Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 15/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 15/2020

Fimmtudaginn 30. apríl 2020

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 8. janúar 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 8. nóvember 2019, um synjun á umsókn hennar um afskrift á skuld.

Þann 1. janúar 2020 tók Húsnæðis- og mannvirkjastofnun við hlutverki, verkefnum og skyldum Íbúðalánasjóðs, sbr. lög nr. 137/2019 um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.           

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 21. mars 2019, sótti kærandi um afskrift á skuld við Íbúðalánasjóð á grundvelli 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 8. nóvember 2019, á grundvelli heildstæðs mats þar sem litið var til fjárhagsgetu, fjölskylduaðstæðna, framfærslubyrðar og annarra haga kæranda. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun 21. nóvember 2019 og var hann veittur með bréfi sjóðsins, dags. 3. desember 2019.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 8. janúar 2020. Með bréfi, dags. 9. janúar 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Íbúðalánasjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 22. janúar 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. janúar 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir grein fyrir skattframtali þeirra hjóna árið 2018. Inneign í bönkum sé ekki að öllu leyti þeirra eign, hluti inneignar sé eign Tryggingastofnunar ríkisins vegna ofgreiðslu örorkubóta. Í maí hafi kæranda borist endurútreikningur vegna greiðslna frá lífeyrissjóðakerfinu sem hafi hljóðað upp á skuld að fjárhæð 1.678.972 kr. Búið sé að greiða um það bil 200 þúsund krónur af þeirri kröfu. Bifreiðaeign þeirra sé röng en á skattframtalinu sé virði bifreiðarinnar X skráð 5 milljónir krónur, en það sé augljós villa sem verði leiðrétt á næsta skattframtali. Bifreiðin sé 12 ára gömul og því deginum ljósara að hún sé ekki svo mikils virði. Verðmætið sé líklega nær 600 til 700 þúsundum króna samkvæmt vefsíðunni bilasolur.is, enda hafi bifreiðin verið keypt á 860 þúsund krónur. Bifhjól sem séu skráð á kæranda séu í eign sonar þeirra hjóna. Þar sem hann hafi ekki verið orðinn 18 ára hafi verið nauðsynlegt að skrá hjólin á kæranda vegna tryggingamála. Í dag sé búið að selja hjólin.

Kærandi vísar til þess að í rökstuðningi Íbúðalánasjóðs sé talað um skuldir hennar, tæpar 19 milljónir, en hvergi sé minnst á skuldir eiginmannsins sem séu ekki fyrndar eins og þar komi fram. Í því felist mikið misræmi þar sem tekjur og glatað veð eiginmannsins komi til skoðunar og því ættu skuldir hans einnig að vera með en þær nemi um 30 milljónum króna. Það sé einnig spurning hvort yfir höfuð ætti að taka stöðu eiginmannsins kæranda í umsókn kæranda vegna gjaldþrots hans. Þá séu tekjur ofreiknaðar um 1.678.972 kr. og það sé í beinu sambandi við ofmetnar eignir að vanmetnar skuldir, eftir því hvernig á það sé litið. Stærsta breytingin sé samt atvinnumissir eiginmannsins en hann sé á atvinnuleysisbótum í dag þar sem hann hafi misst vinnuna í lok október 2019.

Kærandi tekur fram að vissulega séu fyrir hendi málefnalegar og sérstakar ástæður til þess að veita undanþágu frá skilyrðum. Í fyrsta lagi hafi þau keypt húsið árið 2007 og öll þeirra vandræði megi rekja til afleiðinga hrunsins árið 2008. Óðaverðbólga, atvinnumissir og gífurlegur samdráttur í atvinnulífinu á Íslandi sem og annars staðar í heiminum geri það að verkum að auðvelt sé að tala um sérstakar málefnalegar ástæður. Í öðru lagi sé það atvinnumissir eiginmannsins. Það sé varla hægt að ætlast til þess að bíða eftir að það sjáist á skattskýrslum að tekjur þeirra hafi lækkað því að það sé komið að því núna. Í þriðja lagi vísar kærandi til tilgangs reglugerðarinnar. Það megi ekki gleyma því að það sé verið að opna dyr fyrir fólki sem hafi lent í fjárhagslegum vandræðum af einhverjum toga. Örlítið svigrúm til að fá tækifæri til að byrja upp á nýtt, reynslunni ríkari.

Kærandi bendir á að hún og eiginmaður hennar hafi verið á leigumarkaði frá því að þau hafi misst húsið og hafi náð að borga upp nokkrar af þeirra skuldum en engan veginn nóg. Að endingu hafi það farið svo að eiginmaður kæranda hafi farið í gjaldþrot en sú ákvörðun sé ekki tekin í hálfkæringi. Með setningu laga á Alþingi um lækkun fyrningar í gjaldþroti niður í tvö ár hafi þau von um að komast einhvern tímann á réttan kjöl í þjóðfélaginu og geta byrjað upp á nýtt, enda sé hagstæðara að eiga húsnæði heldur en að leigja. Það sé vilji þeirra að búa á Íslandi og þess vegna séu þau að standa í þessu. Kærandi voni að þau fái tækifæri til að komast upp úr þessum djúpu hjólförum sem þau hafi verið föst í frá hruni og að þau geti komið sér fyrir á betri stað fyrir framtíðina. Það snúist um framtíð og velferð fjölskyldunnar.

III. Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að í kjölfar nauðungarsölu á fasteign kæranda og eiginmanns hennar árið 2013 hafi myndast eftirstæð krafa, eða svokallað glatað veð, að fjárhæð 12.123.407 kr. Stofn glataðs veðs sé mismunur á stöðu lána eða lána ásamt kostnaði við uppboð og verðmat, sbr. 57. gr. laga um nauðungarsölur nr. 90/1991. Glatað veð skiptist jafnt á milli gerðarþola/lántaka ef þeir séu fleiri en einn. Glatað veð að fjárhæð 6.061.703 kr. hafi verið stofnað á hendur kæranda og að fjárhæð 6.061.704 á hendur eiginmanni hennar. Kæranda hafi verið tilkynnt bréflega um skuldastöðu eftir nauðungarsöluna og jafnframt að sjóðurinn myndi ekkert aðhafast við innheimtu kröfunnar. Þá hafi kærandi verið upplýst um að hún gæti hvenær sem er greitt inn á kröfuna og að Íbúðalánasjóði væri heimilt að koma til móts við hana við hverja greiðslu með því að fella niður af kröfunni til viðbótar sömu fjárhæð og væri greidd.

Tekið er fram að málsmeðferðin hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, byggð á málefnalegum sjónarmiðum og í samræmi við ákvæði laga nr. 44/1998 um húsnæðismál, reglugerð nr. 359/2010 og reglur stjórnar Íbúðalánasjóðs um meðferð greiðsluerfiðleika. Samkvæmt 47. gr. laga um húsnæðismál sé stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að afskrifa útistandandi veðkröfur sjóðsins sem hafi glatað veðtryggingu við nauðungarsölu íbúðar. Um kröfu sjóðsins fari samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 359/2010 um meðferð krafna sem glatað hafa veðtryggingu, sbr. reglugerð nr. 534/2015 og nr. 1138/2018. Reglugerðin sé sett með heimild í 47. og 50. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál, með síðari breytingum. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar sé stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt, að liðnum þremur árum frá sölu fasteignar skuldara, að afskrifa kröfu sem glatað hafi veðtryggingu. Í 2. mgr. 6. gr. séu tilgreind skilyrði fyrir slíkri afskrift:

  1. Eignir umfram skuldir séu ekki meiri en 6.500.000 kr. hvort sem um er að ræða einstakling eða hjón/sambúðarfólk.
  2. Tekjur á ársgrundvelli séu ekki hærri en 3.622.600 kr. fyrir einstakling eða 4.791.180 kr. fyrir hjón eða sambúðarfólk, að viðbættum 570.000 kr. fyrir hvert barn á framfæri skuldara yngra en 20 ára.

Heimilt sé að veita undanþágu frá skilyrðum 2. mgr. ef sérstakar málefnalegar ástæður liggi fyrir. Í kafla 11 í reglum stjórnar Íbúðalánasjóðs um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða sé fjallað um afgreiðslu umsókna. Þar komi fram að eignir og tekjur umsækjanda skuli byggja á meðaltali síðustu þriggja ára samkvæmt skattframtali en heimilt sé að byggja á samtímagögnum ef tilefni þyki til. Við meðferð málsins hafi Íbúðalánasjóður farið yfir fyrirliggjandi gögn og forsendur sem hafi legið fyrir við mat á því hvort kærandi uppfyllti framangreind skilyrði fyrir niðurfellingu glataða veðsins. Við útreikning á tekjum hafi skattframtöl vegna áranna 2016 til 2018 verið lögð til grundvallar. Samkvæmt álagningarseðli 2019 vegna tekna ársins 2018 hafi samanlögð inneign kæranda og eiginmanns hennar verið 985.556 kr. Í árslok 2018 hafi inneign í bönkum verið samtals 2.385.326 kr., eign í fasteign 192.497 kr. og bifreiðum/bifhjólum 5.568.916 kr. Kærandi hafi gefið skýringar á verðmæti bifreiða og eignarhaldi bifhjóla sem ekki séu gerðar athugasemdir við. Skuld við Lífeyrissjóð verslunarmanna hafi verið 4.414.203 kr. og LÍN vegna námslána 14.255.277 kr. Þá liggi fyrir endurútreikningur frá TR vegna ársins 2018 og nemi ofgreiðsla til innheimtu 1.678.972 kr. Við vinnslu málsins hafi einnig verið upplýst að bú eiginmanns kæranda hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og skiptum hafi lokið 23. maí 2019, án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur. Skuldir sem ekki hafi fengist greiddar við gjaldþrotaskiptin fyrnist (falli niður) þegar tvö ár séu liðin frá lokum skiptanna, nema fyrningu sé slitið. Við ákvörðun í málinu hafi Íbúðalánasjóður talið, með hliðsjón af framangreindu, óumdeilt að tekjur á ársgrundvelli væru yfir skilgreindum tekjumörkum samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar. Það hafi því verið niðurstaða lánanefndar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði fyrir niðurfellingu og af þeirri ástæðu bæri að synja umsókninni.

Til skoðunar hafi komið hvort ástæða væri til að veita undanþágu frá skilyrðum 2. tölul. 2. mgr. 6. gr. á grundvelli málefnalegra sjónarmiða, sbr. 6. mgr. 6. gr. Lagt hafi verið heildstætt mat á hagi kæranda þar sem meðal annars hafi verið litið til greiðslugetu, fjölskylduaðstæðna, framfærslubyrðar og aflahæfi. Möguleikar kæranda til að afla tekna teljist góðir, en hún hafi nýlega lokið háskólanámi. Þá sé aflahæfi eiginmanns kæranda einnig gott, en hann sé menntaður B. Það hafi verið niðurstaða lánanefndar Íbúðalánasjóðs að ekki stæði efni til að afskrifa skuldina að fullu, enda mætti ætla að kærandi gæti endurgreitt hluta kröfunnar að teknu tilliti til greiðslugetu. Nefndin hafi samþykkt að semja um niðurfellingu kröfunnar og að kæranda yrði boðið að greiða 25% af kröfunni með eingreiðslu eða greiðslusamningi eftir samkomulagi. Þegar sú fjárhæð yrði greidd yrðu eftirstöðvar felldar niður. Kærandi hafi kosið að semja ekki við Íbúðalánasjóð um niðurfellingu kröfunnar, en þess í stað kært ákvörðunina.  Húsnæðis- og mannvirkjastofnun krefst þess að ákvörðun lánanefndar Íbúðalánasjóðs í málinu verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Íbúðalánasjóðs, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, um synjun á umsókn kæranda um afskrift á skuld við sjóðinn.

Um afskriftir veðkrafna Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fer eftir 47. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laganna er heimilt að afskrifa útistandandi veðkröfur stofnunarinnar sem glatað hafa veðtryggingu við nauðungarsölu íbúðar. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að afskrifa slíkar kröfur að liðnum þremur árum frá sölu fasteignar skuldara. Í 5. gr. reglugerðarinnar kemur fram að skuldari geti hvenær sem er greitt inn á kröfu sem glatað hefur veðtryggingu og Íbúðalánasjóði sé heimilt að koma til móts við skuldara við hverja greiðslu með því að fella niður af kröfunni til viðbótar sömu fjárhæð og greidd hafi verið. Með því sé krafa að fullu greidd þegar skuldari hafi greitt helming hennar.

Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar eru tilgreind skilyrði fyrir afskrift á kröfu sem glatað hefur veðtryggingu. Þar segir:

  1. Eignir umfram skuldir séu ekki meiri en 6.500.000 kr. hvort sem um er að ræða einstakling eða hjón/sambúðarfólk.
  2. Tekjur á ársgrundvelli séu ekki hærri en 3.622.600 kr. fyrir einstakling eða 4.791.180 kr. fyrir hjón eða sambúðarfólk, að viðbættum 570.000 kr. fyrir hvert barn á framfæri skuldara yngra en 20 ára.

Í 6. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar kemur fram að heimilt sé að veita undanþágu frá skilyrðum 2. mgr. ef sérstakar málefnalegar ástæður liggi fyrir. Meta skal fjárhagsstöðu skuldara með framkvæmd greiðsluerfiðleikamats og heimilt er að semja um niðurfellingu á grundvelli niðurstöðu mats á greiðslugetu. Í kafla 11 í reglum stjórnar Íbúðalánasjóðs um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða er fjallað um afgreiðslu umsókna. Þar segir í grein 11.1 að eignir og tekjur umsækjanda skuli byggðar á meðaltali síðustu þriggja ára samkvæmt skattframtali en heimilt sé að byggja á samtímagögnum ef greiðsluerfiðleikanefnd þyki tilefni til. Við greiðsluerfiðleikamat sé miðað við dæmigert viðmið framfærslu útgefnu af velferðarráðuneyti. Rekstrarkostnaður fasteignar og bifreiðar skuli metinn með sama hætti og gert sé í greiðslumati vegna nýrra lána. Ekki sé tekið mið af greiðslubyrði skuldbindinga vegna LÍN. Þá sé heimilt að horfa ekki til greiðslubyrði skuldbindinga sem telja verði óhóflegar í ljósi fjárhagsstöðu viðkomandi. Í grein 11.2 kemur fram að með umsókn skuli fylgja skattskýrslur síðustu þriggja ára og afrit af launaseðlum síðustu þriggja mánaða. Heimilt sé að kalla eftir frekari gögnum ef ástæða þyki til. Umsóknin fari til vinnslu hjá starfsmanni á viðskiptasviði sem stilli upp erindi og leggi fyrir greiðsluerfiðleikanefnd á þar til gerðu eyðublaði með rökstuddri tillögu.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi fallist á fram komnar skýringar kæranda hvað varðar verðmæti bifreiða og eignarhald bifhjóla, auk fjárhæðar kröfu Tryggingastofnunar ríkisins á hendur kæranda. Úrskurðarnefndin lítur því svo á að ekki sé ágreiningur um að eignir umfram skuldir séu undir viðmiðunarmörkum 1. tölul. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010. Þá hefur komið fram af hálfu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að óumdeilt sé að tekjur kæranda og eiginmanns hennar á ársgrundvelli séu yfir skilgreindum tekjumörkum 2. tölul. 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar. Úrskurðarnefndin hefur yfirfarið gögn málsins og fellst á að tekjur kæranda og eiginmanns hennar á árunum voru verulega yfir tekjumörkum reglugerðarákvæðisins, að minnsta kosti árin 2016, 2017 og 2018. Úrskurðarnefndin telur því að ágreiningur málsins snúi að því hvort veita skuli undanþágu frá skilyrðum 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar þar sem sérstakar málefnalegar ástæður liggi fyrir. Af hálfu stofnunarinnar hefur komið fram að við mat á undanþágu frá því skilyrði hafi verið lagt heildstætt mat á hagi kæranda þar sem meðal annars hafi verið litið til greiðslugetu, fjölskylduaðstæðna, framfærslubyrðar og aflahæfis. Stofnunin hafi talið möguleika kæranda og eiginmanns hennar til að afla tekna góða, með tilliti til menntunar þeirra. Því megi ætla að kærandi geti endurgreitt hluta kröfunnar, að teknu tilliti til greiðslugetu.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið gögn málsins og telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við framangreint mat stofnunarinnar. Synjun á umsókn kæranda um afskrift á skuld er því staðfest.

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 8. nóvember 2019, um synjun á umsókn A, um afskrift á skuld er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta