Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 6/2011

Miðvikudaginn 23. mars 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 6/2011:

A

gegn

velferðarráði Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi 

 

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 24. janúar 2011, skaut B, fyrir hönd móður sinnar, A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun velferðarráðs Reykjavíkurborgar um styrk að fjárhæð 320.066 kr. vegna útfararkostnaðar við andlát eiginmanns hennar, C.

  

I. Málavextir

Eiginmaður kæranda, C, lést þann 28. september 2010. Kærandi er sjúklingur og hefur átt við geðrænan vanda að stríða auk þess sem líkamleg heilsa hennar hefur farið versnandi á liðnum árum. Kostnaður við útförina nam 573.764 kr. og í september 2010 fékk kærandi styrk frá þjónustumiðstöð að fjárhæð 160.000 kr. fyrir útfararkostnaði. Kærandi hefur 175.576 kr. í laun á mánuði auk húsaleigubóta og sérstakra húsaleigubóta að fjárhæð 41.400 kr. Hún á í erfiðleikum með að ljúka greiðslum fyrir útförina og sótti því um styrk hjá Reykjavíkurborg vegna sérstakra erfiðleika, samtals að fjárhæð 320.066 kr. með bréfi dags. 13. október 2010. Beiðninni var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, dags. 23. nóvember 2010. Kærandi skaut þeirri ákvörðun til velferðarráðs sem staðfesti fyrri ákvörðun þann 11. janúar 2011.

Í kæru sonar kæranda, B, fyrir hennar hönd, segir þó að misskilnings gæti varðandi fjárhæð þá sem óskað er eftir. Hún sé 193.000 kr., en ekki 320.066 kr., þar sem honum hafi tekist að fá fyrirgreiðslu í banka sínum til að greiða hluta útfararkostnaðarins.

 

II. Málsástæður kæranda

Af hálfu sonar kæranda, B, kemur fram að móðir hans hafi fengið heilablóðfall fyrir einu og hálfu ári og geti illa tjáð sig eða skilið hluti. Fjárhagur hennar og látins eiginmanns hennar hafi verið bágur við andlát eiginmannsins. B segir aðstæður sínar vera þær að hann sé öryrki eftir vinnuslys og með fimm manna fjölskyldu á sínu framfæri. Það sé því þungur fjárhagslegur baggi fyrir fjölskylduna að þurfa að standa skil á kostnaði vegna útfararinnar fyrir móður hans þar sem hún ráði ekki við að greiða kostnaðinn vegna útfararinnar. Hún hafi fengið styrk að fjárhæð 160.000 kr. frá Félagsþjónustunni og lífeyrissjóður C heitins hafi lagt til 67.000 kr. B hafi enga möguleika á að afla sér meiri tekna til að greiða það sem upp á vantar og því sé honum þröngur stakkur skorinn. Hann hafi þó farið í viðskiptabankann sinn og fengið auka yfirdráttarheimild að fjárhæð 180.000 kr. Faðir B hafi einnig fallið frá á svipuðum tíma og þar hafi fallið til annar eins kostnaður og geti hann því ekki lagt meira til fyrir hönd móður sinnar.

B fer þess góðfúslega á leit að úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála sjái sér fært að veita aðstoð í þessu máli og aðstoði með umrædda fjárhæð sem eftir er að greiða.

  

III. Málsástæður velferðarráðs

Velferðarráð Reykjavíkurborgar vísar til reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum sem tóku gildi þann 1. janúar 2004 og samþykktar voru í félagsmálaráði Reykjavíkurborgar þann 3. desember 2003 og í borgarráði þann 9. desember 2003 en umsókn kæranda hafi borist í tíð framangreindra reglna. Samkvæmt 25. gr. reglnanna hafi verið heimilt að veita einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki lán eða styrk til greiðslu skulda vegna mikilla fjárhagslegra og félagslegra erfiðleika að fullnægðum frekari skilyrðum. Lán eða styrkur vegna sérstakra erfiðleika hafi komið samkvæmt ákvæðinu einungis til álita að fullnægðum öllum þeim skilyrðum sem fram koma í stafliðum a–e.

Ekki hafi verið heimilt að veita styrk eða lán til greiðslu skulda við banka, sparisjóði og aðrar lánastofnanir, svo sem greiðslukortafyrirtæki. Þá sé hvorki heimilt að veita styrk eða lán til greiðslu skattaskulda og sekta, né heldur til greiðslu skulda við einkaaðila.

Kæranda hafi verið synjað um styrk vegna sérstakra erfiðleika þar sem hún uppfylli ekki öll skilyrði 25. gr. reglnanna. Kærandi hafi tekjur yfir viðmiðunarmörkum sbr. a-lið 25. greinarinnar. Ekki liggi fyrir að kærandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana eins og kveðið sé á um í b-lið 25. greinarinnar auk þess sem ekki liggi fyrir yfirlit starfsmanns þjónustumiðstöðvar um fjárhagsstöðu kæranda, sbr. c-lið 25. greinar. Þá liggi ekki fyrir samkomulag um félagslega ráðgjöf og/eða fjármálaráðgjöf skv. e-lið 25. gr. Í 25. greininni sé einnig kveðið á um að ekki sé heimilt að greiða skuldir við einkaaðila. Auk alls framangreinds hafi kærandi nú þegar fengið útfararstyrk að fjárhæð 160.000 samkvæmt 22. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Velferðarráð hafi, með hliðsjón af framansögðu, ákveðið að staðfesta synjun þjónustumiðstöðvar um styrk til handa kæranda til greiðslu útfararkostnaðar.

  

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem tóku gildi þann 1. janúar 2004 og samþykktar voru í félagsmálaráði Reykjavíkurborgar þann 3. desember 2003 og í borgarráði þann 9. desember 2003, en umsókn kæranda barst í gildistíð þeirra reglna.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort velferðarráði Reykjavíkurborgar beri að veita kæranda styrk að fjárhæð 193.000 kr. til greiðslu fyrir útfararkostnaði vegna látins eiginmanns kæranda.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Reykjavíkurborg setti sér reglur um fjárhagsaðstoð, sem tóku gildi þann 1. janúar 2004, en þær reglur voru í gildi þegar umsókn kæranda barst. Er í þeim reglum að finna almenn skilyrði styrks og lána, sem að áliti úrskurðarnefndarinnar eru almenn og fyrirsjáanleg.

Kærandi óskar eftir frekari styrk til greiðslu kostnaðar við útför látins eiginmanns, en hún fékk í september 2010 styrk frá þjónustumiðstöð að fjárhæð 160.000 kr. fyrir útfararkostnaði skv. 22. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu verður ekki séð að kærandi uppfylli skilyrði fyrir greiðslu frekari styrks. Þá hefur ekkert komið fram um að mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda.

Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun staðfest.

Vakin skal athygli á því að í bréfi Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar til kæranda, dags. 11. janúar 2011, er tekið fram að kærandi hafi fjögurra vikna frest til þess að skjóta ákvörðuninni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu. Þessi frestur er nú þrír mánuðir, eftir breytingu sem gerð var með lögum nr. 152/2010, sem tóku gildi þann 1. janúar 2011.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir, formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar í máli A er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir                    Gunnar Eydal

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta