Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 9b/2010

Þriðjudaginn 14. desember 2010 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 9b/2010:

A

gegn

velferðarráði Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

  

ÚRSKURÐUR :

Með bréfi, mótteknu 1. október 2010, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu synjun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 16. september 2010 um námsstyrk.

 

I. Málavextir.

Kærandi sótti þann 5. ágúst 2010 um námsstyrk fyrir tímabilið frá 1. september til 31. desember 2010. Henni var synjað um styrkinn með bréfi þjónustumiðstöðvar B, dags. 5. ágúst 2010, á þeim forsendum að umsókn hennar samræmdist ekki b-lið 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, þar sem umsóknin barst eftir að tilskilinn umsóknarfrestur var liðinn en hann er tveir mánuðir áður en nám hefst.

Kærandi skaut ákvörðuninni til velferðarráðs Reykjavíkurborgar með bréfi dagsettu 6. ágúst 2010. Velferðarráð afgreiddi málið á fundi sínum 16. september 2010 og synjaði beiðni kæranda. Kærandi skaut synjuninni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, mótteknu 1. október 2010, eins og fram hefur komið.

Kærandi er einstæð móðir barns sem fætt er árið 2009. Hún kveðst ekki hafa lokið framhaldsnámi og kveðst hafa lent í félagslegum erfiðleikum sem hafi gert það að verkum að hún hætti í framhaldsskóla. Kærandi fékk inngöngu í Menntaskólann C síðastliðið haust og hefur hug á að ljúka stúdentsprófi þaðan. Hún býr hjá vinkonu sinni, en það er óljóst hversu lengi hún getur búið þar.

 

II. Málsástæður kæranda.

Í kæru kæranda, móttekinni 1. október 2010, kemur fram að það hafi komið henni á óvart að fá synjun um námsstyrk. Hún uppfylli öll skilyrði þess að fá námsstyrk, hún sé 24 ára gömul einstæð móðir, hún hafi ekki lokið framhaldsskólanámi og hafi lent í félagslegum erfiðleikum sem hafi gert það að verkum að hún hætti í framhaldsskóla. Kærandi kveðst hafa ákveðið að fara í skóla, en hún hafi verið orðin þunglynd og gengið í gegnum erfiða fæðingu auk þess sem hún og barnsfaðir hennar hafi slitið samvistum. Hún kveðst hafa lokið einni lotu í C og að sér hafi gengið vel. Kærandi kveðst hvorki geta fengið fjárhagsaðstoð, námsstyrk né atvinnuleysisbætur. Í kærunni kemur fram að hún hafi sótt um námsstyrk hjá félagsráðgjafa sínum sem starfi hjá Reykjavíkurborg. Hann hafi sagt kæranda að umsóknin væri of seint fram komin, en hafi allt að einu mælt með því að kærandi greiddi skólagjöldin, enda uppfyllti hún öll skilyrði fyrir greiðslu námsstyrksins.

 

III. Sjónarmið velferðarráðs.

Velferðarráð Reykjavíkurborgar vísar til reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum sem tóku gildi 1. janúar 2004. Í 18. gr. reglnanna komi fram að námsstyrki sé heimilt að veita í eftirfarandi tilvikum og aðstoðin miðist við grunnfjárhæð ásamt almennum skólagjöldum og bókakostnaði:

a)      Til einstaklinga 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og hafa átt við mikla félagslega erfiðleika að stríða.

b)      Til einstæðra foreldra 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og hafa haft atvinnutekjur undir 1.000.000 kr. undanfarna tólf mánuði. Skilyrði er að umsækjandi hafi átt í félagslegum erfiðleikum.

c)      Til einstaklinga sem hafa verið atvinnulausir án bótaréttar eða þegið fjárhagsaðstoð í sex mánuði eða lengur og hafa ekki lokið grunnnámi sem gefur rétt á námsláni.

Þá kemur fram í 18. gr. reglnanna að leggja þurfi inn umsókn tveimur mánuðum áður en nám hefjist.

Fram kemur af hálfu velferðarráðs að talið hafi verið að kærandi uppfyllti skilyrði b-liðar 18. gr. reglnanna um félagslega erfiðleika og um tekjur en í 18. gr. sé einnig kveðið á um að umsókn vegna námsstyrks þurfi að leggja inn tveim mánuðum áður en nám hefjist. Umsókn kæranda um námsstyrk hafi borist þann 5. ágúst sl. en skólasetning í Menntaskólanum C hafi verið þann 12. ágúst sl. og kennsla hafist þann 16. ágúst sl. Framangreint skilyrði 18. gr. um tímamörk hafi því ekki verið uppfyllt.

Í námsstyrk felist fjárhagsaðstoð til framfærslu og því verði jafnframt að afgreiða umsóknir þar að lútandi á grundvelli almennra ákvæða um fjárhagsaðstoð, sbr. III. kafla reglnanna. Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð segi í 4. mgr. að jafnan skuli kanna til þrautar rétt umsækjanda til annarra greiðslna, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, svo og skuli kanna rétt til aðstoðar samkvæmt lögum um námsstyrki.

Fyrir liggi upplýsingar frá Vinnumálastofnun um að kærandi njóti fulls bótaréttar hjá Vinnumálastofnun. Samkvæmt upplýsingum hjá Vinnumálastofnun geti kærandi nýtt sér námssamning hjá stofnuninni fyrir námi allt að 10 einingum.

 

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur velferðarráðs um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort velferðarráði beri að veita kæranda námsstyrk til náms í Menntaskólanum C á haustönn 2010.

Í 18. gr. reglna félagsþjónustunnar í Reykjavík sem tóku gildi 1. janúar 2004, með síðari breytingum, er fjallað um námsstyrki. Þar kemur meðal annars fram að heimilt sé að veita námsstyrki 18–24 ára gömlu fólki sem ekki hafi lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og hafi átt við mikla félagslega erfiðleika að stríða. Sé það gert skulu starfsmaður og námsmaður gera með sér samkomulag um félagslega ráðgjöf þar sem fram komi meðal annars hvernig skuli staðið að skilum varðandi skólasókn, námsframvindu og/eða einkunnir. Einkunnum skuli þó ætíð skila í annarlok. Miðað skal við að námið leiði til þess að nemandi geti síðar hafið nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Ákvarðanir um námskostnað skulu teknar fyrir hverja önn og er heimilt að halda námsaðstoð áfram með hliðsjón af námsframvindu.

Óumdeilt er að kærandi uppfyllir skilyrði b-liðar 18. gr. reglna Reykjavíkurborgar fyrir greiðslu námsstyrks, þar sem fram kemur að styrkur greiðist til einstæðra foreldra 18–24 ára sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og hafa haft atvinnutekjur undir 1.000.000 kr. undanfarna tólf mánuði, enda hafi umsækjandi átt í félagslegum erfiðleikum.

Synjun umsóknar kæranda var á því byggð að umsóknin hafi komið of seint fram, en skilyrði er að umsókn berist tveimur mánuðum áður en nám hefjist. Að auki hefur verið á því byggt af hálfu Reykjavíkurborgar að í námsstyrk felist fjárhagsaðstoð til framfærslu og því verði skv. 4. mgr. 1. gr. reglna Reykjavíkurborgar að kanna til þrautar rétt umsækjanda til annarra greiðslna, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga. Upplýst hafi verið að kærandi njóti fulls bótaréttar hjá Vinnumálastofnun og geti nýtt sér námssamning hjá stofnuninni fyrir námi allt að 10 einingum.

Með vísan til þess að umsókn kæranda barst eftir tilskilin tímamörk og þar sem upplýst hefur verið að kærandi eigi rétt til greiðslna hjá Vinnumálastofnun er hin kærða ákvörðun staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir, formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir, Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð:

 Hin kærða ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar, frá 16. september 2010, varðandi umsókn A um námsstyrk, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 

         Margrét Gunnlaugsdóttir                     Gunnar Eydal               

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta