Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 373/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 373/2024

Þriðjudaginn 29. október 2024

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 14. ágúst 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 14. ágúst 2024, um að synja umsókn hennar um fjárhagsaðstoð.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 1. ágúst 2024, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. ágúst 2024 til 31. ágúst 2024. Umsókn kæranda var synjað og staðfesti áfrýjunarnefnd velferðarráðs þá niðurstöðu með ákvörðun, dags. 14. ágúst 2024. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 23. ágúst 2024.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. ágúst 2024. Með bréfi, dags. 20. ágúst 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst 29. ágúst 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda 29. ágúst 2024 og voru kynntar Reykjavíkurborg með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. september 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að henni hafi verið sagt upp störfum í júlí 2024 án fyrirvara fyrir „óviðunandi hegðun“. Kærandi hafi enn ekki fengið sönnun eða nákvæma lýsingu á meintri hegðun en auk kæranda hafi þremur öðrum starfsmönnum verið sagt upp með svipuðum hætti. Fyrir uppsögnina hafi kærandi átt í vandræðum með vinnuveitanda sinn sem hafi reglulega brotið á vinnuréttindum kæranda og launagreiðsla til hennar hafi verið sein eða röng. Kærandi hafi tilkynnt málið til stéttarfélags síns sem skoði nú stöðuna en ferlið geti tekið nokkra mánuði. Kærandi hafi auk þess sótt um atvinnuleysisbætur en vegna eðlis starfslokanna hafi hún þurft að sæta þriggja mánaða biðtíma eftir bótum. Hún sé því tekjulaus.

Kærandi hafi unnið hörðum höndum allt sitt líf og kappkostað við að vera sjálfbjarga. Hún hafi fengið lágmarkslaun og oft lægri laun en það vegna misræmis. Laun sem kærandi hafi fengið 1. ágúst 2024 hafi verið notuð til að standa straum af framfærslukostnaði eins og leigu, mat og öðrum reikningum. Samkvæmt útreikningum áfrýjunarnefndar ætti kærandi að geta staðið undir framfærslukostnaði í september á þessari sömu launagreiðslu sem sé algjörlega ómögulegt.

Með hinni kærðu ákvörðun sé að mati kæranda ekki tekið tillit til einstaklega erfiðrar stöðu hennar en hún sé algjörlega tekjulaus. Af ákvörðuninni að dæma virðist sem svo að kærandi eigi að sleppa því að borða og borga leigu og bíða einfaldlega til 1. október 2024 þar sem aðeins þá eigi hún rétt á fjárhagsaðstoð. Þessi nálgun sé ekki aðeins ómannúðleg heldur stangist hún á við markmið sveitarfélagsins sem ætti að vera að styðja fólk á erfiðustu tímum þess.

Kærandi telji einnig að útreikningar fulltrúa velferðarráðs séu fjarri raunveruleikanum. Miðað við núverandi framfærslukostnað á Íslandi og lágmarkslaun sé ómögulegt að lifa af tvo mánuði á einum mánaðarlaunum. Ákvarðanir sem byggi eingöngu á útreikningum í Excel án þess að tillit sé tekið til raunverulegra aðstæðna umsækjenda séu bæði ósanngjarnar og árangurslausar. Þótt fjárhagsstaða kæranda virðist einföld á blaði sé hún í reynd mun flóknari og krefjist einstaklingsmiðaðrar nálgunar. Þá sé hugmyndin um að kærandi geti haldið áfram í atvinnuleit við þessar aðstæður óraunhæf.

Kærandi bendi á að hún hafi aldrei áður sótt um fjárhagsaðstoð. Í ljósi aðstæðna hafi hún hins vegar neyðst til þess. Þetta sé ný og erfið staða og synjunin sé kæranda þungbær. Í ljósi framangreinds óski kærandi eftir því að mál hennar verði endurskoðað með tilliti til erfiðrar fjárhagsstöðu.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Reykjavíkurborgar greinir kærandi frá því að hin kærða ákvörðun hafi verið byggð á tekjum sem kærandi hafi fengið fyrir júlímánuð 2024. Kærandi ítreki að sú upphæð hafi öll verið notuð til að standa straum af framfærslukostnaði fyrir ágústmánuð, þar á meðal húsaleigu og mat. Í september hafi kærandi setið eftir án úrræða sem geri henni ómögulegt að halda sjálfri sér uppi án utanaðkomandi stuðnings. Núverandi fjárhagsstaða kæranda sé bein afleiðing af óvæntri og óréttlátri uppsögn úr starfi.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X ára gömul kona frá B. Hún sé ógift og búi í almennu leiguhúsnæði. Kærandi hafi verið að vinna síðastliðin tvö ár en hafi verið sagt upp störfum í lok júlí 2024. Hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun en sé á þriggja mánaða biðtíma þar. Kærandi hafi verið að leita sér að vinnu en það hafi gengið erfiðlega þar sem hún tali litla íslensku, sem og ensku.

Kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu með umsókn, dags. 1. ágúst 2024, vegna tímabilsins 1. ágúst 2024 til 31. ágúst 2024. Framangreindri umsókn hafi verið synjað með bréfi þann 7. ágúst 2024. Kærandi hafi skotið framangreindri synjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs sem hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 14. ágúst 2024 og afgreitt það með eftirfarandi bókun:

„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á Rafrænni miðstöð Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð tímabilið 1. ágúst 2024 til 31. ágúst 2024, skv. 2. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.“

Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi þann 14. ágúst 2024 vegna ákvörðunar áfrýjunarnefndar velferðarráðs, dags. 14. ágúst 2024, og hafi henni verið sendur rökstuðningur með bréfi þann 23. ágúst 2024. Þann 14. ágúst 2024 hafi kærandi skotið framangreindri ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum hafi tekið gildi þann 1. apríl 2021 og verið samþykktar á fundi velferðarráðs Reykjavíkurborgar þann 24. febrúar 2021 og á fundi borgarráðs þann 4. mars 2021. Umræddar reglur séu settar á grundvelli 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Litið sé svo á að fjárhagsaðstoð til framfærslu frá sveitarfélagi sé neyðaraðstoð sem ekki beri að veita nema engar aðrar bjargir séu fyrir hendi. Í 1. gr. reglnanna komi fram að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, sbr. og III. kafla reglnanna. Um fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjavíkurborg gildi sú meginregla að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu ef hann geti ekki framfleytt sér. Umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð, sbr. 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.

Í III. kafla reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sé að finna ákvæði sem lúti að rétti til fjárhagsaðstoðar. Við mat á því hvort umsækjandi geti átt rétt til fjárhagsaðstoðar samkvæmt reglunum skuli meðal annars horft til 11. og 12. gr. reglnanna sem kveði á um lækkun grunnfjárhæðar og hvernig skuli litið til tekna og eigna umsækjanda.

Í 2. og 3. mgr. 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg segi:

„Hafi umsækjandi hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa, skal greiða 50% af grunnfjárhæð til framfærslu, sbr. 10. gr. reglna þessara. Ef veigamiklar ástæður, sem koma fram í mati á aðstæðum umsækjanda, mæla gegn því er heimilt að greiða 85% af grunnfjárhæð til framfærslu til umsækjanda.

Lækkun fjárhagsaðstoðar hefst þegar fyrir liggur staðfesting á því að umsækjandi hafi hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu. Sama gildir um umsækjanda sem sætir viðurlögum eða er á biðtíma samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.“

Í 2. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Reykjavík segi:

„Allar tekjur einstaklingsins/maka, í þeim mánuði sem sótt er um og mánuðinn á undan, aðrar en greiðslur vegna barna og húsnæðis-/vaxtabætur og/eða sérstakur húsnæðisstuðningur, koma til frádráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar.

Mæðra- og feðralaun reiknast umsækjanda til tekna. Eigi umsækjandi rétt á atvinnuleysisbótum, skal reikna atvinnuleysisbætur honum til tekna. Hið sama á við ef umsækjandi á rétt á greiðslum frá öðrum aðilum.“

Upphæð fjárhagsaðstoðar til framfærslu til einstaklings, 18 ára eða eldri, sem reki eigið heimili geti numið allt að 239.895 kr. á mánuði, sbr. 1. mgr. 10. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Þar sem kærandi sé á biðtíma hjá Vinnumálastofnun sé réttur hennar til fjárhagsaðstoðar 119.948 kr. fyrir skatt, sbr. 2. og 3. mgr. 11. gr. framangreinda reglna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi verið með tekjur að upphæð 631.260 kr. fyrir skatt þann 1. ágúst 2024 (vegna júlímánaðar) og komi þær til frádráttar fjárhagsaðstoðar fyrir umrætt tímabil. Þar af leiðandi eigi hún ekki rétt á fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. ágúst 2024 til 31. ágúst 2024.

Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi áfrýjunarnefnd velferðarráðs talið rétt að tekjur kæranda, í þeim mánuði sem sótt hafi verið um og mánuðinum á undan, komi til frádráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar til framfærslu. Þar af leiðandi hafi umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. ágúst 2024 til 31. ágúst 2024 verið synjað á grundvelli 2. og 3. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Með vísan til framangreinds hafi áfrýjunarnefnd velferðarráðs því staðfest synjun starfsmanna rafrænnar miðstöðvar á fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir áðurnefnt tímabil.

Með vísan til alls framangreinds verði að telja að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. ágúst 2024 til 31. ágúst 2024.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr.

Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Sveitarfélög skuli tryggja að stuðningur við íbúa sem hafi barn á framfæri sé í samræmi við það sem sé barninu fyrir bestu. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á fjárhagsaðstoð til einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, svo fremi það byggi á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um lagagrundvöll fjárhagsaðstoðar. Þar kemur fram í 1. mgr. að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Í 2. gr. reglnanna kemur einnig fram sama grundvallarregla og í 19. gr. laga nr. 40/1991 að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.

Samkvæmt 3. gr. framangreindra reglna skal við ákvörðun á fjárhagsaðstoð leggja til grundvallar grunnfjárþörf til framfærslu og frá henni dregnar heildartekjur. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings 18 ára og eldri sem rekur eigið heimili getur numið allt að 239.895 kr. á mánuði, sbr. 1. mgr. 10. gr. reglnanna. Með tekjum er átt við allar tekjur einstaklings/maka sem ekki eru sérstaklega til framfærslu barna, þ.e. atvinnutekjur, allar skattskyldar tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur o.fl., sbr. 1. mgr. 12. gr. reglnanna.

Í 11. gr. reglnanna er kveðið á um lækkun grunnfjárhæðar. Þar segir í 2. og 3. mgr.:

„Hafi umsækjandi hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa, skal greiða 50% af grunnfjárhæð til framfærslu, sbr. 10. gr. reglna þessara. Ef veigamiklar ástæður, sem koma fram í mati á aðstæðum umsækjanda, mæla gegn því er heimilt að greiða 85% af grunnfjárhæð til framfærslu til umsækjanda.

Lækkun fjárhagsaðstoðar hefst þegar fyrir liggur staðfesting á því að umsækjandi hafi hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu. Sama gildir um umsækjanda sem sætir viðurlögum eða er á biðtíma samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.“

Þar sem kærandi er á biðtíma hjá Vinnumálastofnun er réttur hennar til fjárhagsaðstoðar 119.948 kr. á mánuði fyrir skatt, sbr. 2. og 3. mgr. 11. gr. reglnanna.

Í 2. mgr. 12. gr. reglnanna segir:

„Allar tekjur einstaklingsins/maka, í þeim mánuði sem sótt er um og mánuðinn á undan, aðrar en greiðslur vegna barna og húsnæðis/vaxtabætur og/eða sérstakur húsnæðisstuðningur, koma til frádráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar. Mæðra- og feðralaun reiknast umsækjanda til tekna. Eigi umsækjandi rétt á atvinnuleysisbótum, skal reikna atvinnuleysisbætur honum til tekna. Hið sama á við ef umsækjandi á rétt á greiðslum frá öðrum aðilum.“

Samkvæmt 4. mgr. 12. gr. reglnanna skal miða við heildartekjur áður en tekjuskattur hefur verið dreginn frá. Reglur Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð ganga út frá því að allar tekjur, aðrar en greiðslur vegna barna og húsnæðis/vaxtabætur og/eða sérstakur húsnæðisstuðningur, sé eðlilegt að nota sér til framfærslu áður en fengin er fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Fjárhagsaðstoðin er þannig neyðarúrræði fyrir þá sem hafa ekki aðgang að fjármunum sér til framfærslu.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi með 631.260 kr. í tekjur fyrir skatt í júlímánuði 2024, sem komu til útgreiðslu 1. ágúst 2024. Ljóst er að þær tekjur eru umtalsvert hærri en sú fjárhagsaðstoð sem hún átti rétt til, sbr. 10. og 11. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð.

Með vísan til framangreinds er synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. ágúst 2024 til 31. ágúst 2024 staðfest.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 14. ágúst 2024, um að synja umsókn A, um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. ágúst 2024 til 31. ágúst 2024, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta