Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 298/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 298/2024

Fimmtudaginn 10. október 2024

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 25. júní 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 6. júní 2024, um að afturkalla úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk úthlutað félagslegu leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg í febrúar 2024. Með ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 6. júní 2024, var sú úthlutun afturkölluð og kæranda tilkynnt að Félagsbústaðir myndu í kjölfarið senda riftun leigusamnings.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 25. júní 2024. Með bréfi, dags. 3. júlí 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 9. ágúst 2024, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. ágúst 2024. Athugasemdir bárust ekki. Með erindi, dags. 26. september 2024, var óskað eftir frekari gögnum frá Reykjavíkurborg. Umbeðin gögn bárust 27. september 2024.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi sé einstæð móðir sem eigi tvö uppkomin börn. Hún hafi flutt hingað til lands með börnin sín tvö frá B árið 2014. Kærandi eigi langa sögu um félagslega erfiðleika og hafi þegið aðstoð og stuðning á miðstöð um árabil. Jafnframt eigi kærandi langa neyslusögu og sé nú í virkri neyslu vímuefna.

Kærandi hafi fengið úthlutaðri félagslegri leiguíbúð árið 2015 en hafi misst hana fljótlega vegna vanskila. Í kjölfarið hafi kærandi og sonur hennar dvalið hjá móður kæranda um tíma eða þar til sú sambúð hafi ekki gengið lengur. Kærandi hafi verið heimilislaus um langt skeið og nýtt sér Konukot, dvalið inni á öðrum og/eða í hinum ýmsu bílakjöllurum borgarinnar við ótryggar aðstæður. Hún hafi nýtt sér Skjólið yfir daginn og leitað á kaffistofu Samhjálpar. Kærandi hafi verið í þjónustu VoR-teymisins frá því í febrúar 2023 eftir að hafa verið á biðlista eftir þjónustu teymisins frá því í byrjun árs 2021.

Kærandi hafi þann 13. febrúar 2024 fengið úthlutað húsnæði fyrir heimilislausa að C Hún hafi flutt inn í íbúðina tæpum mánuði síðar, helgina 8.-10. mars. Í sömu viku og kærandi hafi flutt inn hafi nágranni hennar, annar af tveimur, strax byrjað að koma með athugasemdir varðandi veru hennar í húsnæðinu, meðal annars með því að setja miða á hurðina hennar. Þær athugasemdir hafi ekki átt við nein rök að styðjast. Þann 6. maí hafi kærandi svo fengið aðvörun frá Félagsbústöðum vegna óreglu og ónæðis frá íbúðinni. Viku síða, eða þann 13. maí hafi kærandi svo fengið lokaviðvörun vegna sömu ástæðu. Sama dag hafi kærandi fengið tilkynningu um fyrirhugaða afturköllun úthlutunar félagslegs leiguhúsnæðis. Þann 22. maí hafi verið send athugasemd til velferðarsviðs vegna þessa þar sem kvartanirnar ættu ekki við rök að styðjast. Áður en athugasemdin hafi verið send hafi verið rætt símleiðis við nágranna kæranda sem hafi tekið undir með henni að kvartanirnar ættu ekki rétt á sér. Þann 6. júní hafi kæranda síðan borist tilkynning um afturköllun úthlutunar félagslegs leiguhúsnæðis og yfirvofandi riftun leigusamnings.

Eins og fyrr segi sé kærandi í mjög viðkvæmri stöðu og hafi fengið úthlutað sértæku húsnæðisúrræði vegna þess. Þeir starfsmenn sem komi að hennar málum hjá Reykjavíkurborg séu sammála um að það hafi ekki verið tímabært að fara í svo íþyngjandi úrræði að krefjast afturköllunar úthlutunar félagslegs leiguhúsnæðis og yfirvofandi riftunar leigusamnings.

Kærandi óski þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé rúmlega fimmtug kona sem hafi flutt til Íslands frá B árið 2014. Ríkisfang hennar sé B. Hún eigi tvö uppkomin börn. Hún eigi að baki langa sögu um félagslega erfiðleika og hafi fengið aðstoð og stuðning frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar um árabil. Hún hafi neytt vímuefna í langan tíma og sé í virkri neyslu vímuefna. Kærandi hafi fengið úthlutaðri félagslegri leiguíbúð árið 2015 en hafi misst hana fljótlega vegna vanskila á greiðslu húsaleigu. Í kjölfarið hafi kærandi dvalið hjá móður sinni um tíma en hafi síðan orðið heimilislaus og dvalið í Konukoti, Skjólinu og hafi leitað á kaffistofu Samhjálpar. Hún hafi fengið þjónustu frá Vettvangs- og ráðgjafarteymi Reykjavíkurborgar frá því í febrúar 2023. Kærandi hafi sótt um húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir með umsókn, dags. 5. apríl 2023, og með bréfi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 11. apríl [2023], hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt. Með bréfi, dags. 13. febrúar 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að henni hefði verið úthlutað húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir að C í Reykjavík og hún hafi flutt inn í íbúðina tæpum mánuði síðar. Fljótlega hafi farið að berast kvartanir frá nágrönnum vegna kæranda og gesta hennar. Félagsbústaðir hf. hafi sent kæranda aðvörun og áminningu vegna ætlaðra brota á leigusamningi með bréfi, dags. 6. maí 2024. Þann 13. maí 2024 hafi Félagsbústaðir hf. sent lokaviðvörun til kæranda. Með bréfi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 13. maí 2024, hafi kæranda verið send tilkynning um fyrirhugaða afturköllun úthlutunar félagslegs leiguhúsnæðis. Í bréfinu hafi kærandi verið upplýst um að borist hefðu tilkynningar um ætluð brot á leigusamningnum, húsreglum og húsaleigulögum, svo sem vegna óreglu og ónæðis, auk truflunar á svefnfriði nágranna. Slík háttsemi væri í andstöðu við 8. tölul. 1. mgr. 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 og 12. gr. leigusamnings, auk húsreglna. Til stæði að taka ákvörðun um afturköllun úthlutunar félagslegs leiguhúsnæðis til kæranda og henni hafi verið veittur 10 daga frestur til að koma að andmælum, sbr. 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með tölvupósti þann 22. maí 2024 hafi félagsráðgjafi kæranda sent andmæli fyrir hennar hönd þar sem fram komi að kærandi teldi kvartanir nágranna ekki eiga við rök að styðjast. Mál kæranda hafi verið tekið fyrir á 56. fundi úthlutunarteymis húsnæðis fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir þann 6. júní 2024 og í fundargerð sé bókað:

„Ákvörðun úthlutunarteymis fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis, dags. 12. febrúar 2024, að C Reykjavík, til A er afturkölluð.

Með tölvupósti frá Félagsbústöðum, dags. 13. maí 2024, var úthlutunarteymi húsnæðis fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir upplýst um að leigutaka hefði verið send lokaaðvörun vegna húsreglnabrota. Í kjölfarið var leigutaka sent bréf úthlutunarteymis, dags. 13. maí 2024, þar sem A var gefin kostur á að koma á framfæri andmælum vegna fyrirhugaðrar afturköllunar úthlutunar félagslegs leiguhúsnæðis. Andmæli bárust en eru ekki tekin til greina.“

Með bréfi, dags. 6. júní 2024, hafi kæranda verið tilkynnt af hálfu úthlutunarteymis velferðarsviðs fyrir húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir, að úthlutun húsnæðis að C, væri afturkölluð og að Félagsbústaðir hf. myndu í kjölfarið senda henni riftun leigusamnings. Samkvæmt upplýsingum frá Félagsbústöðum hf. dvelji kærandi enn í húsnæðinu að C í Reykjavík en unnið sé að því að kærandi yfirgefi húsnæðið.

Reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði með síðari breytingum hafi verið samþykktar á fundi velferðarráðs Reykjavíkurborgar þann 13. mars 2019 og á fundi borgarráðs þann 2. maí 2019. Reglurnar hafi tekið gildi þann 1. júní 2019. Reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði kveði á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum sé skylt að veita og séu settar með stoð í XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, 9. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og 4. tölul. 13. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra.

Í 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði komi fram að félagslegt leiguhúsnæði skiptist í fjóra flokka, þ.e. almennt félagslegt leiguhúsnæði, húsnæði fyrir fatlað fólk, húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flókar þjónustuþarfir og þjónustuíbúðir fyrir aldraða. Um framangreinda flokka húsnæðis sé fjallað í sérköflum reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði en mismunandi skilyrði eigi við um hvern flokk húsnæðis. Kærandi hafi sótt um húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir með umsókn, dags. 5. apríl 2023 og þann 13. febrúar 2024 hafi henni verið úthlutað slíku húsnæði að C í Reykjavík.

Í apríl og maí 2024 hafi Félagsbústöðum hf. borist ítrekaðar kvartanir vegna umgengni kæranda og gesta hennar, auk áreitis af þeirra hálfu. Kvartanir nágranna hafi meðal annars lotið að því að kærandi væri með stöðug partý fram eftir nóttu og að ekki væri svefnfriður í húsinu. Kalla hefði þurft til lögreglu þar sem gestur kæranda hefði gengið um með hníf á lofti og látið öllum illum látum. Mikið væri um fólk í annarlegu ástandi í húsnæðinu ásamt því að sprautunálar væru í og við húsið. Með bréfi Félagsbústaða hf., dags. 6. maí 2024, hafi kæranda verið send aðvörun og áminning vegna ætlaðra brota á leigusamningi, húsreglum og húsaleigulögum nr. 36/1994. Fram hafi komið að um væri að ræða óreglu og ónæði sem trufli daglegt líf og svefn nágranna. Kæranda hafi því verið send framangreind aðvörun og áminning vegna framangreindra brota með vísan til 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 og 12. gr. leigusamnings aðila. Tekið hafi verið fram að ef ekki yrði orðið við áskorun um úrbætur án tafar hefði velferðarsvið Reykjavíkurborgar heimild til að afturkalla stjórnvaldsákvörðun um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis, sbr. 25. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Einnig hafi athygli verið vakin á því að skilyrði og forsenda fyrir leigusamningi væri að ekki hefði verið fallið frá ákvörðun um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis, auk þess sem að afturköllun stjórnvaldsákvörðunar um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis myndi leiða til þess að Félagsbústaðir hf. myndu rifta leigusamningi í beinu framhaldi án frekari viðvörunar.

Félagsbústaðir hf. hafi sent kæranda lokaviðvörun með bréfi, dags. 13. maí 2024, en í því bréfi komi fram að ef ekki yrði orðið við viðvöruninni án tafar yrði málið sent til velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem myndi taka ákvörðun um afturköllun stjórnvaldsákvörðunar um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis. Slík afturköllun myndi leiða til þess að Félagsbústaðir hf. myndu rifta leigusamningi í beinu framhaldi án frekari aðvörunar og gera kröfu um rýmingu íbúðar með skömmum fyrirvara.

Í 19. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði sé að finna almenn ákvæði um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis og í 8. og 9. mgr. 19. gr. reglnanna segi:

„Ákvörðun um úthlutun er stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um er að ræða skilyrta stjórnvaldsákvörðun þar sem gert er að skilyrði að umsækjandi uppfylli reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, fari að þeim ákvæðum sem gilda samkvæmt húsaleigulögum nr. 36/1994 og ákvæðum leigusamnings um viðkomandi leiguhúsnæði.

Heimilt er að afturkalla stjórnvaldsákvörðun um úthlutun sé skilyrðum reglna þessara ekki lengur fullnægt. Sama gildir ef eigi er farið að ákvæðum húsaleigulaga nr. 36/1994 eða ákvæðum leigusamnings um viðkomandi leiguhúsnæði.“

Sérstaklega sé vikið að afturköllun stjórnvaldsákvörðunar um úthlutun húsnæðis í 25. gr. reglnanna en þar segi að réttur Reykjavíkurborgar til afturköllunar ákvörðunar um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis sé bundinn við þau tilvik þegar leigutaki uppfylli ekki skilyrði reglnanna eða brjóti gegn ákvæðum leigusamnings, þjónustusamnings/dvalarsamnings eða ákvæðum húsaleigulaga nr. 36/1994 að öðru leyti. Þá komi fram í 2. mgr. 25. gr. reglnanna að afturköllun ákvörðunar um úthlutun félaglegs leiguhúsnæðis sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sú ákvörðun geti eftir atvikum leitt til uppsagnar eða riftunar á húsaleigusamningi. Um uppsögn og riftun gildi ákvæði húsaleigulaga nr. 36/1994.

Með bréfi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 13. maí 2024, hafi kæranda verið tilkynnt um fyrirhugaða afturköllun úthlutunar þar sem vísað hafi verið til framangreindrar aðvörunar Félagsbústaða hf. og að borist hefðu tilkynningar um óreglu og ónæði, auk truflunar á svefnfriði nágranna. Slík háttsemi væri í andstöðu við 8. tölul. 1. mgr. 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 og 12. gr. leigusamnings auk húsreglna.

Í 8. tölul. 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 komi fram að leigusala sé heimilt að rifta leigusamningi ef leigjandi vanrækir, þrátt fyrir skriflegar áminningar leigusala, skyldur sínar til að sjá um að góð regla og umgengni haldist í hinu leigða húsnæði, sbr. 30. gr. húsaleigulaga, eða gerist sekur um persónulega meingerð gagnvart leigusala eða fjölskyldu hans.

Í 12. gr. húsaleigusamnings kæranda og Félagsbústaða hf. komi meðal annars fram að við vanefndir á leigusamningi vegna ónæðis, vanskila eða annarra samnings- eða lögbrota gagnvart leigusala eða öðrum íbúum og í kjölfar aðvarana og áskorana geti, til viðbótar við úrræði leigusala samkvæmt leigusamningi og lögum, komið til afturköllunar á stjórnvaldsákvörðun um úthlutun af hálfu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Einnig komi fram í 8. gr. húsaleigusamnings kæranda og Félagsbústaða hf. að leigjanda sé skylt að ganga vel og snyrtilega um hið leigða húsnæði og gæta settra reglna og góðra venja um hreinlæti, hollustuhætti, dýrahald og heilbrigði. Þá segi einnig í 8. gr. samningsins að leigjanda beri að fara í einu og öllu að settum húsreglum í fjöleignarhúsum og gæta þess að raska ekki ró annarra íbúa að óþörfu. Einnig sé leigjanda skylt að sjá til þess að heimilisfólk hans og gestir virði reglur um umgengni.

Þá sé í bréfi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 13. maí 2024, vísað til framangreindra ákvæða 8. og 9. mgr. 19. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði hvað varði að ákvörðun um úthlutun sé skilyrt stjórnvaldsákvörðun sem sé háð því að umsækjandi uppfylli reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði og fari að þeim ákvæðum sem gildi samkvæmt húsaleigulögum nr. 36/1994 og ákvæðum leigusamnings um viðkomandi leiguhúsnæði. Heimilt sé að afturkalla stjórnvaldsákvörðun um úthlutun leiguhúsnæðis ef skilyrðum þar að lútandi sé ekki lengur fullnægt. Það sama gildi ef eigi sé farið að ákvæðum húsaleigulaga nr. 36/1994 eða ákvæðum leigusamnings um viðkomandi húsnæði.

Með framangreindu bréfi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 13. maí 2024, hafi kæranda verið veittur 10 daga frestur frá dagsetningu bréfsins til að koma að athugasemdum í samræmi við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar hafi einnig komið fram að afturköllun stjórnvaldsákvörðunar um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis muni leiða til þess að Félagsbústaðir hf. muni rifta leigusamningi í beinu framhaldi án frekari viðvörunar ásamt því að krefjast rýmingu íbúðar með skömmum fyrirvara.

Velferðarsviði Reykjavíkurborgar hafi borist tölvupóstur frá félagsráðgjafa kæranda þann 22. maí 2024 með andmælum fyrir hönd kæranda. Þar komi fram að kærandi teldi kvartanir nágranna ekki eiga við rök að styðjast. Þá hafi félagsráðgjafi kæranda haft samband við einn af nágrönnum kæranda sem hafi stutt frásögn kæranda og borið henni góða sögu.

Eins og að framan sé rakið hafi mál kæranda verið tekið fyrir á 56. fundi úthlutunarteymis húsnæðis fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir þann 6. júní 2024 og þar hafi ákvörðun úthlutunarteymis fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir frá 12. febrúar 2024 um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis að C, Reykjavík til kæranda verið afturkölluð. Andmæli kæranda hafi ekki verið tekin til greina.

Fyrir liggi að ítrekaðar tilkynningar hafi borist til Félagsbústaða hf. frá nágrönnum vegna kæranda og gesta hennar á tímabilinu apríl og maí 2024. Skriflegar tilkynningar til Félagsbústaða hf. liggi fyrir en þær séu ekki afhentar með gögnum málsins þar sem þær hafi verið veittar í trúnaði og innihaldi persónugreinanlegar upplýsingar um tilkynnendur. Tilkynningarnar hafi lotið að óreglu, ónæði og truflun á svefnfriði. Einnig hafi komið fram í tilkynningunum að þegar rætt væri við kæranda um framangreint neitaði hún því að vera með ónæði. Það hafi verið mat úthlutunarteymis að ekki bæri að taka andmæli kæranda til greina.

Þann 6. júní 2024 hafi kæranda verið tilkynnt af hálfu úthlutunarteymis húsnæðis fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir að úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis að C í Reykjavík væri afturkölluð. Félagsbústaðir hf. myndu í kjölfarið senda kæranda riftun leigusamnings. Kæranda hafi verið leiðbeint um að unnt væri að skjóta ákvörðuninni til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, auk þess að hægt væri að óska eftir rökstuðningi, sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en fram hafi komið að beiðni um rökstuðning eða málskot til úrskurðarnefndar velferðarmála myndi hvorki fresta réttaráhrifum afturköllunar ákvörðunar um úthlutun félagslegt leiguhúsnæðis né riftun Félagsbústaða hf. Samkvæmt upplýsingum frá Félagsbústöðum hf. dvelji kærandi enn í húsnæðinu að C í Reykjavík en unnið sé að því að kærandi yfirgefi húsnæðið.

Með hliðsjón af framangreindu sé það mat velferðarsviðs Reykjavíkurborgar að málsmeðferð í máli kæranda hafi verið í samræmi við reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði og húsaleigulög nr. 36/1994. Einnig sé það mat velferðarsviðs Reykjavíkurborgar að ekki hafi verið brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né ákvæðum annarra laga.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að afturkalla úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við húsnæðismál, sbr. 1. mgr. 2. gr.

Í XII. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.

Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á húsnæðismálum einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, svo fremi það byggi á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 1. mgr. 2. gr. kemur fram að með félagslegu leiguhúsnæði sé átt við almennt félagslegt leiguhúsnæði, húsnæði fyrir fatlað fólk, húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og þjónustuíbúðir aldraðra. Í 4. mgr. 2. gr. kemur fram að húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir sé íbúðarhúsnæði sem gert hafi verið aðgengilegt fyrir tiltekna notkun eða skilgreint sérstaklega fyrir þann hóp sem teljist vera heimilislaus með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Um sé að ræða húsnæði sem sé ætlað þeim sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum alvarlegs vímuefnavanda og/eða geðrænna erfiðleika og staða viðkomandi hamli því að hann geti búið í almennu félagslegu leiguhúsnæði og þurfi því á sértækri þjónustu að halda. Í 19. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði er fjallað almennt um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis. Þar segir í 8. mgr. að ákvörðun um úthlutun sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um sé að ræða skilyrta stjórnvaldsákvörðun þar sem gert sé að skilyrði að umsækjandi uppfylli reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, fari að þeim ákvæðum sem gildi samkvæmt húsaleigulögum nr. 36/1994 og ákvæðum leigusamnings um viðkomandi leiguhúsnæði. Þá segir í 9. mgr. 19. gr. að heimilt sé að afturkalla stjórnvaldsákvörðun um úthlutun sé skilyrðum reglnanna ekki lengur fullnægt. Sama gildi ef eigi sé farið að ákvæðum húsaleigulaga nr. 36/1994 eða ákvæðum leigusamnings um viðkomandi leiguhúsnæði.

Í 25. gr. framangreindra reglna er kveðið á um afturköllun stjórnvaldsákvörðunar um úthlutun húsnæðis. Þar segir í 1. mgr. að réttur Reykjavíkurborgar til afturköllunar ákvörðunar um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis sé bundinn við þau tilvik þegar leigutaki uppfylli ekki skilyrði reglnanna eða brjóti gegn ákvæðum leigusamnings, þjónustusamnings/dvalarsamnings eða ákvæðum húsaleigulaga nr. 36/1994 að öðru leyti. Þá segir í 2. mgr. að afturköllun ákvörðunar um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Afturköllun ákvörðunar um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis geti eftir atvikum leitt til uppsagnar eða riftunar á húsaleigusamningi. Um uppsögn og riftun gildi ákvæði húsaleigulaga nr. 36/1994.

Fyrir liggur að kærandi fékk úthlutað húsnæði að C fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir í febrúar 2024. Sú ákvörðun var afturkölluð 6. júní 2024 með vísan til þess að kærandi hefði gerst brotleg við 12. gr. húsaleigusamnings og 8. tölul. 1. mgr. 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994.

Í 8. tölul. 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 kemur fram að leigusala sé heimilt að rifta leigusamningi ef leigjandi vanrækir, þrátt fyrir skriflegar áminningar leigusala, skyldur sínar til að sjá um að góð regla og umgengni haldist í hinu leigða húsnæði, sbr. 30. gr. húsaleigulaga, eða gerist sekur um persónulega meingerð gagnvart leigusala eða fjölskyldu hans.

Í 12. gr. fyrirliggjandi húsaleigusamnings kæranda og Félagsbústaða hf. kemur meðal annars fram að við vanefndir á leigusamningi vegna ónæðis, vanskila eða annarra samnings- eða lögbrota gagnvart leigusala eða öðrum íbúum og í kjölfar aðvarana og áskorana geti, til viðbótar við úrræði leigusala samkvæmt leigusamningi og lögum, komið til afturköllunar á stjórnvaldsákvörðun um úthlutun af hálfu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Einnig kemur fram í 8. gr. samningsins að leigjanda beri að fara í einu og öllu að settum húsreglum í fjöleignarhúsum og gæta þess að raska ekki ró annarra íbúa að óþörfu. Þá sé leigjanda skylt að sjá til þess að heimilisfólk hans og gestir virði reglur um umgengni.

Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að ítrekaðar tilkynningar hafi borist til Félagsbústaða hf. frá nágrönnum vegna kæranda og gesta hennar á tímabilinu apríl og maí 2024. Tilkynningarnar hafi lotið að óreglu, ónæði og truflun á svefnfriði. Einnig hafi komið fram í tilkynningum að þegar rætt væri við kæranda um framangreint neitaði hún því að vera með ónæði.

Á grundvelli rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir afriti af framangreindum tilkynningum til að unnt væri að leggja mat á hvort skilyrði fyrir afturköllun úthlutunar húsnæðis í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði hefði verið uppfyllt í máli kæranda. Umbeðin gögn voru afhent úrskurðarnefndinni í trúnaði og með vísan til 17. gr. stjórnsýslulaga verður kæranda ekki veittur aðgangur að þeim. Samkvæmt ákvæðinu er stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- og einkahagsmunum.

Að virtum fyrirliggjandi tilkynningum er ljóst að töluvert ónæði var fyrir aðra íbúa húsnæðisins af kæranda og gestum hennar í apríl og maí 2024. Slíkt fellur undir vanefnd á leigusamningi, sbr. 12. gr. húsaleigusamnings kæranda og Félagsbústaða hf. og voru kæranda sendar viðeigandi aðvaranir og áskoranir 6. og 13. maí 2024. Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að Reykjavíkurborg hafi verið heimilt að afturkalla úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis að C. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 6. júní 2024, um að afturkalla úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta