Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 70/2011

Miðvikudaginn 22. febrúar 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 70/2011:

A

gegn

velferðarráði Reykjavíkurborgar

 

og kveðinn upp svohljóðandi  

ÚRSKURÐUR

Með kæru B og C, fyrir hönd dóttur þeirra, A,  dags. 6. júní 2011, var skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 8. mars 2011. Með þeirri ákvörðun staðfesti velferðarráðið synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um persónulega aðstoð gegnum auknar beingreiðslur/þjónustusamning þar sem umrædd umsókn félli ekki að reglum um stuðningsþjónustu í Reykjavík og reglum um félagslega heimaþjónustu í Reykjavík.

Dóttir kærenda er átján ára gömul fötluð stúlka. Hún var vegna fötlunar sinnar með þjónustusamning við Reykjavíkurborg vegna heimaþjónustu og liðveislu. Þá var hún enn fremur með þjónustusamning við Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík um stuðningsfjölskylduþjónustu. Kærendur krefjast þess að synjun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 8. mars 2011, um að fá samþykktar auknar greiðslur vegna búsetu í íbúð, verði fell úr gildi og að fallist verði á umsókn kærenda um auknar greiðslur.

Á meðan málið var til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, eða þann 22. desember 2011, var gerður þjónustusamningur við dóttur kærenda sem kveður á um greiðslur að fjárhæð 1.119.000 kr. á mánuði og felur sá samningur í sér greiðslur vegna liðveislu, frekari liðveislu og heimaþjónustu auk þess sem tekinn er inn í samninginn kostnaður vegna búsetuþjónustu. Hefur af hálfu Reykjavíkurborgar því verið gengið að kröfum kærenda, en þau halda kröfu sinni eigi að síður til streitu fyrir kærunefndinni.

Umsókn kærenda um persónulega aðstoð fyrir A gegnum auknar beingreiðslur/þjónustusamning, dags. 12. ágúst 2010, var send til Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra í Reykjavík og þjónustumiðstöðvar D. Svæðisskrifstofan var lögð niður þann 1. janúar 2011 með lögum nr. 152/2010 um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, með áorðnum breytingum. Öll verkefni svæðisskrifstofunnar voru í kjölfarið flutt til Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og féll afgreiðsla og meðferð umsóknar kærenda eftir það undir valdsvið Velferðarsviðsins.

 

I. Málavextir.

A er langveik, hún er hreyfihömluð, með þroskaskerðingu og þráhyggju. Hún þarfnast mikillar aðstoðar við flestar athafnir daglegs lífs. Stúlkan notar göngugrind og hjólastól til þess að komast um. Hún býr í íbúð á neðri hæð húss foreldra sinna, er framhaldsskólanemi og leggur einnig stund á tómstundir og félagslíf. Kærendur benda á að aðstæður fjölskyldunnar hafi breyst á síðustu tveimur árum vegna alvarlegra veikinda beggja foreldra A.

Með bréfi, dags. 12. ágúst 2010, til Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík og Reykjavíkurborgar óskuðu kærendur eftir því, fyrir hönd dóttur sinnar, að henni yrði veitt persónuleg aðstoð allan sólarhringinn í gegnum beingreiðslur/þjónustusamning. Fyrir þann tíma höfðu kærendur verið með þjónustusamning við þjónustumiðstöð D í tvö ár vegna heimaþjónustu og liðveislu. Þann 1. september 2010 gerði þjónustumiðstöð á ný samning við kærendur sem hljóðaði á um 30 klukkustundur í liðveislu á mánuði og 40 klukkustundir í heimaþjónustu á mánuði og var sú aðstoð metin til 161.803 kr. á mánuði. Á sama tíma var einnig í gildi samningur við Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík vegna stuðningsfjölskyldu að fjárhæð 270.357 kr. á mánuði.

Umsókn kærenda hjá þjónustumiðstöð D frá 12. ágúst 2010 um stuðningsþjónustu gegnum auknar beingreiðslur/þjónustusamning var synjað þann 17. nóvember 2010. Kærendur kærðu þá ákvörðun til velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem staðfesti hina kærðu ákvörðun þann 8. mars 2011. Kærendur kærðu synjun velferðarráðs til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 6. júní 2011, eins og fram hefur komið.

Með bréfi kærenda, dags. 24 ágúst 2011, lögðu þau fram, til samanburðar, samning sem Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík gerði þann 30. júní 2010 við annan fatlaðan einstakling. Samkvæmt þeim samningi voru greiddar 1.045.051 kr. á mánuði til þess að standa straum af kostnaði þess einstaklings í eigin íbúð. Þá er þar mælt fyrir um að veita skyldi liðveislu við athafnir daglegs lífs, á vinnustað og á heimili, þ.m.t. við persónulega umhirðu, félagslegan stuðning og aðstoð við að rjúfa félagslega einangrun.

 

II. Málsástæður kærenda.

Af hálfu kærenda kemur fram að hin kærða ákvörðun brjóti gegn 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Bent er á að löggjafinn hafi útfært almennan rétt fatlaðs fólks á þjónustu ríkis og sveitarfélaga í lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks. Þá er tekið fram að hinn 30. mars 2007 hafi Ísland gerst aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Með aðild að samningnum hafi Ísland lýst því yfir að það muni virða meðal annars markmið hans, en það sé að stuðla að því að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi og að auka virðingu við meðfæddri göfgi þess. Kærendur byggja á því að dóttir þeirra eigi rétt á þjónustu kærða vegna fötlunar sinnar og að sá réttur hennar njóti stjórnarskrárverndar. Synjun kærða brjóti gegn þessum rétti hennar og muni hafa þær afleiðingar í för með sér að daglegt skipulag hennar muni fara úr skorðum, en það muni valda henni miklu óöryggi í daglegu lífi.

Kærendur benda á að lögum um málefni fatlaðra hafi verið breytt með lögum nr. 152/2010. Í þeirri breytingu hafi meðal annars falist að samþykktar hafi verið nýjar efnisreglur sem varði hagsmuni dóttur þeirra. Sé vísað annars vegar til nýrrar 2. mgr. 1. gr. laga nr. 59/1992, sbr. 1. gr. laga nr. 152/2010, þar sem kveðið sé á um að við framkvæmd laga um málefni fatlaðra skuli tekið mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk, og hins vegar til IV. ákvæðis til bráðabirgða, en þar sé mælt fyrir um notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk. Kærendur byggja á því að þessi nýju lagaákvæði hafi bætt réttarstöðu fatlaðs fólks. Þessi lagabreyting sem var samþykkt áður en hin kærða ákvörðun var tekin hafi leitt til þess að kalla hefði átt eftir upplýsingum um hagi dóttur þeirra og sjónarmiðum kærenda hvað þessa nýju breytingu varðar, þ.m.t. afstöðu þeirra til réttaráhrifa hennar. Það hafi ekki verið gert, en það feli í sér brot gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Kærendur telja að ákvörðun um synjun brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar. Þau benda á að þau hafi vitneskju um að önnur tilraunaverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð hafi verið sett á laggirnar fyrir gildistöku laga nr. 152/2010 og að þessi tilraunaverkefni hafi fengið fjárgreiðslur eftir að nýjar efnisreglur laganna um notendastýrða persónulega aðstoð hafi öðlast gildi. Að mati kærenda skýtur það skökku við að þeirra tilraunaverkefni, sem hafi hafist fyrir gildistöku laga nr. 152/2010, hafi verið synjað um auknar greiðslur eftir gildistöku laganna. Kærendur telja að framangreint feli í sér brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar og vísa í því samhengi til 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Kærendur byggja á því að í hinni almennu jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar felist að úr sambærilegum málum eigi að leysa á grundvelli sömu reglna. Þau telji að svo hafi ekki verið gert í máli þessu.

Kærendur benda á að það sé meginregla íslensks réttar að ákvarðanir stjórnvalda skuli vera svo skýrar að unnt sé að sjá af efni þeirra hvert efni ákvörðunarinnar sé. Synjun kærða sé óskýr þar sem ekki verði af henni ráðið á hvaða grundvelli hún sé byggð. Í ákvörðuninni sé ekki vísað til hvaða ákvæða reglna um stuðningsþjónustu í Reykjavík eða reglna um félagslega heimaþjónustu í Reykjavík ákvörðunin byggi á. Hér sé um skýrt brot að ræða annars vegar á 1. mgr. 16. gr. reglna um félagslega heimaþjónustu í Reykjavík og hins vegar 1. mgr. 21. gr. reglna um stuðningsþjónustu í Reykjavík. Í báðum þessum ákvæðum segi að synjun umsóknar skuli rökstudd með skýrum hætti með vísan til viðeigandi ákvæði reglnanna. Þá byggi kærendur á því að synjunarástæða kærða í máli þessu, þ.e. að umsókn kærenda falli ekki að reglum um stuðningsþjónustu í Reykjavík og reglum um félagslega heimaþjónustu, sé ómálefnaleg og brjóti gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins.

Með bréfi kærenda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. ágúst 2011, voru lögð fram frekari gögn, þ. á m. þjónustusamning sem annar fatlaður einstaklingur hafði gert við Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra í Reykjavík þann 30. júní 2010 og sýndi fram á að hann fékk mun meiri fyrirgreiðslu en dóttir kærenda. Samkvæmt þeim samningi fékk umræddur aðili 1.045.051 kr. á mánuði til að standa straum af kostnaði við búsetu sína í eigin íbúð sem er sambærileg við þá fjárhæð sem farið hafi verið fram á f.h. dóttur kærenda. Þá sé í samningnum mælt fyrir um að veita skuli liðveislu við athafnir daglegs lífs, á vinnustað og á heimili, þ.m.t. við persónulega umhirðu, félagslegan stuðning og aðstoð við að rjúfa félagslega einangrun. Hér sé um að ræða þjónustu sem dóttir kærenda hafi mikla þörf fyrir. Þá veki sérstaklega athygli að þessi samningur sé gerður fyrir gildistöku laga nr. 152/2010 sem hafi breytt lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, en fyrri umsókn kærenda, dags. 12. ágúst 2010, byggi ekki á persónulegri notendastýrðri aðstoð, heldur á lögum nr. 59/1992 fyrir breytingu laga nr. 152/2010.

 

III. Málsástæður kærða.

Af hálfu velferðarráðs Reykjavíkurborgar kemur fram að við flutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga um síðastliðin áramót hafi tekið gildi breytingar á lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992. Í IV. ákvæði til bráðabirgða í lögum um málefni fatlaðs fólks sé að finna ákvæði er varði notendastýrða persónulega þjónustu en umrætt ákvæði hafi komið nýtt inn við lagabreytingarnar. Þar segi meðal annars að sérstöku samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks skuli komið á um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Markmið verkefnisins sé að þróa leiðir til að taka upp notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk með markvissum og árangursríkum hætti. Miða skuli við að þjónustan verði skipulögð á forsendum notandans og undir verkstjórn hans um leið og hún verði sem heildstæðust milli ólíkra þjónustukerfa. Ráðherra skuli skipa sjö manna verkefnisstjórn til að leiða samstarfsverkefnið um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Hlutverk verkefnisstjórnarinnar sé að móta ramma um fyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar við fatlað fólk.

Velferðarráð bendir á að það sé ljóst af umræddu lagaákvæði að með því væri verið að kanna forsendur fyrir notendastýrðri persónulegri þjónustu. Í bráðabirgðaákvæðinu sé sveitarfélögum, í samráði við verkefnisstjórn, veitt heimild til að leitast við að bjóða fötluðu fólki notendastýrða persónulega þjónustu í tiltekinn tíma. Reykjavíkurborg hafi ekki hafið slíka þjónustu og ekki hafi verið mótaðar reglur eða viðmið varðandi þjónustuna enda sé það hlutverk verkefnisstjórnarinnar að móta ramma um fyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar við fatlað fólk. Velferðarsvið hafi lagt áherslu á að haft yrði samráð við notendur þjónustunnar og aðstandendur þeirra, sem og hagsmunasamtök, þegar að því kæmi að mótun þjónustunnar flytjist yfir til Reykjavíkurborgar.

Um samning við annan aðila sem kærandi hefur lagt fram í máli þessu benti Velferðarsvið Reykjavíkurborgar að þjónustukaupi samkvæmt þeim samningi væri Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík, heimaþjónusta Reykjavíkur og þjónustumiðstöð E. Samningurinn sé að fjárhæð 1.045.051 kr. á mánuði og hafi því verið gerður áður en yfirfærsla á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga hafi átt sér stað. Reykjavíkurborg hafi því ekki komið að þeim útreikningum sem svæðisskrifstofan hafi lagt til grundvallar við gerð samningsins, þ.e. um búsetuþjónustu og dagþjónustu, en útreikningar er varði kostnað vegna félagslegrar heimaþjónustu og liðveislu stafi frá þjónustumiðstöð. Mismunur á greiðslum frá Reykjavíkurborg til kæranda og þess einstaklings sem vísað er til í framangreindum samningi nemi 27.362 kr. og byggist sá munur á því að einstaklingarnir sem samningar varði séu með mismunandi tímafjölda í liðveislu og heimaþjónustu. Þjónustuþörf einstaklinganna hafi verið metin til misjafns tímafjölda enda eigi þau við mismunandi fötlun að stríða. Þá varði samningurinn sem kærendur vísi til einstakling sem orðinn sé lögráða, sé í sjálfstæðri búsetu auk þess sem dagþjónusta sé einnig metin inn í þann samning. Dóttir kærenda hafi verið ólögráða á þeim tíma er umsókn um persónulega aðstoð allan sólarhringinn í gegnum beingreiðslur/þjónustusamning hafi borist. Þá hafi hún búið hjá foreldrum sínum og hafi verið á framfæri þeirra lögum samkvæmt. Aðstæður umræddra einstaklinga séu því einnig ólíkar hvað þetta varði. Það sé því mat velferðarráðs að jafnræðisreglu stjórnsýslulaga hafi verið gætt hvað varði greiðslur frá Reykjavíkurborg í umræddum málum enda eigi umræddir einstaklingar við ólíka fötlun að stríða og hafi á umræddum tíma búið við mismunandi aðstæður.

Velferðarráð Reykjavíkurborgar bendir á að umsókn kærenda um persónulega aðstoð allan sólarhringinn hafi borist áður en breytingar á lögum um málefni fatlaðs fólks hafi tekið gildi og áður en yfirfærsla á málefnum fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga hafi átt sér stað. Það sé ljóst að ákveðið millibilsástand hafi orðið á meðan vinna skv. IV. ákvæði til bráðabirgða í lögum um málefni fatlaðs fólks væri í gangi. Um miðjan desember 2011 hafi verkefnisstjórn um notendastýrða persónulega aðstoð gefið út fyrstu drög að Handbók um notendastýrða persónulega aðstoð þar sem séu leiðbeiningar til þjónustuaðila um framkvæmd á tilraunaverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð. Síðar hafi þann 22. desember 2011 hafi verið gerður þjónustusamningur við dóttur kærenda sem kvað á um mánaðarlegar greiðslur að fjárhæð 1.119.000 kr. Feli samningurinn í sér greiðslur vegna liðveislu, frekari liðveislu, heimaþjónustu auk þess sem tekinn sé inn í samninginn kostnaður vegna búsetuþjónustu.

 

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kærenda er reist á 5. gr. a laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum, en í 1. mgr. greinarinnar kemur fram að fötluðum einstaklingi sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir um þjónustu sem teknar eru á grundvelli laganna til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Velferðarsviði Reykjavíkurborgar hafi borið að veita kærendum meira fjármagn til þess að dóttir þeirra gæti sjálf greitt fyrir þá aðstoð sem hún þarfnast. Er þess krafist í kæru að „synjun Velferðarráðs Reykjavíkurborgar, dags. 14. mars 2011, um að fá samþykktar auknar greiðslur vegna búsetu í íbúð, verði felld úr gildi, og að fallist verði á umsókn kærenda um auknar greiðslur.“

Fjallað er um réttindi fatlaðra í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum. Markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Er tekið fram að við framkvæmd þeirra skuli tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðs fólks. Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar, sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögum þessum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum. Þá hafa sveitarfélögin með höndum innra eftirlit með framkvæmd þjónustunnar, þar á meðal með framkvæmd samninga sem sveitarfélögin gera við rekstrar- eða þjónustuaðila um framkvæmd þjónustunnar.

Lög nr. 59/1992 veita sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita fötluðu fólki í samræmi við fyrrgreind markmið laganna og þær kröfur sem gerðar eru til aðgengis fatlaðra einstaklinga að þeirri þjónustu. Lögin gera ráð fyrir því að sveitarstjórnir setji sér reglur um framkvæmt aðstoðar við fatlað fólk í samræmi við reglur sveitarstjórnar. Gera lög nr. 59/1992 þannig ráð fyrir því að sveitarfélög hafi ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað hvers konar þjónustu þau veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir undir eftirliti ráðherra. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Fram hefur komið í málinu að gerður var samningur við kæranda áður en málefni fatlaðs fólks fluttust yfir til sveitarfélaga. Umsókn hennar, dags. 12. ágúst 2010, var hafnað með bréfi, dags. 28. október 2010. Fram hefur jafnframt komið að undir meðferð málsins var fallist á kröfur kæranda um auknar greiðslur. Verður ekki annað ráðið en að sú ákvörðun hafi verið byggð á málefnalegu mati á aðstæðum kæranda að undangenginni rannsókn á högum hennar, til samræmis við ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Stendur þá eftir það álitaefni hvort kærða hafi verið rétt að hafna umsókn kæranda með hinni kærðu ákvörðun. Samkvæmt því sem rakið hefur verið að framan gerði kærandi samning við kærða, dags. 22. desember 2011, undir meðferð kærumálsins, þar sem fallist var á þær kröfur hennar sem upphafleg kæra hennar laut að.

Í andmælum kæranda, dags. 20. janúar 2012, kemur fram að hinn 22. desember 2011 hafi verið gerður nýr þjónustusamningur, og að telja verði að með gerð hans hafi í reynd verið fallist á að dóttir kærenda hafi þurft meiri þjónustu en fyrri samningar gerðu ráð fyrir. Þar sem hvorki lög né stjórnvaldsfyrirmæli hafi breyst frá þeim tíma sem upphafleg ákvörðun hafi tekið gildi og þar til nýr samningur hafi verið gerður, hljóti að felast í gerð samningsins staðfesting á því að eldri ákvarðanir hafi verið rangar og að dóttir kærenda hafi í reynd átt rétt á samningi líkum þeim sem upphafleg umsókn kærenda tók til. Af því leiði að taka hefði átt til umsókn kærenda um auknar beingreiðslur til greina strax í upphafi.

Í 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, kemur fram að aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Hefur málatilbúnaður kæranda í kærumálinu miðast við að fá hina kærðu ákvörðun um auknar greiðslur vegna búsetu í íbúð fellda úr gildi, og að fallast á umsókn kærenda um auknar greiðslur. Lýtur kæruefnið eins og það er fram sett, eftir að tekið hefur verið tillit til samnings aðila, dags. 22. desember 2011, um liðinn tíma, enda hefur nú verið fallist á framangreindar kröfur kæranda um auknar greiðslur.

Af hálfu kærunefndarinnar er litið svo á að með gerð samnings þann 22. desember 2011 hafi verið fallist þær kröfur kærenda sem kæran lýtur að. Myndi niðurstaða kærunefndar um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi því ekki hafa neitt gildi í ljósi þess að fallist hefur verið á kröfur kærenda og þegar litið er til þess að kæruefnið lýtur að ákvörðun sem nú hefur í reynd verið felld úr gildi. Getur úrskurðarnefndin ekki úrskurðað á þann veg að aðili stjórnsýslumáls hafi átt rétt á að fá viðurkenndan rétt til gerðar samnings, eins og fram kemur í erindi kærenda eða um hugsanlegan bótarétt, en slíkt er á valdsviði almennra dómstóla.

Með þessum athugasemdum og samkvæmt framansögðu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Úrskurðarorð

 Kæru A vegna ákvörðunar velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 8. mars 2011 er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

  

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                                          Gunnar Eydal

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta