Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 72/2011

Miðvikudaginn 25. janúar 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 72/2011:

A og B

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A og B, hér eftir nefnd kærendur, hafa með kæru, dags. 24. maí 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, hér eftir nefndur kærði, frá 11. maí 2011 vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærendur kærðu ákvörðun um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni að C, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

Skráð fasteignamat á íbúð kærenda að C er 17.600.000 kr. Við afgreiðslu umsóknar kærenda hjá Íbúðalánasjóði var aflað mats löggilts fasteignasala sem mat íbúð þeirra til verðs á 18.000.000 kr.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 15. júní 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Með bréfi, dags. 23. júní 2011, tilkynnti Íbúðalánasjóður úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála að sjóðurinn hefði ákveðið að taka mál kærenda til endurákvörðunar. Starfsmaður úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ræddi símleiðis við kærendur þann 31. ágúst 2011 og kom þar fram að kærendur óskuðu þess að halda kæru til úrskurðarnefndarinnar til streitu.

 

III. Sjónarmið kærenda

Kærendur kæra ákvörðun Íbúðalánasjóðs um leiðréttingu lána eftir 110% leiðinni. Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 24. maí 2011, segja kærendur að bifreið í þeirra eigu hafi komið til frádráttar niðurfærslu áhvílandi íbúðarlána þeirra hjá Íbúðalánasjóði. Þá greina kærendur frá því að kaup á umræddri bifreið hafi verið fjármögnuð með yfirdrætti hjá viðskiptabanka þeirra sem ekki hafi verið greiddur og vísa kærendur til framlagðra gagna því til staðfestingar. Þá er það mat kærenda að Íbúðalánasjóði beri einnig að taka tillit til annarra skulda þeirra við endurútreikning áhvílandi lána hjá sjóðnum, svo sem yfirdráttarláns, skuldabréfs og námslána, enda hafi aðrir lánveitendur á íbúðamarkaði tekið tillit til slíkra lána við endurútreikning íbúðarlána. Þá greina kærendur jafnframt frá því að skuldabréf sem þau krefjist að tekið sé tillit til við afgreiðslu erindis þeirra sé tilkomið vegna kaupanna á fasteigninni að C.

 

IV. Sjónarmið kærða

Íbúðalánasjóður áréttar að, með vísan til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 26/2011, um raunverulegt verð bifreiðar sem aðfararhæfrar eignar þá hafi Íbúðalánasjóður ákveðið að endurreikna lán kærenda í stað þess að miða við skráð verð hennar í skattframtali. Í málinu liggur fyrir endurákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 4. júlí 2011.

 

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Kærendur kæra ákvörðun Íbúðalánasjóðs um leiðréttingu lána í 110% leiðinni og gera kröfu um að kærði endurskoði verðmat bifreiðar í þeirra eigu. Með endurákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 4. júlí 2011, var horfið frá fyrri ákvörðun Íbúðalánasjóðs um að reikna andvirði bifreiðar kærenda til frádráttar niðurfærslu áhvílandi lána þeirra hjá sjóðnum.

Kærendur hafa einnig fært fram þau rök að við endurútreiknun lána þeirra hjá Íbúðalánasjóði eigi að taka tillit til annarra skulda, sem meðal annars hafi verið stofnað til í því skyni að fjármagna kaup þeirra á fasteigninni að C. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 og lið 1.1 í 1. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011, kemur fram að heimild til niðurfærslu taka eingöngu til áhvílandi veðskulda. Samkvæmt framangreindu er heimild Íbúðalánasjóðs til niðurfærslu skulda bundin við áhvílandi veðskuldir, og er Íbúðalánasjóði því ekki heimilt að líta til annarra lána kærenda við útreikning á veðsetningarhlutfalli af verðmæti fasteignar þeirra.

Íbúðalánasjóði ber að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast. Þá ber Íbúðalánasjóði að fylgja fyrrgreindum reglum og þar er ekki að finna undanþágur, heldur einungis sú regla að eingöngu sé heimilt að færa niður áhvílandi veðskuldir. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum laga nr. 29/2011 og ákvæða 1.1 í 1. gr. í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, um endurútreikning, dags. 4. júlí 2011, á lánum A og B, áhvílandi á íbúðinni að C, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta