Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Nr. 43/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 43/2018

Fimmtudaginn 14. júní 2018

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 8. febrúar 2018, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 22. nóvember 2017 um að staðfesta útreikning á sérstökum húsnæðisstuðningi.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddan sérstakan húsnæðisstuðning frá Reykjavíkurborg á árinu 2017 eftir gildistöku reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning en þá féllu úr gildi ákvæði um sérstakar húsaleigubætur í reglum um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur. Með bréfi, dags. 30. október 2017, óskaði kærandi eftir því að kostnaður vegna húsnæðis yrði hinn sami og hann var fyrir gildistöku núverandi kerfis en að öðrum kosti að fjárhæð sérstaks húsnæðisstuðnings yrði endurskoðuð og hækkuð verulega. Beiðni kæranda var tekin fyrir á fundi velferðarráðs 22. nóvember 2017 þar sem staðfestur var útreikningur starfsmanna þjónustumiðstöðvar á sérstökum húsnæðisstuðningi í samræmi við 4. og 5. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 5. desember 2017.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 8. febrúar 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 22. febrúar 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. febrúar 2018. Athugasemdir bárust frá kæranda 13. mars 2018 og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 12. apríl 2018, og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. apríl 2018. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 30. apríl 2018 og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. maí 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar verði ógilt og sveitarfélaginu gert að taka málið til löglegrar meðferðar enda sé ákvörðunin verulegum annmörkum háð. Kærandi tekur fram að frá gildistöku laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur, sbr. einnig 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, hafi greiðslur til hans í formi sérstaks húsnæðisstuðnings og -bóta lækkað umtalsvert. Á sama tímabili hafi leigugreiðslur kæranda til Félagsbústaða hf. hækkað í tvígang en engar verulegar breytingar hafi orðið á tekjum hans. Kostnaður kæranda vegna húsnæðis hafi þannig kækkað úr 47.891 kr. í desember 2016 í 80.206 kr. í september 2017 eða sem nemi rúmlega 32.000 kr.

Kærandi vísar til þess að ákvarðanataka um veitingu sérstaks húsnæðisstuðnings feli í sér matskennda ákvarðanatöku af hálfu sveitarfélags um réttindi viðkomandi umsækjanda. Kærandi telji ljóst að fjárhæð stuðningsins sem slík sé ekki undanskilin hinum matskennda þætti ákvörðunarinnar. Ályktun að því leyti telji kærandi meðal annars mega draga af 2. mgr. 18. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Þar sé mælt fyrir um almenna heimild velferðarráðs Reykjavíkurborgar til þess að veita undanþágu frá reglunum ef sérstakar málefnalegar ástæður liggi fyrir og notandi fari fram á það með sérstakri beiðni þar um til ráðsins. Hin kærða ákvörðun snúi að beiðni kæranda um slíka undanþágu.

Kærandi bendir á að kjarni meginreglunnar um hið skyldubundna mat felist í því að stjórnvöldum sé ekki heimilt að afnema eða þrengja það mat sem löggjöf geri ráð fyrir að fari fram í tengslum við viðkomandi ákvarðanatöku með því að beita eingöngu hlutlægum og fyrir fram ákveðnum viðmiðum þegar komi að endanlegri ákvarðanatöku. Ákvarðanataka Reykjavíkurborgar í tengslum við hinn sérstaka húsnæðisstuðning sem kærandi hafi fengið greiddan og upphæð hans beri ekki að neinu leyti með sér að horft hafi verið sérstaklega til aðstæðna hans. Í því samhengi vísar kærandi annars vegar til lækkunar á heildarupphæð húsnæðisbóta og hins sérstaka húsnæðisstuðnings, og hins vegar hækkana á leigugreiðslum til Félagsbústaða hf. og þeirrar staðreyndar að ráðstöfunartekjur hans hafi dregist verulega saman á sama tímabili. Rökstuðningur vegna synjunar á beiðni hans um endurskoðun á fjárhæð hins sérstaka húsnæðisstuðnings beri þvert á móti með sér að eingöngu hafi verið horft til hinna hlutlægu tekjuviðmiða sem reglur Reykjavíkurborgar mæli fyrir um. Hin kærða ákvörðun sé þannig ekki í samræmi við þau markmið sem búi að baki lögum nr. 40/1991 en þau séu meðal annars að tryggja fjárhagslegt öryggi einstaklinga og styrkja þá til sjálfshjálpar með því að bæta lífskjör þeirra sem standi höllum fæti. Að mati kæranda sé því ljóst að hin kærða ákvörðun sé verulegum annmörkum háð, enda hafi ekki farið fram fullnægjandi rannsókn, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, í samræmi við beiðni hans um undanþágu heldur einungis endurskoðun á útreikningi þjónustumiðstöðvar á fjárhæð hins sérstaka húsnæðisstuðnings í samræmi við tekjuviðmið reglna Reykjavíkurborgar þar um. Í þessu samhengi tekur kærandi fram að í 56. gr. laga nr. 40/1991, sbr. einnig 14. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning, sé skerpt á rannsóknarskyldu sveitarfélaga í málum sem þessum.

Kærandi telur, í samræmi við reglur íslensks réttar um ógildingu stjórnvaldsákvörðunar, ljóst að Reykjavíkurborg sé ófært að sýna að niðurstaða hinnar kærðu ákvörðunar hefði orðið með öðrum hætti hefði fullnægjandi rannsókn á högum hans farið fram. Í því samhengi vísar kærandi til þess að sá rökstuðningur sem hafi verið veittur vegna hinnar kærðu ákvörðunar beri ekki með sér að litið hafi verið umfram þau tekjuviðmið sem 5. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning geri ráð fyrir. Sé afstaða Reykjavíkurborgar sú að fullnægjandi rannsókn hafi farið fram megi ljóst vera að verulegir annmarkar séu á þeim rökstuðningi sem kæranda hafi verið veittur og að þeir annmarkar varði ógildingu ákvörðunarinnar. Að öðru leyti vísar kærandi til sjálfstæðrar rannsóknarskyldu úrskurðarnefndarinnar að því er varði málsmeðferð og ákvörðunartöku Reykjavíkurborgar varðandi hina kærðu ákvörðun.

Í athugasemdum kæranda er vísað til þess að ákveðið misræmi sé í skýringum velferðarráðs Reykjavíkurborgar vegna hinnar kærðu ákvörðunar, þ.e. annars vegar á milli þess sem fram komi í rökstuðningi til kæranda og hins vegar í greinargerð til úrskurðarnefndarinnar. Kærandi bendir á að hann hafi ekki á neinu stigi málsins haldið því fram að útreikningur hins sérstaka húsnæðisstuðnings hafi ekki verið í samræmi við 4. og 5. gr. reglna Reykjavíkurborgar þar um. Hin kærða ákvörðun snúi að beiðni hans um undanþágu frá reglunum líkt og gert sé ráð fyrir í 2. mgr. 18. gr. þeirra. Kærandi ítrekar þá skyldu Reykjavíkurborgar að meta á sjálfstæðum grundvelli þörf hvers umsækjanda um sérstakan húsnæðisstuðning og þá einkum með hliðsjón af því að nú sé mælt fyrir um skyldu sveitarfélagsins til þess að greiða stuðninginn í lögum nr. 40/1991, sbr. 2. mgr. 45. gr. laganna. Kærandi telji ljóst að sú skylda nái einnig til mats á fjárhæð stuðningsins. Þá hafi velferðarráð Reykjavíkurborgar ekki á neinu stigi málsins gert grein fyrir því mati sem vísað sé til í greinargerðinni er varði skilyrði 2. mgr. 18. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Miðað við þann rökstuðning sem kæranda hafi verið veittur, og vísað hafi verið til, virðist það mat fyrst og fremst hafa falist í könnun á því hvort greiðsla hins sérstaka húsnæðisstuðnings hafi verið í samræmi við 4. og 5. gr. reglnanna. Kærandi telji þá skýringu ekki standast skoðun, enda vandséð hvernig sú málsmeðferð rími við þann áskilnað sem undanþáguheimild 2. mgr. 18. gr. reglnanna geri um sérstakar málefnalegar ástæður. Að öðru leyti hafi ekkert komið fram um inntak þess mats sem í greinargerð sé haldið fram að gert hafi verið á aðstæðum kæranda. Hefði enda þurft að gera grein fyrir forsendum þess mats í rökstuðningi vegna hinnar kærðu ákvörðunar, t.d. að hvaða leyti aðstæður kæranda, þ.e. hækkun á leigu og lækkun á greiðslu húsnæðisstuðnings, fælu ekki í sér sérstakar málefnalegar ástæður fyrir undanþágu frá reglunum. Kærandi ítrekar að forsenda kærunnar sé sú að Reykjavíkurborg hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni vegna beiðni hans um undanþágu frá reglunum, enda hafi í raun ekki farið fram neitt mat á hans aðstæðum, t.d. varðandi húsnæðiskostnað. Að mati kæranda beri gögn málsins ekki að nokkru leyti með sér að slík rannsókn eða mat á hans högum hafi farið fram. Ljóst sé, einkum með hliðsjón af fjárhagsstöðu kæranda og breytingum á húsnæðiskostnaði, að tilefni hefði verið til þess að beita undanþágu 2. mgr. 18. gr. reglnanna og að rannsóknarskylda sveitarfélagsins hafi við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verið ríkari en ella með hliðsjón af því.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að um sérstakan húsnæðisstuðning gildi reglur Reykjavíkurborgar sem samþykktar hafi verið á fundi velferðarráðs þann 3. nóvember 2016 og á fundi borgarráðs þann 10. nóvember 2016, með síðari breytingum. Reglur um sérstakan húsnæðisstuðning hafi tekið gildi 1. janúar 2017 og leyst af hólmi ákvæði um sérstakar húsaleigubætur í reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur. Samkvæmt bráðabirgðarákvæði I í reglum um sérstakan húsnæðisstuðning hafi gildandi umsóknir um sérstakar húsaleigubætur gilt áfram við gildistöku reglnanna. Reglunum hafi verið breytt fjórum sinnum en fyrstu breytingarnar hafi verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 18. maí 2017 og á fundi borgarráðs þann 8. júní 2017. Með þeim breytingum hafi meðal annars tekjumörkum verið breytt og þær breytingar gilt afturvirkt frá 1. janúar 2017.

Reykjavíkurborg vísar til þess að samkvæmt núgildandi 1. mgr. 4. gr. reglnanna sé sérstakur húsnæðisstuðningur reiknaður sem ákveðið hlutfall af húsnæðisbótum þannig að fyrir hverjar 1.000 kr. fái leigjandi greiddar 1.000 kr. í sérstakan húsnæðisstuðning. Við útreikninginn sé þó einnig litið til tekna miðað við fjölda heimilismanna og skerðist upphæð sérstaks húsnæðisstuðnings hlutfallslega að efri tekjumörkum og falli niður við efri tekjumörk. Þann 1. desember 2016 hafi kærandi fengið greiddar almennar og sérstakar húsaleigubætur að fjárhæð 46.200 kr. Þann 1. september 2017 hafi kærandi fengið greiddan sérstakan húsnæðisstuðning að fjárhæð 7.328 kr. Samanlögð fjárhæð húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings hafi því verið 33.757 kr. en það sé í samræmi við útreikning samkvæmt 4. og 5. gr. reglna um sérstakan húsnæðisstuðning. Með hliðsjón af 4. og 5. gr. reglnanna hafi það verið mat velferðarráðs að hafna beiðni um endurskoðun á fjárhæð sérstaks húsnæðisstuðnings þar sem sá útreikningur sé í samræmi við ákvæði reglnanna. Það hafi verið mat velferðarráðs að skilyrði 2. mgr. 18. gr. reglnanna til að veita undanþágu frá reglunum væri ekki fyrir hendi. Ljóst sé að ákvörðun velferðarráðs hafi hvorki brotið gegn framangreindum reglum um sérstakan húsnæðisstuðning, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991, né öðrum ákvæðum laganna.

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar er ítrekað að útreikningur sérstaks húsnæðisstuðnings til kæranda hafi verið í samræmi við 4. og 5. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglnanna hafi velferðarráð heimild til að veita undanþágu frá reglunum ef sérstakar málefnalegar ástæður liggi fyrir. Það hafi verið mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar að það væru ekki sérstakar málefnalegur ástæður fyrirliggjandi í máli kæranda til að veita undanþágu frá útreikningi sérstaks húsnæðisstuðnings. Ástæður sem lúti að hækkun á upphæð húsaleigu af hálfu Félagsbústaða hf. og breyting á útreikningi sérstaks húsnæðisstuðnings falli ekki þar undir.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að staðfesta útreikning á sérstökum húsnæðisstuðningi.

Í IV. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Þar segir í 12. gr. að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Aðstoð og þjónusta skal jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf, sbr. 2. mgr. 12. gr. Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 skulu sveitarfélög veita sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við nánari reglur sem sveitarstjórn setur. Samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins skal ráðherra, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, gefa út leiðbeinandi reglur til sveitarstjórna um framkvæmd stuðnings samkvæmt 2. og 3. mgr. ásamt viðmiðunarfjárhæðum.

Í leiðbeinandi reglum velferðarráðuneytisins fyrir sveitarfélög um framkvæmd sérstaks húsnæðisstuðnings kemur meðal annars fram að markmið reglnanna sé að auka samræmi í opinberum húsnæðisstuðningi. Leiðbeiningunum sé ætlað að vera sveitarstjórnum og fastanefndum þeirra til aðstoðar við undirbúning að setningu reglna en jafnframt þjóni þær þeim tilgangi að vera til fyllingar reglum einstakra sveitarfélaga og til hliðsjónar við skýringu þeirra. 

Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárstuðningur til greiðslu á húsaleigu umfram húsnæðisbætur sem veittar eru á grundvelli laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur og ætlaður þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Í 3. gr. reglnanna er að finna skilyrði fyrir samþykki umsóknar og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í 1.–6. tölul. 1. mgr. ákvæðisins. Óumdeilt er að kærandi uppyllir skilyrði til greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings og að greiðslur til hans á árinu 2017 voru í samræmi við ákvæði 4. og 5. gr. reglnanna.

Í 1. mgr. 18. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning kemur fram að starfsmenn viðkomandi þjónustumiðstöðvar taki ákvarðanir samkvæmt reglunum í umboði velferðarráðs Reykjavíkurborgar. Í 2. mgr. 18. gr. er vísað til þess að velferðarráð Reykjavíkurborgar hafi heimild til að veita undanþágu frá reglunum ef sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir og notandi fer fram á það með sérstakri beiðni til velferðarráðs Reykjavíkurborgar innan fjögurra vikna frá því að honum barst vitneskja um ákvörðun. Velferðarráð skal fjalla um umsóknina og taka ákvörðun svo fljótt sem unnt er. Með erindi til velferðarráðs Reykjavíkurborgar, dags. 30. október 2017, óskaði kærandi eftir því að kostnaður vegna húsnæðis yrði hinn sami og hann var fyrir gildistöku núverandi kerfis en að öðrum kosti að fjárhæð sérstaks húsnæðisstuðnings yrði endurskoðuð og hækkuð verulega. Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til þess að umsókn kæranda um sérstakan húsnæðisstuðning hafi verið tekin fyrir á fundi velferðarráðs þar sem staðfestur var útreikningur starfsmanna þjónustumiðstöðvar á sérstökum húsnæðisstuðningi í samræmi við 4. og 5. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Í rökstuðningi velferðarráðs er einnig vísað til þess að það hafi verið mat ráðsins að hafna beiðni um endurskoðun á fjárhæð sérstaks húsnæðisstuðning þar sem sá útreikningur væri í samræmi við ákvæði 4. og 5. gr. reglnanna. Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur komið fram að ekki hafi verið sérstakar málefnalegur ástæður fyrirliggjandi í máli kæranda til að veita undanþágu frá útreikningi sérstaks húsnæðisstuðnings. Ástæður sem lúti að hækkun á upphæð húsaleigu af hálfu Félagsbústaða hf. og breyting á útreikningi sérstaks húsnæðisstuðnings falli ekki þar undir.

Í undanþáguákvæði 2. mgr. 18. gr. framangreindra reglna er ekki að finna nánari skýringar á því hvað teljist vera sérstakar málefnalegar ástæður. Úrskurðarnefndin bendir á að við beitingu slíkrar matskenndrar reglu beri Reykjavíkurborg að leggja heildstætt mat á aðstæður þeirra sem óska sérstaklega eftir undanþágu, en óumdeilt er að kærandi gerði það. Í því samhengi bendir úrskurðarnefndin á það sem fram kemur í leiðbeinandi reglum velferðarráðuneytisins um þá breytingu sem felist í forsendum sérstaks húsnæðisstuðnings með því að ákvæði um hann séu færð í lög nr. 40/1991 í stað laga um húsnæðisbætur. Þar segir: 

„Með því að ákvæðin eru nú í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga ber að túlka ákvæði með hliðsjón af markmiði og tilgangi laganna sem er m.a. að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa. Þannig er þjónusta sem veitt er á grundvelli laganna alltaf veitt á grundvelli mats á þörf fyrir viðkomandi þjónustu, sbr. 2. mgr. 12. gr. laganna, þar sem segir að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Þannig þarf ákvörðun um sérstakan húsnæðisstuðning að byggjast á heildarmati á aðstæðum umsækjanda en ekki bara hlutlægum tekju- og eignaviðmiðum. Þannig þarf einnig að meta hvort um sé að ræða sérstaklega þunga framfærslubyrði eða aðrar félagslegar aðstæður sem leitt geta til þess að þörf fyrir stuðning sé meiri eða minni en hlutlæg viðmið gefa til kynna. Ef þessir þættir eru ekki metnir verður vandséð að sveitarfélag hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni við töku ákvörðunar um sérstakan húsnæðisstuðning.“ 

Þótt um sé að ræða heimildarreglu verður Reykjavíkurborg að gæta samræmis og jafnræðis og sjá til þess að ákvörðun byggist á þeim þáttum sem koma til álita við ákvörðun um hvort veita skuli undanþágu. Þar sem viðmiðin sem um ræðir koma ekki fram í reglum Reykjavíkurborgar er mikilvægt að vandað sé til matsins og niðurstaða þess sé skráð með viðhlítandi hætti. Umrædd regla byggir á mati stjórnvalds og tilvísun til reglunnar veitir umsækjanda aðeins takmarkaða vitneskju um hvaða aðstæður leiddu til niðurstöðu máls. Af þeim sökum er nauðsynlegt að stjórnvald greini frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það er forsenda þess að umsækjandi átti sig á því hvað felist í sérstökum málefnalegum aðstæðum og geti lagt fram gögn eða veitt upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að málið teljist nægjanlega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Er það einnig forsenda þess að umsækjandi geti nýtt andmælarétt sinn, sbr. 13. gr. sömu laga.

Með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki liggi fyrir að aðstæður kæranda hafi verið rannsakaðar með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Getur úrskurðarnefndin því ekki lagt mat á það hvort ákvörðun sveitarfélagsins hafi verið byggð á lögmætum sjónarmiðum. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, frá 22. nóvember 2017, um að staðfesta útreikning á sérstökum húsnæðisstuðningi til handa A, er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta