Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 31/2011

Miðvikudaginn 14. september 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 31/2011:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

B fyrir hönd A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 18. apríl 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, hér eftir nefndur kærði, dags. 22. mars 2011, þar sem kæranda var synjað um greiðsluerfiðleikaaðstoð.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi hafði áður sótt um greiðsluerfiðleikaaðstoð hjá Íbúðalánasjóði og með bréfi þann 22. mars 2011 var kæranda synjað um greiðsluerfiðleikaaðstoð.

Í ákvörðunarbréfi Íbúðalánasjóðs kemur fram að greiðsluerfiðleikanefnd Íbúðalánasjóðs hafi metið umsókn kæranda um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika og reiknað greiðslubyrði og greiðslugetu hans, en niðurstaða nefndarinnar hafi verið sú að Íbúðalánasjóður gæti ekki orðið við beiðni hans um greiðsluerfiðleikaaðstoð þar sem óraunhæft hafi verið að reikna með niðurfærslu lána eftir væntanlega 110% niðurfærslu Íbúðalánasjóðs.

 

II. Málsmeðferð

Kæra B barst fyrir hönd kæranda með bréfi dags. 18. apríl 2011. Í bréfinu kemur fram að nánari rökstuðningur sendist síðar. Með bréfi, dags. 27. apríl 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 30. maí 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 6. júní 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent lögmanni kæranda til kynningar. Með öðru bréfi úrskurðarnefndarinnar til lögmanns kæranda, dags. 8. júní 2011, var óskað eftir rökstuðningi, sem lögmaðurinn hafði boðað í kæru sinni, dags. 18. apríl 2011, að kæmi síðar, en hafði ekki borist. Þá var tvisvar sinnum haft samband við lögmann kæranda símleiðis og óskað eftir rökstuðningi kæranda. Engar athugasemdir hafa borist frá lögmanni kæranda.

 

III. Sjónarmið kæranda

Í bréfi lögmanns kæranda, dags. 18. apríl 2011, þar sem kærð er ákvörðun Íbúðalánasjóðs kemur fram að nánari rökstuðningur verði sendur síðar. Samkvæmt framansögðu hefur enginn rökstuðningur borist frá kæranda þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir og óskir kærunefndarinnar. Í ljósi þess að skv. 2. mgr. 65. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 41/1991, ber kærunefndinni að kveða upp úrskurð sinn innan tveggja mánaða frá því að kæra barst, og þar sem málið telst upplýst að öðru leyti, verður úrskurður lagður á kæruefnið eins og það liggur fyrir nefndinni.

 

IV. Sjónarmið kærða

Í bréfi Íbúðalánasjóðs til úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. maí 2011, kemur fram að samkvæmt greiðsluerfiðleikamati kæranda sem útbúið var af hálfu Umboðsmanns skuldara, dags. 24. febrúar 2011, hafi verið reiknað með lækkun á mánaðarlegri greiðslubyrði lána samtals að fjárhæð 17.221 kr. á grundvelli væntanlegrar niðurfærslu kæranda á íbúðalánum hans á grundvelli 110% leiðarinnar. Á því er hins vegar byggt af hálfu kærða að lækkun mánaðarlegrar greiðslubyrði kæranda yrði í besta falli um 10.000 kr. þar sem uppreiknað fasteignamat fasteignar kæranda miðað við 110% leiðina sé 11.165.000 kr. og áhvílandi veðlán hans 12.781.123 kr. Þar með séu ekki uppfyllt skilyrði 4. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001, um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, en kærði áréttar að kærandi hafi einnig sótt um niðurfærslu lána samkvæmt 110% leiðinni sem væntanlega muni bæta fjárhagsstöðu hans.

 

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Kærandi sótti um greiðsluerfiðleikaaðstoð vegna erfiðleika hans við að greiða af lánum sínum og var synjað á þeim grundvelli að greiðslubyrði hans rúmaðist ekki innan greiðslugetu.

Í 4. tölul. 4. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001, kemur fram að skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar sé að greiðslubyrði umsækjanda eftir skuldbreytingu og/eða frestun á greiðslum og/eða lengingu lánstíma rúmist innan greiðslugetu. Um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir úrræðinu sem sótt er um. Eins og fram kemur í gögnum málsins myndi samþykki um greiðsluerfiðleikaúrræði verða til þess að greiðslubyrði kæranda yrði umfram getu hans og uppfyllir hann því ekki skilyrði 4. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Vakin skal athygli á því að í ákvörðunarbréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 12. maí 2011, er tekið fram að ákvörðun Íbúðalánasjóðs sé kæranleg til kærunefndar húsnæðismála og að kærendur hafi fjögurra vikna frest til þess að kæra. Umrædd ákvörðun er kæranleg til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála skv. 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum, og er kærufrestur nú þrír mánuðir eftir breytingu sem gerð var með lögum nr. 152/2010 sem tóku gildi þann 1. janúar 2011.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A um að synjun Íbúðalánasjóðs um greiðsluerfiðleikaaðstoð verði felld úr gildi, er hafnað.

 

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta