Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 432/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 432/2016

Fimmtudaginn 6. apríl 2017

A

gegn

Reykjanesbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 4. nóvember 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun Reykjanesbæjar, dags. 2. nóvember 2016, um synjun á umsókn hans um greiðslu fjárhagsaðstoðar samhliða námi á haustönn 2016 og ákvörðun sveitarfélagsins um að synja honum um greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir nóvember 2016.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi hefur þegið fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ með hléum frá maí 2011. Á árinu 2016 fékk kærandi greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins eða til 31. júlí 2016. Í ágúst 2016 lagði félagsráðgjafi kæranda inn umsókn til áfrýjunarnefndar velferðarráðs um að hann fengi að stunda nám á haustönn 2016 samhliða greiðslu fjárhagsaðstoðar. Umsóknin var tekin fyrir á fundi áfrýjunarnefndar 26. ágúst 2016 og kæranda tilkynnt um synjun með símtali sama dag en skriflega með bréfi, dags. 2. nóvember 2016. Í september og október 2016 fékk kærandi greidda skerta fjárhagsaðstoð en var synjað um fjárhagsaðstoð fyrir nóvember 2016 á þeirri forsendu að umsóknin samræmdist ekki reglum Reykjanesbæjar um fjárhagsaðstoð. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til áfrýjunarnefndar velferðarráðs sem staðfesti þá ákvörðun með bréfi, dags. 2. nóvember 2016.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 7. nóvember 2016. Með bréfi, dags. 9. nóvember 2016, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Reykjanesbæjar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjanesbæjar barst með bréfi, dags. 14. desember 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. desember 2016, var bréf Reykjanesbæjar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki. Úrskurðarnefndin óskaði eftir frekari gögnum frá Reykjanesbæ og bárust þau 14. mars 2017.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá aðstæðum sínum. Kærandi tekur fram að hann hafi farið í nám við B en það hafi verið hluti af hans endurhæfingu. Eftir vandamál sem hafi komið upp sumarið 2016 hafi félagsráðgjafi kæranda ekki viljað aðstoða hann við að sækja aftur um endurhæfingarlífeyri. Félagsráðgjafinn hafi jafnframt sagt honum að hann yrði að hætta í skóla en að fundin yrði fyrir hann einhver virkni. Kærandi hafi þá ákveðið að hætta ekki í námi og mæta í tvo áfanga sem hann hafi verið skráður í á haustönn 2016. Hann hafi ítrekað reynt að ná tali af félagsráðgjafanum en án árangurs. Í lok október 2016 hafi félagsráðgjafinn loks haft samband og þá tjáð kæranda að hann fengi ekki frekari fjárhagsaðstoð þar sem hann væri enn að mæta í skólann.

Kærandi bendir á að hann eigi ekki rétt á námslánum og ef hann hætti í námi sé líklegt að hann komi sér ekki af stað aftur. Kærandi telur að hann eigi rétt á fjárhagsaðstoð án skilyrða og rétt á félagslegu leiguhúsnæði þar sem hann geti ekki séð sér sjálfur fyrir húsnæði. Kærandi tekur fram að námið í B hafi gengið vonum framar en hann hafi lokið X önnum. Að mati kæranda sé námið eina lausnin til að byggja sig upp og verða sjálfstæður og vinnandi einstaklingur. Kærandi fer því fram á að sveitarfélagið aðstoði hann við að sækja um áframhaldandi endurhæfingarlífeyri og greiði honum fjárhagsaðstoð á meðan ásamt því að aðstoða hann við að fá félagslegt leiguhúsnæði.

III. Sjónarmið Reykjanesbæjar

Í greinargerð Reykjanesbæjar kemur fram að kærandi hafi fyrst þegið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu í maí 2011. Í ágúst 2013 hafi kærandi fengið aðstoð við að sækja um endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins og sú umsókn hafi verið samþykkt. Í maí 2015 hafi kærandi aftur þegið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu, eftir að síðasta endurhæfingartímabili hans hafi lokið. Þá hafi hann aftur fengið aðstoð við að sækja á ný um endurhæfingarlífeyri og sú umsókn hafi verið samþykkt til 31. júlí 2016. Í ágúst 2016 hafi kærandi á ný þegið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu og félagsráðgjafi hans hafi lagt inn umsókn um að kærandi fengi að stunda nám á haustönn 2016 við B. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjanesbæjar hafi synjað umsókninni með vísan til greinar 4.2.2. í reglum sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Að mati áfrýjunarnefndarinnar hefðu ekki legið fyrir nægar forsendur í ljósi nýrrar stöðu kæranda til að samþykkja áframhaldandi nám á fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Kærandi hafi námsgetu en mæting hans í skóla hafi verið ábótavant sem og mæting hans í sjálfboðastarf/starfsþjálfun sumarið 2016. Í ljósi þessa liggi ekki ljóst fyrir hvert markmið eða hver tilgangur kæranda sé með náminu.

Reykjanesbær tekur fram að við afgreiðslu umsóknar kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir nóvember 2016 hafi komið í ljós að hann hafi gefið upp rangar og villandi upplýsingar með umsóknum sínum um fjárhagsaðstoð í september og október 2016. Kærandi hafi þá haldið því fram að hann væri ekki í námi heldur að leita að virkniúrræði fyrir sig í samstarfi við félagsráðgjafa sinn. Í ljósi þeirra upplýsinga að kærandi stundaði enn nám hafi greiðslur fjárhagsaðstoðar til kæranda verið stöðvaðar, sbr. grein 4.6.6. í reglum sveitarfélagsins. Reykjanesbær bendir á að kærandi hafi ekki sótt um félagslegt húsnæði hjá sveitarfélaginu.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um synjun Reykjanesbæjar á umsókn kæranda um greiðslu fjárhagsaðstoðar samhliða námi á haustönn 2016 og ákvörðun sveitarfélagsins um að synja honum um greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir nóvember 2016. Auk þess hefur kærandi krafist þess fyrir úrskurðarnefndinni að Reykjanesbær aðstoði hann við að sækja um endurhæfingarlífeyri og greiði honum fjárhagsaðstoð á meðan ásamt því að aðstoða hann við að fá félagslegt leiguhúsnæði

Í upphafi telur úrskurðarnefndin ástæðu til að gera athugasemd við það að kæranda hafi verið tilkynnt um synjun á umsókn hans um greiðslu fjárhagsaðstoðar samhliða námi með símtali, en aðilum ber saman um að svo hafi verið. Ákvörðun sveitarfélags um að samþykkja eða synja umsókn um fjárhagsaðstoð er stjórnvaldsákvörðun og ber því að birta hana í samræmi við 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun skal hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Í grein 4.6.5. í reglum Reykjanesbæjar um fjárhagsaðstoð kemur fram að sé umsókn hafnað í heild eða að hluta skuli umsækjandi fá skriflegt svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti með vísan til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Þá segir að þegar um synjun sé að ræða skuli umsækjanda skriflega bent á rétt sinn til að vísa ákvörðun velferðarsviðs til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í grein 4.6.8. framangreindra reglna kemur fram að umsækjanda skuli kynnt afgreiðsla á erindi hans tryggilega og um leið skuli kynna honum rétt hans til að fara fram á að áfrýjunarnefnd velferðarráðs fjalli um umsóknina. Umsækjandi hafi að öðru jöfnu fjögurra vikna frest til að vísa máli sínu til áfrýjunarnefndar frá því honum barst vitneskja um ákvörðun afgreiðslufundar. Áfrýjunarnefnd skuli afgreiða umsókn svo fljótt sem unnt sé. Þá segir að afgreiðslu áfrýjunarnefndar skuli kynnt umækjanda tryggilega og um leið skuli honum kynntur réttur til málskots til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Úrskurðarnefndin leggur áherslu á að vitneskja málsaðila um efni stjórnvaldsákvörðunar er forsenda þess að hann hafi möguleika á því að taka afstöðu til hennar og haga ráðstöfunum sínum í samræmi við hana. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Reykjanesbæjar að gætt sé að framangreindu ákvæði stjórnsýslulaga og framangreindum reglum um fjárhagsaðstoð þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir hjá sveitarfélaginu. Beinir úrskurðarnefndin því einnig til Reykjanesbæjar að haga málsmeðferð sinni vegna umsókna einstaklinga um fjárhagsaðstoð framvegis í samræmi við framangreind sjónarmið.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Með hinni kærðu ákvörðun var umsókn kæranda um greiðslu fjárhagsaðstoðar samhliða námi á haustönn 2016 synjað með vísan til greinar 4.4.2. í reglum Reykjanesbæjar um fjárhagsaðstoð og umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir nóvember 2016 var synjað með vísan til greinar 4.6.6 reglnanna. Í grein 4.4.2. kemur fram að einstaklingar sem stundi nám sem sé lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna eigi ekki rétt á fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins. Aðrir námsmenn eigi ekki rétt á fjárhagsastoð til framfærslu. Þó sé áfrýjunarnefnd velferðarráðs heimilt að veita einstaklingi sem býr við erfiðar félagslegar aðstæður og hefur ekki lokið grunnskóla eða framhaldsskólanámi lán eða styrk til framfærslu, eina önn í senn, sé það liður í einstaklingsmiðaðri áætlun hjá ráðgjafa. Viðkomandi skuli skila mánaðarlegu yfirliti frá skóla um skólasókn og upplýsa ráðgjafa sinn um námsframvindu. Í lok hverrar annar skuli viðkomandi einnig skila inn staðfestingu frá skóla um námsárangur. Í grein 4.6.6. kemur fram að fjárhagsaðstoð veitt á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hendi þess sem aðstoðina fái sé endurkræf og geti félagsþjónustan endurkrafið viðkomandi um fjárhæðina samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Ef sannreynt sé að við vinnslu máls að upplýsingar sem umsækjandi hafi veitt séu rangar eða villandi stöðvist afgreiðsla umsóknarinnar.

Af hálfu Reykjanesbæjar hefur komið fram að ekki hefðu legið fyrir nægar forsendur til að samþykkja áframhaldandi nám á fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Mæting kæranda í skóla hafi verið ábótavant og ekki lægi ljóst fyrir hvert markmið eða hver tilgangur kæranda væri með náminu. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur ekkert komið fram í málinu sem gefur tilefni til að gera athugasemd við mat sveitarfélagsins á félagslegum aðstæðum kæranda. Kærandi uppfyllti því ekki skilyrði heimildarákvæðis 4.4.2. í reglum Reykjanesbæjar um fjárhagsaðstoð á haustönn 2016.

Kemur þá til skoðunar ákvörðun Reykjanesbæjar um að stöðva greiðslu fjárhagsaðstoðar til kæranda með vísan til greinar 4.6.6. í reglum sveitarfélagsins. Úrskurðarnefndin tekur fram að kæranda hafi verið ljóst í ágúst 2016 að synjað hafði verið beiðni hans um fjárhagsaðstoð samhliða námi á haustönn 2016. Hann hafi þá sótt um fjárhagsaðstoð á öðrum forsendum en engu að síður haldið áfram námi án þess að upplýsa sveitarfélagið um það. Með því veitti kærandi ekki fullnægjandi upplýsingar. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að Reykjanesbæ hafi verið heimilt að synja kæranda um greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir nóvember 2016.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun staðfest.

Hvað varðar beiðni kæranda þess efnis að Reykjanesbær aðstoði hann við að sækja um endurhæfingarlífeyri og greiði honum fjárhagsaðstoð á meðan ásamt því að aðstoða hann við að fá félagslegt leiguhúsnæði tekur úrskurðarnefndin fram að slík beiðni er ekki tæk til efnismeðferðar hjá nefndinni. Í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 40/1991 kemur fram að málsaðili geti skotið ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Til þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar þarf því að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er einungis að ræða hafi stjórnvald tekið ákvörðun um rétt eða skyldu tiltekins aðila í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að Reykjanesbær hafi tekið ákvörðun um framangreinda beiðni kæranda og verður þeim þætti kærunnar því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjanesbæjar, dags. 2. nóvember 2016, um að synja umsókn A, um greiðslu fjárhagsaðstoðar samhliða námi á haustönn 2016 og ákvörðun sveitarfélagsins um að synja honum um greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir nóvember 2016 er staðfest. Þeim hluta kærunnar er varðar beiðni um aðstoð er vísað frá úrskurðarnefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta