Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 480/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 480/2021

Fimmtudaginn 16. desember 2021

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 8. september 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 30. júní 2021, á umsókn hans um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. til 30. júní 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 19. maí 2021, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. maí til 30. júní 2021. Samþykkt var að greiða kæranda fjárhagsaðstoð fyrir maímánuð en með ákvörðun þjónustumiðstöðvar, dags. 23. júní 2021, var kæranda synjað um greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir tímabilið 1. til 30. júní 2021 með vísan til 12. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti þá synjun með ákvörðun, dags. 30. júní 2021.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 8. september 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. september 2021, var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst úrskurðarnefndinni 5. október 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. október 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda 9. nóvember 2021 og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. nóvember 2021. Athugasemdir bárust frá Reykjavíkurborg 26. nóvember 2021 og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. nóvember 2021. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 14. desember 2021 og voru þær kynntar Reykjavíkurborg með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. desember 2021.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hin kærða ákvörðun sé ekki rétt þar sem hann eigi engar eignir og hafi enga innkomu aðra en fjárhagsaðstoð sem hann hafi þegið frá Reykjavíkurborg í eitt ár. Kæranda hafi verið tjáð að hann hafi átt of mikinn pening á bankareikningi sínum í maí 2021. Sá peningur sé eingöngu kominn frá Reykjavíkurborg, afgangur af fjárhagsaðstoð þar sem hann hafi lifað mjög spart til að greiða til baka skuld vegna ferðar sinnar til Íslands sem hælisleitandi. Kærandi hafi haft eitt ár frá komunni til Íslands til að greiða þá skuld til baka, að öðrum kosti hefði fjölskylda hans þurft að þola alvarlegar refsingar. Þess vegna hafi hann lifað mjög sparlega og safnað til að greiða skuldina. Kærandi ítreki að hann hafi ekki fengið neina aðra innkomu en fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg og eigi engar eignir. Kærandi telji að það veiti honum rétt á fjárhagsaðstoð eins og hverjum öðrum íbúa Reykjavíkurborgar án innkomu og eigna. Annað væri mismunun þar sem íbúum Reykjavíkurborgar án innkomu og eigna sé frjálst að eyða þeim peningum sem þeir fái frá sveitarfélaginu á þann hátt sem þeir óski, svo lengi sem þeir fái ekki aðra innkomu, til dæmis frá vinnuveitanda, og eigi ekki uppgefnar/óuppgefnar eignir.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að það skorti lagastoð fyrir hinni kærðu ákvörðun og að hún sé byggð á rangtúlkun á gildandi lögum og reglum Reykjavíkurborgar til þess að styðja við synjun á fjárhagsaðstoð. Til þess að synjun á fjárhagsaðstoð sé lögmæt þurfi Reykjavíkurborg ekki aðeins að sýna fram á að synjun byggi á skýrum og óumdeilanlegum lagagrundvelli heldur einnig að staðreyndir málsins komi óumdeilanlega í veg fyrir umsóttar bætur. Það hafi Reykjavíkurborg ekki gert. Þess í stað teygi borgin lög og reglur eftir eigin hentugleika sem valdi rangtúlkun á staðreyndum málsins. Þá taki Reykjavíkurborg ekki á því mikilvæga atriði að tekju- og eignalausum íbúum sveitarfélagsins sé frjálst að eyða veittri fjárhagsaðstoð með hvaða lögmæta hætti sem þeir kjósi, svo framarlega sem þeir fái engar aðrar tekjur eða eigi engar eignir. Einnig að koma ekki eins fram við alla íbúa Reykjavíkur sé mismunun sem fari gegn grundvallarreglum borgarinnar sem og þjóð landsins.

Kærandi ítreki að hann hafi eingöngu þegið fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg og að það sem hafi verið á bankareikningi hans hafi eingöngu verið fjárhagsaðstoð frá borginni sem hann hafi safnað með því að lifa mjög sparsamlega til þess að greiða skuld. Skilgreining eigna sé á þann veg að um sé að ræða eign eða peninga án skulda. Peningar á bankabók kæranda geti ekki talist eign í þeim skilningi. Reykjavíkurborg hafi ekki hafnað því að kærandi hafi ekki haft neinar tekjur og/eða átt eignir þegar hann hafi fyrst sótt um fjárhagsaðstoð í maí 2020. Kærandi hafi frá þeim tíma sótt um fjárhagsaðstoð og ekki haft neinar tekjur. Reykjavíkurborg geti ekki mismunað umsækjanda á þeim grundvelli að viðkomandi lifi sparsamlega. Kærandi geri athugasemd við það sem fram komi í greinargerð fyrir áfrýjunarnefnd, dags. 24. júní 2021. Um villandi upplýsingar sé að ræða þar sem þær eigi ekki við um allt árið sem kærandi hafi safnað pening. Í fyrsta lagi hafi hann greitt mun lægri húsaleigu þar til í lok mars 2021. Frá þeim tíma hafi kærandi varla getað lagt til hliðar af greiddri fjárhagsaðstoð. Í öðru lagi hafi kærandi ekki greitt 35.000 kr. á mánuði í símakostnað. Um hafi verið að ræða útistandandi reikning vegna uppsafnaðra skulda.

Tilvísun Reykjavíkurborgar um að kærandi hafi ekki sannað að um uppsafnaða fjárhagsaðstoð sé að ræða sé einfaldlega ósönn. Kærandi hafi ítrekað afhent Reykjavíkurborg öll umbeðin gögn, þar á meðal sönnun þess að allar innborganir á bankareikning hans komi frá Reykjavíkurborg. Þar fyrir utan sé það Reykjavíkurborg sem beri sönnunarbyrðina fyrir því að synjun á fjárhagsaðstoð sé réttmæt, með gögnum sem óskað hafi verið eftir frá kæranda. Borgin geti ekki fært sönnunarbyrðina yfir á kæranda. Óumdeilt sé að skilgreining á tekjum í ákvæði 12. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð útiloki allar tekjur sem komi frá borginni sjálfri. Að öðrum kosti þyrfti að taka til greina tekjur frá Reykjavíkurborg við ákvörðun á fjárhagsaðstoð sem myndi þýða að enginn umsækjandi myndi fá sömu upphæð fjárhagsaðstoðar frá Reykjavíkurborg í hverjum mánuði. Reykjavíkurborg viðurkenni að í 12. gr. sé átt við allar aðrar tekjur en fjárhagsaðstoð með því að greiða kæranda sömu fjárhæð í fjárhagsaðstoð frá maí 2020 og þar til umsókn hans hafi verið synjað í júní 2021. Að sama skapi geti skilgreiningin á eignum ekki átt við peninga sem eingöngu komi frá Reykjavíkurborg. Það mismuni einstaklingum sem lifi sparsamlega og geti lagt fyrir. Í öllum tilvikum útiloki skilgreining á eignum allar skuldir. Reykjavíkurborg neiti því ekki að í júní 2021 hafi inneign á bankareikningi kæranda lækkað, nánast tæmst. Þá taki kærandi fram að Reykjavíkurborg beri að upplýsa umsækjendur um fjárhagsaðstoð fyrir fram um öll þau skilyrði sem umsækjendur þurfi að uppfylla til að fá þær bætur sem óskað sé eftir. Kærandi hafi þegið fjárhagsaðstoð í meira en ár, án þess að hafa verið upplýstur um að honum væri ekki frjálst að eyða eða ekki eyða peningnum eins og honum sýndist eða að honum væri ekki frjálst að lifa eins sparlega og hann óskaði. Einu skilyrðin sem kæranda hafi verið tjáð að hann þyrfti að uppfylla væru þau að sækja mánaðarlega um fjárhagsaðstoð, sýna fram á að hann hefði sótt um að minnsta kosti fjögur störf í hverjum mánuði og tilkynna Reykjavíkurborg um vinnu eða tekjur. Reykjavíkurborg neiti því ekki að kærandi hafi uppfyllt öll þau skilyrði. Reykjavíkurborg hafi réttilega tekið fram að kærandi hafi verið virkur í atvinnuleit þann tíma sem hann hafi þegið fjárhagsaðstoð og hafi farið á íslenskunámskeið. Reykjavíkurborg geti ekki bætt við skilyrðum sem kæranda sé ekki kunnugt um. Það eitt og sér gefi tilefni til að snúa hinni kærðu ákvörðun við.

Í athugasemdum kæranda, dags. 14. desember 2021, vísar kærandi til þess að úrskurðarnefnd velferðarmála ætti ekki að taka til greina athugasemdir Reykjavíkurborgar þar sem þær séu of seint fram komnar. Athugasemdir Reykjavíkurborgar hafi borist eftir þann frest sem veittur hafi verið af úrskurðarnefndinni. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi veitt Reykjavíkurborg 14 daga frest til skila á athugasemdum í bréfi, dags. 11. nóvember 2021. Athugasemdir Reykjavíkurborgar hafi borist 26. nóvember 2021.

Reykjavíkurborg hafi enn fremur brotið lagaregluna um „einn bita af eplinu“ í athugasemdum sínum þann 26. nóvember 2021 þegar Reykjavíkurborg vísi ekki lengur í upphaflegar staðhæfingar og lagagrundvöll heldur setji þess í stað fram nýjar staðhæfingar og nýjan lagagrundvöll. Eftir að kærandi hafi sýnt fram á í greinargerð þann 5. október 2021 að upphaflegum staðhæfingum og meintum lagastoðum sem Reykjavíkurborg hafi vísað til væri ábótavant, hafi sveitarfélagið skipt yfir í nýjar staðhæfingar og lagastoðir. Í greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 5. október 2021, hafi sveitarfélagið vísað í 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg til stuðnings synjun bóta til kæranda. Eftir að kærandi hafi vísað lagagreininni á bug í athugasemdum sínum þann 9. nóvember 2021 hafi Reykjavíkurborg breytt lagatilvísunum sínum í athugasemdum, dags. 26. nóvember 2021. Slíkur viðsnúningur sé í andstöðu við lagaregluna um „einn bita af eplinu“ sem kveði á um það að öll lagaleg rök sem ekki séu færð fram í upphafi sé vísað frá en slíkt sé til að koma í veg fyrir að aðilar breyti staðhæfingum sínum endalaust. Þar að auki skaði sá aðili sem brjóti regluna um „einn bita af eplinu“ gagnaðila með því að draga málsmeðferðina að eilífu og krefja hann um andsvör sem ættu að hafa komið fram fyrr í ferlinu. Brot Reykjavíkurborgar á reglunni kalli á að úrskurðarnefnd vísi frá athugasemdum Reykjavíkurborgar.

Reykjavíkurborg víki frá fyrri fullyrðingu sinni um að rétt hafi verið að neita kæranda um bætur á grundvelli þeirrar fjárhæðar sem kærandi hafi haft á reikningi sínum, jafnvel þó að umrædd fjárhæð hafi eingöngu verið tilkomin vegna bóta sem kærandi hafi fengið, en leggi nú fram beiðni um að kærandi leggi fram frekari gögn. Reykjavíkurborg hafi ítrekað fullyrt að það fé sem kærandi hafi átt á bankareikningi sínum hafi gefið tilefni til að synja kæranda um bætur á grundvelli laga og reglna Reykjavíkurborgar. Eftir að kærandi hafi sýnt fram á að engar af þeim reglum eða lögum Reykjavíkurborgar réttlæti synjun bóta ef uppsafnað fé sé tilkomið vegna bóta sem bótaþegi hafi fengið, þá breyti sveitarfélagið röksemdarfærslu sinni, þ.e. að deila um það hvort fé á reikningi kæranda sé tilkomið vegna bóta sem kærandi hafi fengið. Beiðni Reykjavíkurborgar í miðri málsmeðferð um gögn frá kæranda sem sýni fram á að fjárhæð á reikningi kæranda sé tilkomin vegna bóta, sé algjörlega óásættanleg þar sem hún brjóti í bága við þær meginreglur sem gildi um kæruferli. Það ferli sé þannig að úrskurðað sé á grundvelli fyrirliggjandi gagna, þ.e. hvort hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á réttum lagagrundvelli. Reykjavíkurborg geti ekki óskað eftir gögnum á meðan á kæruferli standi heldur hefði átt að óska eftir þeim áður en umsókn kæranda hafi verið synjað þann 23. júní 2021. Áður en umsókn kæranda um bætur hafi verið synjað hafi Reykjavíkurborg óskað eftir öllum gögnum frá kæranda sem kærandi hafi lagt fram. Með því að óska eftir frekari gögnum í miðju kæruferli brjóti Reykjavíkurborg gegn framangreindum meginreglum og tefji málsmeðferðina á óeðlilegan hátt og beini athyglinni frá þeirri spurningu sem ætti að svara, þ.e. hvort Reykjavíkurborg hafi tekist að sanna grundvöll hinnar kærðu ákvörðunar. Þegar af þeirri ástæðu ætti úrskurðarnefnd velferðarmála að snúa við ákvörðun Reykjavíkurborgar um synjun bóta til kæranda.

Í athugasemdum, dags. 26. nóvember 2021, haldi Reykjavíkurborg því fram að kæranda hafi borið skylda til að láta sveitarfélaginu í té gögn sem færðu sönnur á það að fé á reikningi kæranda væri fé sem safnað hafi verið af bótum frá Reykjavíkurborg yfir ákveðinn tíma. Kærandi telji það ekki eiga við rök að styðjast, honum hafi ekki borið skylda til þess að láta Reykjavíkurborg í té slík gögn. Til að sækja um bætur hjá Reykjavíkurborg þurfi einstaklingur að fylla út spurningalista og leggja fram gögn sem sveitarfélagið óski eftir. Reykjavíkurborg beri skyldu til að óska eftir gögnum sem sveitarfélagið telji skipta máli áður en ákvörðun sé tekin um umsókn um bætur en ekki eftir synjun. Reykjavíkurborg geti ekki velt slíkri skyldu yfir á kæranda og krafið hann um að velta því fyrir sér hvað sveitarfélagið telji skipta máli fyrir ákvörðunartöku. Reykjavíkurborg mótmæli ekki þeirri staðhæfingu að kærandi hafi lagt öll þau gögn sem sveitarfélagið hafi óskað eftir vegna umsóknar hans. Einungis þau gögn og svör kæranda við spurningalistanum ættu að skipta máli varðandi kæru hans til úrskurðarnefndarinnar.

Jafnvel þó að úrskurðarnefnd velferðarmála myndi heimila athugasemdir Reykjavíkurborgar, dags. 26. nóvember 2021, ætti úrskurðarnefndin að krefjast þess að Reykjavíkurborg legði fram allan lagatexta þeirra nýju lagaákvæða sem sveitarfélagið vísi til svo að kærandi hafi sanngjarnt tækifæri til að svara þeim að fullu. Kærandi hafi ekki aðgang að þessum lagatextum.

Að öllu framangreindu virtu óski kærandi eftir því að úrskurðarnefnd velferðarmála snúi hinni kærðu ákvörðun Reykjavíkurborgar við.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé einhleypur og barnlaus flóttamaður. Hann hafi fengið stöðu um alþjóðlega vernd þann 22. maí 2020 og hafi þegið fjárhagsaðstoð frá því tímamarki. Kærandi sé í virkri atvinnuleit og hafi sótt íslenskunámskeið. Kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. maí til 30. júní 2021 með umsókn, dagsettri 19. maí 2021. Honum hafi verið synjað um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. júní til 30. júní 2021 með bréfi, dagsettu 23. júní 2021. Synjunin hafi verið byggð á þeim grunni að hann hafi átt inneign á bankareikningi, alls 1.379.607 kr., í byrjun maímánaðar 2021 sem samræmdist ekki 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar. Þegar það hafi komið í ljós hafi verið búið að greiða honum fjárhagsaðstoð vegna tímabilsins 1. maí til 31. maí 2021.

Tekið er fram að samkvæmt 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga skuli sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er meti þörf og ákveði fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veiti þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilji veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga sé mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veiti. Núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi tekið gildi 1. apríl 2021.

Litið sé svo á að fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sé neyðaraðstoð sem ekki beri að veita nema engar aðrar bjargir séu fyrir hendi. Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi fram að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991. Sú meginregla gildi að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð ef hann geti ekki framfleytt sér sjálfur. Umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð og 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.

Í III. kafla reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavík sé að finna ákvæði sem lúti að rétti til fjárhagsaðstoðar. Við mat á því hvort umsækjandi geti átt rétt til fjárhagsaðstoðar samkvæmt reglunum skuli meðal annars horft til 12. gr. reglnanna sem kveði á um hvernig skuli litið til tekna og eigna umsækjanda. Í 1. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg segi:

„Með tekjum er átt við allar tekjur einstaklings/maka sem ekki eru sérstaklega til framfærslu barna, þ.e. atvinnutekjur, allar skattskyldar tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur og fl.“

Í 2. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg segi:

„Allar tekjur einstaklingsins/maka, í þeim mánuði sem sótt er um og mánuðinn á undan, aðrar en greiðslur vegna barna og húsaleigubætur/vaxtabætur, koma til frádráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar. Mæðra- og feðralaun reiknast umsækjanda til tekna. Með tekjum er hér átt við allar tekjur einstaklings/maka sem ekki eru sérstaklega til framfærslu barna, þ.e. atvinnutekjur, allar skattskyldar tekjur TR, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur o.s.frv. Eigi umsækjandi rétt á atvinnuleysisbótum, skal reikna atvinnuleysisbætur honum til tekna, hvort sem hann hefur skilað minnisblaði atvinnuleitanda eða ekki nema framvísað sé læknisvottorði.“

Í 7. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg segi:

„Eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur, eignir umfram íbúðarhúsnæði til eigin nota og eina bifreið, eða hafi hann nýlega selt eignir sínar, skal honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða, þó að tekjur hans séu lægri en grunnfjárhæð. Ef umsækjandi, maki hans eða sambýlisaðili, á eignir sem nýtast geta til framfærslu á hann ekki rétt á fjárhagsaðstoð“

Óumdeilt sé að kærandi hafi átt 1.379.607 kr. inneign í banka í byrjun maí 2021 sem hafi orðið til þess að honum hafi verið synjað um fjárhagsaðstoð með bréfi, dagsettu 23. júní 2021. Þann 27. maí 2021 hafi kærandi tekið út 999.850 kr. í erlendum gjaldeyri. Þá hafi hann tekið út í erlendum gjaldeyri 299.744 kr. þann 21. júní 2021. Kærandi haldi því fram að hann hafi lifað mjög spart og um sé að ræða uppsafnaðar eftirstöðvar af fjárhagsaðstoð frá upphafi.

Kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á að um uppsafnaða fjárhagstaðstoð sé að ræða. Hann hafi fengið greidda fjárhagsaðstoð mánaðarlega að fjárhæð 179.026 kr. í um það bil eitt ár þegar þessi fjárhæð, 1.379.607 kr. sé inni á reikningi hans í byrjun maí 2021. Að frádregnum skatti hafi kærandi fengið greiddar 173.638 kr. mánaðarlega. Hann hafi greitt 110.000 kr. í leigu og 35.000 kr. í símakostnað og net, eða alls 145.000 kr. mánaðarlega. Kærandi hafi því verið með 28.638 kr. aflögu mánaðarlega og hafi því ekki getað safnað upp svo miklum fjármunum með þeim hætti sem hann haldi fram.

Ítrekuð sé sú meginregla að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð ef hann geti ekki framfleytt sér sjálfur en umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar og 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi áfrýjunarnefnd velferðarráðs talið ljóst að kærandi hefði undir höndum fjármuni sem honum bæri að nýta sér til framfærslu áður en leitað væri eftir fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi því talið rétt að synja bæri um fjárhagsaðstoð á grundvelli 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð og staðfest synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar á fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið [1. til 30. júní 2021].

Samkvæmt framansögðu sé ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991.

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar er ítrekað að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á að þeir fjármunir sem hann hafi átt inn á banka í byrjun maí 2020 séu uppsöfnuð fjárhagstaðstoð. Hann hafi fengið greidda fjárhagsaðstoð mánaðarlega að fjárhæð 179.026 kr. kr. í um það bil eitt ár þegar þessi fjárhæð, 1.379.607 kr., sé inni á reikningi hans í byrjun maí 2021. Reykjavíkurborg óski eftir því að kærandi leggi fram gögn til sönnunar á því að um uppsafnaða fjárhagsaðstoð sé að ræða frá Reykjavíkurborg. Slík gögn geti meðal annars verið yfirlit af bankareikningi aftur í tímann og reikningar vegna síma- og netkostnaðar, svo dæmi sé tekið.

Takist slík sönnun ekki telji áfrýjunarnefnd velferðarráðs ljóst, með hliðsjón af öllu framansögðu og því sem fram komi í greinargerð dagsettri 5. október 2021, að kærandi hafi haft undir höndum fjármuni sem honum hafi borið að nýta sér til framfærslu áður en leitað væri eftir fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi, sbr. 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar og 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. til 30. júní 2021. Í athugasemdum kæranda frá 14. desember 2021 er farið fram á að úrskurðarnefnd velferðarmála vísi frá athugasemdum Reykjavíkurborgar frá 26. nóvember 2021, annars vegar þar sem þær hafi borist eftir þann frest sem úrskurðarnefndin veitti og hins vegar á þeirri forsendu að borgin hafi þar sett fram nýjar staðhæfingar og nýjan lagagrundvöll. Úrskurðarnefndin tekur fram að þrátt fyrir að athugasemdir Reykjavíkurborgar hafi borist degi eftir veittan frest og að þar sé að finna nýjar málsástæður leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að þeim beri að vísa frá. Á nefndinni hvílir skylda til að upplýsa mál áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og að gæta andmælaréttar, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Í því felst að afla afstöðu málsaðila og gefa þeim kost á að tjá sig um framkomin gögn.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um lagagrundvöll fjárhagsaðstoðar. Þar kemur fram í 1. mgr. að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Samkvæmt 3. gr. reglnanna skal við ákvörðun á fjárhagsaðstoð leggja til grundvallar grunnfjárþörf til framfærslu og frá henni dregnar heildartekjur. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. reglnanna getur grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings 18 ára og eldri sem rekur eigið heimili numið allt að 212.694 kr. á mánuði. Í 7. mgr. 12. gr. reglnanna kemur fram að eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur, eignir umfram íbúðarhúsnæði til eigin nota og eina bifreið, eða hafi hann nýlega selt eignir sínar, skuli honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða þó að tekjur hans séu lægri en grunnfjárhæð. Ef umsækjandi, maki hans eða sambýlisaðili eigi eignir sem nýst geta til framfærslu eigi hann ekki rétt á fjárhagsaðstoð.

Reglur Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð ganga út frá því að allar eignir, aðrar en íbúðarhúsnæði til eigin nota og bifreið, sé eðlilegt að nota sér til framfærslu áður en fengin er fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Fjárhagsaðstoðin er þannig neyðarúrræði fyrir þá sem hafa ekki aðgang að fjármunum sér til framfærslu. Sú regla á við um alla þá sem sækja um fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg og því bendir ekkert til annars en að jafnræðis hafi verið gætt.

Samkvæmt gögnum málsins átti kærandi 1.379.607 kr. á bankareikningi í byrjun maí 2021. Þann 27. maí tók kærandi út 999.850 kr. og stóðu því eftir 379.757 kr. á reikningi hans í lok maí 2021 sem er töluvert yfir framangreindri grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar. Að mati úrskurðarnefndarinnar var um eign að ræða sem kæranda bar að nýta sér til framfærslu í júní 2021 áður en til fjárhagsaðstoðar kæmi frá sveitarfélaginu. Með vísan til þess er synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. til 30. júní 2021 staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 30. júní 2021, um synjun á umsókn A um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. til 30. júní 2021, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta