Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 441/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 441/2019

Þriðjudaginn 14. janúar 2020

A

gegn

Kópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. október 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Kópavogsbæjar, frá 9. september 2019, á umsókn hans um lán/styrk að fjárhæð 250.000 kr. á mánuði á grundvelli 30. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um lán/styrk frá Kópavogsbæ á grundvelli 30. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð til að greiða fyrir áfengismeðferð í B. Umsókn kæranda var synjað með bréfi velferðarsviðs, dags. 28. ágúst 2019, með þeim rökum að hann ætti umfram eign, sbr. 18. gr. reglnanna, og að tekjur hans væru yfir viðmiðunarmörkum fjárhagsaðstoðar, sbr. 15. gr. reglnanna. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi þann 9. september 2019 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 21. október 2019. Með bréfi, dags. 22. október 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Kópavogsbæjar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Kópavogsbæjar barst með bréfi, dags. 6. nóvember 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. nóvember 2019. Athugasemdir bárust ekki.

 

 

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá stöðu sinni og tekur fram að hann sé í áfengismeðferð í B sem kosti 250.000 kr. á mánuði. Meðferðin standi yfir í þrjá mánuði en hann hafi ekki kost á því að dreifa greiðslum. Kærandi tekur fram að hann fái hvergi aðra fjárhagslega aðstoð til að koma lífi sínu saman. Kærandi vilji borga til baka lán frá sveitarfélaginu að lokinni meðferð en þá bíði hans starf.  

III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar kemur fram að kærandi hafi fengið aðstoð í formi láns í ágúst 2018 þar sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði til framfærslu vegna tekna af útleigu fasteignar. Í október 2018 hafi verið tekin fyrir umsókn kæranda um styrk eða lán að fjárhæð 750.000 kr. til að sækja sér meðferð í B. Kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði fjárhagsaðstoðar þar sem hann hafi átt eignir umfram viðmið 18. gr. reglna bæjarins sem hann hafi notið leigutekna af. Vegna aðstæðna kæranda hafi hins vegar verið ákveðið að lána honum upphæðina til að hann gæti sótt meðferðina en hann hafi farið X sinnum í meðferð á C og lokið meðferð á D tvisvar. Kærandi hafi verið í meðferðinni í B frá 22. nóvember 2018 til 19. febrúar 2019. Í ágúst 2019 hafi kærandi ákveðið sjálfur að fara aftur til B og hafið þar meðferð 13. ágúst. Að sögn kæranda hafi hann fengið aðstoð frá ættingjum til að komast út. Ferðin hafi atvikast hratt en hann vonist eftir fjárhagslegum stuðningi frá sveitarfélaginu.

Kópavogsbær vísar til þess að starfsmenn velferðarsviðs hafi lagt mat á umsókn kæranda og hans aðstæður, bæði fjárhags- og félagslegar, og tekið þá ákvörðun að synja um annan styrk/lán vegna vímuefnameðferðar. Kærandi uppfylli ekki skilyrði þeirra viðmiðunarreglna sem sveitarfélagið hafi sett sér og fylgi við meðferð umsókna um fjárhagsaðstoð. Annars vegar eigi kærandi fasteign sem sé í útleigu og hins vegar hafi mánaðartekjur hans verið yfir viðmiðunarmörkum. Þá hafi einnig verið litið til aðstæðna en kærandi hafi sjálfur ákveðið að sækja kostnaðarsama vímuefnameðferð erlendis. Hann hafi hvorki upplýst félagsráðgjafa um þá fyrirætlun sína né kannað rétt sinn til fjárhagsaðstoðar fyrir fram.

Kópavogsbær bendir á að félagsþjónustulög gefi ekki íbúum sveitarfélagsins rétt til þess að krefjast ákveðinnar aðstoðar eða þjónustu án tafar. Hugtakið „réttur fólks“ sé ekki skilgreint með þeim hætti, sbr. frumvarp með lögunum. Í frumvarpinu sé vísað til þess að þrátt fyrir margvíslegar skyldur sveitarfélaga til að tryggja félagslega velferð einstaklinga verði að leggja áherslu á það grundvallaratriði að einstaklingum er engu að síður ætlað að bera ábyrgð á sjálfum sér og sínum. Með vísan til framangreinds krefjist Kópavogsbær þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Kópavogsbæjar á umsókn kæranda um lán/styrk að fjárhæð 250.000 kr. á mánuði til greiðslu vímuefnameðferðar erlendis.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Fjárhagsaðstoð sveitarfélags getur hvort heldur sem er verið lán eða styrkur. Fjárhagsaðstoð skal veitt sem lán ef umsækjandi óskar þess eða könnun á aðstæðum leiðir í ljós að eðlilegt sé að gera kröfur um endurgreiðslu með tilliti til eigna og framtíðartekna, sbr. 1. mgr. 22. gr. laganna. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 30. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð er kveðið á um sérstaka aðstoð vegna endurhæfingar. Þar segir í 1. mgr. að heimilt sé að veita einstaklingum sem taka þátt í markvissum stuðningi sérstaka aðstoð. Skilyrði er að umsækjandi eigi, eða hafi átt í miklum félagslegum erfiðleikum og hafi, að mati ráðgjafa, raunverulegan áhuga á endurhæfingu, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Í 3. mgr. kemur fram að heildarkostnaður fjárhagsaðstoðar geti numið allt að 300.000 kr. á mánuði, að meðtöldum atvinnu- eða námstengdum átaksverkefnum. Þá segir í 4. mgr. að heimilt sé að greiða gjald fyrir einstakling sem dvelur á meðferðarheimili.

Samkvæmt 15. gr. framangreindra reglna er upphæð fjárhagsaðstoðar fyrir einstaklinga sem eru inniliggjandi á sjúkrastofnun eða í áfengis- eða vímuefnameðferð 74.477 kr. á árinu 2019. Frá upphæð fjárhagsaðstoðar dragast skattskyldar tekjur, sbr. 17. gr. reglnanna. Þar segir að allar tekjur einstaklings og sambúðaraðila í þeim mánuði sem sótt er um komi til frádráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar og einnig tekjur mánuðinn á undan ef tekjur þann mánuð séu hærri en 300.000 kr. Það tekjuviðmið eigi ekki við þegar einstaklingur beri sannanlega ekki húsnæðiskostnað. Í þeim tilvikum komi allar tekjur í umsóknarmánuði og mánuðinum á undan til frádráttar við ákvörðun upphæðar fjárhagsaðstoðar. Með tekjum sé átt við allar innlendar og erlendar skattskyldar tekjur einstaklings og sambúðaraðila, svo sem atvinnutekjur, aðrar skattskyldar tekjur; greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, Sjúkratryggingum Íslands eða sjúkrasjóðum stéttarfélaga, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur, verktakagreiðslur, greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, mæðra- og feðralaun og framlag til menntunar eða starfsþjálfunar samkvæmt 62. gr. barnalaga nr. 76/2003 sem ungmenni 18-20 ára kunni að fá. Greiðslur vegna barna, húsnæðisbætur, sérstakur húsnæðisstuðningur og vaxtabætur reiknast ekki til tekna.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur í júlí 2019 og lífeyrissjóðsgreiðslur í júlí og ágúst 2019. Þær greiðslur voru hærri en framangreind grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sbr. 15. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki átt rétt á láni/styrk til greiðslu vímuefnameðferðar. Hin kærða ákvörðun er staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar, frá 9. september 2019, um synjun á umsókn A um lán/styrk að fjárhæð 250.000 kr. á mánuði á grundvelli 30. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta