Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 388/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 388/2016

Fimmtudaginn 30. mars 2017

A

gegn

Seltjarnarnesbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. október 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun fjölskyldunefndar Seltjarnarnesbæjar frá 9. september 2016 um að staðfesta ákvarðanir um að greiða kæranda skerta fjárhagsaðstoð á tímabilinu janúar 2015 til september 2016 og ákvörðun um að synja honum um frekari fjárhagsaðstoð.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi hefur þegið fjárhagsaðstoð frá Seltjarnarnesbæ á tímabilinu september 2013 til september 2016. Frá janúar 2015 fékk kærandi greidda skerta fjárhagsaðstoð með vísan til 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Seltjarnarnesbæ þar sem kveðið er á um lækkun grunnfjárhæðar hafi umsækjandi hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa eða hafnað starfsleitaráætlun. Með bréfi, dags. 9. september 2016, var kæranda tilkynnt að fjölskyldunefnd Seltjarnarness teldi ákvörðun starfsmanna um að greiða honum skerta fjárhagsaðstoð vera réttmæta og byggða á 11. gr. framangreindra reglna. Kæranda var einnig tilkynnt um synjun á frekari fjárhagsaðstoð vegna villandi upplýsinga sem hann hafi gefið varðandi tekjumöguleika sína, sbr. 33. gr. reglnanna.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 12. október 2016. Með bréfi, dags. 14. október 2016, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Seltjarnarnesbæjar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð sveitarfélagsins barst með bréfi, dags. 31. október 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. nóvember 2016, var bréf sveitarfélagsins sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 22. nóvember 2016 og voru þær sendar sveitarfélaginu til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. nóvember 2016. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti 20. mars 2017.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að ágreiningur hafi verið uppi í tæplega tvö ár vegna ákvörðunar sveitarfélagsins um að skerða fjárhagsaðstoð til hans um helming á grundvelli 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð Seltjarnarnesbæjar. Í ákvæðinu komi fram að greiða skuli hálfa grunnupphæð til framfærslu hafi umsækjandi hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa. Kærandi sé frumkvöðull og hafi unnið að því að koma á fót atvinnurekstri á sama tíma og hann hafi þegið fjárhagsaðstoð frá Seltjarnarnesbæ. Sveitarfélagið hafi ekki flokkað það sem viðhlítandi skýringu án þess þó að rökstyðja þá ákvörðun. Kærandi greinir frá verkefnum sem hann hafi unnið að og fer fram á að sú mikla vinna sem hann hafi lagt í þau verði metin sem viðhlítandi skýring á því að hann hafi hafnað atvinnuboði samkvæmt 11. gr. reglna Seltjarnarnesbæjar um fjárhagsaðstoð.

Kærandi bendir á að hann hafi þegið skerta fjárhagsaðstoð í tæplega tvö ár og þrisvar sinnum á því tímabili hafi honum verið boðin atvinna. Í 11. gr. reglnanna komi skýrt fram að einungis sé hægt að skerða bætur í þrjá mánuði ef umsækjandi hafni atvinnuboði. Þeirri reglu hafi sveitarfélagið ekki fylgt og því hafi fjárhagsaðstoð til hans verið skert langt umfram það sem heimilt sé. Kærandi fer því fram á leiðréttingu og að fá greidda þá fjárhagsaðstoð sem ranglega hafi verið skert á framangreindu tímabili. Þá mótmælir kærandi þeirri afstöðu sveitarfélagsins að hann hafi veitt rangar eða villandi upplýsingar, sbr. 33. gr. reglnanna, í tengslum við umsókn hans um fjárhagsaðstoð. Hann hafi greint skýrt frá því verkefni sem hann væri að koma á fót til að framfleyta sér til frambúðar.

III. Sjónarmið Seltjarnarnesbæjar

Í greinargerð Seltjarnarnesbæjar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu í einn mánuð í lok ágúst 2013. Eftir fjóra til fimm mánuði á fjárhagsaðstoð hafi farið að bera á mótsögnum hjá kæranda þegar rætt hafi verið um að hann fengi sér launaða vinnu samhliða því að þróa verkefni sitt áfram. Kærandi hafi unnið við verkefni sitt fram í maí 2014 en þá skipt yfir í annað hliðstætt verkefni. Í byrjun júní 2014 hafi kæranda verið boðið að taka þátt í verkefninu Stígur á vegum Vinnumálastofnunar sem aðstoði þá sem hafi lengi verið atvinnulausir að finna vinnu við hæfi. Kærandi hafi neitað að taka þátt í því þar sem hann þyrfti þá að fara í launaða vinnu og myndi ekki hafa tíma til að vinna að verkefninu. Í desember 2014 hafi kæranda verið boðin vinna en hann hafi hafnað þeirri vinnu. Þá hafi verið ákveðið í samræmi við reglur um fjárhagsaðstoð að greiða honum hálfa fjárhagsaðstoð. Kærandi hafi þegið hálfa fjárhagsaðstoð frá þeim tíma og verið boðin vinna reglulega.

Seltjarnarnesbær tekur fram að kærandi eigi ekki rétt á frekari aðstoð þar sem hann hafi hvorki leitað að vinnu né tekið þeirri vinnu sem honum hafi verið boðin, sbr. 1. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Einnig hafi kærandi neitað þeirri aðstoð sem honum hafi verið boðin til að leita sér að atvinnu, svo sem með því að taka þátt í átaksverkefnum á vegum Vinnumálastofnunar. Að mati sveitarfélagsins hafi kærandi ekki neinar gildar ástæður fyrir því að leita sér ekki að vinnu og það að hann neiti að taka þeirri vinnu sem honum hafi verið boðin útiloki frekari fjárhagsaðstoð. Það sé ekki hlutverk sveitarfélagsins að fjármagna verkefni kæranda. Kærandi geti séð sér farborða með því að taka þeim störfum sem honum séu boðin og hafi því enga þörf fyrir fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Hann uppfylli því ekki skilyrði 2. gr. reglna Seltjarnarnesbæjar um fjárhagsaðstoð en markmið þeirra sé að aðstoða þá sem ekki geti séð sér farborða.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Seltjarnarnesbæ hafi verið heimilt að greiða kæranda skerta fjárhagsaðstoð á tímabilinu janúar 2015 til september 2016 og ákvörðun sveitarfélagsins um að synja honum um frekari fjárhagsaðstoð frá þeim tíma.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 10. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Seltjarnarnesbæ er kveðið á um upphæð fjárhagsaðstoðar. Þar segir í 1. mgr. að framfærslugrunnur taki mið af útgjöldum vegna daglegs heimilishalds og miðist við grunnfjárhæð samkvæmt gögnum málsins og reglunum við 149.000 kr. árið 2014, 158.305 kr. árið 2015 og 162.000 kr. árið 2016. Í 2. mgr. 10. gr. kemur fram að þeim sem búi hjá foreldri/um skuli reiknast ½ grunnfjárhæð á mánuði, eða mismunur á þeirri upphæð og eigin tekjum þeirra. Sama gildi um þá sem hafi búsetu hjá ættingjum, vinum eða vandamönnum og greiði engan húsnæðiskostnað. Í 11. gr. reglnanna er kveðið á um lækkun grunnfjárhæðar. Þar segir í 1. mgr. að hafi umsækjandi hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa eða hafnað starfsleitaráætlun, skuli greiða hálfa grunnupphæð til framfærslu þann mánuð sem hann hafni vinnu svo og næstu tvo mánuði þar á eftir. Þá segir í 2. mgr. 11. gr. að sama eigi við um atvinnulausan umsækjanda sem ekki sinni öllum skyldum um mætingu á vinnumiðlun og kröfum um atvinnuleit og aðra virkni samkvæmt reglum vinnumiðlunarinnar.

Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur þegið fjárhagsaðstoð frá Seltjarnarnesbæ á tímabilinu september 2013 til september 2016. Nam fjárhagsaðstoðin framan af hálfri grunnframfærslu. Frá janúar 2015 hefur kærandi fengið greiddan helming af hálfri grunnframfærslu og hefur sveitarfélagið vísað til þess að kærandi hafi ítrekað hafnað atvinnuboði. Samkvæmt gögnum málsins var kæranda boðin atvinna á vegum sveitarfélagsins með bréfi, dags. 8. desember 2014, sem hann afþakkaði og var fjárhagsaðstoð til kæranda því skert í janúar, febrúar og mars 2015. Sú afgreiðsla var samkvæmt upplýsingum sveitarfélagsins ekki tilkynnt kæranda með öðrum hætti en með greiðslu fjárhagsaðstoðarinnar. Kærandi áfrýjaði ákvörðun um skerðingu fjárhagsaðstoðar til fjölskyldunefndar Seltjarnarnesbæjar sem staðfesti ákvörðunina með vísan til 11. gr. framangreindra reglna. Í bréfi fjölskyldunefndar, dags. 21. janúar 2015, var kæranda greint frá þeirri ákvörðun og honum jafnframt leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, forvera úrskurðarnefndar velferðarmála. Með tölvupósti þann 31. mars 2015 var kæranda aftur boðin atvinna á vegum sveitarfélagsins sem hann afþakkaði. Fjárhagsaðstoð til kæranda var áfram skert og bera gögn málsins með sér að hann hafi næst lagt inn kvörtun til bæjarstjóra Seltjarnarnesbæjar með tölvupósti þann 19. júlí 2016. Kærandi var boðaður á fund hjá félagsþjónustu sveitarfélagsins vegna þeirrar kvörtunar en afþakkaði boðið. Með bréfi, dags. 23. ágúst 2016, var kæranda á ný boðin atvinna hjá sveitarfélaginu sem hann afþakkaði. Kærandi áfrýjaði ákvörðun um skerðingu til fjölskyldunefndar Seltjarnarnesbæjar sem bæði staðfesti þá ákvörðun og synjaði honum um frekari fjárhagsaðstoð á fundi þann 8. september 2016.

Líkt og að framan greinir liggur ekki fyrir að kæranda hafi verið tilkynnt skriflega um ákvörðun félagsþjónustu sveitarfélagsins að skerða fjárhagsaðstoð til hans frá 1. janúar 2015. Úrskurðarnefndin tekur fram að ákvörðun sveitarfélags um að skerða fjárhagsaðstoð er stjórnvaldsákvörðun og ber því að birta hana í samræmi við 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun skal hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Í 32. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Seltjarnarnesbæ kemur fram að sé umsókn hafnað í heild eða að hluta skuli umsækjandi fá skriflegt svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti með vísan til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Þá segir í 34. gr. reglnanna að þær ákvarðanir um fjárhagsaðstoð sem starfsmenn félagsþjónustunnar hafi umboð til að taka skuli þeir kynna umsækjanda niðurstöðu tryggilega og kynna honum um leið rétt hans til að fara fram á að fjölskyldunefnd fjalli um umsóknina. Ákvörðun fjölskyldunefndar skuli kynnt umsækjanda tryggilega og um leið skuli honum kynntur réttur hans til málskots til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, nú úrskurðarnefndar velferðarmála. Í 35. gr. reglnanna segir að umsækjandi geti skotið ákvörðun fjölskyldunefndar til úrskurðarnefndarinnar innan fjögurra vikna frá því umsækjanda barst vitneskja um ákvörðun fjölskyldunefndar.

Úrskurðarnefndin leggur áherslu á að vitneskja málsaðila um efni stjórnvaldsákvörðunar er forsenda þess að hann hafi möguleika á því að taka afstöðu til hennar og haga ráðstöfunum sínum í samræmi við hana. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Seltjarnarnesbæjar að gætt sé að framangreindum ákvæðum stjórnsýslulaga og framangreindra reglna um fjárhagsaðstoð þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir hjá sveitarfélaginu. Beinir úrskurðarnefndin því einnig til Seltjarnarnesbæjar að framkvæmd og ákvarðanataka í sambærilegum málum verði framvegis í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga. Þá bendir úrskurðarnefndin á að reglur um fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélaginu eru ekki í samræmi við gildandi rétt, en ákvarðanir fjölskyldunefndar eru kæranlegar til úrskurðarnefndar velferðarmála og kærufrestur er þrír mánuðir, sbr. 63. gr. laga nr. 40/1991 og 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála.

Í gögnum málsins liggur fyrir staðfesting þess efnis að kæranda var boðin atvinna hjá sveitarfélaginu í desember 2014, mars 2015 og ágúst 2016 sem hann afþakkaði með þeim rökum að hann væri að vinna við uppbyggingu á eigin fyrirtæki. Úrskurðarnefndin fellst ekki á að kærandi hafi með þeim rökum fært fram viðhlítandi skýringu, í skilningi 1. mgr. 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð, fyrir því að hafna atvinnu. Að mati úrskurðarnefndarinnar var Seltjarnarnesbæ því heimilt að skerða fjárhagsaðstoð til kæranda á grundvelli 11. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð á tímabilinu janúar 2015 til júní 2015 og í september 2016.

Kemur þá til skoðunar hvort Seltjarnarnesbæ hafi verið heimilt að synja kæranda um frekari fjárhagsaðstoð á grundvelli 33. gr. framangreindra reglna um fjárhagsaðstoð. Þar segir að fjárhagsaðstoð veitt á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hendi þess sem aðstoðina fái sé endurkræf og geti félagsþjónustan endurkrafið viðkomandi um fjárhæðina samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Ef sannreynt sé við vinnslu máls að upplýsingar sem umsækjandi hafi veitt séu rangar eða villandi stöðvast afgreiðsla umsóknarinnar. Af hálfu sveitarfélagsins hefur komið fram að kærandi hafi við fyrstu umsókn um fjárhagsaðstoð tekið fram að hann þyrfti einungis aðstoð í fáeina mánuði þar sem starfsemi hans myndi fljótlega skila tekjum. Síðan hafi liðið þrjú ár og engar tekjur komið. Úrskurðarnefndin fellst ekki á að kærandi hafi með þeirri frásögn einni og sér verið að veita rangar eða villandi upplýsingar þannig að rétt væri að stöðva frekari fjárhagsaðstoð til hans.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ákvörðun Seltjarnarnesbæjar að greiða kæranda skerta fjárhagsaðstoð á tímabilinu júlí 2015 til ágúst 2016 og að synja honum um frekari fjárhagsaðstoð hafi ekki verið í samræmi við reglur um fjárhagsaðstoð frá Seltjarnarnesbæ. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Seltjarnarnesbæ að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Seltjarnarnesbæjar frá 9. september 2016 að greiða A, skerta fjárhagsaðstoð á tímabilinu júlí 2015 til ágúst 2016 og að synja honum um frekari fjárhagsaðstoð frá og með október 2016 er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta