Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 376/2017

Mál nr. 376/2017

Fimmtudaginn 14. desember 2017

A
gegn
Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. október 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn hans um liðveislu.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 5. október 2016, sótti kærandi um 30 tíma á mánuði í liðveislu frá Reykjavíkurborg á grundvelli 24. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 19. október 2016, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið samþykkta 25 tíma á mánuði í liðveislu. Tekið var fram að haft yrði samband við hann um leið og þjónustan gæti hafist og gengið frá þjónustusamningi í kjölfarið. Með umsókn, dags. 19. janúar 2017, sótti kærandi um 110 tíma á mánuði í frekari liðveislu frá Reykjavíkurborg. Með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 23. janúar 2017, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið samþykkta 24 tíma á mánuði í frekari liðveislu. Tekið var fram að haft yrði samband við hann um leið og þjónustan gæti hafist og gengið frá þjónustusamningi í kjölfarið. Kærandi hefur vísað til þess að enn hafi ekki nein þjónusta hafist og kærir því drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Með bréfi, dags. 18. október 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 16. nóvember 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. nóvember 2017, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að engin þjónusta hafi farið í gang hjá Reykjavíkurborg í kjölfar umsóknar hans um liðveislu né hugmyndir að lausn málsins þrátt fyrir óteljandi fyrirspurnir og tölvupóstsamskipti. Afgreiðsla málsins sé með öllu ólíðandi en það ætti öllum að vera ljóst að félagsþjónustan þurfi að koma með viðunandi lausn án tafar.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að kærandi hafi sótt um liðveislu þann 5. október 2016 og fengið samþykktar 25 klukkustundir á mánuði. Í kjölfarið hafi kærandi verið settur á biðlista þar til þjónusta gæti hafist og upplýstur um það. Þann 26. október 2016 hafi móðir kæranda óskað eftir aðstoð við að koma honum að hjá B og það hafi verið gert. Mæðginin hafi verið upplýst um að kærandi kæmist þar að en þá hafi komið í ljós að hann vildi ekki skoða þann möguleika. Í lok nóvember 2016 hafi móðir kæranda haft samband við þjónustumiðstöð og vakið athygli á því að hún teldi að liðveisla í 25 klukkustundir á mánuði væri ekki nægileg fyrir hann. Verkefnastjóri í málefnum fatlaðs fólks hafi hvatt til þess að kærandi myndi sækja um frekari liðveislu og það hafi verið gert með umsókn, dags. 19. janúar 2017. Kærandi hafi þá fengið samþykktar 24 klukkustundir á mánuði í frekari liðveislu.

Reykjavíkurborg tekur fram að í lok janúar 2017 hafi verkefnastjóri þjónustumiðstöðvarinnar og nýráðinn þroskaþjálfi, sem ætlað hafi verið að sinna frekari liðveislu kæranda, heimsótt hann en kærandi hafi ekki viljað ræða við liðveitandann. Í heimsókninni hafi móðir kæranda upplýst um það að hún keypti þjónustu frá C ehf. og þaðan komi starfsmaður aðra hvora helgi til að hitta kæranda. Þá hafi verið lagt til að liðveitandi þjónustumiðstöðvarinnar og starfsmaður C ehf. myndu hitta kæranda saman til að auðvelda kynnin. Liðveitandinn hafi mörgum sinnum reynt að hafa samband við kæranda en það hafi reynst erfitt. Þegar óskað hafi verið eftir símanúmeri hjá starfsmanni C ehf. hafi móðir kæranda ekki kannast við að vera með slíkan starfsmann. Í mars 2017 hafi karlkyns liðveitandi tekið að sér að hitta kæranda, að ósk móður hans, en liðveitandinn hafi boðið kæranda að taka þátt í hóptíma þar sem hann þurfti að liðsinna mörgum. Þeir hafi hist tvisvar sinnum einir en síðan hafi starfsmaðurinn verið afboðaður af móður kæranda.

Reykjavíkurborg vísar til þess að þann 26. apríl 2017 hafi verið haldinn fundur með kæranda, móður hans, réttindagæslumanni, deildarstjóra stuðningsþjónustu og verkefnastjóra í málum fatlaðra á þjónustumiðstöðinni. Þar hafi verið farið yfir stöðu mála og kærandi hafi sótt um sértæka búsetu. Sú umsókn hafi verið samþykkt í maí 2017. Um svipað leytið hafi verið ráðinn annar liðveitandi en hann og kærandi hafi hist í allt að 30 klukkustundir á mánuði yfir sumarið 2017. Sá starfsmaður hafi hætt störfum um haustið en sinni enn starfi sínu sem liðveitandi kæranda einu sinni í viku, samtals 12 klukkustundir á mánuði. Þann 23. ágúst 2017 hafi kærandi sótt um atvinnu með stuðningi (AMS) hjá Vinnumálastofnun. Þegar ráðgjafar AMS hafi heimsótt kæranda og móður hans til að ræða um samstarf hafi hann ekki viljað taka þátt í viðtalinu og farið út úr húsi. Fundinum hafi samt sem áður verið haldið áfram þrátt fyrir fjarveru kæranda og rætt um áhugasvið hans. Boðin hafi verið aðstoð við að finna vinnu við hæfi og stuðning til að hefja það starf en til þess að hægt væri að gera vinnusamning þyrftu starfsmenn AMS að hitta kæranda. Þann 11. október 2017 hafi starfsmenn AMS ekki verið búnir að heyra aftur frá móður kæranda. Að hennar sögn hafi hún haft samband við B og kærandi myndi byrja þar í nóvember. Þar hafi hins vegar enginn kannast við að hafa fengið umsókn frá kæranda og ekki væri hægt að taka á móti honum fyrr en eftir að viðtal hefði farið fram. Sama dag hafi móðir kæranda verið upplýst um að nýr starfsmaður myndi hefja störf við frekari liðveislu hjá þjónustumiðstöðinni 1. nóvember 2017 og hann yrði fenginn til að liðsinna kæranda. Í tilefni af því hafi verið skipulagður fundur þann 2. nóvember til að kynna nýja liðveitandann fyrir kæranda. Fundinum hafi verið frestað til 7. nóvember að ósk móður kæranda en hún hafi mætt ein á fundinn þar sem kærandi hafi ekki viljað taka þátt.

Með vísan til alls framangreinds sé ljóst að kæranda hafi verið veitt þjónusta af hálfu Reykjavíkurborgar. Kærandi hafi þegið liðveislu frá maí 2017 en erfiðlega hafi reynst að koma á þjónustu um frekari liðveislu. Þann 1. nóvember 2017 hafi annar liðveitandi verið ráðinn til að sinna frekari liðveislu við kæranda en afgreiðsla málsins hafi meðal annars tafist sökum þess að erfitt hafi reynst að finna liðveitanda sem kærandi treysti til að þjónusta sig.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um liðveislu frá október 2016 og umsókn um frekari liðveislu frá janúar 2017. Kærandi hefur vísað til þess að enn hafi ekki nein þjónusta hafist og kærir því drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fjallað er um réttindi fatlaðs fólks í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Samkvæmt 7. gr. laganna skal fatlað fólk eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skal leitast við að veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reynist þjónustuþörf fatlaðs einstaklings meiri en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skal hann fá þjónustu samkvæmt lögunum. Við framkvæmd laganna skal tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar sem og kostnaði vegna hennar, samkvæmt lögunum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum.

Í 24. gr. laga nr. 59/1992 er kveðið á um að sveitarfélög skuli eftir föngum gefa fötluðu fólki kost á liðveislu. Með liðveislu sé átt við persónulegan stuðning og aðstoð sem einkum miði að því að rjúfa félagslega einangrun, til dæmis aðstoð til að njóta menningar og félagslífs. Í sérstökum tilvikum skal veita fötluðum einstaklingum frekari liðveislu sem feli í sér margháttaða aðstoð við ýmsar athafnir daglegs lífs, enda sé hún nauðsynleg til að koma í veg fyrir dvöl á stofnun, sbr. 25. gr. laganna. Reykjavíkurborg hefur útfært nánar framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, meðal annars með reglum um stuðningsþjónustu í Reykjavík sem samþykktar voru í borgarráði 7. júní 2012. Í 2. gr. reglnanna kemur fram að markmið stuðningsþjónustu sé að veita aðstoð við notendur sem þurfa sakir fötlunar eða aðstæðna sinna á auknum stuðningi að halda umfram grunnþjónustu. Stuðningsþjónusta sé aðstoð við athafnir daglegs lífs og/eða félagslegur stuðningur til þess að rjúfa félagslega einangrun.

Í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 59/1992 kemur fram að sveitarfélög skuli starfrækja teymi fagfólks sem metur heildstætt þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustu og hvernig koma megi til móts við óskir hans. Teymin skuli hafa samráð við einstaklinginn við matið og skuli það byggt á viðurkenndum matsaðferðum. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu var þörf kæranda metin og samþykkt að veita honum annars vegar liðveislu í 25 klukkustundir á mánuði og hins vegar frekari liðveislu í 24 klukkustundir á mánuði.

Í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks er ekki kveðið á um sérstakan afgreiðslufrest mála. Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því að líta til málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við mat á því hvort afgreiðsla á máli kæranda hefur dregist. Þar kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.

Kærandi hefur vísað til þess að engin þjónusta hafi farið í gang hjá Reykjavíkurborg í kjölfar umsóknar hans um liðveislu né hugmyndir að lausn málsins þrátt fyrir óteljandi fyrirspurnir og tölvupóstsamskipti. Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur því verið mótmælt og greint frá hvernig samskiptum hefur verið háttað við kæranda sem og þeirri þjónustu sem hann hefur fengið. Samkvæmt þeim skýringum er ljóst að Reykjavíkurborg er að vinna markvisst í máli kæranda og hefur því hagað þjónustu við kæranda í samræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga. Með vísan til þess getur úrskurðarnefnd velferðarmála ekki fallist á að afgreiðsla máls kæranda hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ekki er fallist á að afgreiðsla Reykjavíkurborgar í máli A, hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta