íþyngjandi fyrir þau bæði. Inn á milli sé kærandi háður velvild annarra við athafnir sem flestir telji sjálfsögð lífsgæði. Þessi staða hafi reynt mikið á sálarlíf kæranda, aukið depurð og hann finni æ meira fyrir þunglyndi sem ekki hafi áður verið að plaga hann. Það sé afar erfitt að vera háður öðrum með allar athafnir sem snúi að ferðum á milli staða, enda hafi kærandi einangrast í þessum aðstæðum.

Kærandi taki fram að það séu ekki létt skref, orðinn X ára gamall, að horfast í augu við stöðu sína og sækja um aðstoð sem fatlaðir nýti sér til að komast ferða sinna. Samt sem áður myndi slíkt úrræði létta kæranda lífið og leysa úr þeirri einangrun sem hann sé kominn í. Ef kærandi þurfi til dæmis að skreppa til læknis á vinnutíma sé það ekki bara hann sem fari frá heldur þurfi kærandi að biðja konu sína um að taka sér frí frá vinnu og koma honum á milli staða. Þessar aðstæður, að verða svona ósjálfbjarga, reyni ekki bara á kæranda heldur maka hans líka. Allt álag á makanum verði meira við að upplifa kæranda svona ósjálfbjarga.

Kærandi óski vinsamlegast eftir að synjun um akstursþjónustu verði endurskoðuð og að málið verði skoðað frá hans sjónarhorni. Aðstoð við daglegt líf hafi kærandi aldrei talið sig þurfa með flogaveiki síðustu 46 ár, fyrr en núna.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er vísað til þess að kærandi sé X ára gamall maður sem búi í eigin húsnæði og sé í vinnu. Kærandi hafi fengið sitt fyrsta flogakast 11 ára gamall og hafi fengið þau með reglulegu millibili frá þeim tíma. Kærandi fái að meðaltali eitt flogakast í mánuði en það komi einnig fyrir að hann fái tvö til þrjú flogaköst á dag en tíðni flogakasta aukist við álag og þreytu. Kærandi hafi í gegnum tíðina brotið í sér tennur og bein vegna flogakasta og sé orðinn óöruggur að fara í göngutúra og keyra, sbr. greinargerð áfrýjunarnefndar, dags. 21. september 2023. Kærandi hafi hætt að keyra fyrir um það bil þremur árum síðan og hafi síðan þá nýtt sér almenningssamgöngur til þess að koma sér á milli staða. Kærandi hafi fengið flogakast í strætó sem hafi haft neikvæð áhrif á hann. Kærandi nýti almenningssamgöngur til þess að fara í og úr vinnu en hann eigi heima í B og vinni í C. Kæranda finnist erfitt að nýta almenningssamgöngur til að sinna félagsstarfi sem og að heimsækja vini og fjölskyldu.

Kærandi hafi sótt um akstursþjónustu fatlaðs fólks þann 8. september 2023 í 24 mánuði sem hafi verið synjað hjá Rafrænni miðstöð Reykjavíkurborgar með bréfi þann 18. september 2023. Kærandi hafi skotið þeirri synjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs sem hafi tekið málið fyrir á fundi þann 18. október 2023 og afgreitt með eftirfarandi bókun:

„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á miðstöð Reykjavíkurborgar um akstursþjónustu fatlaðs fólks skv. 1. gr. reglna um sameiginlega akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu.“

Með tölvupósti þann 23. október 2023 hafi kærandi óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar og rökstuðningur hafi verið sendur kæranda með bréfi, dags. 23. nóvember 2023. Kærandi hafi nú skotið ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Fram komi í 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga að fatlað fólk skuli eiga kost á akstursþjónustu sem miði að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kjósi, á þeim tíma sem það velji og gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið akstursþjónustu sé að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Þá komi fram í 3. mgr. 29. gr. framangreindra laga að ráðherra setji nánari leiðbeiningar. Núgildandi reglur um sameiginlega akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu hafi tekið gildi 1. júlí 2020, verið samþykktar á fundi velferðarráðs Reykjavíkurborgar þann 12. febrúar 2020 og á fundi borgarráðs þann 20. febrúar 2020. Fyrrgreindar reglur séu settar með stoð í 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og III. kafla laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Með umsókn, dags. 8. september 2023, hafi kærandi sótt um akstursþjónustu fatlaðs fólks. Með bréfi frá miðstöð Reykjavíkurborgar, dags. 18. september 2023, hafi framangreindri umsókn verið synjað þar sem fötlun kæranda falli ekki að skilgreiningu 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sbr. 1. mgr. 1. gr. reglna um sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu.

Eftirfarandi komi fram í 1. mgr. 1. gr. reglna um sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu:

„Akstursþjónusta fatlaðs fólks er ætluð til afnota fyrir þá íbúa Reykjavíkur, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness sem uppfylla það skilyrði að fötlun þeirra falli að skilgreiningu 2. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018, og að þeir eigi ekki rétt á niðurgreiddri akstursþjónustu frá öðrum aðilum eða rétt á akstri samkvæmt öðrum lögum, reglugerðum eða reglum.“

Þá segi meðal annars í 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir:

„1. Fötlun: Afleiðing skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Skerðingar hlutaðeigandi einstaklings eru langvarandi og hindranirnar til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað vegna líkamlegrar, geðrænnar eða vitsmunalegrar skerðingar eða skertrar skynjunar.

2. Fatlað fólk: Fólk með langvarandi líkamlega, geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun sem verður fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra ef aðstoðar nýtur ekki við.

3. Stuðningsþarfir: Þarfir einstaklings fyrir þjónustu eða aðstoð í daglegu lífi vegna fötlunar. Stuðningsþarfir eru einstaklingsbundnar en geta einnig tekið mið af þörfum fjölskyldu einstaklingsins. Við mat á stuðningsþörfum er stuðst við samræmdar aðferðir.“

Þá komi meðal annars fram í 3. mgr. 1. gr. reglna fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu að akstursþjónusta er ætluð til afnota fyrir þá íbúa Reykjavíkur sem uppfylli það skilyrði að fötlun þeirra falli að skilgreiningu 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þá sé einnig tekið fram að umsækjandi skuli uppfylla annað eða bæði eftirfarandi skilyrða:

„a. Er hreyfihamlaður og þarf að nota hjólastól. Skilyrði er að um sé að ræða varanlega hreyfihömlun eða hreyfihömlun sem hefur varað í þrjá mánuði eða lengur.

b. Er ófær um að nota almenningssamgöngur vegna annarrar langvarandi fötlunar.“

Ljóst sé að kærandi falli hvorki að framangreindri skilgreiningu um fötlun né sé hann talinn vera með langvarandi hreyfihömlun eða ófær um að nota almenningssamgöngur vegna annarrar langvarandi fötlunar. Þá beri að nefna að samkvæmt gögnum sem hafi legið fyrir á fundi áfrýjunarnefndar velferðarráðs þann 18. október 2023 þiggi kærandi ekki aðra stuðningsþjónustu á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Í læknisvottorði, dags. 8. október 2023, komi fram að kærandi sé með erfiða flogaveiki og geti fengið hrinu af bæði stærri og minni flogum. Auk þess komi fram að hann sé á fjórum mismunandi flogalyfjum vegna sjúkdómsins og að aukaverkanir þeirra séu byltuhætta og óstöðugleiki. Þá komi einnig fram að hann hafi fengið flog í strætó þar sem engin þekki til hans ástands og viti þar af leiðandi ekki hvernig bregðast skuli við. Í umsókn kæranda um akstursþjónustu fatlaðs fólks, dags. 8. september 2023, hafi kærandi merkt við að hann hefði möguleika á öðrum ferðamáta, t.d. strætó. Fagfundur rafrænnar miðstöðvar hafi ekki mælt með samþykki á umsókn kæranda um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk til þess að styðja við sjálfstæði og félagslega virkni kæranda.

Líkt og fram komi í læknisvottorði, dags. 8. október 2023, eigi kærandi við sjúkdóm að stríða en ekki fötlun í skilningi 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þá sé einnig ljóst að kærandi uppfylli hvorki skilyrði a. liðar 3. mgr. 1. gr. reglna um sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu um að einstaklingar sem rétt hafi á akstursþjónustu fatlaðs fólks skuli vera hreyfihamlaðir og noti hjólastól né skilyrði b. liðar 3. mgr. 1. gr. framangreindra reglna um að vera ófær um að nýta sér almenningssamgöngur. Bæði framangreind skilyrði þurfi að vera uppfyllt til að einstaklingar geti átt rétt á akstursþjónustu fatlaðs fólks. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi því tekið undir mat starfsmanna miðstöðvar Reykjavíkurborgar að samþykkja ekki framangreinda umsókn um akstursþjónustu fyrir fatlað fólks í 24 mánuði. Telji kærandi aðstæður vera með þeim hætti síðar að nauðsynlegt sé að sækja um aftur sé slíkt heimilt.

Með hliðsjón af öllu framangreindu hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar að staðfesta bæri synjun Rafrænnar miðstöðvar, dags. 18. september 2023, varðandi umsókn kæranda um akstursþjónustu fatlaðs fólks þar sem fötlun kæranda falli ekki að skilgreiningu 2. gr. laga nr. 38/2028 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sbr. 1. mgr. 1. gr. reglna um sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan greini sé ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum Reykjavíkurborgar fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu, lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir eða ákvæðum annarra laga eða reglna. Þá beri að nefna að áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar telji að málsmeðferð í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn um akstursþjónustu fatlaðs fólks.

Í 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um akstursþjónustu fatlaðs fólks. Þar segir í 1. mgr.:

„Fatlað fólk skal eiga kost á akstursþjónustu sem miðar að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið akstursþjónustu er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.“

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2018 er fötlun skilgreind sem:

„Afleiðing skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Skerðingar hlutaðeigandi einstaklings eru langvarandi og hindranirnar til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað vegna líkamlegrar, geðrænnar eða vitsmunalegrar skerðingar eða skertrar skynjunar.“

Þá er í sömu grein að finna skilgreiningu á fötluðu fólki, en þar segir:

„Fólk með langvarandi líkamlega, geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun sem verður fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra ef aðstoðar nýtur ekki við.“

Reykjavíkurborg hefur útfært nánar framkvæmd akstursþjónustu fyrir fatlað fólk með reglum nr. 645/2020 fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. reglnanna er akstursþjónusta fatlaðs fólks ætluð til afnota fyrir þá íbúa Reykjavíkur, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness sem uppfylla það skilyrði að fötlun þeirra falli að skilgreiningu 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 og að þeir eigi ekki rétt á niðurgreiddri akstursþjónustu frá öðrum aðilum eða rétt á akstri samkvæmt öðrum lögum, reglugerðum eða reglum.

Þá segir í 3. mgr. 1. gr. reglnanna að umsækjandi skuli uppfylla annað eða bæði eftirfarandi skilyrða:

  1. Er hreyfihamlaður og þarf að nota hjólastól. Skilyrði er að um sé að ræða varanlega hreyfihömlun eða hreyfihömlun sem hefur varað í þrjá mánuði eða lengur.
  2. Er ófær um að nota almenningssamgöngur vegna annarrar langvarandi fötlunar.“

Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur komið fram að það sé ljóst að kærandi hvorki falli að skilgreiningu 2. gr. laga nr. 38/2018 um fötlun né sé hann með langvarandi hreyfihömlun. Þá sé kærandi ekki ófær um að nota almenningssamgöngur vegna annarrar langvarandi fötlunar. Í læknisvottorði, dags. 8. október 2023, komi fram að kærandi eigi við sjúkdóm að stríða en ekki fötlun í skilningi 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Í umsókn kæranda um akstursþjónustu fatlaðs fólks, dags. 8. september 2023, hafi kærandi merkt við að hann hefði möguleika á öðrum ferðamáta, t.d. strætó. Þá hefur Reykjavíkurborg vísað til þess að telji kærandi aðstæður vera með þeim hætti síðar að nauðsynlegt sé að sækja um aftur sé slíkt heimilt.

Líkt og fram kemur í 29. gr. laga nr. 40/1991 er markmið akstursþjónustu fatlaðs fólks að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Af gögnum málsins og afstöðu Reykjavíkurborgar verður ekki ráðið að kærandi sé fatlaður í skilningi laga nr. 38/2018 en slíkt er skilyrði til að eiga rétt á akstursþjónustu á grundvelli 29. gr. laga nr. 40/1991. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 18. október 2023, um að synja umsókn A, um akstursþjónustu fatlaðs fólks, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum