Mál nr. 82/2011
Miðvikudaginn 14. september 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 82/2011:
A
gegn
Íbúðalánasjóði
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 28. júní 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, hér eftir nefndur kærði, dags. 15. júní 2011, þar sem kæranda var synjað um greiðsluerfiðleikaaðstoð.
I. Helstu málsatvik og kæruefni
Kærandi hefur kært synjun um greiðsluerfiðleikaaðstoð til úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt greiðsluerfiðleikamati frá Landsbankanum, dags. 3. júní 2011, sem liggur fyrir í málinu, dugar greiðsluerfiðleikafyrirgreiðsla ekki til lausnar máls þessa þannig að greiðslubyrði rúmist innan greiðslugetu eftir aðgerðir eins og áskilið er skv. 4. gr. reglugerðar nr. 548/2001. Í máli þessu liggur fyrir að kærandi hafði áður sótt um greiðsluerfiðleikaaðstoð hjá Íbúðalánasjóði og hafði tvisvar verið veitt greiðslufrestun í tólf mánuði. Kærandi sótti um greiðsluaðlögun að nýju í maímánuði 2011, en var synjað um greiðsluerfiðleikaaðstoð með hinni kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs, sem kæranda var tilkynnt með bréfi, dags. 15. júní 2011. Í ákvörðunarbréfi Íbúðalánasjóðs kemur fram að greiðsluerfiðleikanefnd Íbúðalánasjóðs hafi metið umsókn kæranda um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika og reiknað greiðslubyrði og greiðslugetu hennar, en niðurstaða nefndarinnar hafi verið sú að Íbúðalánasjóður gæti ekki orðið við beiðni hennar um greiðsluerfiðleikaaðstoð, þar sem greiðslubyrði væri umfram greiðslugetu.
II. Málsmeðferð
Með bréfi, dags. 29. júní 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærðu barst með bréfi, dags. 6. júlí 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 27. júlí 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda þann 15. ágúst 2011.
III. Sjónarmið kæranda
Kærandi segist hafa orðið að flytja á höfuðborgarsvæðið vegna veikinda, en hún eigi fasteignina að B sem sé í útleigu, en hún hagnist ekkert á því að leigja út fasteign sína, enda þurfi hún að leigja íbúð í Reykjavík. Þá segir kærandi að fasteign hennar í Chafi verið á söluskrá síðan í maímánuði árið 2009. Kærandi segir að henni hafi verið veitt greiðslufrestun síðastliðin tvö ár, en henni hafi verið synjað er hún sótti um sama úrræði í þriðja sinn. Kærandi segist hafa notað tveggja ára tímabil greiðslufrestunar til að greiða niður skuldir, en einnig hafi hún reynt að losa sig við eignir, umrædda fasteign í C og bifreið í hennar eigu sem sé einnig til sölu. Þá segir kærandi að hún sé einstæð móðir með barn á framfæri sem eigi við mikla erfiðleika að stríða. Kærandi segir að hún hafi gert ráð fyrir því að hún fengi greiðslufrestun í þrjú ár og það myndi hafa mikla þýðingu fyrir hana þar sem hún hafi ætlað að nýta þriðja ár greiðslufrestunar til þess að greiða skuldir og selja bifreiðina sem myndi hafa töluverð áhrif á mánaðarlega greiðslubyrði hennar, en afborganir af láni sem hvíli á bifreiðinni séu 32.000 kr. auk þess sem árleg vátryggingargjöld vegna bifreiðarinnar séu 147.000 kr.
Kærandi segist einnig vera að greiða niður yfirdráttarheimild í viðskiptabanka sínum með 10.000 kr. mánaðarlega, en einnig hafi hún sótt um niðurfærslu íbúðalána í Landsbankanum samkvæmt 110% leiðinni. Kærandi segist vera að vinna í því að koma fjármálum sínum í gott horf, en hún fari fram á greiðslufrestun í tólf mánuði í viðbót. Þeim tíma muni hún verja til að greiða niður skuldir og minnka greiðslubyrði sína þannig að hún verði betur í stakk búin til þess að takast á við fjárhagslegar skuldbindingar sínar.
Í bréfi sínu til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 15. ágúst 2011, segir kærandi að hún sé með hús sitt í C til sölu og henni hafi borist fyrirspurn um húsið, en hún sé að bíða niðurstöðu umsóknar um 110% leiðina. Kærandi gerir athugasemdir við greiðsluerfiðleikamat Landsbankans, dags. 3. júní 2011, og telur það ekki rétt þar sem nettólaun hennar séu 173.595 kr. en barnalífeyrir sé um 46.000 kr. en samkvæmt greiðsluerfiðleikamati Landsbankans eru þær fjárhæðir tilgreindar 164.479 kr. og 20.102 kr. Kærandi telur einnig að mánaðarleg útgjöld þau sem tilgreind eru í greiðsluerfiðleikamatinu séu ofmetin og nefnir sem dæmi lækniskostnað, fatainnkaup, matar- og hreinlætisvöruinnkaup, en hún telur að endurskoða megi þau viðmið þar sem raunverulegur kostnaður í hennar tilviki sé mun lægri. Þá segir kærandi að tólf mánuðir í greiðslufrestun í viðbót myndi skipta hana miklu máli.
IV. Sjónarmið kærða
Íbúðalánasjóður áréttar að greiðsluerfiðleikamat Landsbankanum beri með sér að greiðslubyrði kæranda eftir lok úrræða rúmist ekki innan greiðslugetu eins og áskilið er í 4. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001, um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs. Það sé því mat Íbúðalánasjóðs að úrræði sem felst í frestun greiðslu á lánum sé því ekki tækt til lausnar á fjárhagsvanda kæranda.
V. Niðurstaða
Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.
Kærandi sótti um greiðsluerfiðleikaaðstoð og var synjað á þeim grundvelli að greiðslubyrði hennar rúmaðist ekki innan greiðslugetu. Kærandi hefur byggt á því að rangt sé með farið í útreikningi Landsbanka Íslands. Þannig séu tekjur hennar um 35.000 kr. hærri en þar kemur fram, auk þess sem kærandi gerir athugasemdir við þann framfærslukostnað sem ráð er fyrir gert í útreikningum Landsbankans.
Í 4. tölul. 4. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 548/2001, kemur fram að skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar sé að greiðslubyrði umsækjenda eftir skuldbreytingu og/eða frestun á greiðslum og/eða lengingu lánstíma rúmist innan greiðslugetu. Um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir úrræðinu sem sótt er um. Eins og fram kemur í gögnum málsins og samkvæmt greiðsluerfiðleikamati frá Landsbankanum yrði greiðslubyrði kæranda umfram getu hennar sem nemur 81.273 kr. og uppfyllir hún því ekki skilyrði 4. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar, og ætti það einnig við þótt rétt reyndist að tekjur kæranda væru hærri svo sem kærandi hefur haldið fram. Með framangreindum athugasemdum er hin kærða ákvörðun því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A um að synjun Íbúðalánasjóðs um greiðsluerfiðleikaaðstoð verði felld úr gildi, er hafnað.
Ása Ólafsdóttir,
formaður
Margrét Gunnlaugsdóttir Gunnar Eydal