Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 50/2011

Miðvikudaginn 19. október 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 50/2011:

A

gegn

félagsmálaráði Kópavogs

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR :

Með kæru dagsettri 16. maí 2011, skaut B, fyrir hönd A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þeirri ákvörðun velferðarsviðs Kópavogs, sbr. bréf þess dags. 24. mars 2011, að heimilt sé að krefja kæranda um þann framfærslustyrk sem hún hafði fengið á tímabilinu frá janúar til september 2009 á þeim forsendum að hún hafi fengið hærri fjárhagsaðstoð en hún hafi átt rétt á samkvæmt reglum Kópavogsbæjar.

Kærandi krefst þess að fá fjárhæðina endurgreidda.

Velferðarsvið Kópavogs telur að heimilt hafi verið að krefja kæranda um þann framfærslustyrk sem hún hafi fengið á umræddu tímabili.

 

I. Málavextir.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort félagsmálaráði Kópavogs beri að endurgreiða kæranda framfærsluaðstoð sem hún fékk hjá Félagsþjónustu Kópavogs frá janúar til september 2009, en kærandi hafði sjálf endurgreitt félagsþjónustunni framfærsluaðstoðina í september 2009.

Frá 1. október 2008 og til loka ársins 2008 þáði kærandi fjárhagsaðstoð frá Félagsþjónustu Kópavogs en áður hafði hún verið á endurhæfingarlífeyri. Hún leitaði í janúar 2009 til Félagsþjónustu Kópavogs og óskaði eftir frekari fjárhagsaðstoð þar sem hún hafði enga framfærslu. Henni var í kjölfarið greiddar mánaðarlega 118.212 kr. sem tilgreint var sem framfærslustyrkur á greiðslubeiðni og var það gert þar til í september sama ár þegar hún fékk samþykktan örorkulífeyri aftur í tímann frá 1. janúar 2009 til 30. júní 2011. Kærandi endurgreiddi félagsþjónustunni framfærslustyrkinn sem hún hafði þegið þann 24. september 2009. Hún óskaði síðar eftir því að styrkurinn yrðu endurgreiddur en því var synjað af hálfu félagsmálaráðs Kópavogs þann 18. maí 2010. Sú niðurstaða var kærð til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála sem hratt hinni kærðu ákvörðun með úrskurði, dags. 11. nóvember 2010.

 

II. Málsástæður kæranda.

Af hálfu kæranda kemur fram að Félagsþjónusta Kópavogs hafi krafist endurgreiðslu eingöngu á þeim grundvelli að greiðslur til kæranda hefðu verið lán en ekki styrkur. Niðurstaða úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála hafi verið á þá leið að greiðslur til kæranda hafi verið styrkur skv. 16. gr. laga nr. 40/1991. Eftir að úrskurðarnefndin hafi úrskurðað í málinu og kærandi farið fram á við Félagsþjónustu Kópavogs að gengið yrði frá málinu samkvæmt úrskurðinum hafi Félagsþjónusta Kópavogs komið með þau rök í bréfi sínu, dags. 24. mars 2011, að kærandi hafi fengið ofgreidda fjárhagsaðstoð, en því hafi ekki verið haldið fram áður.

Á því er byggt að það samræmist hvorki lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga né almennum reglum stjórnsýsluréttar að stjórnvöld geti endurkrafið styrki. Slíkar endurkröfur séu gífurlega íþyngjandi fyrir borgara og þurfi því að styðjast við skýra lagastoð. Reglur sem kveði á um endurgreiðslu vegna þess að styrkþegi hafi fengið „of mikið“ hafi ekki fullnægjandi lagastoð og séu ekki einar og sér nægilegar til að krefjast endurgreiðslu. Fjárhagsaðstoð verði þannig ekki endurkrafin nema tvennt komi til, annars vegar að um slíkt hafi verið samið (þ.e. að aðstoðin hafi verið lán en ekki styrkur) og hins vegar að styrkþeginn hafi verið í slæmri trú (gefið rangar upplýsingar o.s.frv.).

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála hafi þegar leyst úr því að fjárhagsaðstoð kæranda hafi ekki verið lán heldur styrkur. Því þurfi eingöngu að kanna seinna atriðið, þ.e. hvort kærandi hafi verið í slæmri/rangri trú þegar hún fékk styrkinn.

Vísað er til 23. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, þar sem segi að fjárhagsaðstoð, sem veitt sé á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hendi þess sem aðstoðina fái, sé ætíð endurkræf. Eingöngu sé lagastoð fyrir sveitarfélög að setja sér reglur um endurkröfur í þessum tilvikum. Almenn regla um endurkröfu hafi ekki lagastoð.

Fram kemur að mistök af hálfu sveitarfélagsins ein og sér séu ekki nægjanlegur grundvöllur endurkröfu. Félagsþjónusta Kópavogs hafi ekki sýnt fram á slæma trú kæranda. Kærandi hafi verið í góðri trú þegar hún hafi fengið styrkinn og úrskurðarnefndin hafi þegar slegið því föstu að jafnvel þótt hún hafi endurgreitt styrkinn hafi ekki falist í því að kærandi hafi fallist á að um lán hafi verið að ræða.

Bent er á að í greinargerð Félagsþjónustu Kópavogs, dags. 6. júní 2011, séu engar frekari röksemdir eða sannanir fyrir því að kærandi hafi verið í slæmri trú og/eða samþykkt að endurgreiða styrkinn. Í bréfinu sé eingöngu vísað til fyrri athugasemda en úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála hafi þegar hafnað þeim rökum öllum. Félagsþjónusta Kópavogs vísi í að hún geti endurkrafið kæranda eftir almennum reglum kröfuréttar en hafi ekki útskýrt nánar hvernig þær reglur hljóði eða hvernig skilyrðum þeirra sé fullnægt í málinu.

  

III. Sjónarmið kærða.

Af hálfu félagsmálaráðs Kópavogs kemur fram að kærandi hafi leitað aðstoðar hjá Félagsþjónustu Kópavogs í janúar 2009 þar sem hún hafði enga framfærslu því réttur hennar til endurhæfingarlífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins hafi fallið niður. Fram kom að verið væri að vinna að því að tryggja henni örorkulífeyri. Gert hafi verið samkomulag við kæranda um að veita henni fjárhagsaðstoð til þess að brúa það bil sem orðið hafi frá því að endurhæfingarlífeyrir féll niður og þar til örorkulífeyrisgreiðslur tækju við. Aðstoðin hafi verið ætluð sem lán sem kærandi skyldi greiða til baka fengi hún örorkulífeyri greiddan aftur í tímann. Fyrir mistök hafi mánaðarleg fjárhæð sem greidd hafi verið til kæranda tilgreind á greiðslubeiðni sem framfærslustyrkur skv. 16. gr. að fjárhæð 118.212 kr. en ekki sem lán. Í september 2009 hafi kærandi fengið samþykktan örorkulífeyri frá 1. janúar 2009 til 30. júní 2011. Hún hafi komið til félagsþjónustunnar þann 24. september 2009 og endurgreitt framfærslustyrkinn sem hún hafi þegið frá 1. janúar til 31. ágúst 2009. Öryrkjabandalag Íslands hafi fyrir hönd kæranda skrifað bréf til Félagsþjónustu Kópavogs þann 25. nóvember 2009 og óskað eftir því að kæranda yrði endurgreiddur framfærslustyrkurinn. Félagsmálaráð hafi synjað þeirri beiðni með ákvörðun sinni frá 18. maí 2010. Sú niðurstaða hafi verið kærð til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála sem hafi hrundið ákvörðun félagsmálaráðs.

Kærandi krafðist þess, með bréfi til Félagsþjónustu Kópavogs, dags. 2. mars 2011, að henni yrði endurgreidd sú fjárhæð sem hún hafi endurgreitt í september 2009. Bréfinu svaraði velferðarsvið Kópavogs með bréfi, dags. 24. mars 2011. Þar kemur fram að túlka verði úrskurðarorð úrskurðarnefndarinnar með hliðsjón af forsendum úrskurðarins. Í því ljósi sé það niðurstaða félagsþjónustunnar að þó óheimilt hafi verið að breyta styrk í lán að heimilt sé skv. 2. mgr. 13. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð að krefja kæranda um þann framfærslustyrk sem hún hafi fengið á tímabilinu frá janúar til september 2009 á þeim forsendum að hún hafi fengið hærri fjárhagsaðstoð en hún hafi átt rétt til samkvæmt reglum Kópavogsbæjar.

  

IV. Niðurstaða.

Samkvæmt 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, getur málsaðili skotið ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. 64. gr. laganna. Úrskurðarnefndin hefur þegar kveðið upp úrskurð í máli þessu þann 11. nóvember 2010 eins og rakið hefur verið.

Á grundvelli þess úrskurðar óskaði kærandi endurgreiðslu framfærslukostnaðar sem hún hafði endurgreitt hjá félagsmálaráði Kópavogs. Því hefur nú verið synjað og er það sú synjun sem kærandi ber undir úrskurðarnefndina. Eins og fram hefur komið hefur úrskurðarnefndin þegar kveðið upp úrskurð í máli þessu og hefur sú kæruleið því verið tæmd og verður ekki lagður úrskurður á ný um deiluefni aðila, enda ekkert fram komið nýtt í málinu frá því að kærunefndin kvað upp úrskurð sinn.

Með vísan til framangreinds er málinu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð:

 

Máli A er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

  

Ása Ólafsdóttir,

formaður

  

Margrét Gunnlaugsdóttir                                          Gunnar Eydal

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta