Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 403/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 403/2020

Fimmtudaginn 12. nóvember 2020

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. ágúst 2020, kærði B f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 1. apríl 2020, á umsókn hennar um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. október 2019 til 31. desember 2019.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 26. febrúar 2020, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. október 2019 til 31. desember 2019. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun þjónustumiðstöðvar, dags. 26. mars 2020, með vísan til 18. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi 1. apríl 2020 og staðfesti synjunina. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 19. maí 2020.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 19. ágúst 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. ágúst 2020, var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst úrskurðarnefndinni 10. september 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. september 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt fyrir áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar að taka umsókn um fjárhagsaðstoð fyrir að nýju. Kærandi hafi verið tekjulaus frá byrjun október til loka desember 2019 og lifað á lánum frá foreldrum og öðrum vandamönnum á því tímabili. Í janúar 2020 hafi kærandi fengið samþykktan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins í fjóra mánuði, þ.e. frá byrjun janúar til loka apríl 2020. Faðir kæranda hafi verið í samskiptum við þjónustumiðstöð og ráðfært sig um mál kæranda við félagsráðgjafa. Í kæru séu þau samskipti rakin.

Tekið er fram að í samræmi við ráðgjöf starfsmanns þjónustumiðstöðvarinnar hafi kærandi sótt um fjárhagsaðstoð vegna tímabilsins 1. október 2019 til 31. desember 2019. Með umsókninni hafi fylgt beiðni um undanþágu frá 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Faðir kæranda hafi ítrekað spurt um rétt hennar til fjárhagsaðstoðar en þeirri spurningu hafi aldrei verið svarað. Í tölvupósti starfsmannsins frá 14. febrúar 2020 komi fram að ekki væri unnt að fá námsstyrk vegna náms kæranda og í raun tilkynnt að umsókninni yrði hafnað. Engu að síður hafi umræddur starfsmaður haldið áfram með umsókn kæranda um námsstyrk. Kærandi geri athugasemd við það að starfsmaðurinn hafi haldið áfram með umsókn um námsstyrk þar sem hann hafi talið víst að umsókninni yrði synjað í stað þess að leiðbeina kæranda um að sækja um fjárhagsaðstoð líkt og ítrekað hafi verið spurt um. Af orðalagi tölvupóstsins hafi í raun legið fyrir að umsókninni yrði synjað áður en umsóknin hafi verið tekin fyrir. Starfsmanninum hafi því mátt vera ljóst að tilgangslaus væri fyrir kæranda að sækja um námsstyrk og borið að leiðbeina kæranda að sækja um almenna fjárhagsaðstoð. Að mati kæranda hafi leiðbeiningum til hennar verið áfátt að þessu leyti og því hafi leiðbeiningarskyldu samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ekki verið sinnt með fullnægjandi hætti. 

Með umsókn kæranda um námsstyrk hafi fylgt beiðni um undanþágu frá skilyrðum 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hafi áfrýjunarnefnd heimild til að veita undanþágu frá reglunum liggi sérstakar málefnalegar ástæður fyrir fari umsækjandi fram á það með sérstakri beiðni. Hvergi sé hægt að finna umfjöllun um þá beiðni né rökstuðning fyrir því hvers vegna nefndin telji kæranda ekki uppfylla skilyrði fyrir undanþágu vegna sérstakra ástæðna. Bæði þjónustumiðstöðin og áfrýjunarnefndin séu bundnar af reglum stjórnsýslulaga en samkvæmt framangreindu verði ekki séð að mál kæranda hafi verið rannsakað með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Því beri að ógilda hina kærðu ákvörðun og leggja fyrir áfrýjunarnefnd velferðarráðs að taka mál kæranda fyrir að nýju.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að kærandi leggi stund á nám við C en áður hafi hún verið búsett hjá foreldrum sínum þar sem hún eigi lögheimili. Kærandi hafi verið í endurhæfingu og fengið greiddan lífeyri frá Tryggingastofnun en greiðslum þaðan hafi lokið þegar kærandi hóf 100% nám. Kærandi hafi óskað eftir endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun haustið 2019, auk þess sem hún hafi spurst fyrir um námsstyrk hjá þjónustumiðstöð en nám hennar hafi ekki verið lánshæft. Tryggingastofnun hafi metið það svo að þar sem kærandi væri í 100% námi væri hún ekki í endurhæfingu. Ljóst sé að kærandi hafi ekki fengið samþykkta endurhæfingu fyrir tímabilið október til desember 2019.

Reykjavíkurborg vísi til þess að í 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sé kveðið á um að sveitarstjórn skuli setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar. Meðferð þeirrar umsóknar sem hér um ræði hafi farið samkvæmt reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum sem hafi tekið gildi þann 1. janúar 2011 og verið samþykktar í velferðarráði Reykjavíkurborgar þann 17. nóvember 2010 og í borgarráði 25. nóvember 2010. Í 1. gr. reglnanna segi að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. III. kafla reglna um fjárhagsaðstoð. Í 2. gr. reglnanna sé áréttað að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára, sbr. 19. gr. laga nr. 40/1991.

Í 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi fram að heimilt sé að veita námsstyrki í eftirfarandi tilvikum. Aðstoðin miðist við fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt 11. gr. reglnanna ásamt almennum skólagjöldum, innritunarkostnaði og bókakostnaði:

a) til einstaklinga á aldrinum 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og hafa átt við mikla félagslega erfiðleika að stríða.

b) til einstæðra foreldra á aldrinum 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og haft hafa atvinnutekjur sem eru lægri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglna þessara, undanfarna tólf mánuði. Skilyrði er að umsækjandi hafi átt í félagslegum erfiðleikum.

c) til einstaklinga á aldrinum 18-24 ára sem ekki hafa lokið framhaldsskóla og eiga eftir ólokið að hámarki tvær annir. Um sé að ræða einstakling sem ekki hefur tök á að vinna með skóla og fyrir liggur mat á því að ef ekki komi til aðstoðar sé ljóst að viðkomandi flosni upp úr námi.

d) til einstaklinga sem hafa verið atvinnulausir án bótaréttar eða þegið fjárhagsaðstoð í sex mánuði eða lengur og hafa ekki lokið grunnnámi sem gefur rétt á námsláni.

e) Heimilt er að veita tekjulágum foreldrum fjárstyrk vegna náms 16 og 17 ára barna þeirra. Hér er átt við tekjulága foreldra sem átt hafa í langvarandi félagslegum erfiðleikum.

Leggja þarf inn umsókn tveimur mánuðum áður en nám hefst nema hvað varðar c-lið.

Samkvæmt upplýsingum sem hafi legið fyrir við meðferð málsins uppfylli kærandi ekki skilyrði a. liðar 18. gr. reglnanna þar sem hún sé ekki á aldrinum 18 til 24 ára og hafi lokið grunnskóla eða framhaldsskóla. Þá setji ákvæðið einnig skilyrði um að umsækjandi búi við mikla félagslega erfiðleika. Við mat á því hvort umsækjandi eigi við mikinn félagslegan vanda að stríða hafi þau viðmið mótast í framkvæmd að til fjölþætts félagslegs vanda teljist þegar einstaklingur glímir við margþættan vanda sem samanstandi til að mynda af erfiðum heimilisaðstæðum, litlu eða engu félagslegu- eða fjárhagslegu baklandi, ofbeldi, vímuefnaneyslu, erfiðleikum í námi, veikindum og öðrum áföllum. Kærandi sé ekki foreldri og því eigi b. og e. liðir 18. gr. ekki við um hana. Í c. lið 18. gr. komi meðal annars fram að einstaklingur skuli vera á aldrinum 18-24 ára og ekki hafa lokið framhaldsskóla en kærandi uppfylli ekki framangreind aldursskilyrði, auk þess sem fyrri menntun kæranda sé á 5. stigi, þ.e. á háskólastigi. Því eigi c. liður 18. gr. ekki við um kæranda. Þá séu skilyrði d. liðar 18. gr. ekki uppfyllt þar sem kærandi hafi hvorki verið atvinnulaus án bótaréttar eða á fjárhagsaðstoð í að minnsta kosti sex mánuði fyrir nám. Auk þess sé það gert að skilyrði í d. lið 18. gr. að umsækjandi hafi ekki lokið grunnnámi sem gefi rétt á námsláni. Í gögnum í máli kæranda komi fram að hún hafi stundað þriggja ára lánshæft nám í D á árunum 2015 til 2018. Kærandi hafi því lokið grunnnámi sem gefi rétt á námsláni, auk þess sem fram komi í gögnum málsins að menntun kæranda sé á 5. stigi eða háskólastigi.

Enn fremur segi í 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð að leggja þurfi inn umsókn um námsstyrk tveimur mánuðum áður en nám hefjist nema hvað varði c-liðinn. Kærandi hafi sótt um námsstyrk þann 26. febrúar 2020 fyrir tímabilið 1. október 2019 til 31. desember 2019 og því sé umsóknin of seint fram komin og skilyrði 18. gr. reglnanna því ekki uppfyllt. Þá segi einnig í 18. gr. að nám skuli leiða til þess að nemandi geti síðar hafið nám sem sé lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Námið í C byggi ekki á prófum, einkunnum eða gráðum og leiði því ekki til lánshæfs náms. Auk þess sé fyrri menntun kæranda á því stigi að hún geti hafið lánshæft nám. Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi velferðarráð talið að synja bæri um námsstyrk fyrir tímabilið 1. október til 31. desember 2019.

Áfrýjunarnefnd velferðarráðs fallist ekki á að leiðbeiningum til kæranda hafi verið áfátt og þær ekki í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga. Félagsráðgjafi kæranda hafi gefið þær leiðbeiningar að kærandi gæti ekki verið á endurhæfingarlífeyri og fengið skólastyrk á sama tíma. Þá hafi félagsráðgjafinn útskýrt að skólastyrkur væri í raun fjárhagsaðstoð sem greidd væri mánaðarlega fyrir þá sem hafi engar aðrar tekjur og uppfylli reglur að öðru leyti, sbr. tölvupóst til föður kæranda þann 31. janúar 2020. Kærandi hafi undirritað umsókn um fjárhagsaðstoð þann 26. febrúar 2020 og í umsókninni sé staða kæranda skráð sem nemi. Umsókn kæranda hafi því verið afgreidd sem umsókn um fjárhagsaðstoð í formi námsstyrks.

Samkvæmt 12. gr. laga nr. 40/1991 skal sveitarfélag tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og sínum en aðstoð skuli vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Almennt sé gert ráð fyrir að einstaklingar sem leiti eftir fjárhagsaðstoð séu í atvinnuleit en leggi ekki stund á nám. Í 6. mgr. 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð komi fram að þegar umsækjandi sé atvinnulaus skuli hann framvísa minnisblaði atvinnuleitanda er staðfesti atvinnuleysi hans. Þá komi fram í 7. mgr. 8. gr. reglnanna að njóti umsækjandi réttar til atvinnuleysisbóta skuli hann framvísa staðfestingu frá Vinnumálastofnun um greiðslu bótanna. Hafi umsækjandi ekki fengið atvinnuleysisbætur vegna veikinda eða hann sé ekki fær um að sinna atvinnu vegna veikinda skuli hann framvísa læknisvottorði en læknisvottorð skuli vera útgefin af heilsugæslu eða sérfræðilækni sem annist mál einstaklingsins. Telja verði að skilyrði 8. gr. hafi ekki verið uppfyllt í máli kæranda þar sem hún hafi lagt stund á fullt nám við C á umræddu tímabili og því ekki uppfyllt skilyrði 8. gr. um atvinnuleit eða óvinnufærni. Auk þess sé rétt að benda á að í 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð sé fjallað um greiðslu fjárhagsaðstoðar aftur í tímann en þar komi fram að rökstuddar ástæður þurfi að liggja að baki ef aðstoð sé veitt aftur í tímann og verði skilyrðum reglnanna fyrir fjárhagsaðstoð að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt sé um.

Samkvæmt framansögðu megi telja það ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991, með síðari breytingum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. október til 31. desember 2019. Umsókninni var synjað á þeirri forsendu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 18. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð en þar er kveðið á um námsstyrki.

Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur komið fram að umsókn kæranda hafi verið afgreidd sem umsókn um fjárhagsaðstoð í formi námsstyrks þar sem á umsóknareyðublaðinu hafi hún verið sögð vera nemi. Kærandi hefur gert athugasemd við þá afgreiðslu og vísað til þess að ítrekað hafi verið óskað eftir upplýsingum um almenna fjárhagsaðstoð en án árangurs. Þá hafi kærandi samhliða umsókn óskað eftir undanþágu frá skilyrðum 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð en sú beiðni hafi ekki verið tekin fyrir.

Við yfirferð á þeim samskiptum sem liggja fyrir á milli umboðsmanns kæranda og starfsmanns þjónustumiðstöðvar er ljóst að kærandi var ekki eingöngu að óska eftir fjárhagsaðstoð í formi námsstyrks. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála bar Reykjavíkurborg einnig að leggja mat á umsókn kæranda á grundvelli II. og III. kafla reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð, þ.e. hvort hún ætti rétt á almennri fjárhagsaðstoð sér til framfærslu. Þá bar Reykjavíkurborg einnig að leggja mat á undanþágubeiðni kæranda en samkvæmt 34. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hefur áfrýjunarnefnd velferðarráðs heimild til að veita undanþágu frá reglunum ef sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir og umsækjandi fer fram á það með sérstakri beiðni og greinargerð frá þjónustumiðstöð liggur fyrir.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga er Reykjavíkurborg skylt að upplýsa mál með fullnægjandi hætti áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Með því að synja kæranda um fjárhagsaðstoð eingöngu á grundvelli 18. gr. framangreindra reglna og leggja ekki mat á hvort skilyrði 34. gr. reglnanna væri uppfyllt var þeirri skyldu ekki fullnægt. Ekki verður bætt úr þeim annmarka hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka mál kæranda til nýrrar meðferða.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 1. apríl 2020, um synjun á umsókn A, um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. október 2019 til 31. desember 2019 er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta