Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 83/2012.

 

Miðvikudaginn 5. júní 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 83/2012:

 

 

A

á ákvörðun

Vesturbyggðar

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

B hefur, f.h. A, hér eftir nefnd kærandi, með kæru, þann 6. maí 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Vesturbyggðar, dags. 30. apríl 2013, á beiðni hennar um ferðaþjónustu.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Eftir alvarleg veikindi árið 2011 lamaðist kærandi og er nú bundin við hjólastól. Að lokinni endurhæfingu á F vorið 2012 var hún flutt á sjúkrahúsið á D. Kærandi óskaði munnlega eftir upplýsingum um hvort til stæði hjá sveitarfélaginu að kaupa hjólastólabíl. Bæjarstjóri fól félagsmálastjóra vinnslu málsins í byrjun árs 2012. Kærandi sótti um ferðaþjónustu hjá Vesturbyggð með bréfi, dags. 30. júlí 2012. Erindi kæranda var svarað með bréfi félagsmálastjóra Vesturbyggðar, dags. 10. september 2012, þar sem meðal annars kom fram að ekki væri ljóst hvort sveitarfélagið bæri skyldu til að veita henni akstursþjónustu þar sem hún byggi á heilbrigðisstofnun. Í bréfinu var enn fremur tekið fram að erindið yrði lagt fyrir á fundi félagsmálanefndar þann 25. september 2012. Fundinum var frestað til 1. október 2012 og var þá eftirfarandi bókað:

 

Nefndin felur félagsmálastjóra að skoða málin nánar varðandi þær hugmyndir sem hafa komið fram varðandi akstursþjónustu fyrir fatlaða. Tekið fyrir að nýju á næsta fundi nefndarinnar.

 

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 30. september 2012. Með bréfi, dags. 3. október 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Vesturbyggðar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun á beiðni kæranda um ferðaþjónustu. Greinargerð Vesturbyggðar barst með bréfi, dags. 10. október 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 16. október 2012, var bréf Vesturbyggðar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 18. október 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 5. desember 2012, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Við vinnslu málsins kom fram að félagsmálanefnd Vesturbyggðar hafði ekki tekið málið fyrir áður en kærandi lagði fram kæru, dags. 30. september 2012. Á fundi félagsmálanefndar þann 4. desember 2012 var eftirfarandi bókað:

 

Beðið er eftir úrskurði frá Úrskurðarnefnd húsnæðis- og félagsþjónustu áður en hægt er að svara fyrirliggjandi erindi varðandi ferðaþjónustu við fatlaða.

 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. mars 2013, var erindi kæranda því framsent félagsmálanefnd, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Mál kæranda var tekið fyrir á fundi félagsmálanefndar þann 30. apríl 2013 og eftirfarandi bókað:

 

Þar sem kærandi […]er inniliggjandi á hjúkrunarheimili sbr. 14. gr. laga um málefni aldraðra nr. 125/1999 er það skilningur félagsmálanefndar að sveitarfélaginu beri ekki að veita akstursþjónustu. Í 8. gr. reglna Reykjavíkurborgar um akstur fyrir aldraða til og frá hjúkrunarheimilum segir:

Reglur þessar gilda ekki um akstursþjónustu fyrir aldraða sem eru á stofnunum s.s. hjúkrunarheimilum og þurfa að leita þjónustu utan stofnunarinnar, s.s. sérfræðilæknishjálpar, rannsókna- og sjúkraþjálfunar. Í samræmi við 14. gr. laga um málefni aldraðra nr. 125/1999 ber slíkum stofnunum að tryggja vistmönnum sínum akstur á kostnað stofnunarinnar til og frá þeim stað sem þjónusta er veitt.

 

Félagsmálanefnd telur lög um málefni aldraðra eiga við varðandi málefni […] en ekki lög um málefni fatlaðs fólks þar sem […] var komin um áttrætt þegar hún veiktist sem svo leiddi til þess að hún er bundin við notkun hjólastóls.“ [sic]

 

Niðurstaða félagsmálanefndar var hvorki tilkynnt kæranda né umboðsmanni hennar en var hins vegar send úrskurðarnefnd félagsþjónustu með bréfi, dags. 30. apríl 2013. Úrskurðarnefndin upplýsti kæranda um niðurstöðu félagsmálanefndar með símtali þann 6. maí 2013 og óskaði kærandi þá eftir því að kæra niðurstöðuna. Þann 7. maí 2013 sendi úrskurðarnefndin kæranda afrit af bréfi sveitarfélagsins og bárust athugasemdir kæranda samdægurs.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Í kæru sem lögð var fram með bréfi, dags. 30. september 2012, kemur fram að þrátt fyrir skýr ákvæði laga nr. 59/1992 standi fötluðu fólki ekki til boða ferðaþjónusta í Vesturbyggð. Fátt hafi verið um svör þegar farið hafi verið fram á slíkt fyrir hönd kæranda. Beiðnin hafi svo verið send skriflega með erindi, dags. 30. júlí 2012, en henni svarað með síðbúnu bréfi, dags. 10. september 2012, og ekki brugðist við með öðru en útúrsnúningum. Augljóst virðist að sveitarfélagið sé staðráðið í að hafa lögin að engu og skirrist við að leysa bráðan vanda fatlaðs fólks í sveitarfélaginu. Rétt sé að taka fram vegna þess útúrsnúnings sem fram komi í bréfi Vesturbyggðar að þar sem kærandi sé vistuð tímabundið á Heilbrigðisstofnuninni í D beri sveitarfélaginu ekki skylda til að sjá henni fyrir ferðaþjónustu en þar sé ekki neina akstursþjónustu að hafa fyrir fólk í hjólastól. Því sé staða kæranda og annars fatlaðs fólks á D sú að því séu allar bjargir bannaðar um ferðaþjónustu. Á því sé brotinn réttur sem því sé tryggður af hálfu Sameinuðu þjóðanna og íslensk stjórnvöld hafi undirgengist. Hér þurfi að auki að hafa þrennt í huga. Í fyrsta lagi að reynt hafi verið að leysa vanda kæranda fyrr á árinu 2012 með því að sækja um styrk frá Tryggingastofnun ríkisins til bifreiðakaupa en ætlunin hafi verið að með því mætti fá sérútbúinn bíl sem myndi einnig nýtast öðru fötluðu fólki á svæðinu. Umsókninni hafi verið synjað með þeim rökum að bílstjóri ætti ekki sama heimilisfang og kærandi. Í öðru lagi þurfi að hafa í huga að kærandi þurfi nauðsynlega að komast ferða sinna utan sjúkrahússins. Hún þurfi að sinna eignum sínum, sækja félagslíf, stunda viðskipti og listiðkun. Kærandi sé listmálari og yfir standi sýning á verkum hennar sem hún hafi ekki getað sótt sjálf vegna skorts á ferðaþjónustu. Þá sé henni nauðsynlegt að komast í sundþjálfun en til þess þurfi að aka henni á hjólastól um eins kílómetra leið um brattar brekkur og vegleysur. Í þriðja lagi þurfi að hafa í huga að á meðan þetta ófremdarástand vari sé eina leiðin til að leysa bráðasta vanda kæranda að flytja hana í sendiferðabíl sem ekki sé með öryggisbúnaði fyrir hjólastóla og því bæði óhentugur og ólöglegur til þess. Það sé til marks um hve brýnt sé að leysa vandann án tafar.

 

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar sveitarfélagsins kemur fram að telja verði ljóst að sveitarfélagið hafi haft vitneskju um að kærandi þyrfti á ferðaþjónustu að halda enda staðfest í greinargerðinni að félagsmálastjóri hafi fengið tölvupóst í janúar 2012 frá bæjarstjóra um málið. Í greinargerðinni hafi enn fremur verið staðfest að engin úrræði séu í boði varðandi ferðaþjónustu fatlaðra í Vesturbyggð. Þá sé það rangt að í kærunni sé því haldið fram að kæranda hafi verið synjað um akstursþjónustu. Kærandi bendir á að út frá því sem fram komi í greinargerðinni verði að telja að ekki sé von á að sveitarfélagið uppfylli lagaskyldur sínar á næstunni. Kærandi gerir athugasemd við ummæli í greinargerð um að sveitarfélaginu sé hvorki unnt né skylt að greina frá því hvaða möguleika verið sé að skoða. Í fyrsta lagi sé undarlegt ef úrskurðarnefndin láti sér það lynda að haldið sé frá nefndinni veigamiklum efnisatriðum málsins. Í öðru lagi sé fráleitt að kærandi sem notandi þjónustunnar fái ekki að vita hvað kjörin sveitarstjórn aðhafist er varði hennar hagi. Í þriðja lagi sé um að ræða skýrt brot á 15. gr. stjórnsýslulaga um upplýsingarétt aðila. Kærandi fer fram á að úrskurðarnefndin sendi sér upplýsingar um umrædda möguleika hafi nefndin slíkt undir höndum. Kærandi tekur ekki undir að tilefni kærunnar sé óljóst enda hafi Vesturbyggð viðurkennt brot sitt.

 

Í athugasemdum kæranda vegna niðurstöðu félagsmálanefndar, dags. 30. apríl 2013, kemur fram að úrskurður í málinu hafi dregist úr hófi og slíkt verði að teljast alvarlegur annmarki á velferðarkerfinu þegar mjög aldraðir og fatlaðir einstaklingar eigi í hlut, sem augljóslega búi við skerðingu mannréttinda og sé gróflega mismunað vegna búsetu sinnar. Ekki sé unnt að álasa úrskurðarnefndinni að öllu leyti fyrir þann drátt þar sem hún þurfi að vinna úr miklum málafjölda, en sá málafjöldi hljóti að kalla á bætt vinnubrögð við löggjöf og reglusetningu. Vesturbyggð hafi einnig átt verulega sök á þessum drætti með seinagangi við að svara erindum. Það hafi einnig orðið til að tefja úrskurð í málinu að í ljós hafi komið mistök í kæruferlinu. Kærandi gerir athugasemdir við niðurstöðu félagsmálanefndar Vesturbyggðar og bendir á að vísað sé til reglna Reykjavíkurborgar um akstursþjónustu en reglurnar gildi ekki fyrir Vesturbyggð og þar hafi engar sambærilegar reglur verið settar. Aðstæður í Reykjavík og Vesturbyggð séu ekki á nokkurn hátt sambærilegar og sér í lagi ekki varðandi möguleika fatlaðra og aldraðra á ferðaþjónustu. Þeim sem séu inniliggjandi á heilbrigðis- og öldrunarstofnunum í Reykjavík bjóðist ferðaþjónusta á vegum sinna stofnana. Ekki sé um slíkt að ræða í Vesturbyggð þar sem Heilbrigðisstofnunin í D búi ekki yfir neinum úrræðum til akstursþjónustu. Kærandi mótmælir ályktun sveitarfélagsins um að lög um málefni fatlaðs fólks eigi ekki við í tilviki hennar þar sem hún sé komin yfir áttrætt. Í lögunum sé enginn greinarmunur gerður á réttindum fatlaðs fólks eftir aldri enda hefðu þau þá lítinn tilgang. Þvert á móti sé í upphafi laganna kveðið mjög skýrt á um tilgang þeirra að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Vesturbyggð beri að tryggja þessi réttindi sinna íbúa. Sveitarfélagið gæti e.t.v. sett sér reglur sem kveði á um undantekningu sé þjónustan tryggð af öðrum en ábyrgðin hljóti alltaf að vera sveitarfélagsins sjálfs. Þeir fordómar félagsmálanefndar í garð aldraðra skjólstæðinga sinna sem fram komi í niðurstöðunni séu í sjálfu sér umhugsunarefni og gætu gefið tilefni til sérstakrar skoðunar. Vísað sé til 14. gr. laga um málefni aldraðra til stuðnings fullyrðingu um að Heilbrigðisstofnun eigi að sjá kæranda fyrir ferðaþjónustu en ekki sveitarfélagið. Enga slíka skyldu sé að sjá í tilvitnaðri lagagrein. Kærandi fer fram á að úrskurður í málinu verði kveðinn upp hið allra fyrsta og að sveitarfélaginu verði gert að standa við lagaskyldur sínar um ferðaþjónustu í samræmi við kæruna og framkomin gögn.

 

 

III. Sjónarmið Vesturbyggðar

 

Í athugasemdum sveitarfélagsins vegna upphaflegrar kæru, dags. 30. september 2012, kemur fram að ýmsir möguleikar hafi verið skoðaðir fyrir kæranda þrátt fyrir það sem fram komi í kæru og sveitarfélagið hafi fullan skilning á að fólk sem bíði eftir þjónustu vilji fá skjóta úrlausn mála. Aðstæður á þjónustusvæðinu séu þess eðlis að ekki sé hægt að nýta almenningssamgöngur þar sem þær séu engar. Enginn leigubíll sé á staðnum og enginn sérútbúinn bíll fyrir hjólastól sem hægt hefði verið að semja um þjónustu við. Sveitarfélagið hafi ekki synjað kæranda um akstursþjónustu þrátt fyrir það sem fram komi í rökstuðningi kærunnar heldur sé enn unnið að lausn málsins. Í október 2012 hafi tveir möguleikar verið í skoðun en á þessu stigi málsins hafi félagsmálastjóra hvorki verið unnt né skylt að greina kæranda frá því hvað það feli í sér. Í svari sveitarfélagsins til kæranda, dags. 10. september 2012, hafi verið vísað til þess að vinna væri í gangi varðandi skipulagningu almenningssamgangna á svæðinu þar sem þeim yrði ætlað að veita öllum íbúum þjónustu. Á þeim tíma hafi þeir kostir sem til skoðunar voru í október 2012 ekki verið í boði. Þar sem kærandi hafi kosið að bíða ekki eftir upplýsingum eða kynna sér afgreiðslu félagsmálanefndar áður en málinu hafi verið skotið til úrskurðarnefndarinnar verði að telja að tilefni kærunnar sé óljóst. Tekið er fram að í sveitarfélagi sem telji rúmlega 900 íbúa megi ljóst vera að ekki sé um marga kosti að ræða og hafi sveitarfélagið reynt að leysa úr hverri þörf á einstaklingsmiðaðan hátt. Þar sem kærandi þurfi bíl sem sérstaklega sé ætlaður fyrir hjólastól vandist málið. Þá er því mótmælt að verið sé að snúa út úr málum heldur verið að veita upplýsingar um þá stöðu sem sé í málinu á hverjum tíma þó óljós sé. Sveitarfélagið hafi leitað leiða til að veita kæranda þjónustu þrátt fyrir að óljóst sé hvort sveitarfélagið beri skyldu til að veita inniliggjandi sjúklingum á stofnunum akstursþjónustu. Sú stefna Vesturbyggðar að leysa úr ferðaþörf hreyfihamlaðs fólks á einstaklingsmiðaðan hátt samrýmist ekki lögum enda hafi reyndin orðið sú að engar löglegar lausnir séu í boði á svæðinu. Lögin geri ekki upp á milli sveitarfélaga eftir íbúatölu á annan hátt en að aðliggjandi sveitarfélög geti sameinast um þjónustu. Á Vestfjörðum útiloki staðhættir slíka lausn.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 5. gr. a laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum, en í 1. mgr. greinarinnar kemur fram að fötluðum einstaklingi sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir um þjónustu sem teknar eru á grundvelli laganna til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Vesturbyggð hafi borið að samþykkja umsókn kæranda, dags. 30. júlí 2012, um ferðaþjónustu á grundvelli 35. gr. laga um málefni fatlaðs fólks.

 

Úrskurðarnefndin telur í upphafi rétt að gera athugasemd við málsmeðferð Vesturbyggðar vegna umsóknar kæranda um ferðaþjónustu. Umboðsmaður kæranda lagði fram skriflegt bréf hjá sveitarfélaginu, dags. 30. júlí 2012, þar sem óskað var eftir ferðaþjónustu fyrir kæranda. Af gögnum málsins má sjá að fyrirhugað var að taka málið fyrir á fundi félagsmálanefndar en vegna kæru til úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. september 2012, ákvað sveitarfélagið að fresta ákvarðanatöku í málinu þar til niðurstaða úrskurðarnefndar lægi fyrir. Tekið skal fram að berist stjórnvaldi skriflegt erindi skal svara því skriflega nema svars sé ekki vænst. Felist í erindinu beiðni um þjónustu frá sveitarfélaginu verður að telja að skylt sé að taka efnislega afstöðu til umsóknarinnar með samþykki eða synjun á beiðninni. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að sveitarfélaginu hefði réttilega borið að svara umsókn umboðsmanns kæranda með samþykki eða synjun. Úrskurðarnefndin framsendi mál kæranda til sveitarfélagsins með bréfi, dags. 26. mars 2013, og var málið tekið fyrir á fundi félagsmálanefndar Vesturbyggðar þann 30. apríl 2013, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að sveitarfélaginu bæri ekki að veita kæranda ferðaþjónustu. Niðurstaðan var hvorki kynnt kæranda né umboðsmanni hennar heldur send úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála. Úrskurðarnefndin gerir alvarlegar athugasemdir við framangreinda framkvæmd sveitarfélagsins. Ákvörðun sveitarfélags um að synja umsókn um ferðaþjónustu telst til stjórnvaldsákvarðana og ber að birta í samræmi við 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en þar kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun skal hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Vitneskja málsaðila um efni stjórnvaldsákvörðunar er forsenda þess að hann hafi möguleika á því að taka afstöðu til hennar og haga ráðstöfunum sínum í samræmi við hana. Úrskurðarnefndin hefur þó bætt úr þessum annmarka og kynnt umboðsmanni kæranda niðurstöðuna sem í framhaldinu kærði ákvörðun sveitarfélagsins. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Vesturbyggðar að gætt sé að formreglum stjórnsýsluréttar þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir hjá sveitarfélaginu. Í ljósi tilvísunar sveitarfélagsins til reglna Reykjavíkurborgar um akstursþjónustu eldri borgara í Reykjavík verður einnig á það bent að sveitarfélaginu er óheimilt að byggja ákvörðun um veitingu þjónustu beinlínis á reglum annarra sveitarfélaga.

 

Kærandi í máli þessu er 82 ára gömul kona. Hún er bundin við hjólastól en hún lamaðist árið 2011 eftir alvarleg veikindi. Lögheimili kæranda er skráð að E í Vesturbyggð en í málinu hefur komið fram að hún hefur dvalið á Heilbrigðisstofnuninni í D frá því hún lauk endurhæfingu á F vorið 2012. Vesturbyggð byggir á því að lög um málefni fatlaðs fólks eigi ekki við um málefni kæranda heldur lög um málefni aldraðra, nr. 125/1999, og þar sem kærandi sé inniliggjandi á hjúkrunarheimili beri sveitarfélaginu ekki að veita henni ferðaþjónustu. Kærandi gerir kröfu um að sveitarfélaginu verði gert að fullnægja lagaskyldu sinni og veita henni ferðaþjónustu svo hún geti sinnt eignum sínum, sótt félagslíf og stundað viðskipti og listiðkun. Líkt og að framan greinir snýst ágreiningur í málinu því um hvort kærandi eigi rétt á ferðaþjónustu á grundvelli 35. gr. laga um málefni fatlaðs fólks. Í ljósi þess sem fram hefur komið í málinu er það mat úrskurðarnefndarinnar að ferðaþjónusta sú er kærandi óskar eftir sé til að gera henni kleift að njóta tómstunda en ekkert hefur komið fram um að kærandi óski eftir ferðaþjónustu til að stunda atvinnu eða nám né sækja sér þjónustu, svo sem læknishjálp, endurhæfingu eða sjúkraþjálfun.

 

Kærandi er eldri en 67 ára og telst því öldruð í skilningi laga um málefni aldraðra, sbr. 2. tölul. 2. gr., en hún er einnig með líkamlega fötlun í skilningi laga um málefni fatlaðs fólks, sbr. 2. gr. laganna. Úrskurðarnefndin tekur fram að í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, eru engin ákvæði er útiloka þá sem eru eldri en 67 ára og með fötlun til að njóta þeirrar þjónustu sem lög kveða á um, svo sem ferðaþjónustu. Aldur hefur því einn og sér ekki úrslitaáhrif um rétt kæranda til þjónustu ætlaðri fötluðu fólki. Lög um málefni fatlaðs fólks og lög um málefni aldraðra skarast því að einhverju leyti þar sem fatlað fólk getur verið eldra en 67 ára.

 

Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, eru rammalög sem gilda við hlið sérlaga, svo sem laga um málefni aldraðra og laga um málefni fatlaðs fólks, auk þess sem sveitarfélög setja sér sjálf reglur á þessu sviði. Í 41. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga kemur fram að aldraðir eiga rétt á almennri þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum en að öðru leyti fer um málefni þeirra eftir sérlögum um málefni aldraðra. Í 1. mgr. 44. gr. laganna kemur fram að fatlað fólk á rétt á almennri þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og skal þeim veitt þjónusta á almennum stofnunum eftir því sem unnt er og við á. Að öðru leyti fer um málefni þeirra eftir sérlögum um málefni fatlaðs fólks, sbr. 2. mgr. 44. gr. Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er hvorki kveðið sérstaklega á um ferðaþjónustu né ferlimál íbúa sveitarfélags. Þarf því að líta til sérlaga um málefni aldraðra og fatlaðs fólks hvað það varðar.

 

Fjallað er um réttindi aldraðra í lögum nr. 125/1999, með síðari breytingum. Markmið laganna er að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagsþjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast miðað við þörf og ástand hins aldraða. Kærandi í máli þessu dvelur á hjúkrunardeild Heilbrigðisstofnunar D. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að umrædd stofnun sé hjúkrunarheimili ætlað öldruðum einstaklingum, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um málefni aldraðra. Í framangreindu ákvæði kemur fram að á slíkum stofnunum skal veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta og vera endurhæfing. Þjónusta skal byggð á einstaklingsbundnu mati á heilsufarslegum og félagslegum þörfum hins aldraða, sbr. 2. og 4. málsl. 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. Hvorki liggur fyrir um að slíkt einstaklingsbundið mat á þörfum kæranda hafi farið fram né hvort og hvaða þjónustu hún eigi rétt á grundvelli slíks mats. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að við afgreiðslu umsóknar kæranda hafi sveitarfélaginu borið að afla upplýsinga um framangreind atriði og telst málið því ekki nægilega upplýst að þessu leyti.

 

Fjallað er um réttindi fatlaðs fólks í lögum nr. 59/1992, með síðari breytingum. Markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Samkvæmt 7. gr. laga um málefni fatlaðs fólks skal það eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skal leitast við að veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar, heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reynist þjónustuþörf fatlaðs einstaklings meiri en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skal hann fá þjónustu samkvæmt lögunum.

 

Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að sveitarfélaginu hafi borið að meta heildstætt þörf kæranda fyrir þjónustu og hvernig koma mætti til móts við óskir hennar, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna. Í framhaldinu hafi borið að kanna hvort hin almenna þjónusta á Heilbrigðisstofnuninni fullnægði þjónustuþörf kæranda. Hafi sú ekki verið raunin hafi borið að kanna hvort kærandi uppfyllti skilyrði 1. mgr. 35. gr. laga um málefni fatlaðs fólks og hafi átt rétt á ferðaþjónustu. Tekið skal fram að hvorki í ákvæðinu né lögskýringargögnum með því kemur fram að það hafi verið ætlun löggjafans að undanskilja sérstaklega fatlað fólk sem liggur á hjúkrunarheimili frá því að njóta ferðaþjónustu.

 

Ákvæði 1. mgr. 35. gr. laganna um að sveitarfélög skulu gefa fötluðum kost á ferðaþjónustu vegna atvinnu, náms og tómstunda felur ekki í sér fortakslausa skyldu sveitarfélags til að fullnægja þörfum einstaklings til ferðaþjónustu. Sú niðurstaða skýrist bæði af orðalagi ákvæðisins, „gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu“, en einnig af samanburðarskýringu við 2. mgr. 35. gr. um ferðir vegna nauðsynlegrar þjónustu, en samkvæmt því er lögð ríkari skylda á herðar sveitarfélögum til að fullnægja ýtrustu þörfum fatlaðs fólks. Hér er því í lögunum gerður greinarmunur á skyldum sveitarfélaga til að veita ferðaþjónustu vegna atvinnu og náms annars vegar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laganna, og nauðsynlega þjónustu fötluðu fólki til handa hins vegar, sbr. 2. mgr. 35. gr. laganna. Sveitarfélag hefur því skv. 1. mgr. 35. gr. laganna umtalsvert svigrúm til að ákvarða í hve miklum mæli ferðaþjónusta vegna atvinnu, náms og tómstunda skuli vera.

 

Sveitarfélög hafa almennt ákveðið svigrúm og forræði til að meta sjálf miðað við aðstæður hvers konar aðgerðir eða þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði 78. gr. stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er framkvæmir aðgerðir eða veitir þjónustu, þ.e. atriði sem byggjast á frjálsu mati sveitarstjórnar á viðkomandi málefni. Verður ekki við því mati hróflað ef matið byggist á lögmætum sjónarmiðum og er í samræmi við stjórnsýslulög, nr. 37/1993, og önnur lög.

 

Í samræmi við framangreint verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka umsókn kæranda til löglegrar meðferðar.

 

 

 

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Vesturbyggðar, dags. 30. apríl 2013, um synjun á umsókn A, um ferðaþjónustu er felld úr gildi og málinu vísað heim til löglegrar meðferðar.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                                Gunnar Eydal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta