Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 11/2011

Föstudaginn 13. maí 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 11/2011:

A

gegn

velferðarráði Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR :

Með bréfi, dags. 17. febrúar 2011, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 19. janúar 2011 um námsstyrk til framfærslu á vorönn 2011, ásamt innritunargjaldi og bókastyrk.

 

I. Málavextir.

Kærandi sótti þann 27. október 2010 um námsstyrk til framfærslu á vorönn 2011 ásamt innritunargjaldi að fjárhæð 20.000 kr. og bókastyrk að fjárhæð 25.000 kr. Honum var synjað um námsstyrk til framfærslu á fagfundi þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða þann 3. nóvember 2010 og tilkynnt um þá ákvörðun með tveimur bréfum frá þjónustumiðstöð, dags. 12. janúar 2011. Kærandi skaut þeim ákvörðunum til velferðarráðs með bréfi, dags. 15. nóvember 2010. Velferðarráð staðfesti synjunina þann 19. janúar 2011.

Kærandi flutti til Íslands með foreldrum sínum í febrúar árið 2009 en eldri systir hans býr hér á landi og vildu foreldrar flytjast hingað til að búa nærri henni. Faðir kæranda er B og starfar hér á landi og eru dvalarleyfi annarra fjölskyldumeðlima tengd dvalar- og atvinnuleyfi hans. Heildarlaun föður kæranda eru 180.000 kr. auk húsaleigubóta. Aðrir fjölskyldumeðlimir hafa ekki atvinnuleyfi og eru þetta því einu tekjur fjölskyldunnar. Hefur kærandi ekki leyfi til þess að stunda launaða vinnu hér á landi.

Kærandi hóf nám í Tækniskólanum eftir komuna til Íslands en færði sig yfir á IB braut í Menntaskólanum í Hamrahlíð haustið 2010. Fram kemur að kærandi er góður námsmaður, með góða mætingu og fær hann góða umsögn frá kennurum. Fjárhagsstaða fjölskyldunnar er hins vegar erfið þar sem tekjur föður kæranda eru eina innkoma fjölskyldunnar.

 

II. Málsástæður kæranda.

 Af hálfu kæranda kemur fram að hann leggi sig mjög fram um nám sitt og vilji vera góður námsmaður. Hann sé heilbrigður einstaklingur og óski nauðsynlegs stuðnings til þess að halda námi sínu áfram. Kærandi kveðst vera með 100% mætingu í skóla, góðar einkunnir og hann hyggist ljúka námi sínu með góðum árangri. Hann og móðir hans hafi ekki atvinnuleyfi og einu tekjur fjölskyldunnar séu því tekjur föður hans sem dugi aðeins fyrir húsaleigu og mat fyrir mánuðinn.

 

III. Sjónarmið velferðarráðs.

Velferðarráð Reykjavíkurborgar vísar til reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum sem tóku gildi 1. janúar 2004. Í 18. gr. reglnanna komi fram að námsstyrki sé heimilt að veita í eftirfarandi tilvikum og aðstoðin miðist við grunnfjárhæð ásamt almennum skólagjöldum og bókakostnaði:

  1. Til einstaklinga 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og hafa átt við mikla félagslega erfiðleika að stríða.
  2. Til einstæðra foreldra 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og hafa haft atvinnutekjur undir 1.000.000 kr. undanfarna tólf mánuði. Skilyrði er að umsækjandi hafi átt í félagslegum erfiðleikum.
  3. Til einstaklinga sem hafa verið atvinnulausir án bótaréttar eða þegið fjárhagsaðstoð í sex mánuði eða lengur og hafa ekki lokið grunnnámi sem gefur rétt á námsláni.

Fram kemur að ákvæði 18. gr. um styrk til náms sé heimildarákvæði og því sé ekki skylt að veita námsstyrk þótt skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt. Talið hafi verið að kærandi uppfyllti ekki a-lið þar sem ekki væri um að ræða mikla félagslega erfiðleika. Þá uppfylli hann ekki b-lið þar sem hann sé ekki einstætt foreldri og hann uppfylli ekki c-lið þar sem hann hafi ekki verið atvinnulaus án bótaréttar eða þegið fjárhagsaðstoð í sex mánuði eða lengur.

Það hafi verið ákvörðun velferðarráðs að synja bæri kæranda um námsstyrk, innritunar- og bókakostnað skv. 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála óskaði með bréfi til Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 28. mars 2011, eftir upplýsingum um það hvort það mat, að kærandi uppfylli ekki skilyrði a-liðar 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, þar sem ekki sé um að ræða mikla félagslega erfiðleika, sé í samræmi við mat í sambærilegum málum og hvort gætt hafi verið jafnræðis við úrlausn í máli þessu við önnur mál sem eins kunni að hátta til um. Einnig var óskað eftir upplýsingum um hvort afar bágar fjárhagsaðstæður geti undir engum kringumstæðum verið taldar til mikilla félagslegra erfiðleika. Þá var þess óskað að grein yrði gert fyrir því hvort upplýsingar lægju fyrir um fjárhagsaðstæður kæranda, tekjur hans og gjöld, í ljósi þess að samkvæmt þeim upplýsingum sem fram koma í gögnum málsins hafi hann ekki heimild til þess að starfa á íslenskum vinnumarkaði, þar sem einungis faðir hans hafi atvinnuleyfi en ekki aðrir fjölskyldumeðlimir.

Í bréfi Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 7. apríl 2011, kemur fram að við mat þess hvort um mikla félagslega erfiðleika sé að ræða séu aðstæður umsækjanda skoðaðar og sé í því samhengi meðal annars litið til þess hvort umsækjandi hafi andlegan og/eða fjárhagslegan stuðning frá fjölskyldu, hvort umsækjandi hafi lokið grunnnámi, hver forsaga umsækjanda sé, þá sé litið til þess hvort umsækjandi sé/hafi verið í neyslu áfengis eða vímuefna og litið sé til þeirra áfalla sem umsækjandi hafi orðið fyrir. Einnig sé litið til fjárhagsstöðu umsækjanda en bágborin fjárhagsstaða hafi ein og sér ekki verið talin til mikilla félagslegra erfiðleika. Velferðarráð telji að gætt hafi verið jafnræðis í máli kæranda enda hafi sambærileg mál, þar sem aðeins sé um fjárhagslega erfiðleika að ræða, ekki verið felld undir skilyrði a-liðar 18. gr. um mikla félagslega erfiðleika.

Þá kemur fram í nefndu bréfi af hálfu velferðarráðs að kæranda hafi þann 13. október 2010 verið veitt dvalarleyfi sem gildi út september 2011 en dvalarleyfið sé veitt sem aðstandendaleyfi íþróttamanns, en faðir kæranda sé B. Framangreint dvalarleyfi, aðstandandaleyfi, sé veitt á þeim grundvelli að framfærsla kæranda sé tryggð, sbr. 11. og 13. gr. laga um útlendinga, nr. 96/2002. Kærandi hafi ekki atvinnuleyfi á Íslandi og hafi því enga innkomu. Útgjöld kæranda tengist námi hans og séu til dæmis innritunargjöld og bókakostnaður.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur velferðarráðs um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem tóku gildi þann 1. janúar 2004.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort velferðarráði beri að veita kæranda námsstyrk til náms á IB braut í Menntaskólanum í Hamrahlíð á vorönn 2011 ásamt innritunar- og bókakostnaði.

Í 18. gr. reglna félagsþjónustunnar í Reykjavík sem tóku gildi 1. janúar 2004, með síðari breytingum, er fjallað um námsstyrki. Þar kemur meðal annars fram að heimilt sé að veita námsstyrki 18–24 ára gömlu fólki sem ekki hafi lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og hafi átt við mikla félagslega erfiðleika að stríða. Sé það gert skulu starfsmaður og námsmaður gera með sér samkomulag um félagslega ráðgjöf þar sem fram komi meðal annars hvernig skuli staðið að skilum varðandi skólasókn, námsframvindu og/eða einkunnir. Einkunnum skuli þó ætíð skila í annarlok. Miðað skal við að námið leiði til þess að nemandi geti síðar hafið nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Ákvarðanir um námskostnað skulu teknar fyrir hverja önn og er heimilt að halda námsaðstoð áfram með hliðsjón af námsframvindu.

Í greinargerð þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða kemur fram það mat ráðgjafa kæranda að ekki sé unnt að skilgreina erfiðleika kæranda og fjölskyldu hans sem mikla félagslega erfiðleika, þótt þau glími við mikla fjárhagserfiðleika. Með nýjum reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg væri hins vegar mögulegt að samþykkja námsstyrk fyrir kæranda frá og með næsta hausti á grundvelli nýs ákvæðis sem er að finna í 18. gr. c reglnanna. Þá ætti hann eftir eitt ár af IB námi við Menntaskólann í Hamrahlíð, og myndi ráðgjafinn leggja til að kærandi fengi slíkan námsstyrk næsta vetur, ef synjun á beiðni kæranda yrði staðfest.

Hér reynir einkum á hvort mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar um að kærandi glími ekki við mikla félagslega erfiðleika í skilningi þágildandi ákvæðis 18. gr. a reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð, teljist málefnalegt. Óumdeilt er að kærandi og fjölskylda hans glíma við mikla fjárhagslega örðugleika, vegna afar sérstakra aðstæðna fjölskyldunnar hér á landi. Umsókn kæranda var um greiðslu námsstyrks, en samkvæmt upplýsingum velferðarráðs Reykjavíkurborgar mun ekki vera skylt að veita slíkan styrk, heldur einungis heimilt.

Í málinu er ekki deilt um að kærandi kynni að eiga rétt til fjárhagsaðstoðar á grundvelli reglna Reykjavíkurborgar, en að synjun umsóknar hans hafi verið byggð á því að fjárhagslegir örðugleikar gætu ekki einir og sér talist til mikilla félagslegra erfiðleika í skilningi 18. gr. a reglna Reykjavíkurborgar. Kærandi er 18 ára mexíkóskur ríkisborgari. Enginn ágreiningur er um að kærandi dvelur hér á grundvelli dvalarleyfis sem gefið var út af Útlendingastofnun í tengslum við komu föður hans hingað til lands, en faðir hans starfar hér sem B. Samkvæmt skilmálum dvalarleyfis kæranda, er honum ekki heimilt að afla sér tekna hér á landi með atvinnu. Í reynd verður kærandi því alfarið að treysta á framfærslu fjölskyldu sinnar, en einungis faðir hans hefur leyfi til að starfa hér á landi.

Í málinu hefur því verið borið við af hálfu Reykjavíkurborgar að í 18. gr. felist einungis heimildarákvæði til greiðslu þeirrar fjárhagsaðstoðar sem kærandi hefur óskað eftir. Í málinu liggur einnig fyrir að kæranda var synjað um þá fjárhagsaðstoð á þeim grundvelli einum að fjárhagserfiðleikar þeir sem kærandi glímir við, teldust ekki til félagslegra erfiðleika í skilningi ákvæðisins.

Þótt sveitarfélögum sé með lögum nr. 40/1991 veitt ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað hvers konar þjónustu þau vilja veita, verður slíkt að byggjast á lögmætum sjónarmiðum og vera samræmi við lög að öðru leyti. Meðal annars kemur fram sú meginregla í 12. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð, og tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Skal aðstoð og þjónusta jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklinga og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf.

Við mat þess hvort miklir fjárhagslegir erfiðleikar séu metnir miklir félagslegir erfiðleikar, verður að fallast á með kærða að slíkt falli almennt að öðru jöfnu ekki undir þá skilgreiningu. Það er hins vegar álit úrskurðarnefndarinnar að málavextir séu afar sérstæðir, og aðstæður kæranda séu þannig að erfiðleikar hans gætu talist til mikilla félagslegra erfiðleika í skilningi 18. gr. a reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð að mati úrskurðarnefndarinnar. Er þá litið til þess að kærandi dvelur hér á grundvelli dvalarleyfis sem gefið var út af hérlendum yfirvöldum, en samkvæmt skilmálum þess má kærandi ekki taka upp launaða vinnu, auk þess sem lögum samkvæmt er ekki til að dreifa einstaklingi sem hefur framfærsluskyldu með honum hér á landi. Eftir stendur því að kærandi nýtur ekki fjárhagsaðstoðar, þar sem tilvik hans fellur ekki undir fyrrgreindar reglur.

Að teknu tilliti til 12. gr. laga nr. 40/1991 og þess að hin kærða ákvörðun sýnist byggð á þeim grundvelli einum að 18. gr. a reglna taki ekki til þeirra fjárhagslegu erfiðleika sem kærandi glímir við, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að slíkt standist vart þegar litið er til grundvallarreglu íslensks réttar um rétt til félagslegrar aðstoðar. Verður því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu heim til löglegrar meðferðar.

Vakin skal athygli á því að í bréfi Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar til kæranda, dags. 19. janúar 2011, er tekið fram að kærandi hafi fjögurra vikna frest til þess að skjóta ákvörðuninni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Þessi frestur er nú þrír mánuðir, eftir breytingu sem gerð var með lögum nr. 152/2010, sem tóku gildi þann 1. janúar 2011.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir, formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir, Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar, frá 19. janúar 2011, varðandi umsókn A um námsstyrk, er felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar hjá velferðarráði Reykjavíkurborgar.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir                     Gunnar Eydal               

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta