Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 204/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 204/2022

Fimmtudaginn 2. júní 2022

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 13. apríl 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar vegna beiðni hans um afhendingu gagna.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 13. apríl 2022 og vísaði til þess að hann hefði óskað eftir því að velferðarsvið Reykjavíkurborgar myndi taka saman öll gögn um sig og senda sér. Hann hafi fengið svar í tölvupósti en gögnin hafi ekki skilað sér.

Með erindi til Reykjavíkurborgar, dags. 20. apríl 2022, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir upplýsingum um hvort kærandi hefði fengið umbeðin gögn afhent. Svar barst 22. apríl 2022 þar sem fram kom að kærandi hafi fengið tölvupóst frá félagsráðgjafa 22. nóvember 2021 þess efnis að hún myndi taka saman gögnin. Ráðgjafinn hafi síðan sent kæranda tölvupóst 9. desember 2021 þar sem hún hafi leiðrétt sig. Kærandi þyrfti að koma á þjónustumiðstöðina og fylla út formlegt eyðublað ásamt því að framvísa persónuskilríkjum. Kærandi hafi aldrei komið til að skrifa undir eyðublaðið og því væri ekki búið að afhenda nein gögn. Þann 27. apríl 2022 barst úrskurðarnefndinni afrit af tölvupóstinum frá 9. desember 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. maí 2022, var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um framangreint svar Reykjavíkurborgar. Svar barst ekki.

II.  Niðurstaða

Kærð er afgreiðsla velferðarsviðs Reykjavíkurborgar vegna beiðni kæranda um afhendingu gagna.

Um upplýsingarétt aðila máls er fjallað í 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar segir í 1. málsl. 1. mgr. ákvæðisins að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál hans varði. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga skal ákvörðun stjórnvalds um að synja málsaðila um aðgang að gögnum máls eða takmarka hann að nokkru leyti tilkynnt aðila og hún rökstudd í samræmi við V. kafla laganna. Kæra má synjun eða takmörkun til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, sbr. 2. mgr. 19. gr.

Í málinu liggur fyrir beiðni kæranda frá 15. nóvember 2021 þar sem hann óskar eftir afriti af öllum gögnum sem tengjast honum hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar. Með tölvupósti 9. desember 2021 var kærandi upplýstur um það verklag sem gilti um afhendingu gagna. Tekið var fram að kærandi þyrfti að koma á þjónustumiðstöð og skrifa undir tiltekið eyðublað ásamt því að framvísa persónuskilríkjum. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að kærandi hafi ekki komið til að skrifa undir eyðublaðið og því væri ekki búið að afhenda gögnin. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við framangreint verklag Reykjavíkurborgar.

Að framangreindu virtu er ljóst að kæranda hefur hvorki verið synjað um aðgang að gögnum er varða mál hans né hefur aðgangur verið takmarkaður að einhverju leyti. Þar sem ekki lá fyrir synjun eða takmörkun þegar kæra barst úrskurðarnefndinni er málið ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta