Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 99/2011

Miðvikudaginn 14. desember 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 99/2011:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með ódagsettri kæru sem barst þann 3. ágúst 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, hér eftir nefndur kærði, dags. 27. maí 2011, þar sem kæranda var synjað um greiðsluerfiðleikaaðstoð.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi hefur kært synjun um greiðsluerfiðleikaaðstoð til úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. maí 2011. Samkvæmt greiðsluerfiðleikamati frá Byr, dags. 23. maí 2011, sem liggur fyrir í málinu, var talið raunhæft að kærandi gæti ráðið við greiðslubyrði af lánum sínum án frystingar á umræddu láni og því var kæranda synjað um greiðsluerfiðleikaaðstoð skv. 3. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001 um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs.

Kæranda var synjað um greiðsluerfiðleikaaðstoð með hinni kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs, sem kæranda var tilkynnt með bréfi, dags. 27. maí 2011. Í ákvörðunarbréfi Íbúðalánasjóðs kemur fram að greiðsluerfiðleikanefnd Íbúðalánasjóðs hafi metið umsókn kæranda um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika og reiknað greiðslubyrði og greiðslugetu hans, en niðurstaða nefndarinnar hafi verið sú að Íbúðalánasjóður gæti ekki orðið við beiðni hans um greiðsluerfiðleikaaðstoð, þar sem greiðslugeta væri umfram greiðslubyrði.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 4. ágúst 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 23. ágúst 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 25. ágúst 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi fengið frystingu á íbúðarláni sínu hjá Íbúðalánasjóði síðustu tvö ár, en er hann hafi nú sótt um það úrræði í þriðja sinn á nákvæmlega sömu forsendum, þá hafi umsókn hans verið synjað. Þá segir kærandi að hann sé að greiða af lánum á Íslandi svo hann hafi efni á því að halda íbúðinni, en erfitt sé að greiða kostnað vegna íbúðar á Íslandi auk áhvílandi lána, þar sem hann þurfi einnig að greiða leigukostnað í B. Kærandi segist hafa eignast barn sem nú sé tíu mánaða gamalt og því fylgi aukakostnaður.

Þá segir kærandi að hann hafi fengið leigjendur að íbúðinni á síðasta ári, en leigutekjur standi ekki undir kostnaði af íbúðinni og því sé hann að greiða með íbúðinni og þurfi því á áframhaldandi frystingu lána að halda til þess að geta haldið íbúðinni og lifað sæmilegu lífi.

 

IV. Sjónarmið kærða

Íbúðalánasjóður áréttar að kærða hafi verið synjað um greiðsluerfiðleikaaðstoð vegna breyttra aðstæðna hans með starfi í B. Íbúðalánasjóður vísar til fyrirliggjandi greiðsluerfiðleikamats Byrs sparisjóðs sem sýnir fram á að kærandi hafi getu til þess að greiða af lánum Íbúðalánasjóðs ásamt því að standa undir öðrum útgjöldum. Því hafi ekki verið forsendur til þess að frysta afborganir lánanna, sbr. 3. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001.

 

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Kærandi sótti um greiðsluerfiðleikaaðstoð vegna erfiðleika hans við að greiða af lánum sínum og var synjað á þeim grundvelli að greiðslubyrði hans rúmaðist innan greiðslugetu. Í 3. tölul. 4. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001, kemur fram að skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar sé að greiðslubyrði umsækjanda samkvæmt greiðslumati sé umfram greiðslugetu. Um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir úrræðinu sem sótt er um. Eins og fram kemur í gögnum málsins og samkvæmt greiðsluerfiðleikamati frá Byr sparisjóði yrði greiðslugeta kæranda umfram greiðslubyrði og því uppfyllir hann ekki skilyrði 3. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kæru A, um að synjun Íbúðalánasjóðs um greiðsluerfiðleikaaðstoð verði felld úr gildi, er hafnað.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta