Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 14/2011

Föstudaginn 13. maí 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 14/2011:

A

gegn

félagsmálaráði Kópavogs

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 22. febrúar 2011, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun félagsmálaráðs Kópavogs frá 15. febrúar 2011. Þar er staðfest sú ákvörðun teymisfundar frá 2. febrúar 2011 að úthluta kæranda hálfa framfærslu í stað fullrar framfærslu.

 

I. Málavextir

Samkvæmt gögnum máls þessa hefur kærandi búið hér á landi frá árinu 2005. Hann þáði atvinnuleysisbætur á árinu 2010 þar til í ágúst 2010, en þá mætti hann ekki í boðað viðtal hjá Vinnumálastofnun og var settur á bið í 40 daga. Heldur kærandi því fram að bréf Vinnumálastofnunar hafi aldrei borist honum, en hann hafi á þeim tíma staðið í flutningum. Á þær skýringar hafi Vinnumálastofnun hins vegar ekki fallist.

Kærandi fór í kjölfarið til Finnlands í atvinnuleit en kom aftur til Íslands og skráði sig hjá Vinnumálastofnun í janúarbyrjun 2011 og var þá settur á 60 daga bið þar sem Vinnumálastofnun taldi að utanför hans án tilkynningar til stofnunarinnar væri ítrekað brot á reglum stofnunarinnar. Kærandi sótti í kjölfarið um framfærslu hjá Kópavogsbæ á grundvelli laga um félagslega aðstoð sveitarfélaga og var honum úthlutað hálfri framfærslu, með vísan til 16. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Umsókn hans um fulla framfærslu var tekin fyrir á teymisfundi þann 2. febrúar 2011 og var synjað. Kærandi kærði synjunina til félagsmálaráðs Kópavogs sem staðfesti synjunina á fundi sínum þann 15. febrúar 2011.

Kærandi bjó á gistiheimili á B í janúar síðastliðnum en kveðst hafa þurft að flytja út úr því herbergi. Hafi hann nú búsetu á C. Hann hafi fengið greiddan framfærslustyrk í Finnlandi þann 1. desember 2010 fyrir desembermánuð og hafi síðan fengið greitt hjá Félagsþjónustu Kópavogs í byrjun febrúar fyrir janúarmánuð, en ekki sé greitt fyrir þann tíma sem kærandi var erlendis.

 

II. Málsástæður kæranda

Í kæru kæranda til félagsmálaráðs Kópavogs kemur fram að hann hafi verið algjörlega peningalaus þegar hann kom til Íslands frá Finnlandi. Hann kveðst skulda tveggja mánaða húsaleigu og þurfi einnig að endurgreiða peninga vegna láns sem hann hafði fengið fyrir mat. Þar sem kærandi fái aðeins hálfa framfærslu kveðst hann varla geta greitt húsaleigu ef hann ætli sér að borða og þýði þetta í reynd að hann muni missa núverandi húsnæði sitt fái hann ekki fulla framfærslu. Kærandi minni á Norrænan sáttmála um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu, en þar komi fram að annast beri alla íbúa Norðurlandanna á meðan þeir dvelji í öðru norrænu landi.

 

III. Málsástæður félagsmálaráðs Kópavogs

Af hálfu félagsmálaráðs Kópavogs kemur fram að í kjölfar þess að kærandi flutti aftur til Íslands hafi hann skráð sig hjá Vinnumálastofnun í janúarbyrjun 2011. Hann hafi verið settur á 60 daga bið þar sem Vinnumálastofnun hafi litið á utanför hans án tilkynningar til stofnunarinnar sem ítrekað brot á reglum stofnunarinnar. Kærandi hafi því sótt um framfærslu frá Kópavogsbæ á grundvelli laga um félagslega aðstoð sveitarfélaga og hafi honum verið útlutuð hálf framfærsla. Umsókn hans um fulla framfærslu hafi verið tekin fyrir á teymisfundi þann 2. febrúar 2011 þar sem umsókninni hafi verið synjað. Kærandi hafi kært synjunina til félagsmálaráðs Kópavogs sem hafi staðfest synjunina þann 15. febrúar 2011

Félagsmálaráð Kópavogs vísar til 16. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð og bendir á að kæranda hafi verið synjað um fulla framfærslu á grundvelli þess ákvæðis. Kærandi hafi ekki getað skilað inn fullnægjandi gögnum frá Vinnumálastofnun og þar af leiðandi hafi framfærsla hans verið skert um helming með vísan til 16. gr. reglnanna.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð sem voru samþykktar í bæjarráði Kópavogs þann 30. desember 2003 með síðari breytingum.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort félagsmálaráði Kópavogs beri að greiða kæranda fulla fjárhagsaðstoð í febrúar 2011 í stað hálfrar framfærslu eins og gert var.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga,
nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Kópavogsbær hefur sett sér reglur um fjárhagsaðstoð. Norrænn sáttmáli um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu var samþykktur af ríkisstjórnum Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar þann 14. júní 1994. Í 6. gr. samningsins kemur fram, varðandi félagslega aðstoð og félagslega þjónusta við tímabundna dvöl í öðru norrænu ríki, að ef einstaklingur, sem sáttmálinn nær til, dvelur tímabundið með lögmætum hætti í öðru norrænu ríki og þarf fyrirvaralaust á félagslegri aðstoð og félagslegri þjónustu að halda eigi hann að fá slíka aðstoð frá því ríki sem hann dvelji í samkvæmt landslögum eins og þörf hans fyrir aðstoð segi til um. Kærandi er finnskur ríkisborgari. Í 16. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð kemur meðal annars fram að hafni umsækjandi vinnu skuli fjárhagsaðstoð að jafnaði miðast við hálfa grunnfjárhæð hvort heldur til einstaklings eða hjóna/sambýlisfólks þann mánuð sem umsækjandi hafnar vinnu og mánuðinn þar á eftir. Enn fremur kemur fram í reglunum að geti umsækjandi ekki framvísað skráningarskírteini eða dagpeningavottorði frá vinnumiðlun á viðunandi skýringa skuli fjárhagsaðstoð lækka hlutfallslega fyrir umrætt tímabil.

Umsókn kæranda um aðstoð fékk afgreiðslu á grundvelli almennra reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Komið hefur fram að kærandi fór ekki að reglum Vinnumálastofnunar og var hann settur á 40 daga bið vegna þess að hann mætti ekki í boðað viðtal hjá stofnuninni og síðar á 60 daga bið, vegna þess að hann hélt utan án þess að láta Vinnumálastofnun vita um það. Hefur hann sótt um framfærslu þar sem hann hefur ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta á meðan biðtímabil samkvæmt reglum Vinnumálastofnunar stendur yfir.

Reglur Kópavogsbæjar um framfærslu koma fram í 16. gr. þeirra. Þar kemur fram að þeir sem annað hvort hafni vinnu eða þeirra sem ekki geti framvísað skráningarskírteini eða dagpeningavottorði frá vinnumiðlun án viðunandi skýringar, skuli eiga rétt til hálfrar framfærslu. Af gögnum málsins má ráða að ákvörðun Kópavogsbæjar er byggð á fyrrgreindum reglum. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun hafi verið í samræmi við reglur sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð og að mat félagsmálaráðs Kópavogs á aðstæðum kæranda hafi verið málefnalegt. Er því fallist á hina kærðu ákvörðun.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.


Úrskurðarorð:
 

Ákvörðun félagsmálaráðs Kópavogs frá 15. febrúar 2011, í máli A, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir                               Gunnar Eydal

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta