Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 346/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 346/2024

Fimmtudaginn 10. október 2024

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 15. maí 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 24. apríl 2024, um að synja umsókn hans um akstursþjónustu fatlaðs fólks.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 7. mars 2024, sótti kærandi um akstursþjónustu fatlaðs fólks í 16 mánuði. Með bréfi miðstöðvar Reykjavíkurborgar, dags. 16. apríl 2024, var umsókn kæranda synjað og var sú ákvörðun staðfest af áfrýjunarnefnd velferðarráðs 24. apríl 2024.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. maí 2024 og fullnægjandi gögn 30. júlí 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. ágúst 2024, var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst úrskurðarnefndinni 20. ágúst 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. ágúst 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála tekur kærandi fram að hann sé augljóslega illa hreyfiskertur og geti ekki nýtt sér almenningsvagna borgarinnar. Í fyrsta lagi myndi kæranda eiga í vandræðum með að ná vagninum vegna þess að hann fari hægt yfir og sé með öllu orkulaus. Svo hellist yfir kæranda þreytu- og verkjaköst sem ágerist nema hann geti lagst fyrir. Ef kærandi myndi ná á biðstöðina, sem sé ekki öruggt, myndi hann þurfa að sitja eða liggja þar og jafna sig. Í vagninum yrði kærandi að safna allri mögulegri orku til að ná á áfangastað og því ljóst að hann myndi mæta allt of seint, örþreyttur, búinn á því líkamlega og andlega. Kærandi sé afar viðkvæmur fyrir stressi en þá hverfi öll skýr hugsun. Kærandi telji að við þessar aðstæður sé verið að stofna honum í hættu, hann geti auðveldlega dottið vegna þess að hann sé að reyna að flýta sér. Það kalli bara á meiri vandræði ef hann detti því ekki sé víst að hann geti staðið upp hjálparlaust. Þá sé eftir ferðin til baka. Að mati kæranda sé þetta óframkvæmanlegt og því óski hann eftir greiðsluþátttöku til jafns við aðra þegna samfélagsins sem séu í svipuðum sporum. Lífsgæðum hans sé áfátt og það versni með komandi vetri. Þrátt fyrir að kona kæranda hafi keyrt hann á milli staða sé hún á lokastigi nýrnabilunar og bíði eftir nýju nýra. Ef illa fari vandist málin og þá ekki bara fyrir kæranda. Þá tekur kærandi fram að hann sé með varanlega örorku frá 1. júní 2024.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er vísað til þess að kærandi sé X ára gamall kvæntur maður sem búi í eigin húsnæði. Kærandi þiggi örorkulífeyri sér til framfærslu. Kærandi hafi gengist undir skurðaðgerð árið 2021 þar sem vélinda hafi verið fjarlægt og magi tengdur í háls. Hann hafi glímt við veikindi í kjölfar framangreindrar aðgerðar, svo sem vöðvaslappleika og tíð fótasár. Þá hafi kærandi nýlega hlotið upphandleggsbrot og hafi lagst inn á hjúkrunarheimili um tíma. Kærandi sé einnig greindur með sykursýki sem valdi sárum og bjúg á fótum. Byltuhætta hafi aukist hjá kæranda vegna næringarleysis og verkjum í fótum. Þá hafi kærandi fengið endurteknar sýkingar í húð og notist við hjólastól. Eiginkona kæranda hafi keyrt hann til lækna og í hæfingu en hafi ekki lengur tök á að aðstoða kæranda við að komast ferða sinna vegna veikinda. Kærandi telji sig þurfa akstursþjónustu til að komast til lækna, sjúkraþjálfara og annað vegna sinna veikinda. Kærandi hafi sótt um akstursþjónustu fatlaðs fólks þann 7. mars 2024 í 16 mánuði sem hafi verið synjað hjá Norðurmiðstöð Reykjavíkurborgar með bréfi þann 16. apríl 2024. Kærandi hafi skotið framangreindri synjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs sem hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 24. apríl 2024 og afgreitt það með eftirfarandi bókun:

„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á miðstöð Reykjavíkurborgar um akstursþjónustu fatlaðs fólks skv. 1. gr. reglna fyrir sameiginlega akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu.“

Kærandi hafi nú skotið ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Fram komi í 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga að fatlað fólk skuli eiga kost á akstursþjónustu sem miði að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kjósi, á þeim tíma sem það velji og gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið akstursþjónustu sé að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Þá komi fram í 3. mgr. 29. gr. framangreindra laga að ráðherra setji nánari leiðbeiningar. Núgildandi reglur um sameiginlega akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu hafi tekið gildi 1. júlí 2020, verið samþykktar á fundi velferðarráðs Reykjavíkurborgar þann 12. febrúar 2020 og á fundi borgarráðs þann 20. febrúar 2020. Fyrrgreindar reglur séu settar með stoð í 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og III. kafla laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Með umsókn, dags. 7. mars 2024, hafi kærandi sótt um akstursþjónustu fatlaðs fólks. Með bréfi frá Norðurmiðstöð Reykjavíkurborgar, dags. 16. apríl 2024, hafi framangreindri umsókn verið synjað þar sem fötlun kæranda falli ekki að skilgreiningu 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sbr. 1. mgr. 1. gr. reglna um sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu.

Eftirfarandi komi fram í 1. mgr. 1. gr. reglna um sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu:

„Akstursþjónusta fatlaðs fólks er ætluð til afnota fyrir þá íbúa Reykjavíkur, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness sem uppfylla það skilyrði að fötlun þeirra falli að skilgreiningu 2. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018, og að þeir eigi ekki rétt á niðurgreiddri akstursþjónustu frá öðrum aðilum eða rétt á akstri samkvæmt öðrum lögum, reglugerðum eða reglum.“

Þá segi meðal annars í 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir:

„1. Fötlun: Afleiðing skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Skerðingar hlutaðeigandi einstaklings eru langvarandi og hindranirnar til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað vegna líkamlegrar, geðrænnar eða vitsmunalegrar skerðingar eða skertrar skynjunar.

2. Fatlað fólk: Fólk með langvarandi líkamlega, geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun sem verður fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra ef aðstoðar nýtur ekki við.“

Þá komi meðal annars fram í 3. mgr. 1. gr. reglna fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu að akstursþjónusta er ætluð til afnota fyrir þá íbúa Reykjavíkur sem uppfylli það skilyrði að fötlun þeirra falli að skilgreiningu 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þá sé einnig tekið fram að umsækjandi skuli uppfylla annað eða bæði eftirfarandi skilyrða:

„a. Er hreyfihamlaður og þarf að nota hjólastól. Skilyrði er að um sé að ræða varanlega hreyfihömlun eða hreyfihömlun sem hefur varað í þrjá mánuði eða lengur.

b. Er ófær um að nota almenningssamgöngur vegna annarrar langvarandi fötlunar.“

Ljóst sé að kærandi falli hvorki að framangreindri skilgreiningu um fötlun né sé hann talinn vera með langvarandi hreyfihömlun eða ófær um að nota almenningssamgöngur vegna annarrar langvarandi fötlunar. Þá beri að nefna að samkvæmt gögnum sem hafi legið fyrir á fundi áfrýjunarnefndar velferðarráðs þann 24. apríl 2024 þiggi kærandi ekki aðra stuðningsþjónustu á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Í læknisvottorði, dags. 7. mars 2024, komi fram að vegna undirliggjandi sjúkdóma kæranda geti hann hvorki ekið bíl né nýtt sér almenningssamgöngur. Þá komi einnig fram að hann noti hjólastól við ferðir utan heimilis. Í læknisvottorði, dags. 10. apríl 2024, komi fram að kærandi geti hvorki ekið bíl né nýtt sér almenningssamgöngur vegna fylgikvilla sykursýki. Einnig komi fram að hann hafi fengið rof á vélinda, mikinn vöðvaslappleika, tíð fótasár og upphandleggsbrot hamli allri hans hreyfifærni. Þá sé tekið fram að kærandi gangi mjög skammar vegalengdir á heimili en noti hjólastól til að komast á milli staða og þurfi því aðstoð til að geta nýtt sér sjúkraþjálfun. Fagfundur Norðurmiðstöðvar hafi ekki mælt með samþykki á umsókn kæranda um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk þar sem ekki hafi verið vísað til fötlunagreiningar í læknisvottorðum.

Líkt og fram komi í læknisvottorðum, dags. 7. mars 2024 og 10. apríl 20204, eigi kærandi við sjúkdóm að stríða en ekki fötlun í skilningi 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þá sé einnig ljóst að kærandi uppfylli hvorki skilyrði a. liðar 3. mgr. 1. gr. reglna um sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu um að einstaklingar sem rétt hafi á akstursþjónustu fatlaðs fólks skuli vera hreyfihamlaðir og noti hjólastól né skilyrði b. liðar 3. mgr. 1. gr. framangreindra reglna um að vera ófær um að nýta sér almenningssamgöngur vegna annarrar langvarandi fötlunar. Bæði eða annað framangreindra skilyrða þurfi að vera uppfyllt til að einstaklingar geti átt rétt á akstursþjónustu fatlaðs fólks. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi því tekið undir mat starfsmanna miðstöðvar Reykjavíkurborgar að samþykkja ekki framangreinda umsókn um akstursþjónustu fyrir fatlað fólks í 16 mánuði. Telji kærandi aðstæður vera með þeim hætti síðar að nauðsynlegt sé að sækja um aftur sé slíkt heimilt.

Þá skuli tekið fram að Norðurmiðstöð hafi bent kæranda á þann möguleika að sækja um akstursþjónusta aldraðra.

Með hliðsjón af öllu framangreindu hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar að staðfesta bæri synjun Norðurmiðstöðvar, dags. 16. apríl 2024, varðandi umsókn kæranda um akstursþjónustu fatlaðs fólks þar sem fötlun kæranda falli ekki að skilgreiningu 2. gr. laga nr. 38/2028 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sbr. 1. mgr. 1. gr. reglna um sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan greini sé ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum Reykjavíkurborgar fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu, lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir eða ákvæðum annarra laga eða reglna. Þá beri að nefna að áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar telji að málsmeðferð í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn um akstursþjónustu fatlaðs fólks.

Í 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um akstursþjónustu fatlaðs fólks. Þar segir í 1. mgr.:

„Fatlað fólk skal eiga kost á akstursþjónustu sem miðar að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið akstursþjónustu er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.“

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2018 er fötlun skilgreind sem:

„Afleiðing skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Skerðingar hlutaðeigandi einstaklings eru langvarandi og hindranirnar til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað vegna líkamlegrar, geðrænnar eða vitsmunalegrar skerðingar eða skertrar skynjunar.“

Þá er í sömu grein að finna skilgreiningu á fötluðu fólki, en þar segir:

„Fólk með langvarandi líkamlega, geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun sem verður fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra ef aðstoðar nýtur ekki við.“

Reykjavíkurborg hefur útfært nánar framkvæmd akstursþjónustu fyrir fatlað fólk með reglum nr. 645/2020 fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. reglnanna er akstursþjónusta fatlaðs fólks ætluð til afnota fyrir þá íbúa Reykjavíkur, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness sem uppfylla það skilyrði að fötlun þeirra falli að skilgreiningu 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 og að þeir eigi ekki rétt á niðurgreiddri akstursþjónustu frá öðrum aðilum eða rétt á akstri samkvæmt öðrum lögum, reglugerðum eða reglum.

Þá segir í 3. mgr. 1. gr. reglnanna að umsækjandi skuli uppfylla annað eða bæði eftirfarandi skilyrða:

  1. Er hreyfihamlaður og þarf að nota hjólastól. Skilyrði er að um sé að ræða varanlega hreyfihömlun eða hreyfihömlun sem hefur varað í þrjá mánuði eða lengur.
  2. Er ófær um að nota almenningssamgöngur vegna annarrar langvarandi fötlunar.“

Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur komið fram að það sé ljóst að kærandi hvorki falli að skilgreiningu 2. gr. laga nr. 38/2018 um fötlun né sé hann með langvarandi hreyfihömlun. Þá sé kærandi ekki ófær um að nota almenningssamgöngur vegna annarrar langvarandi fötlunar. Í læknisvottorðum, dags. 7. mars 2024 og 10. apríl 2024, komi fram að kærandi eigi við sjúkdóm að stríða en ekki fötlun í skilningi 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þá sé einnig ljóst að kærandi uppfylli hvorki skilyrði a. liðar 3. mgr. 1. gr. reglna um sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu um að einstaklingar þurfi að vera hreyfihamlaðir og nota hjólastól né skilyrði b. liðar 3. mgr. 1. gr. reglnanna um að vera ófær um að nýta sér almenningssamgöngur vegna annarrar langvarandi fötlunar. Bæði eða annað þeirra skilyrða þurfi að vera uppfyllt til að einstaklingar geti átt rétt á akstursþjónustu fatlaðs fólks. Reykjavíkurborg hefur einnig vísað til þess að telji kærandi aðstæður vera með þeim hætti síðar að nauðsynlegt sé að sækja um aftur sé slíkt heimilt. Þá hefur Reykjavíkurborg tekið fram að kæranda hafi verið bent á þann möguleika að sækja um akstursþjónustu aldraðra.

Líkt og fram kemur í 29. gr. laga nr. 40/1991 er markmið akstursþjónustu fatlaðs fólks að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Af gögnum málsins og afstöðu Reykjavíkurborgar verður ekki ráðið að kærandi sé fatlaður í skilningi laga nr. 38/2018 en slíkt er skilyrði til að eiga rétt á akstursþjónustu á grundvelli 29. gr. laga nr. 40/1991. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 24. apríl 2024, um að synja umsókn A, um akstursþjónustu fatlaðs fólks, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta