Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 126/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 126/2020

Fimmtudaginn 4. júní 2020

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 8. mars 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 27. febrúar 2020, vegna greiðslu húsnæðisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur húsnæðisbóta 20. febrúar 2020 og óskaði samhliða eftir greiðslum húsnæðisbóta aftur í tímann frá upphafsdegi leigusamnings þann 1. september 2019. Með ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 27. febrúar 2020, var kæranda tilkynnt að umsóknin hefði verið samþykkt og fékk hann greiddar húsnæðisbætur frá og með þeim mánuði.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 8. mars 2020. Með bréfi, dags. 11. mars 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst úrskurðarnefndinni 25. mars 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. mars 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hann fái greiddar húsnæðisbætur frá og með 1. september 2019 en hann hafi tekið íbúð á leigu frá og með þeim degi. Þegar kærandi hafi mætt til sýslumanns til þess að þinglýsa húsaleigusamningnum hafi starfsfólk sagt að eldri samningur væri enn í gildi og hafi ekki verið aflýst. Kærandi hafi reynt að aflýsa gamla samningnum en hvorki hann né leigusalinn hafi fundið leigutakann. Þess vegna hafi nýja húsaleigusamningnum ekki verið þinglýst og starfsfólk hjá sýslumanni sagt kæranda að það væri ekki hægt að fá húsnæðisbætur nema að finna leigutakann. Loksins í febrúar 2020 hafi kæranda tekist að fá undirskrift leigutakans.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) kemur fram að kærandi geri kröfu um að HMS greiði honum afturvirkar húsnæðisbætur frá og með 1. september 2019.

Í III. kafla laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur sé kveðið á um þau skilyrði sem kærandi og heimilismenn þurfi að uppfylla til þess að geta átt rétt til húsnæðisbóta. Eitt þessara skilyrða sé að umsækjandi sé aðili að þinglýstum leigusamningi um íbúðarhúsnæði sem sé til að minnsta kosti þriggja mánaða, sbr. d-lið 2. mgr. 9. gr. laganna. Af framangreindu ákvæði megi ráða að sá sem sæki um húsnæðisbætur án þess að hafa þinglýst leigusamningi uppfylli ekki skilyrði laganna fyrir greiðslu húsnæðisbóta á því tímabili sem leigusamningur sé ekki þinglýstur.

Samkvæmt gögnum máls hafi Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu borist beiðni frá kæranda um aflýsingu á eldri húsaleigusamningi ásamt beiðni um þinglýsingu á nýjum húsaleigusamningi þann 19. febrúar 2020 vegna leigu á ofangreindri íbúð. Kærandi hafi sótt um húsnæðisbætur daginn eftir og samhliða hafi fylgt erindi í tölvupósti sem ráðgjafi HMS hafi skrifað í samráði við kæranda en þar hafi meðal annars eftirfarandi komið fram:

„Tók B til  leigu 1.912019 sl. Fyrri leigjandi lét ekki ná í sig til þess að aflýsa fyrri leigusamningi fyrr en núna í feb 2020, sjá viðhengi.

Þó svo umsóknin hafi borist í febrúar 2020 þá óskar hann eftir að fá greiddar húsaleigubætur aftur í tímann, frá sept eða að einhverjum hluta, því hann hélt að hann gæti ekki sótt um fyrr en fyrr leigjandi væri búinn að aflýsa sínum leigusamningi. Hann vissi ekki að leigusali hefði getað aflýst samningnum.“

Samkvæmt ofangreindu hafi kærandi haldið því fram að hann gæti ekki sótt um húsnæðisbætur fyrr en að búið væri að aflýsa eldri húsaleigusamningi og þinglýsa nýjum á leiguhúsnæðið. HMS þyki rétt að benda á að ef kærandi hafi verið í einhverri óvissu um rétt sinn til húsnæðisbóta hefði hann hæglega getað haft samband við stofnunina og fengið nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar um rétt sinn samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hefði kærandi einnig getað nálgast allar nauðsynlegar upplýsingar um húsnæðisbætur, bæði á íslensku og ensku, inni á vefsíðu stofnunarinnar.

Eins og áður hafi komið fram geri kærandi kröfu um afturvirkar húsnæðisbætur frá og með upphafi leigusamnings. Um greiðslu húsnæðisbóta fari eftir ákvæðum VI. kafla laga um húsnæðisbætur, en samkvæmt 2. mgr. 21. gr. laganna sé HMS óheimilt að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann en frá umsóknarmánuði. Það sé afstaða HMS að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um húsnæðisbætur á því tímabili sem hann geri kröfu um afturvirkar greiðslur, enda hafi leigusamningi ekki verið þinglýst á því tímabili. Þá telji HMS að kærandi hafi þegar fengið þær húsnæðisbætur greiddar er hann hafi átt rétt á, en stofnuninni sé ekki heimilt samkvæmt ofangreindu ákvæði að greiða honum húsnæðisbætur frá upphafi leigusamningsins. HMS bendi auk þess á að þó svo að kærandi hafi ekki vitað hvaða reglur gildi um aflýsingu eldri leigusamninga verði hann að bera hallann af því að hafa ekki aflað sér viðeigandi upplýsinga, svo sem með því að leita fyrr til HMS sem hefði getað leiðbeint honum og veitt nauðsynlegar upplýsingar. HMS geri þá kröfu að ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 27. febrúar 2020 þar sem samþykkt var að greiða kæranda húsnæðisbætur frá og með þeim mánuði. Kærandi hefur óskað eftir greiðslu húsnæðisbóta frá og með 1. september 2019.

Í 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að húsnæðisbætur komi til greiðslu í fyrsta skipti fyrsta dag næsta almanaksmánaðar eftir að réttur til bóta hafi verið staðreyndur. Húsnæðisbætur skuli þó reiknast frá og með þeim almanaksmánuði þegar framkvæmdaraðili móttekur umsókn um húsnæðisbætur vegna leigutíma þess almanaksmánaðar eða hluta úr þeim mánuði, hafi leigutími hafist síðar en fyrsta dag almanaksmánaðar. Óheimilt sé að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann. Þrátt fyrir 1. og 2. málsl. verða húsnæðisbætur aðeins greiddar vegna almanaksmánaðar eða hluta úr almanaksmánuði þegar leigutími er hafinn og koma til greiðslu fyrsta dag næsta almanaksmánaðar á eftir. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 skulu húsnæðisbætur einungis veittar sé umsækjandi aðili að þinglýstum leigusamningi um íbúðarhúsnæði sem sé til að minnsta kosti þriggja mánaða.

Kærandi lagði inn umsókn um húsnæðisbætur 20. febrúar 2020 og fékk greiddar húsnæðisbætur frá og með þeim mánuði. Með umsókn sinni lagði kærandi fram ótímabundinn húsaleigusamning frá 1. september 2019, en samningnum hafði verið þinglýst 19. febrúar 2020. Samkvæmt skýru ákvæði 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2016 er óheimilt að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann en frá umsóknarmánuði, auk þess sem skilyrði er að umsækjandi sé aðili að þinglýstum leigusamningi um íbúðarhúsnæði. Að því virtu er ákvörðun um að greiða kæranda húsnæðisbætur frá og með febrúar 2020 staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 27. febrúar 2020, um greiðslu húsnæðisbóta til handa A er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                                                                                                                                                                                           Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta