Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 10/2013.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík


Miðvikudaginn 4. desember 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 10/2013:

 

Kæra A

á ákvörðun

Mosfellsbæjar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 20. febrúar 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Mosfellsbæjar, dags. 15. janúar 2013, um að hann skuli endurgreiða sveitarfélaginu fjárhagsaðstoð sem hann fékk greidda í ágúst og september árið 2012 að fjárhæð 214.608 kr. Ákvörðunin byggðist á því að kærandi hafi ekki veitt upplýsingar um tekjur sem hann hafði fengið frá Atvinnuleysistryggingasjóði á sama tíma og hann fékk fjárhagsaðstoð mánuðina ágúst og september 2012. Kærandi krefst þess að fá endurgreiddar 100.000 kr. sem hann hefur greitt upp í skuldina og að fá afganginn af skuldinni felldan niður.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2012 hjá Mosfellsbæ með umsókn, dags. 15. ágúst 2012. Með bréfi Mosfellsbæjar, dags. 16. ágúst 2012, var kærandi upplýstur um hvaða gögn þyrftu að berast svo umsóknin yrði tekin til meðferðar. Ekki liggur fyrir að kærandi hafi lagt fram frekari gögn vegna umsóknarinnar og umsóknin því ekki tekin til meðferðar. Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir september 2012 með umsókn, dags. 3. september 2012. Umsókn kæranda var tekin til umfjöllunar á trúnaðarmálafundi fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar þann 20. september 2012 og var svohljóðandi bókun gerð:

Umsókn mótt. 03.09.12

Samþykkt fjárhagsaðstoð samkvæmt reglum 102.824 krónur fyrir ágúst 2012 og 135.000 krónur fyrir september 2012.

Kærandi sótti enn fremur um fjárhagsaðstoð fyrir október og nóvember 2012 og samþykkti trúnaðarmálafundur að greiða honum 135.000 kr. fyrir hvorn mánuð. Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir desembermánuð með umsókn, dags. 27. nóvember 2012. Umsókn kæranda var tekin til umfjöllunar á trúnaðarmálafundi þann 13. desember 2012 og var svohljóðandi bókun gerð:

Umsókn móttekin 27.11.2012

Samþykkt umsókn um fjárhagsaðstoð í desember 135.000 krónur ásamt greiðslu jólastyrks að upphæð 33.750.

Í ljós hefur komið að umsækjandi hefur veitt rangar upplýsingar um tekjur sem hann fékk greiddar frá Atvinnuleysistryggingasjóði á sama tíma og hann fékk greidda fjárhagsaðstoð mánuðina ágúst og september 2012.

Í samræmi við 21. gr. reglna Mosfellsbæjar um fjárhagsaðstoð frá 16. desember 2009 með síðari breytingum ber honum að endurgreiða upphæðina 214.608 krónur.

Fjárhagsaðstoð vegna desembermánaðar verður því skuldajöfnuð til greiðslu umræddri skuld, að öllu leyti eða að hluta samkvæmt samkomulagi við umsækjanda.

Á trúnaðarmálafundi þann 10. janúar 2013 var fjallað um mál kæranda og svohljóðandi bókun gerð:

Fjárhagsaðstoð

Minnisblað félagsráðgjafa kynnt.

Vísað til afgreiðslu fjölskyldunefndar.“

Fjölskyldunefnd tók málið fyrir á fundi sínum þann 15. janúar 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Fjárhagsaðstoð

Málinu vísað til fjölskyldunefndar til afgreiðslu.

Niðurstaða fjölskyldunefndar samkvæmt bókun í málinu.

Umsækjandi veitti ekki upplýsingar um tekjur sem hann fékk greiddar frá Atvinnuleysistryggingarsjóði á sama tíma og hann fékk greidda fjárhagsaðstoð mánuðina ágúst og september 2012. Í samræmi við 21. gr. reglna Mosfellsbæjar um fjárhagsaðstoð frá 16. desember 2009 með síðari breytingum ber honum að endurgreiða upphæðina 214.608 krónur.

Í stað þess að skuldajafna upphæðina í heilu lagi hefur honum verið boðið að endurgreiða skuldina með sex jöfnum greiðslum tímabilið desember 2012 -maí 2013. Umsækjandi hefur hafnað því boði og óskar eftir því að endurgreiða skuldina með greiðslu 10.000 kr. á mánuði.

Fjölskyldunefnd getur ekki fallist á ósk umsækjanda enda hefur þegar verið fallist á að endurgreiðslan skiptist á lengra tímabil sbr. fyrrgreint.

 

Niðurstaða fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 15 janúar 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 20. febrúar 2013. Með bréfi, dags. 22. febrúar 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Mosfellsbæjar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Mosfellsbæjar barst með bréfi, dags. 14. mars 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 15. mars 2013, var bréf Mosfellsbæjar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi vísar til þess að hann hafi sótt um fjárhagsaðstoð um miðjan ágúst 2012 hjá Mosfellsbæ þar sem hann hafi verið settur á bið hjá Vinnumálastofnun en nokkrum dögum síðar hafi hann fengið fullar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Kærandi kveðst hafa mætt samdægurs á skrifstofur Mosfellsbæjar til að láta vita af þessari greiðslu og að hann hafi ekki þörf fyrir fjárhagsaðstoð fyrir ágúst mánuð. Kærandi hafi sótt aftur um fjárhagsaðstoð í september 2012 þar sem hann hafi fengið lága útborgun frá Vinnumálastofnun þann mánuð. Kærandi bendir á að hann hafi fengið greiddar 214.608 kr. um miðjan september og þegar hann hafi óskað skýringa á fjárhæðinni hafi hann fengið þær upplýsingar að um hafi verið að ræða fjárhagsaðstoð fyrir tvo mánuði.

Kærandi heldur því fram að hann hafi ekki gefið upp rangar upplýsingar þar sem hann hafi ekki beðið um fjárhagsaðstoð fyrir ágústmánuð. Mosfellsbæ hafi borið að leiðrétta mistökin þegar hann hafi óskað skýringa á fjárhæðinni sem hann hafi fengið greidda í septembermánuði. Kærandi telur að hann eigi ekki að gjalda fyrir mistök sveitarfélagsins. Að auki hafi hann ekki ráð á því að greiða 35.768 kr. á mánuði í hálft ár og óskar eftir að greiða 10.000 kr. á mánuði.

Þá bendir kærandi á að hann hafi átt að fá að minnsta kosti 60.000 kr. í fjárhagsaðstoð í septembermánuði þar sem hann hafi aðeins fengið 79.608 kr. frá Vinnumálastofnun. Kærandi gerir því athugasemd við að fjárhæð endurgreiðslunnar nemi 214.608 kr. og óskar skýringa á þeirri fjárhæð. Enn fremur telur kærandi að afstaða hans, sem fram komi í bréfi til sveitarfélagsins, hafi ekki verið tekin til greina við ákvörðun Mosfellsbæjar. Að sögn kæranda fékk hann engar upplýsingar um málið í um eina og hálfa viku eftir að honum var tilkynnt um ákvörðunina og hafi ekki fengið greidda fjárhagsaðstoð fyrir desembermánuð fyrr en þann 19. desember 2012. Kærandi gerir athugasemd við að 35.768 kr. hafi verið teknar af honum upp í skuldina þrátt fyrir að hann hafi tekið fram að hann hefði ekki efni á að greiða slíka fjárhæð.

 

III. Sjónarmið Mosfellsbæjar

Í athugasemdum Mosfellsbæjar vegna kærunnar kemur fram að þegar kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð í september hafi hann skilað inn greiðsluseðlum frá Vinnumálastofnun fyrir mánuðina maí, júní og júlí. Við afgreiðslu umsóknar kæranda hafi því verið horft til tekna í júlí 2012 en ekki tekna í ágúst og september 2012. Mosfellsbær tekur fram að kæranda hafi borið að skila inn greiðsluseðlum síðustu þriggja mánaða, þ.e. júlí, ágúst og september. Kærandi hafi fengið greitt frá Vinnumálastofnun þann 16. ágúst 2012 og 5. september 2012. Þessar greiðslur hafi hann því þegar fengið þegar hann hafi mætt í viðtal við starfsmann Mosfellsbæjar þann 14. september 2012. Mosfellsbær telur því ljóst að kærandi hafi veitt rangar upplýsingar. Í 21. gr. reglna Mosfellsbæjar um fjárhagsaðstoð segi að fái umsækjandi hærri bætur en honum beri sem byggðar séu á röngum eða villandi upplýsingum beri honum að endurgreiða fjárhæðina sem um ræði.

Mosfellsbær bendir á að kærandi hafi auk fjárhagsaðstoðar fengið greiddar húsaleigubætur og sérstakar húsaleigubætur. Sú fjárhagsaðstoð sem hann hafi fengið hafi numið 142.290 kr. á mánuði. Kærandi skuli endurgreiða ofgreiðslu í sex jöfnum greiðslum sem nemi 35.768 kr. og fái því greiddar 106.522 kr. á mánuði í fjárhagsaðstoð. Hann fái einnig greiddar húsaleigubætur að fjárhæð 20.000 kr. á mánuði og sérstakar húsaleigubætur að fjárhæð 26.000 kr. á mánuði. Heildargreiðslur til kæranda séu því 152.522 kr. á mánuði en hann greiði 70.000 kr. í húsaleigu á mánuði.

Mosfellsbær vísar til 1. og 2. gr. reglnanna þar sem fram komi að fjárhagsaðstoð sé veitt fólki í tímabundnum erfiðleikum og sé aðstoð við einstaklinga til að mæta grunnþörfum þeirra. Fjárhagsaðstoð sé ætluð til framfærslu en ekki til greiðslu skulda. Það sé mat Mosfellsbæjar að einstaklingur geti framfleytt sér með þeirri fjárhæð sem kærandi fái greidda mánaðarlega. Beiðni kæranda um endurgreiðslu á 22 mánuðum hafi ekki verið samþykkt þar sem fjárhagsaðstoð sé tímabundið úrræði og ekki gengið út frá því að umsækjendur þiggi fjárhagsaðstoð árum saman.

Mosfellsbær telur að umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir desember 2012 hafi hlotið eðlilegan afgreiðslutíma. Kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð þann 27. nóvember 2012 og þá beðinn um að skila inn nýju staðgreiðsluyfirliti. Því hafi verið skilað þann 5. desember 2012. Þá hafi komið í ljós að kærandi hafði fengið ofgreitt. Haft hafi verið samband við kæranda og hann mætt í kjölfarið í viðtal þann 7. desember 2012. Umsóknin hafi verið tekin fyrir á næsta trúnaðarmálafundi þann 13. desember 2012 og kærandi fengið greitt eftir að rætt hafði verið við hann í síma þann 18. desember 2012 og hann samþykkt að greiða ofgreiðsluna í sex jöfnum greiðslum í því símtali.

Mosfellsbær bendir á að misræmi sé í frásögn kæranda í viðtali þann 7. desember 2012. Hann hafi í byrjun viðtalsins sagst ekki hafa vitað af greiðslum frá Vinnumálastofnun og að sér hafi komið á óvart hversu háar greiðslur hann hafi fengið frá Mosfellsbæ í septembermánuði. Hann kveðist hafa spurt út í þetta í október þegar hann hafi sótt um fjárhagsaðstoð og fengið þær upplýsingar að um tvo mánuði væri að ræða. Seinna í viðtalinu segist kærandi hafa komið í ágúst og látið vita að hann þyrfti ekki að fá fjárhagsaðstoð í ágúst.

Mosfellsbær vísar til þess að samkvæmt 6. gr. reglna Mosfellsbæjar um fjárhagsaðstoð sé heimilt að greiða fjárhagsaðstoð einn mánuð aftur í tímann og því hafi ágústmánuður verið tekinn með. Við útreikning fjárhagsaðstoðar fyrir ágúst hafi verið horft á tekjur júlímánaðar í stað ágústmánaðar og því hafi kvarðaaðstoð fyrir ágústmánuð verið lægri eins og reglur geri ráð fyrir.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð í Mosfellsbæ frá 16. desember 2009, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort kæranda hafi borið að endurgreiða fjárhagsaðstoð sem hann fékk frá Mosfellsbæ fyrir ágúst og september 2012 að fjárhæð 214.608 kr.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála tekur fram að kærufrestur til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála vegna ákvarðana sveitarfélaga um sérstakar húsaleigubætur er þrír mánuðir frá því aðila máls barst vitneskja um ákvörðun, sbr. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 40/1991. Í bréfum Mosfellsbæjar til kæranda þar sem stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélagsins varðandi fjárhagsaðstoð eru birtar kæranda er hins vegar tekið fram að hægt sé að skjóta ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og það skuli gert innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi barst vitneskja um ákvörðun. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Mosfellsbæjar að gæta að því að leiðbeiningar um kæruheimild og kærufrest séu réttar.

Vegna tilvísunar Mosfellsbæjar til 6. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Mosfellsbæ telur úrskurðarnefndin rétt að benda á að samkvæmt ákvæðinu er að öllu jöfnu ekki heimilt að greiða fjárhagsaðstoð meira en einn mánuð aftur í tímann. Í 3. mgr. 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga segir hins vegar að aldrei sé skylt að veita fjárhagsaðstoð lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn er lögð fram. Ákvæði 3. mgr. 21. gr. laganna kveður því á um rýmri rétt en fram kemur í reglum Mosfellbæjar um fjárhagsaðstoð. Ákvæði 3. mgr. 21. gr. laganna var nýmæli með lögum nr. 34/1997, um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Í athugasemdum sem fylgdi frumvarpi að baki lögunum sagði að ekki yrði gert ráð fyrir því að reglur sveitarfélaga kvæðu á um greiðslur aftur í tímann og sérstök tímamörk í því sambandi. Var ástæðan sú að með því væri verið að leggja til að almennar reglur kröfuréttar sættu vissum takmörkunum. Slíkar takmarkanir á almennum lögum í landinu yrðu einungis settar með lögum, en reglur sveitarfélaga gætu ekki þrengt almennan rétt sem í landslögum fælist. Beinir úrskurðarnefndin þeim tilmælum til Mosfellsbæjar að reglur sveitarfélagsins verði endurskoðaðar með þetta í huga.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð hjá Mosfellsbæ fyrir september 2012 og lagði fram tekjuupplýsingar fyrir maí, júní og júlí 2012. Á grundvelli tekjuupplýsinga fyrir júlí 2012 var samþykkt að greiða honum 102.824 kr. fyrir ágúst 2012 og 135.000 kr. fyrir september 2012. Í desember 2012 lagði kærandi fram tekjuupplýsingar vegna umsóknar um fjárhagsaðstoð fyrir þann mánuð og var þar meðal annars að finna tekjuupplýsingar fyrir ágúst og september 2012. Mosfellsbær taldi að í ljósi þess að kærandi hafi ekki veitt upplýsingar um tekjur sem hann hafi fengið greiddar frá Atvinnuleysistryggingarsjóði í ágúst og september 2012 bæri honum á grundvelli 21. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Mosfellsbæ að endurgreiða fjárhagsaðstoð að fjárhæð 214.608 kr. Kæranda var boðið að endurgreiða skuldina með sex jöfnum greiðslum á tímabilinu desember 2012 til maí 2013. Kærandi heldur því fram að hann hafi ekki gefið upp rangar upplýsingar þar sem hann hafi ekki beðið um fjárhagsaðstoð fyrir ágústmánuð. Mosfellsbæ hafi borið að leiðrétta mistökin þegar hann hafi óskað skýringa á fjárhæðinni sem hann hafi fengið greidda í septembermánuði. Kærandi telur að hann eigi ekki að gjalda fyrir mistök sveitarfélagsins.

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir september 2012 en Mosfellsbær samþykkti að greiða kæranda aðstoð fyrir ágúst og september 2012 á grundvelli 6. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Mosfellsbæ. Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglnanna er að öllu jöfnu ekki heimilt að greiða fjárhagsaðstoð meira en einn mánuð aftur í tímann hafi viðkomandi átt rétt á aðstoð. Úrskurðarnefndin telur því ekki ástæðu til að gera athugasemd við framangreinda framkvæmd Mosfellsbæjar sérstaklega í ljósi þess að kærandi hafði áður lagt fram umsókn fyrir ágúst 2012 sem ekki var tekin til meðferðar vegna ófullnægjandi gagna. Þó bar Mosfellsbæ að ganga úr skugga um að kærandi hafi átt rétt á fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2012 áður en tekin var ákvörðun um greiðslu fjárhagsaðstoðar aftur í tímann.

Í 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Mosfellsbæ er fjallað um umsókn um fjárhagsaðstoð og fylgigögn. Á umsókn skulu m.a. koma fram upplýsingar um tekjur, sbr. 1. mgr. 7. gr. reglnanna. Meðal þeirra gagna sem fylgja skulu umsókn er tekjuyfirlit, sem sýnir mánaðarlegar tekjur og gjöld umsækjenda, staðfest afrit síðasta skattframtals, afrit launaseðla síðustu þriggja mánaða, yfirlit yfir bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, barnabætur og afrit síðasta álagningarseðils, sbr. 2. tölul. 3. mgr. 7. gr. reglnanna. Þá skulu einnig fylgja upplýsingar úr staðgreiðsluskrá, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 7. gr. reglnanna.  

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. reglnanna skulu allar tekjur umsækjanda í þeim mánuði sem sótt er um og mánuðinn á undan koma til frádráttar grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sbr. 9. gr. reglnanna, við ákvörðun um fjárhæð fjárhagsaðstoðar. Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir september 2012 með umsókn, dags. 3. september 2012. Við ákvörðun um fjárhæð fjárhagsaðstoðar fyrir september 2012 bar því að horfa til tekna kæranda í ágúst og september 2012. Mosfellsbær tók einnig ákvörðun um að greiða kæranda fjárhagsaðstoð aftur í tímann fyrir ágúst 2012. Við ákvörðun um fjárhæð fjárhagsaðstoðar fyrir ágúst 2012 telur úrskurðarnefndin að rétt hefði verið að horfa til tekna kæranda í júlí og ágúst 2012. Ákvörðun Mosfellsbæjar um greiðslu fjárhagsaðstoðar byggði hins vegar á tekjum kæranda í júlí 2012.

Mosfellsbær heldur því fram að kæranda hafi borið að leggja fram greiðsluseðla síðustu þriggja mánaða, þ.e. júlí, ágúst og september 2012, með umsókn sinni. Þar sem hann hafi lagt fram greiðsluseðla fyrir maí, júní og júlí 2012 hafi verið miðað við tekjur hans í júlí 2012. Úrskurðarnefndin tekur fram að á umsóknareyðublaði fyrir fjárhagsaðstoð í Mosfellsbæ, er kærandi fyllti út, kemur fram að umsókn skuli fylgja launaseðlar síðastliðinna þriggja mánaða. Þá segir að umsókn skuli fylgja greiðsluseðlar vegna atvinnuleysisbóta en ekki er sérstaklega tekið fram fyrir hvaða tímabil. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að leiðbeiningar Mosfellsbæjar á umsóknareyðublaði um fjárhagsaðstoð hafi ekki verið nægilega skýrar að þessu leyti. Þá skal tekið fram að hafi Mosfellsbær talið að ekki lægju fyrir rétt fylgigögn með umsókn um fjárhagsaðstoð hefði verið rétt að upplýsa kæranda um það og óska frekari gagna. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að Mosfellsbæ hafi verið óheimilt að byggja ákvörðun um greiðslu fjárhagsaðstoðar á tekjum kæranda í júlí 2012, enda er það í andstöðu við skýrt ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 10. gr., sbr. 9. gr. reglnanna.

Við meðferð kærumáls þessa hefur úrskurðarnefndin aflað upplýsinga um tekjur kæranda fyrir ágúst og september 2012. Við ákvörðun um fjárhæð fjárhagsaðstoðar fyrir ágúst 2012 bar að horfa til tekna kæranda í júlí og ágúst 2012, sbr. 10. gr. reglnanna. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra voru tekjur kæranda 0 kr. í júlí 2012 og 246.784 kr. í ágúst 2012. Meðalmánaðartekjur kæranda í júlí og ágúst 2012 voru því 123.392 kr. Þegar umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð var afgreidd var grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar 128.627 kr. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi átt rétt á fjárhagsaðstoð að fjárhæð 5.235 kr. í ágúst 2012.

Við ákvörðun fjárhagsaðstoðar fyrir september 2012 bar að horfa til tekna kæranda í ágúst og september 2012, sbr. 10. gr. reglnanna. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra voru tekjur kæranda 246.784 kr. í ágúst 2012 og 237.824 kr. í september 2012. Kærandi fékk greidda fjárhagsaðstoð að fjárhæð 102.824 kr. fyrir ágúst 2012 og 135.000 kr. fyrir september 2012. Má af því ráða að kærandi hafi haft tekjur að fjárhæð 246.784 kr. í ágúst 2012 en engar tekjur í september 2012 aðrar en fjárhagsaðstoð frá Mosfellsbæ. Úrskurðarnefndin telur því rétt að miða við að meðalmánaðartekjur kæranda í ágúst og september 2012 hafi verið 123.392 kr. Þegar umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð var afgreidd var grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar 128.627 kr. Meðalmánaðartekjur kæranda á viðmiðunartímabili 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. reglnanna voru 123.392 kr. og koma til frádráttar framangreindri grunnfjárhæð. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi átt rétt á fjárhagsaðstoð að fjárhæð 5.235 kr. í september 2012.

Líkt og að framan greinir fékk kærandi greidda fjárhagsaðstoð að fjárhæð 102.824 kr. fyrir ágúst 2012 og 135.000 kr. fyrir september 2012 en úrskurðarnefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi átt rétt á 5.235 kr. fyrir hvorn mánuð. Kærandi fékk því greiddar 227.354 kr. umfram það sem hann átti rétt á, sbr. 9. og 10. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Mosfellsbæ. Í 23. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga kemur fram að fjárhagsaðstoð sem veitt er á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hendi þess sem aðstoðina fái sé ætíð endurkræf. Þá segir í 21. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Mosfellsbæ að rangar eða villandi upplýsingar sem leiði til þess að umsækjandi fái greiddar hærri bætur eða styrk en honum beri samkvæmt reglunum leiði til þess að hægt sé að krefja viðkomandi um endurgreiðslu eftir almennum reglum um kröfurétt. Úrskurðarnefndin telur liggja fyrir að upplýsingar þær er kærandi lagði fram hafi hvorki verið rangar né villandi enda þótt þær hafi verið fyrir annað tímabil en miða skal við samkvæmt reglum sveitarfélagsins. Úrskurðarnefndin telur ljóst að ofgreiðslu fjárhagsaðstoðar til kæranda megi rekja til þess að ákvörðun Mosfellsbæjar um greiðslu fjárhagsaðstoðar var ekki í samræmi við ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 10. gr., sbr. 9. gr., reglnanna. Kröfu um endurheimtu ber að hafna á grundvelli hagsmuna kæranda sem í góðri trú hefur tekið við greiðslum sér til framfærslu og hagað fjármálum sínum í samræmi við það að greiðslurnar væru með réttu hans. Ekki liggur annað fyrir en að kærandi hafi verið í góðri trú um að hann hafi átt rétt á þeim greiðslum sem hann fékk frá sveitarfélaginu. Fjárhagsaðstoð er öðrum greiðslum fremur til þess fallin að vekja grandlausum umsækjanda það traust að honum beri þær með réttu. Grandlaus umsækjandi um fjárhagsaðstoð treystir því að um endanlegt uppgjör hafi verið að ræða sem hann þurfi ekki að eiga á hættu að hróflað verði við síðar, enda hefur sveitarfélagið almennt yfirburðaaðstöðu til að meta hvað sé rétt greiðsla ásamt því að sveitarfélagið annast útreikningana. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að Mosfellsbæ hafi verið óheimilt að endurkrefja kæranda um fjárhagsaðstoð sem hann fékk greidda fyrir ágúst og september 2012 að fjárhæð 214.608 kr. Hin kærða ákvörðun verður því felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að endurgreiða kæranda fjárhæðina.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Mosfellsbæjar, dags. 15. janúar 2013, um að krefja A, um endurgreiðslu ofgreiddrar fjárhagsaðstoðar fyrir ágúst og september 2012 að fjárhæð 214.608 kr. er felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að endurgreiða kæranda fjárhæðina.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

  

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta