Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 453/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 453/2021

Fimmtudaginn 14. október 2021

A

gegn

Seltjarnarnesbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. september 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu sveitarfélagsins vegna greiðslu sérstakra húsnæðisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 2. september 2021 og vísaði til þess að hann fengi ekki greiddar sérstakar húsnæðisbætur. Hann væri búinn að senda sveitarfélaginu tölvupóst en fengi engin svör.   

Með bréfi, dags. 8. september 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir öllum gögnum málsins frá Seltjarnarnesbæ. Með bréfi sveitarfélagsins, dags. 16. september 2021, bárust upplýsingar og gögn vegna kærumálsins. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. september 2021, voru þau gögn send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Niðurstaða

Kærð er afgreiðsla Seltjarnarnesbæjar vegna greiðslu sérstakra húsnæðisbóta. Kærandi vísaði til þess í kæru sem hann sendi úrskurðarnefndinni 2. september 2021 að hann fengi ekki greiðslu frá sveitarfélaginu. Þá tók kærandi fram að hann hafi sent sveitarfélaginu tölvupóst en fengi engin svör. Í bréfi Seltjarnarnesbæjar til úrskurðarnefndarinnar kom fram að ekkert rof hafi orðið á greiðslum frá sveitarfélaginu á árinu 2021 og voru lögð fram gögn því til staðfestingar. Þá kom fram að kærandi hefði sent tölvupóst þann 2. september 2021 sem hafi verið svarað samdægurs. Afrit tölvupóstsins fylgdi en kærandi sagðist þar eiga eftir að fá sérstakar húsaleigubætur í mánuðinum eins og hann hefði fengið frá Húsbót. Í svari kom fram að sérstakur húsnæðisstuðningur hefði verið greiddur út og kærandi fengið 32.460 kr.

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Í 1. mgr. 64. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga kemur fram að úrskurðarnefndin fjalli meðal annars um málsmeðferð samkvæmt XVI. kafla laganna og hvort samþykkt þjónusta sé í samræmi við reglur viðkomandi sveitarstjórnar. Af framangreindu er ljóst að úrskurðarvald nefndarinnar er afmarkað við að fjalla um réttmæti tiltekinnar ákvörðunar eða ákvarðana sem teknar eru á grundvelli laga nr. 40/1991. Undantekningu frá þeirri meginreglu er að finna í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem mælt er fyrir um að heimilt sé að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Samkvæmt gögnum málsins lá ekki fyrir stjórnvaldsákvörðun í máli kæranda þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Þá er ekki að sjá að uppi sé ágreiningur í málinu. Með vísan til þess er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta