Mál nr. 12/2013.
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík
Miðvikudaginn 6. nóvember 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 12/2013:
Kæra A
á ákvörðun
Vestmannaeyjabæjar
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 1. mars 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Vestmannaeyjabæjar, dags. 28. febrúar 2013, vegna umsóknar hans um fjárhagsaðstoð en ákveðið var að veita honum hálfa kvarðaaðstoð í stað fullrar kvarðaaðstoðar fyrir mars, apríl og maí 2013. Ákvörðunin byggðist á að kærandi hefði ekki sýnt fram á með óyggjandi hætti hvernig aðstæður hans væru og hvort hann hefði möguleika á að sækja sér launaða vinnu. Kærandi óskar eftir að fá greidda fulla fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið.
I. Málavextir og málsmeðferð
Kærandi var handtekinn í B árið 2009. Að sögn kæranda bíður hann endanlegrar dómsniðurstöðu á meðferðarstofnun og er gert að greiða kostnað vegna þess. Kærandi kveðst ekki hafa atvinnuleyfi og því engar tekjur. Kærandi á lögheimili í Vestmannaeyjabæ og hefur þegið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu frá lokum árs 2010. Kærandi sótti á ný um fjárhagsaðstoð hjá Vestmannaeyjabæ með umsókn, dags. 25. febrúar 2013. Af gögnum málsins má ráða að umsóknin hafi verið fyrir mars, apríl og maí 2013. Fjölskyldu- og tómstundaráð tók umsókn kæranda fyrir á fundi sínum þann 27. febrúar 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:
„Umsækjandi hefur verið á fullri kvarðaaðstoð hjá Vestmannaeyjabæ síðan í lok árs 2010. Reiknað var með í upphafi að um tímabundna aðstoð væri að ræða vegna aðstæðna hans. Mikilvægt er að meta framhaldið þar sem réttur hans er ekki skýr út frá reglum um fjárhagsaðstoð. Fyrir liggur bréf frá umsækjanda og staðfesting frá meðferðarheimili.
Fjölskyldu- og tómstundaráð hefur kynnt sér bréf sem fyrir liggur frá umsækjanda. Miðað við þær forsendur sem fyrir liggja tekur ráðið þá ákvörðun að lækka fjárhagsaðstoð til umsækjanda í hálfa kvarðaaðstoð, þ.e. 69.339 kr. og þá næstu þrjá mánuði.“
Niðurstaða fjölskyldu- og tómstundaráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 28. febrúar 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 1. mars 2013. Með bréfi, dags. 1. mars 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Vestmannaeyjabæjar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Vestmannaeyjabæjar barst með bréfi, dags. 20 mars 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 25 mars 2013, var bréf Vestmannaeyjabæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 2. apríl 2013. Kærandi óskaði upplýsinga um meðferð málsins með tölvupóstum þann 30. apríl 2013, 27. maí 2013 og 2. júlí 2013. Úrskurðarnefndin upplýsti kæranda um gang mála með tölvupóstum þann 3. maí 2013, 27. maí 2013, 20. júní 2013, 26. júní 2013 og 2. júlí 2013. Með tölvupósti þann 1. júní 2013 óskaði kærandi eftir því að nefndin hraðaði afgreiðslu málsins. Úrskurðarnefndin óskaði frekari gagna frá kæranda með tölvupósti þann 7. júní 2013 sem sýndu fram á aðstæður hans. Kærandi lagði fram frekari gögn með tölvupósti þann 25. júní 2013. Úrskurðarnefndin óskaði eftir frekari gögnum frá Vestmannaeyjabæ með bréfi, dags. 17. október 2013, og bárust þau með bréfi þann 22. október 2013. Með tölvupósti þann 29. október 2013 óskaði úrskurðarnefndin eftir því að Vestmannaeyjabær aflaði gagna um tekjur kæranda og bárust þær með tölvupósti þann sama dag.
II. Málsástæður kæranda
Kærandi greinir frá að hann hafi þörf fyrir fjárhagsaðstoð. Honum hafi gefist kostur á reynslulausn frá fangelsisvist og sótt meðferð á meðferðarstofnun í B en sé gert að greiða kostnað vegna meðferðarinnar. Hann geti ekki aflað sér tekna þar sem hann sé ekki með atvinnuleyfi. Auk þess geti hann ekki farið út fyrir fylkismörk án þess að brjóta skilorð. Kærandi greinir jafnframt frá því að fjölskylda hans hafi lagt til þá fjármuni sem hún geti sem skipti milljónum króna. Hún geti ekki staðið undir meiri kostnaði enda sé hún ekki fjársterk. Fjárhagsaðstoð sem hann hafi fengið hjálpi mikið til. Fái kærandi einungis hálfa fjárhagsaðstoð hafi hann 19.000 kr. til ráðstöfunar eftir greiðslu skuldar við bankann. Greiði hann ekki til bankans leiði það til vanskila og jafnvel gjaldþrots. Fjölskylda kæranda hafi verið í þeirri trú frá fyrstu umsókn hans um fjárhagsaðstoð að endalok málsins í B væru á næsta leiti. Gríðarlegur dráttur á málinu sé óskýrður. Helstu skýringar sem þau fái sé mikið álag á dómskerfið. Á meðan sitji kærandi án atvinnuleyfis og á skilorði án nokkurs möguleika til tekjuöflunar.
III. Sjónarmið Vestmannaeyjabæjar
Í greinargerð Vestmannaeyjabæjar kemur fram að kærandi hafi sótt fyrst um fjárhagsaðstoð þann 20. desember 2010. Hann hafi lagt fram skattskýrslu og yfirlit yfir útgjöld sem hafi verið samtals 50.000 kr. á mánuði. Fram hafi komið að kærandi væri að afplána dóm í B, hann hafi fengið tækifæri á að afplána á meðferðarstofnun en þurfi að greiða kostnað sjálfur. Hann hafi ekki atvinnuleyfi og engar tekjur sjálfur. Á skattframtali 2010 hafi komið fram að tekjur hans hafi verið 488.481 kr. samkvæmt stofni til útreiknings tekjuskatts og útsvars. Vestmannaeyjabær hafi talið að kærandi ætti ekki rétt til annarra tekna á Íslandi. Fram hafi komið í símtali við föður kæranda, þegar umsókn hafi borist, að horfur hafi verið á að kærandi myndi losna seinni part árs 2011. Því hafi verið litið svo á að um tímabundna aðstoð hafi verið að ræða vegna sérstakra erfiðleika. Ljóst hafi verið að tekjur kæranda hafi verið undir viðmiðunarmörkum um fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélaginu þar sem tekjumörk hafi þá verið 125.540 kr. á mánuði. Starfsmönnum hafi þótt réttur hans til fjárhagsaðstoðar óljós þar sem fjárhagsaðstoð beri að veita í eðlilegum tengslum við önnur úrræði félagsmálaráðs, svo sem ráðgjöf og leiðbeiningar, í samræmi við V. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. 1. gr. reglna fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar um fjárhagsaðstoð. Ekkert komi fram í reglunum um hvort heimilt sé að greiða föngum í öðru landi fjárhagsaðstoð. Því hafi verið samþykkt að greiða kæranda fulla kvarðaaðstoð þar sem líklegt hafi þótt að um tímabundna aðstoð yrði að ræða og á grundvelli mannréttindasjónarmiða hafi þótt eðlilegt að hann fengi lágmarksframfærslu vegna sérstakra erfiðleika.
Vestmannaeyjabær tekur fram að ákvarðanir um aðstoð hafi aldrei náð yfir lengra tímabil en þrjá mánuði eins og kveðið sé á um í 6. gr. reglna fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar um fjárhagsaðstoð. Kæranda hafi verið gerð grein fyrir því bæði bréfleiðis og í tölvupósti. Kærandi og umboðsmaður hans hafi sent inn upplýsingar á þriggja mánaða fresti sem hafi verið í formi staðfestingar frá meðferðarheimili og tölvupósts frá kæranda eða umboðsmanns hans.
Í greinargerð kemur jafnframt fram að þann 25. apríl 2012 hafi málið verið lagt fyrir fjölskyldu- og tómstundaráð þar sem ljóst væri að ekki væri um tímabundna aðstoða að ræða lengur. Í kjölfar niðurstöðu ráðsins hafi verið haft samband við velferðarráðuneytið og önnur sveitarfélög. Ljóst hafi þótt að engin önnur sveitarfélög greiddu fjárhagsaðstoð til fanga erlendis, þrátt fyrir að þeir afplánuðu utan fangelsis. Kærandi hafi þó áfram fengið fulla kvarðaaðstoð. Þann 27. febrúar 2013 hafi málið verið lagt að nýju fyrir fjölskyldu- og tómstundaráð vegna óljóss réttar kæranda og vegna þeirrar ástæðu að í upphafi hafi verið um tímabundna aðstoð að ræða. Á grundvelli 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hafi því verið tekin ákvörðun um að lækka grunnfjárhæð sem umsækjandi hafi fengið um helming í þrjá mánuði þar sem ljóst hafi þótt að umsækjandi hafi ekki getað sýnt fram á með óyggjandi hætti hvernig aðstæður hans væru og hvort hann hefði möguleika á að sækja sér launaða vinnu. Skannaðar yfirlýsingar hafi borist frá kæranda og umboðsmanni hans varðandi veru á meðferðarheimili erlendis. Ekki hafi verið hægt að fá nánari staðfestingu á því hvernig meðferðarheimilið væri, hverjir raunverulegir tekjumöguleikar kæranda væru né hvar mál hans væri statt í refsikerfinu þar ytra. Óljóst hafi þótt frá upphafi hvort sveitarfélaginu bæri að greiða fjárhagsaðstoð til fanga sem afpláni refsivist eða sæti farbanni í öðru landi.
IV. Niðurstaða
Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar um fjárhagsaðstoð frá 1. mars 2009, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Vestmannaeyjabæ hafi borið að greiða kæranda fulla fjárhagsaðstoð fyrir mars, apríl og maí 2013.
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála tekur fram að kærufrestur til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála vegna ákvarðana sveitarfélaga um sérstakar húsaleigubætur er þrír mánuðir frá því aðila máls barst vitneskja um ákvörðun, sbr. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 40/1991. Í 28. gr. reglna fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar um fjárhagsaðstoð er hins vegar kveðið á um fjögurra vikna kærufrest. Þá var kæranda einnig leiðbeint um fjögurra vikna kærufrest í bréfi sveitarfélagsins, dags. 27. febrúar 2013. Framangreindur annmarki hafði þó ekki áhrif í málinu. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Vestmannaeyjabæjar að gera breytingar á nefndum reglum svo þær samræmist ákvæði 1. mgr. 63. gr. laga nr. 40/1991.
Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.
Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð hjá Vestmannaeyjabæ með umsókn, dags. 25. febrúar 2013. Af gögnum málsins má ráða að umsóknin hafi verið fyrir mars, apríl og maí 2013. Vestmannaeyjabær samþykkti umsókn kæranda en ákveðið var að greiða kæranda hálfa kvarðaaðstoð. Kærandi hafði fengið greidda fulla fjárhagsaðstoð frá lokum árs 2010. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu var um tímabundna aðstoð að ræða vegna sérstakra erfiðleika. Þó hafi í upphafi verið vafi uppi um rétt kæranda til fjárhagsaðstoðar þar sem fjárhagsaðstoð skuli veita í eðlilegum tengslum við önnur úrræði og ekki komi fram í reglum sveitarfélagsins hvort greiða megi föngum fjárhagsaðstoð. Ákvörðun um að greiða kæranda hálfa kvarðaaðstoð byggðist á því að ekki væri um tímabundna aðstoð að ræða lengur. Þar sem kærandi hafi ekki getað sýnt fram á með óyggjandi hætti hvernig aðstæður hans væru og hvort hann hefði möguleika á að sækja sér launaða vinnu var grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar lækkuð um helming með vísan til 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Ekki hafi verið hægt að fá nánari staðfestingu á því hvernig meðferðarheimili það sem kærandi dvaldist á væri, hverjir raunverulegir tekjumöguleikar kæranda væru né hvar mál hans væri statt í refsikerfinu. Kærandi bendir á að hann hafi ekki atvinnuleyfi og geti því ekki aflað sér tekna. Hann hafi því mikla þörf fyrir fjárhagsaðstoð.
Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 40/1991 skal sveitarfélag sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá kemur fram í 2. mgr. 12. gr. sömu laga að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Með íbúa sveitarfélags er átt við hvern þann sem á lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna. Í 1. gr. reglna fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar um fjárhagsaðstoð kemur fram að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Fjárhagsaðstoð skuli veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði félagsmálaráðs, svo sem ráðgjöf og leiðbeiningar, í samræmi við V. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Jafnan skuli kanna til þrautar rétt umsækjanda til annarra greiðslna, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, svo og skuli kanna rétt til aðstoðar samkvæmt öðrum lögum, þar með talið lögum um námsstyrki.
Vegna tilvísunar Vestmannaeyjabæjar til vafa um heimild til að greiða föngum fjárhagsaðstoð tekur úrskurðarnefndin fram að í lögum nr. 40/1991 er engum sérstökum undanþáguákvæðum til að dreifa hvað varðar réttarstöðu fanga. Þvert á móti verður sú ályktun dregin af lögskýringargögnum að baki 13. gr. laganna að löggjafinn hafi beinlínis gert ráð fyrir því að fangar geti, eins og aðrir íbúar sveitarfélags, átt rétt til meðal annars fjárhagsaðstoðar á grundvelli laga nr. 40/1991, enda uppfylli þeir að öðru leyti þau skilyrði fyrir slíkri aðstoð sem fram koma í lögunum og reglum hlutaðeigandi sveitarfélags, sem settar eru á grundvelli 1. mgr. 21. gr. laganna. Í reglum fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar um fjárhagsaðstoð er ekki að finna nein frávik frá gildissviði reglnanna að því er varðar fanga. Við mat á umsókn fanga um fjárhagsaðstoð getur þó við einstaklingsbundið mat á högum og fjárhag viðkomandi þurft að taka tillit til þess hvort og þá að hvaða marki hann kann að njóta fjárhagslegrar aðstoðar frá fangelsisyfirvöldum eða með öðrum hætti á grundvelli annarra lagareglna. Slík aðstoð kann enda að hafa áhrif á mat sveitarfélagsins á þörfum viðkomandi fanga fyrir fjárhagsaðstoð. Úrskurðarnefndin bendir þó á að af gögnum málsins má ráða að kærandi sé ekki fangi í afplánun heldur dveljist hann á meðferðarheimili þar sem hann bíði endanlegrar niðurstöðu hjá dómstólum í B vegna ákæru á hendur honum.
Við mat á því hvort kærandi hafi átt rétt á fjárhagsaðstoð fyrir mars, apríl og maí 2013 verður að kanna hvort hann hafi uppfyllt skilyrði reglna fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar um fjárhagsaðstoð og laga um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.
Hin kærða ákvörðun byggðist meðal annars á því að ekki væri um tímabundna aðstoð að ræða lengur. Í máli þessu liggur fyrir að kærandi sótti upphaflega um fjárhagsaðstoð fyrir þrjá mánuði í desember 2010 og var umsókn hans samþykkt hjá Vestmannaeyjabæ með bréfi, dags. 10. janúar 2011. Kærandi hefur sótt um fjárhagsaðstoð á þriggja mánaða fresti frá þeim tíma. Í greinargerð Vestmannaeyjabæjar vegna kærumáls þessa hefur komið fram að um hafi verið að ræða tímabundna aðstoð vegna sérstakra erfiðleika. Með ákvörðun Vestmannaeyjabæjar var þó samþykkt að greiða kæranda mánaðarlegar greiðslur að fjárhæð 125.540 kr. á mánuði. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að líta verði svo á að um hefðbundna fjárhagsaðstoð hafi verið að ræða, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglnanna. Reglur Vestmannaeyjabæjar gera ekki ráð fyrir greiðslu tímabundinnar fjárhagsaðstoðar nema í þeim tilvikum að fólk þurfi á skyndilegri aðstoð að halda í dvalarsveitarfélagi, sbr. 4. gr., og á það ekki við í máli kæranda. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að Vestmannaeyjabæ hafi verið óheimilt að greiða kæranda einungis hálfa kvarðaaðstoð á þeim grundvelli að sveitarfélagið hafi talið að ekki væri lengur um tímabundna aðstoð að ræða.
Þá byggðist hin kærða ákvörðun á því að kærandi hafi ekki getað með óyggjandi hætti sýnt fram á hvort hann hefði möguleika á að sækja sér launaða vinnu. Fjárhagsaðstoð til hans hafi því verið lækkuð um helming á grundvelli 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Í 8. gr. reglnanna er kveðið á um gögn og upplýsingar sem leggja skal fram með umsókn um fjárhagsaðstoð. Í 4. mgr. 8. gr. kemur fram að þegar umsækjandi er atvinnulaus skal hann framvísa skráningarskírteini frá svæðisvinnumiðlun er staðfestir atvinnuleysi hans. Njóti umsækjandi réttar til atvinnuleysisbóta skal hann framvísa dagpeningavottorði. Hafi umsækjandi ekki fengið atvinnuleysisbætur vegna veikinda skal hann framvísa læknisvottorði. Hafi hann ekki skráð sig hjá svæðisvinnumiðlun, án viðhlítandi skýringa, hefur það áhrif á fjárhæð, sbr. 3. gr. þessara reglna.
Að sögn kæranda hefur hann ekki atvinnuleyfi og því tekjulaus enda stundi hann eingöngu sjálfboðavinnu. Kærandi hefur þó ekki lagt fram nein gögn sem sýna fram á atvinnuleysi hans önnur en staðfestingu meðferðarheimilis á dvöl hans þar. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að líta verði til þess að aðstæður kæranda eru afar sérstæðar. Kærandi hefur dvalið í B frá því hann var handtekinn þar þann 1. maí 2009. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi dvalið í fangelsi frá þeim tíma þar til 31. ágúst 2009. Þá liggur fyrir að hann hefur dvalið á meðferðarheimili frá 20. febrúar 2010 til a.m.k. 17. apríl 2012. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að í ljósi aðstæðna kæranda megi leiða líkur að því að hann hafi ekki fengið atvinnuleyfi í B. Þannig verði einnig að telja að hann hafi ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum þar í landi. Úrskurðarnefndin telur því að Vestmannaeyjabæ hafi verið óheimilt að lækka fjárhagsaðstoð til kæranda með tilvísun til 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð á þeim grundvelli að kærandi hafi ekki getað sýnt fram á hvort hann hefði möguleika á að sækja sér launaða vinnu.
Við ákvörðun á fjárhagsaðstoð skal grunnfjárþörf til framfærslu, sbr. 11. gr., lögð til grundvallar og frá henni dregnar heildartekjur sbr. 12. gr. Í ákvæði 12. gr. reglnanna segir að allar tekjur umsækjenda og maka ef við á, í þeim mánuði sem sótt er um og þrjá mánuði á undan séu taldar með við mat á fjárþörf. Mæðra- og feðralaun reiknast umsækjanda til tekna. Með tekjum er átt við allar tekjur og greiðslur til umsækjanda og maka, sem ekki eru sérstaklega til framfærslu barna, þ.e. atvinnutekjur, allar skattskyldar tekjur Tryggingastofnunar ríkisins, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur o.s.frv. Eigi umsækjandi rétt á atvinnuleysisbótum skal reikna atvinnuleysisbætur honum til tekna, hvort sem hann hefur stimplað sig eða ekki, nema framvísað sé læknisvottorði. Miða skal við heildartekjur áður en tekjuskattur hefur verið dreginn frá.
Í máli þessu liggur fyrir skattframtal 2010 vegna tekna kæranda árið 2009 og var á því byggt við afgreiðslu umsóknar kæranda. Úrskurðarnefndin gerir athugasemd við þá framkvæmd Vestmannaeyjabæjar enda kemur skýrt fram í 1. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð að við mat á fjárþörf skuli allar tekjur umsækjanda í þeim mánuði sem sótt er um og þrjá mánuði á undan taldar með og dregnar frá grunnfjárþörf til framfærslu. Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir mars, apríl og maí 2013 með umsókn, dags. 25. febrúar 2013. Við mat á fjárþörf kæranda bar því að telja með tekjur hans í nóvember 2012, desember 2012, janúar 2013 og febrúar 2013. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra er aflað var við meðferð kærumáls þessa voru tekjur kæranda 257.356 kr. í nóvember 2012, 69.339 kr. í desember 2012, 69.339 kr. í janúar 2013 og 208.017 kr. í febrúar 2013. Meðaltekjur kæranda á tímabilinu voru því 151.013 kr. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar skv. 1. mgr. 11. gr. reglnanna er 128.678 kr. Tekjur kæranda á viðmiðunartímabili skv. 1. mgr. 12. gr. reglnanna voru því hærri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki fullnægt skilyrðum reglna fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar um fjárhagsaðstoð og hafi því ekki átt rétt á fjárhagsaðstoð fyrir mars, apríl og maí 2013. Úrskurðarnefndin tekur fram að kærandi fékk greidda hálfa kvarðaaðstoð fyrir umrætt tímabil til framfærslu sinnar. Það er mat úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála að málskot til nefndarinnar leiði ekki til óhagstæðari niðurstöðu fyrir kæranda í máli þessu enda var um að ræða greiðslur honum til lífsviðurværis og framfærslu. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.
Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vestmannaeyjabæjar, dags. 28. febrúar 2013, greiðslu fjárhagsaðstoðar til A, er staðfest.
Bergþóra Ingólfsdóttir,
formaður
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir Gunnar Eydal