Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 570/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 570/2023

Fimmtudaginn 4. apríl 2024

A

gegn

Garðabæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. nóvember 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Garðabæjar, dags. 30. október 2023, um að skerða greiðslur fjárhagsaðstoðar til hans fyrir nóvember og desember 2023.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð frá Garðabæ fyrir nóvembermánuð 2023. Samþykkt var að veita kæranda fjárhagsaðstoð en greiðslur til hans voru skertar um helming fyrir nóvember og desember 2023 með vísan til þess að hann hefði ekki sinnt viðtalsboðunum, sbr. 16. gr. reglna Garðabæjar um fjárhagsaðstoð.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 25. nóvember 2023. Með bréfi, dags. 5. desember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Garðabæjar ásamt gögnum málsins. Með erindi, dags. 19. desember 2023, upplýsti Garðabær að hin kærða ákvörðun hefði verið endurskoðuð 29. nóvember 2023 og kærandi hefði þegar fengið eftirstöðvar framfærslu fyrir nóvembermánuð 2023 greiddar. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. janúar 2024, var óskað eftir afstöðu kæranda til svars Garðabæjar. Sú beiðni var ítrekuð 23. janúar 2024. Svar barst frá kæranda samdægurs þar sem hann óskaði eftir að farið yrði nánar yfir mál hans og að Garðabær legði fram sönnun þess efnis að upphæðin hefði raunverulega verið greidd. Svar kæranda var kynnt Garðabæ með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. janúar 2024. Greinargerð og gögn bárust frá Garðabæ 8. febrúar 2024 og voru kynnt var kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. febrúar 2024. Athugasemdir bárust ekki. Með erindi, dags. 20. mars 2024, var óskað eftir frekari upplýsingum frá Garðabæ vegna málsins. Svar barst samdægurs. Þá var óskað eftir viðbótar upplýsingum með erindi úrskurðarnefndar, dags. 21. mars 2024. Svar barst 22. mars 2024 og voru upplýsingar Garðabæjar kynntar kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. mars 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur meðal annars fram að kærandi krefjist þess að Garðabær greiði honum 93.064 kr. til að samsvara fullri fjárhagsaðstoð fyrir nóvembermánuð 2023 samkvæmt þeim kvarða sem hann hafi uppfyllt undanfarin ár, eða 186.128 kr. Kærandi krefjist þess einnig að Garðabær greiði fulla fjárhagsaðstoð fyrir desembermánuð 2023.

III.  Sjónarmið Garðabæjar

Í greinargerð Garðabæjar kemur fram að kærandi hafi þann 31. október 2023 fengið greidda skerta fjárhagsaðstoð fyrir nóvembermánuð, eða 93.064 kr., sem hann hafi verið ósáttur við. Fjárhagsaðstoðin hafi verið skert með vísan til 16. gr. reglna Garðabæjar um fjárhagsaðstoð þar sem kærandi hafi ekki sinnt ítrekuðum viðtalsboðunum. Að beiðni kæranda hafi mál hans verið skoðað aftur þann 29. nóvember 2023. Í ljósi þess að kærandi hafi þá sinnt einni viðtalsboðun og að mikilvægt væri að ná samstarfi við hann hafi verið samþykkt að greiða honum eftirstöðvar framfærslu fyrir nóvember, að frádreginni upphæð fyrir þá daga sem kærandi hafi dvalið erlendis með vísan til 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Garðabæ þar sem segi að umsækjandi skuli dvelja á Íslandi á því tímabili sem hann fái fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu.

Í svari Garðabæjar, dags. 20. mars 2024, kemur fram að kærandi hafi fengið greidda skerta fjárhagsaðstoð fyrir desember 2023 vegna búsetuskilyrða þar sem hann væri búsettur í bílskúr hjá foreldrum sínum og þyrfti ekki að standa straum af leigugreiðslum, sbr. c. lið 1. mgr. 10. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Garðabæ. Ekki hafi verið um annars konar skerðingu að ræða. Þá segir í svari sveitarfélagsins frá 22. mars 2024 að við heildarskoðun á máli kæranda hafi komið í ljós að hann hefði áður fengið hærri kvarða en hann hefði átt rétt á, eftir að aðstæður hans hafi breyst og hann ekki lengur búið hjá ömmu sinni og afa.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Garðabæjar um fjárhæð fjárhagsaðstoðar í nóvember og desember 2023, en kærandi krefst þess að Garðabær greiði honum 93.064 kr., til að samsvara fullri fjárhagsaðstoð fyrir nóvembermánuð samkvæmt þeim kvarða sem kærandi kveðst hafa uppfyllt undanfarin ár, 186.128 kr., og fulla fjárhagsaðstoð í desember. Upphafleg ákvörðun Garðabæjar snerist um að skerða greiðslur fjárhagsaðstoðar til kæranda um helming fyrir nóvember og desember 2023 með vísan til þess að hann hefði ekki sinnt viðtalsboðunum, sbr. 16. gr. reglna Garðabæjar um fjárhagsaðstoð. Undir rekstri málsins hefur Garðabær vísað til þess að sú ákvörðun hafi verið tekin til endurskoðunar og að fallið hefði verið frá þeirri skerðingu. Kærandi hafi fengið greiddar eftirstöðvar framfærslu fyrir nóvember, að frádreginni upphæð fyrir þá daga sem kærandi hafi dvalið erlendis með vísan til 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Garðabæ. Þá hafi kærandi fengið greidda skerta fjárhagsaðstoð í desember 2023 vegna búsetuskilyrða, sbr. c. lið 1. mgr. 10. gr. reglnanna.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr.

Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Sveitarfélög skuli tryggja að stuðningur við íbúa sem hafi barn á framfæri sé í samræmi við það sem sé barninu fyrir bestu. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á fjárhagsaðstoð til einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, svo fremi það byggi á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 10. gr. reglna um fjárhagsaðstoð í Garðabæ er kveðið á um grunnfjárhæðir framfærslustyrkja. Þar segir í 1. mgr. að framfærslugrunnur taki mið af útgjöldum vegna daglegs heimilishalds og miðist við grunnfjárhæð 232.660 kr. Samkvæmt gögnum málsins voru greiðslur fjárhagsaðstoðar fyrir nóvembermánuð 2023 til kæranda miðaðar við þá fjárhæð, að frádregnum þeim dögum sem hann dvaldi erlendis, en það er í samræmi við 3. gr. reglnanna þar sem segir að umsækjandi skuli dvelja á Íslandi á því tímabili sem hann fái fjárhagsaðstoð frá Garðabæ. Greiðslur til kæranda fyrir þann mánuð námu því samtals 142.698 kr. Í desember 2023 fékk kærandi óskerta fjárhagsaðstoð miðað við framfærslugrunn einstaklinga sem búsettir eru hjá foreldrum, sbr. c. lið 1. mgr. 10. gr. reglnanna, eða 116.330 kr. Garðabær hefur vísað til þess að kærandi sé búsettur í bílskúr hjá foreldrum sínum og þurfi ekki að standa straum af leigugreiðslum.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Garðabæjar um greiðslu fjárhagsaðstoðar til kæranda fyrir nóvember og desember 2023 staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Garðabæjar um greiðslu fjárhagsaðstoðar til A, fyrir nóvember og desember 2023, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum