Mál nr. 2024/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 201/2024
Föstudaginn 13. september 2024
A
gegn
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 30. apríl 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 31. janúar 2024, um að synja beiðni hans um endurupptöku máls.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 9. mars 2022, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um húsnæðisbætur væri synjað þar sem tekjur og/eða eignir allra heimilismanna skertu bætur að fullu. Með erindi, dags. 21. desember 2023, óskaði kærandi eftir endurupptöku á þeirri ákvörðun. Beiðni kæranda var synjað með ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 31. janúar 2024.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. apríl 2024. Með bréfi, dags. 2. maí 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst 10. maí 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. maí 2024. Kæranda var veittur frestur til að skila athugasemdum og bárust þær frá B 14. júní 2024 sem kærandi hafði veitt umboð til reksturs málsins. Athugasemdirnar voru kynntar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. júní 2024. Athugasemdir bárust frá stofnuninni 21. júní 2024 og voru þær kynntar umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. júní 2024. Athugasemdir og frekari gögn bárust frá umboðsmanni kæranda 26. júní 2024 sem kynnt var Húsnæðis- og mannvirkjastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. júlí 2024. Svar barst frá stofnuninni 3. júlí 2024 og var það kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. júlí 2024. Þá bárust frekari athugasemdir frá umboðsmanni kæranda 12. júlí 2024 sem kynntar voru Húsnæðis- og mannvirkjastofnun samdægurs. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi tekur fram að óskað hafi verið eftir endurupptöku og endurskoðun á ákvörðun um synjun um húsnæðisbætur 9. mars 2022 vegna of hárra tekna. Vísað hafi verið til þess að kæranda hefði verið tilkynnt um frestun vegna tekna 17. febrúar 2022 en þar sem ekki hafi verið brugðist við innan tímamarka hafi umsókninni verið synjað. Ástæður þess að ekki hafi verið brugðist við séu nokkrar. Fyrst og fremst hafi kærandi misskilið vinnulag Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þegar of háar tekjur kæmu til. Að mati kæranda geti of háar tekjur ekki leitt til synjunar á umsókn sem sé gild að öllu öðru leyti. Því hafi kærandi gert ráð fyrir að farið yrði með þessar aðstæður með sama hætti og t.d. Tryggingastofnun ríkisins geri þegar tekjur skerði greiðslur almannatrygginga að fullu, þ.e. að greiðslum yrði aðeins frestað þar til tekjur færu aftur undir þau mörk. Ákvörðun um synjunina hafi einnig aðeins verið byggð á tekjum eins mánaðar, janúar 2022, og því ekki með nokkru orðið ljóst að kærandi yrði yfir efri tekjumörkum þegar árið væri skoðað í heild. Hvorki í lögum né reglugerðum um húsnæðisbætur sé gert ráð fyrir öðru en að tekjur almanaksársins séu skoðaðar í heild nema réttur til húsnæðisbóta nái bara til hluta úr ári eins og geti gerst við upphaf eða slit leigusamnings.
Í öðru lagi hafi kærandi ekki brugðist við þar sem hann hafi þá þegar haft frumkvæði að því að óska eftir frestun greiðslna húsnæðisbóta þar til ljóst yrði hvort hann yrði yfir eða undir efri tekjumörkum. Því erindi hafi verið svarað með að kærandi gæti sjálfur dregið til baka umsóknina en þar sem húsnæðisbætur séu almennt ekki greiddar eftir á hafi hann ekki viljað gera það því þá þyrfti hann að sækja um með nýrri umsókn þegar og ef tekjur myndu lækka að nýju. Því hafi kærandi ekki brugðist við þar sem hann hafi staðið í þeirri meiningu að þegar skattframtal fyrir árið 2022 myndi liggja fyrir myndi ákvörðun um synjun vegna of hárra tekna sjálfkrafa vera tekin upp aftur á grundvelli tekna almanaksársins. Sem hafi augljóslega ekki verið gert.
Í þriðja lagi hafi kærandi ekki brugðist við vegna veikinda. Þar sé helst um að ræða kvíða og þunglyndisveikindi sem séu aðalorsök gildandi örorkumats hans.
Endurupptökubeiðni hafi ekki verið send inn fyrr en í desember 2023 eftir að allir kæru- og úrskurðarfrestir vegna skattframtals 2022 hafi verið liðnir. Kærandi hafi allan þann tíma vonast til þess að þessi ákvörðun yrði endurskoðuð þegar tekjur ársins 2022 lægju fyrir í endanlegri mynd. Það hafi augljóslega ekki verið gert.
Kærandi óski eftir að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði gert að taka málið upp að nýju og að fyrri ákvörðun um synjun um húsnæðisbætur verði felld úr gildi. Að stofnunin skuli endurreikna réttindi til húsnæðisbóta allt frá því greiðslum þeirra hafi verið frestað í febrúar 2022 og að byggt verði á staðfestum tekjum áranna tveggja sem séu liðin síðan þá.
Um rök Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fyrir því að synja endurupptöku sé vísað til álits umboðsmanns Alþingis þar sem segi að endurupptaka máls sé ekki takmörkuð við það ár sem kveðið sé á um í bréfi stofnunarinnar. Enginn lagaáskilnaður sé um þann frest. Sérstaklega ekki þegar um veigamikið mál, í samhengi við aðstæður kæranda, sé að ræða. Endurreiknuð réttindi myndu líklega telja nærri 400 þúsund kr. og því í tilviki kæranda veigamikið mál í tilliti til fjárhæðar sem liggi undir. Einnig sé um veigamikið mál að ræða með tilliti til málsatvika þar sem ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sé klárlega röng og hvorki byggð á lögum né reglugerðum um húsnæðisbætur.
Í athugasemdum vegna greinargerðar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að stofnunin hafi með bréfi, dags. 26. janúar 2022, með yfirskriftinni: Endurreikningur – áætlun byggð á nýjustu upplýsingum, upplýst kæranda um að hann gæti komið á framfæri athugasemdum ef hann teldi þær upplýsingar sem væru notaðar við útreikning húsnæðisbóta ekki endurspegla væntanlegar tekjur hans. Kærandi hafi í kjölfarið sent skilaboð í gegnum mínar síður hjá stofnuninni þann 2. febrúar 2022 þar sem hann hafi upplýst að tekjur hans í byrjun árs myndu verða hærri en árið á undan og hafi í kjölfarið óskað eftir því að greiðslu húsnæðisbóta yrði frestað fram á mitt ár til að koma í veg fyrir að fá endurkröfu vegna ofgreiðslu húsnæðisbóta. Á sama tíma hafi kærandi bent á að tekjur hans myndu líklega lækka aftur um mitt árið og verða svipaðar og flesta mánuði ársins á undan. Kærandi hafi í kjölfarið fengið svar frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, dags. 3. febrúar 2022, þar sem honum hafi verið bent á að segja sjálfur upp umsókn sinni eða biðja stofnunina um að loka henni, eins og fram komi í greinargerð stofnunarinnar.
Með bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags 17. febrúar 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að afgreiðslu umsóknar hans um húsnæðisbætur hefði verið frestað á þeim forsendum að heildartekjur hans samkvæmt áætlun skertu húsnæðisbætur að fullu. Í meðfylgjandi útreikningi hafi komið fram að húsnæðisbætur kæranda séu reiknaðar út frá tekjum eins mánaðar, janúar 2022. Á þessum tímapunkti hafi kærandi talið sig vera búinn að upplýsa stofnunina um að tekjur hans yrðu hærri framan að ári og að hann hefði óskað eftir að greiðslu bóta yrði frestað. Í bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags 9. mars 2022, sé kæranda hins vegar birt sú ákvörðun að hafna umsókn hans um húsnæðisbætur á þeim forsendum að tekjur skerði húsnæðisbætur að fullu. Kærandi geri alvarlegar athugasemdir við svör stofnunarinnar þar sem honum sé leiðbeint um að segja umsókn sinni upp. Kærandi geri enn fremur alvarlegar athugasemdir við þá ákvörðun stofnunarinnar að hafna umsókn hans með bréfi, dags. 9. mars 2022. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi afgreitt og samþykkt umsókn hans frá 1. febrúar 2021 og greitt húsnæðisbætur. Umsókn kæranda frá árinu 2021 hafi enn verið í gildi og ný umsókn frá kæranda hafi ekki verið til meðferðar hjá stofnuninni. Umsókn kæranda haldi gildi sínu á meðan leigusamningur sé í gildi og önnur skilyrði laga um nr. 75/2016 húsnæðisbætur séu uppfyllt, eins og fram komi í 12. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur. Kærandi uppfylli öll þau skilyrði sem fram komi í 9. gr. laga um húsnæðisbætur um skilyrði húsnæðisbóta. Þrátt fyrir að tekjur yfir tekjumörkun húsnæðisbóta geti stöðvað greiðslu húsnæðisbóta tímabundið leiði það ekki til þess að umsóknin falli úr gildi. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi aðgang að staðgreiðsluskrá kæranda og því geti stofnunin séð hvort umsækjandi sé tímabundið yfir tekjumörkun húsnæðisbóta, auk þess sem stofnunin framkvæmi tekjuskoðanir reglulega. Í tekjuskoðun 26. janúar 2022 hafi verið reiknað út frá meðaltekjum fyrir október til desember 2021. Því hefði í næstu endurskoðun átt að reikna út frá tekjum næstu þriggja mánaða, eða janúar til mars 2022. Í þeirri tekjuskoðun hefði komið í ljós að tekjur fyrir febrúar og mars hafi verið mun lægri en fyrir janúarmánuð. Ljóst sé að í þessu tilviki hafi tekjur kæranda í janúarmánuði verið frávik frá öðrum mánuðum. Þess í stað reikni Húsnæðis- og mannvirkjastofnun húsnæðisbætur einungis út frá einum mánuði, janúar 2022, og felli umsókn kæranda úr gildi.
Í 20. gr. laga um húsnæðisbætur sé fjallað um útreikning húsnæðisbóta. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar skuli framkvæmdaraðili leggja 1/12 af áætluðum tekjum og eignum heimilismanna, 18 ára og eldri, til grundvallar útreikningi húsnæðisbóta hvers mánaðar á því almanaksári þegar húsnæðisbætur séu greiddar. Í 2. mgr. 20. gr. komi svo fram að framkvæmdaraðili skuli byggja áætlanir sínar á nýjustu upplýsingum á hverjum tíma. Í stað þess að fresta greiðslum húsnæðisbóta og framkvæma endurreikninga aftur síðar á árinu út frá nýjustu upplýsingum úr staðgreiðsluskrá eins og 2. mgr. 20. gr. laga um húsnæðisbætur kveði á um hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fellt umsókn kæranda um húsnæðisbætur úr gildi eftir útreikning sem byggi einungis á tekjum kæranda eins mánaðar. Í þessu samhengi bendi kærandi einnig á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga en hún sé talin bindandi grundvallarregla í stjórnsýslurétti. Samkvæmt meðalhófsreglunni beri stjórnvaldi að velja það vægasta úrræði sem sé fyrir hendi þegar um sé að ræða val um fleiri en eitt úrræði. Ljóst sé að þessi háttur sem stofnunin hafi haft uppi í tilviki kæranda samrýmist ekki þeirri grundvallarreglu um meðalhóf þar sem bæði lög og reglugerð um húsnæðisbætur geri ekki ráð fyrir öðru en að tekjur almanaksársins séu skoðaðar í heild. Vert sé að hafa í huga að ekki sé hægt að sækja um húsnæðisbætur afturvirkt og því sé um verulega hagsmuni kæranda að ræða að umsókn hans sé ekki felld úr gildi vegna fráviks tekna hans eins mánaðar.
Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga um húsnæðisbætur skuli framkvæmdaraðili endurreikna fjárhæðir húsnæðisbóta á grundvelli endanlegra upplýsingar um tekjur og eignir næstliðins almanaksárs samkvæmt 17. og 18. gr. sömu laga þegar þær liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Upphafleg ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um að greiða kæranda einungis húsnæðisbætur fyrir janúarmánuð og að reikna húsnæðisbætur einungis út frá einum mánuði ársins verði því að teljast röng. Kærandi hafi verið með umsókn í gildi og ótímabundinn húsaleigusamning. Engar breytingar hafi orðið á aðstæðum kæranda, aðrar en að tekjur hans hafi verið mismunandi eftir mánuðum ársins og því ekki með nokkru orðið ljóst að kærandi yrði yfir efri tekjumörkum þegar árið væri skoðað í heild. Eins og fram komi í kærunni hafi kærandi átt von á að fá vangreiddar húsnæðisbætur í gegnum uppgjör ársins 2022. Við lokauppgjör vegna ársins 2022, dags. 1. júní 2023, séu húsnæðisbætur fyrir janúarmánuð 2022 reiknaðar út frá tekjum í janúar 2022 og kæranda gert að endurgreiða húsnæðisbætur fyrir janúarmánuð 2022, að fjárhæð 25.620 kr. Við uppgjörið hafi ekki verið horft til þess hverjar heildartekjur kæranda hafi verið árið 2022 og hvort kærandi ætti rétt á húsnæðisbótum fyrir fleiri mánuði ársins eða árið í heild.
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga eigi aðili máls rétt á því að mál hans sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Eftir að þrír mánuðir séu liðnir frá því að aðila hafi verið tilkynnt um ákvörðun eða hafi mátt vera kunnugt um breytingu á atvikum verði mál þó ekki endurupptekið nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Hafa beri í huga að stjórnvald teljist almennt ekki til aðila máls.
Kærandi telji að veigamiklar ástæður séu fyrir endurupptöku málsins. Í fyrsta lagi sé ákvörðunin um niðurfellingu umsóknarinnar byggð á röngum og ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik, eins og hafi verið rakið. Umsækjendur um húsnæðisbætur verði að geta gert ráð fyrir því að farið sé eftir lögum og að ekki sé notast við framkvæmd sem ekki sé í samræmi við lög og reglugerðir eins og að byggja ákvörðun um niðurfellingu umsóknar um húsnæðisbætur á tekjum eins mánaðar og afgreiða og endurreikna ekki út húsnæðisbætur fyrir árið í heild út frá heildartekjum ársins. Í öðru lagi hefði kærandi fengið greiddar húsnæðisbætur fyrir árin 2022, 2023 og það sem liðið sé af árinu 2024 hefði umsóknin frá 1. desember 2021 ekki verið felld úr gildi. Því sé ljóst að um mikilsverða hagsmuni kæranda sé að ræða. Í þriðja lagi gefi mál kæranda fordæmi fyrir aðra sem fái húsnæðisbætur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þegar komi að þeirri framkvæmd að fella umsóknir úr gildi ef tekjur eins mánaðar eða fyrir stutt tímabil taki húsnæðisbætur út.
Í athugasemdum kæranda frá 26. júní 2024 er vísað til þess að með fyrirvara um reikniskekkju telji greiðslur sem hann hefði átt rétt á hefði umsóknin ekki verið felld úr gildi samtals um 628.882 kr. fyrir árin 2022 til 2024, miðað við það sem af sé núverandi ári. Það sýni að kærandi hafi mikilsverða fjárhagslega hagsmuni af því að málið verði endurupptekið.
Í athugasemdum kæranda frá 12. júlí 2024 er ítrekað að hann hafi uppfyllt og uppfylli enn öll þau skilyrði laga sem fram komi í 9. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur þegar umsókn hans um húsnæðisbætur hafi verið felld úr gildi. Kærandi geri ekki athugasemd við það að greiðslur geti falli niður tímabundið vegna tímabundinna of hárra tekna, eða í einn mánuð eins og í þessu tilviki. Í því sambandi sé ítrekað að kærandi hafi haft frumkvæði að því að óska eftir að greiðslum yrði frestað þar til upplýsingar um þróun tekna næstu mánaða eftir janúarmánuð lægju fyrir. Þó svo að tekjur séu tímabundið yfir tekjumörkun húsnæðisbóta eigi það ekki að leiða til þess að umsóknin falli úr gildi.
Löggjafinn hafi lagt þá skyldu á Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að sannreyna reglulega þær upplýsingar sem ákvörðun um húsnæðisbætur byggist á. Reglugerð kveði svo á um að slíkt eigi að gera að jafnaði ekki sjaldnar en ársfjórðungslega. Ljóst sé að löggjafinn sé með þessu að leggja mikla áherslu á að upplýsingar séu sannreyndar með stuttu millibili þar sem ársfjórðungslega sé það lágmark sem sett hafi verið. Ekkert sé því til fyrirstöðu að upplýsingar séu sannreyndar mánaðarlega.
Ekki sé hægt að sækja um húsnæðisbætur afturvirkt og því sé mikilvægt að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sannreyni reglulega þær upplýsingar sem húsnæðisbætur séu byggðar á út frá nýjustu upplýsingum í stað þess að fella umsókn úr gildi. Um sé að ræða verulega íþyngjandi ákvörðun og stjórnvaldi beri því að gæta meðalhófs.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun bendi á í bréfi sínu, dags. 3. júlí 2024, að umsækjandi geti sótt um að nýju ef aðstæður breytist. Með því sé stofnunin að færa ábyrgð yfir til umsækjanda að sækja um að nýju innan ákveðinna tímamarka svo hann haldi lögbundnum réttindum sínum. Kærandi viti ekki til þess að aðrar ríkisstofnanir beiti þessari aðferð þegar komi að bótagreiðslum, t.d. skerðist örorkulífeyrisgreiðslur annað hvort mánaðarlega eða árið sé skoðað í heild eftir því sem komi betur út fyrir örorkulífeyrisþegann en umsókn um örorkulífeyrir falli ekki úr gildi ef tekjur hans séu umfram tekjuviðmið almannatryggingalaga. Hvorki í lögum um húsnæðisbætur nr. 75/2016 né í reglugerð nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur sé að finna ákvæði um að umsókn falli úr gildi vegna tekna umsækjenda. Í 12. gr. reglugerðarinnar um gildistíma umsókna sé eftirfarandi ákvæði: „Umsókn um húsnæðisbætur heldur gildi sínu svo lengi sem skilyrði fyrir rétti til húsnæðisbóta eru uppfyllt en þó aldrei lengur en til loka leigusamnings.“
Í þeirri undirstöðureglu íslenskrar stjórnskipunar, sem nefnd sé lögmætisreglan, felist að íþyngjandi ákvörðun verði að byggjast á skýrri lagaheimild. Við skýringu á valdheimildum stjórnvalda sé almennt á því byggt að því meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun sé þurfi að gera strangari kröfur til þess að lagaheimild sem ákvörðun sé reist á sé skýr. Séu uppi tveir kostir við skýringu á texta lagaheimildar skuli velja þann sem sé hagkvæmari þeim manni sem valdbeiting stjórnvalds beinist að.
Þrátt fyrir að tekjur kæranda árin 2023 og 2024 hafi ekki áhrif á ákvörðun um niðurfellingu umsóknar sem hafi verið tekin árið 2022 sýni þær tekjur að kærandi hafi uppfyllt skilyrði fyrir húsnæðisbætur á þeim tíma. Veigamiklar ástæður séu því fyrir endurupptöku málsins þar sem ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um að fella umsókn kæranda úr gildi hafi verið röng og ólögmæt, auk þess sem um verulega fjárhagslega hagsmuni kæranda sé að ræða.
III. Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar
Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að kærandi hafi hinn 6. maí 2021 fengið samþykkta umsókn nr. 67887 umhúsnæðisbætur vegna leigu á húsnæðinu C. Auk kæranda teljist til heimilismanna D, á grundvelli samkomulags um umgengni, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur.
Með bréfi, dags. 26. janúar 2022, hafi kæranda verið send ný tekju- og eignaáætlun. Áætlunin hafi verið byggð á fyrirliggjandi upplýsingum frá Ríkisskattstjóra og tekið mið af meðaltali tekna á tímabilinu október til desember 2021. Jafnframt hafi athygli kæranda verið vakin á því að það væri á ábyrgð umsækjanda að upplýsa Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um allar þær breytingar sem verði á aðstæðum sem kunni að hafa áhrif á rétt til húsnæðisbóta, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga um húsnæðisbætur.
Hinn 2. febrúar 2022 hafi kærandi haft samband við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun í gegnum Mínar síður og segi:
„Í ljósi þess að tekjur mínar framan af þessu ári munu verða mun hærri en ég gerði ráð fyrir og umtalsvert meiri en á síðasta ári held ég að rétt sé að bíða með greiðslu húsnæðisbóta um sinn svo ég lendi ekki i skuld. Allavegana fram á mitt ár 2022. Ég óska því hér með eftir því að greiðslum húsnæðisbóta til mín verði frestað. Mögulega verða forsendur til að endurskoða þá beðni eftir júní mánuði en í þeim mánuði og seinni helming ársins er líklegt að tekjur mínar munum lækka aftur í sambærilegt ról og flesta mánuði síðasta árs“
Daginn eftir hafi kærandi fengið svar frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þess efnis að hann gæti farið inn á umsóknina og sagt henni upp sjálfur eða hann gæti beðið stofnunina um að loka umsókninni frá ákveðinni dagsetningu. Hinn 17. febrúar 2022 hafi kæranda verið sent bréf um frestun afgreiðslu umsóknar um húsnæðisbætur þar sem tekjur væru farnar að skerða bætur að fullu. Við útreikning húsnæðisbóta kæranda hafi verið byggt á upplýsingum frá Ríkisskattstjóra vegna tekna í janúar 2022 en tekjur heimilismanna sem fari umfram frítekjumörk skerði húsnæðisbætur. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun byggi áætlanir sínar á nýjustu upplýsingum á hverjum tíma og til grundavallar útreikningi húsnæðisbóta hvers mánaðar séu lagðar 1/12 af áætluðum tekjum og eignum á því almanaksári þegar húsnæðisbætur séu greiddar, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga um húsnæðisbætur. Óskað hafi verið eftir afstöðu kæranda til fyrirliggjandi upplýsinga um tekjur og eignir heimilismanna og jafnframt hafi verið óskað eftir gögnum og/eða skýringum innan 15 daga. Kærandi hafi ekki brugðist við bréfi stofnunarinnar né nýtt sér andmælarétt og því hafi verið byggt á þeim áætlunum sem stofnunin hafi sent kæranda.
Hinn 9. mars 2022 hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fjallað um umsókn kæranda um húsnæðibætur og ákvörðun hafi verið tekin um að hafna umsókninni þar sem tekjur heimilismanna skertu bætur að fullu. Ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli 17. og 18. gr. laga um húsnæðisbætur. Í ákvörðunarbréfi til kæranda hafi athygli hans verið vakin á því að synjun kæmi ekki í veg fyrir að hægt væri að sækja um að nýju ef aðstæður breyttust, svo sem ef tekjur eða eignir myndu lækka eða breyting yrði á fjölda heimilismanna. Jafnframt hafi kærandi verið upplýstur um rétt til endurupptöku á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og heimild til að kæra niðurstöðu til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 6. gr. laga um húsnæðisbætur.
Með bréfi, dags. 1. júní 2023, hafi kærandi fengið lokauppgjör húsnæðisbóta vegna ársins 2022. Heildartekjur ársins 2022 hafi numið 10.763.031 kr. (stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars) og fjármagnstekjur 2.905 kr. Miðað sé við samanlagðar tekjur heimilismanna, 18 ára og eldri, sbr. 17. gr. laga um húsnæðisbætur. Upplýsingar fyrir lokauppgjör séu fengnar frá Ríkisskattstjóra, úr skattframtali og staðgreiðsluskrá. Rétt sé að benda á að D hafi ekki náð 18 ára aldri á árinu 2022. Í því sambandi sé litið til þess að börn séu á framfæri foreldra sinna til 18 ára aldurs, sbr. 53. gr. barnalaga, og því óeðlilegt að tekjur þeirra hafi áhrif til lækkunar á húsnæðisbótum.
Þann 21. desember 2023 hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun borist beiðni um endurupptöku á ákvörðun stofnunarinnar frá 9. mars 2022. Kærandi hafi óskað eftir því að mál hans yrði tekið til nýrrar skoðunar þar sem ákvörðun um synjun um synjun um húsnæðisbætur hafi að hans sögn verið röng eins og skattframtal 2023 vegna tekna ársins 2022 sýni. Þannig hafi heildartekjur ársins 2022 verið 10.763.031 kr., þ.e. sameiginlegar tekjur allra heimilismanna.
Með bréfi, dags. 31. janúar 2024, hafi beiðni kæranda um endurupptöku verið synjað. Í ákvörðuninni komi fram að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telji að þær upplýsingar sem fram komi í beiðni kæranda leiði ekki til þess að skilyrði fyrir endurupptöku séu uppfyllt, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi stofnunin talið að réttur til endurupptöku málsins væri liðinn samkvæmt þeim tímamörkum sem skilgreind séu í 2. mgr. 24. gr. Í samræmi við 24. gr. sé mál ekki tekið upp á nýjan leik ef meira en ár sé liðið frá þeirri ákvörðun sem óskað sé endurupptöku á nema veigamiklar ástæður mæli með því.
Af hálfu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sé byggt á því að málsmeðferðin hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að ákvörðunin hafi verið gerð í samræmi við ákvæði laga um húsnæðisbætur nr. 75/2016 og reglugerð nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur með síðari breytingum.
Hver sá sem leigi íbúðarhúsnæði eigi rétt til húsnæðisbóta að uppfylltum skilyrðum laga um húsnæðisbætur og umsækjandi skuli sækja um húsnæðisbætur hjá stofnuninni. Ekki þurfi að endurnýja umsókn eftir að hún hafi verið samþykkt í upphafi á meðan skilyrði sem sett séu fyrir rétti til húsnæðisbóta séu uppfyllt og leigusamningur sem liggi til grundvallar rétti til húsnæðisbóta sé enn í gildi. Samkvæmt 5. mgr. 21. gr. laga um húsnæðisbætur falli greiðslur húsnæðisbóta niður frá og með næstu mánaðarmótum eftir að skilyrði laganna séu ekki lengur uppfyllt. Í VII. kafla laga um húsnæðisbætur sé kveðið á um samtímaeftirlit og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sé gert að sannreyna reglulega þær upplýsingar sem ákvörðun um rétt til húsnæðisbóta byggist á.
Ljóst sé að breytingar hafi orðið á högum kæranda eftir að greiðslur húsnæðisbóta hafi hafist og að þær breytingar hafi haft áhrif á rétt hans til húsnæðisbóta. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um húsnæðisbætur megi endurskoða rétt til húsnæðisbóta hvenær sem er og endurreikna fjárhæð þeirra þannig að húsnæðisbætur verði í samræmi við þær breytingar sem hafi orðið á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna. Í 2. mgr. 25. gr. komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur og eignir næstliðins almanaksárs samkvæmt 17. og 18. gr. liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli framkvæmdaraðili endurreikna fjárhæðir húsnæðisbóta vegna þess almanaksárs á grundvelli þeirra upplýsinga.
Hvað varði endurupptökubeiðnina telji Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að ákvörðun um synjun húsnæðisbóta hafi ekki byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik eða að aðstæður í málinu hafi breyst þannig að ákvæði stjórnsýslulaga um endurupptöku eigi við. Ákvörðunin hafi verið byggð á nýjustu upplýsingum frá Ríkisskattstjóra og kærandi hafi ekki gert athugasemdir við tekju- og eignaætlun sem hafi verið lögð til grundvallar útreikningi húsnæðisbóta. Þá telji Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að ekki verði séð að lögð hafi verið fram gögn sem bendi til þess að veigamiklar ástæður mæli með endurupptöku málsins á grundvelli óskráðra heimilda.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun krefjist þess að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest.
Í athugasemdum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 21. júní 2024, er vísað til þess að samkvæmt lögum nr. 75/2016 um húsnæðisbætur eigi hver sá sem leigi íbúðarhúsnæði rétt til húsnæðisbóta að uppfylltum skilyrðum laganna. Markmið laganna sé að koma til móts við þau heimili sem lægstar tekjur hafi með greiðslu húsnæðisbóta vegna leigu á íbúðarhúsnæði. Fjárhæð húsnæðisbóta sé ákvörðuð og reiknuð út miðað við grunnfjárhæðir sem miðist við fjölda heimilismanna, að teknu tilliti til tekna, eigna og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði. Ef tekjur eða eignir séu hærri en efri mörk sé enginn réttur til bóta. Húsnæðisbætur falli niður frá og með næstu mánaðarmótum eftir að skilyrði laganna eru ekki lengur uppfyllt. Miðað sé við að umsókn haldi gildi sínu svo lengi sem skilyrði fyrir rétti til húsnæðisbóta séu uppfyllt.
Eins og fram komi í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hafi kæranda verið sent bréf, dags. 17. febrúar 2022, um frestun afgreiðslu umsóknar um húsnæðisbætur þar sem tekjur væru farnar að skerða bætur að fullu. Við útreikning húsnæðisbóta kæranda hafi verið byggt á upplýsingum frá Ríkisskattstjóra vegna tekna í janúar 2022, en tekjur heimilismanna sem fari umfram frítekjumörk skerði húsnæðisbætur. Samkvæmt staðgreiðsluyfirliti hafi heildartekjur kæranda í janúar 2022 verið alls 2.386.066 kr. Í samræmi við 1. mgr. 20. gr. laganna sé til grundvallar útreikningi húsnæðisbóta hvers mánaðar lagðar 1/12 af áætluðum tekjum og eignum á því almanaksári þegar húsnæðisbætur séu greiddar. Varðandi tekjur kæranda á árinu 2022 sé að öðru leyti vísað í fyrirliggjandi skattframtal og staðgreiðsluyfirlit.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi veitt kæranda tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum sínum í tengslum við frestunina og þeim upplýsingum sem áætlunin hafi verið byggð á. Þá hafi kæranda í kjölfar ákvörðunar stofnunarinnar, dags. 9. mars 2022, um höfnun umsóknar verið leiðbeint um að hann gæti ávallt sótt um húsnæðisbætur að nýju. Jafnframt hafi kærandi verið upplýstur um rétt til endurupptöku og kæruheimild. Synjun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á beiðni kæranda um endurupptöku á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga hafi verið byggð á því að ákvörðun hefði ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Við ákvörðunina hafi verið byggt á upplýsingum frá Ríkisskattstjóra og ekkert hafi komið fram um að upplýsingarnar hafi verið rangar eða ófullnægjandi. Þá hafi stofnunin talið að ekkert nýtt hefði komið fram sem réttlætti endurupptöku, þ.e. kærandi hafi ekki vísað til nýrra upplýsinga sem ekki hefðu legið fyrir við upphaflega ákvörðun. Þá hafi verið litið til þess að meira en ár hafi verið liðið frá því að ákvörðunin hafi verið tekin og að ekki hefðu verið lögð fram gögn sem bentu til þess að veigamiklar ástæður mæltu með endurupptöku. Af þeim ástæðu hafi beiðni kæranda um endurupptöku verið synjað. Að öðru leyti ítreki stofnunin það sem áður hafi komið fram í greinargerð, dags. 10. maí 2024.
Í athugasemdum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 3. júlí 2024, kemur fram að málið snúi að ákvörðun stofnunarinnar, dags. 9. mars 2022, um að fella úr gildi umsókn kæranda um húsnæðisbætur þar sem skilyrði fyrir rétti til húsnæðisbóta hafi ekki lengur verið uppfyllt og synjun á beiðni kæranda um endurupptöku málsins, dags. 31. janúar 2024.
Samkvæmt 12. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur haldi umsókn gildi sínu svo lengi sem skilyrði fyrir rétti til húsnæðisbóta séu uppfyllt en þó aldrei lengur en til loka leigusamnings. Sú skylda hvíli á Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að sannreyna reglulega þær upplýsingar sem ákvörðun um húsnæðisbætur byggist á og að jafnaði eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Stofnuninni sé heimilt að afla upplýsinga sem nauðsynlegar séu til að framfylgja samtímaeftirliti, svo sem til að taka ákvörðun um hvort réttur til húsnæðisbóta sé til staðar, útreikning húsnæðisbóta og greiðslu þeirra sem og endurreikning og svo framvegis. Í þeim tilgangi afli Húsnæðis- og mannvirkjastofnun meðal annars upplýsinga frá skattyfirvöldum. Stofnuninni sé heimilt að endurskoða rétt til húsnæðisbóta innan almanaksársins þegar stofnunin telji ástæðu til og ef skilyrði séu ekki lengur uppfyllt falli greiðslur húsnæðisbóta niður frá og með næstu mánaðarmótum.
Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 9. mars 2022, hafi verið byggð á nýjustu upplýsingum frá skattyfirvöldum og því telji stofnunin að ákvörðun hafi hvorki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Viðbótargögn kæranda um tekjur á árunum 2023 og 2024 séu ekki upplýsingar sem hafi verið byggt á eða hafi haft þýðingu við ákvörðun málsins.
Við endurreikning húsnæðisbóta vegna ársins 2022 hafi komið í ljós að kærandi hefði fengið ofgreiddar húsnæðisbætur og kærandi hafi endurgreitt þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd. Að mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verði ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið upp að nýju.
Rétt sé að árétta að ef umsókn falli úr gildi komi það ekki í veg fyrir að hægt sé að sækja um að nýju ef aðstæður breytist, svo sem ef tekjur eða eignir lækki eða breyting verði á fjölda heimilismanna.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ítreki þá kröfu að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 31. janúar 2024, um að synja beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar stofnunarinnar frá 9. mars 2022.
Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:
- ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
- íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafaverulega frá því að ákvörðun var tekin.
Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því. Aðili máls kann einnig að eiga rétt á endurupptöku máls á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef efnislegur annmarki er á ákvörðun stjórnvalds.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekki verði ráðið af gögnum málsins að ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 9. mars 2022 um að synja umsókn kæranda um húsnæðisbætur hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða að íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Fyrir liggur að tekjur kæranda í janúar 2022 voru það háar að slíkar óbreyttar tekjur komu til með að skerða greiðslur húsnæðisbóta til hans að fullu það árið, sbr. 17. gr. laga nr. 75/2016 laga um húsnæðisbætur og 14. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur. Skilyrði til greiðslu húsnæðisbóta voru því ekki lengur til staðar á þeim tíma en samkvæmt 5. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2026 skulu húsnæðisbætur falla niður frá og með næstu mánaðamótum eftir að skilyrði laganna eru ekki lengur uppfyllt, sbr. einnig 12. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 þar sem fram kemur að umsókn um húsnæðisbætur haldi gildi sínu svo lengi sem skilyrði fyrir rétti til húsnæðisbóta séu uppfyllt en þó aldrei lengur en til loka leigusamnings.
Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Auk þess verður ekki ráðið af gögnum málsins að veigamiklar ástæður mæli með endurupptöku, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Við það mat lítur úrskurðarnefndin til þess að breyttar tekjur kæranda síðar á árinu 2022 hafa ekki áhrif á ákvörðun frá 9. mars 2022, þ.e. hún var efnislega rétt og því ekki líklegt að henni yrði breytt eða hún afturkölluð ef hún yrði endurupptekin. Þá var kæranda skýrlega leiðbeint um það í ákvörðun frá 9. mars 2022 að hann hefði þann möguleika að sækja að nýju um húsnæðisbætur vegna breyttra aðstæðna, svo sem ef tekjur myndu lækka.
Með vísan til framangreinds er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um að synja beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar frá 9. mars 2022, staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 31. janúar 2024, um að synja beiðni A, um endurupptöku ákvörðunar frá 9. mars 2022, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir