Mál nr. 73/2022 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 73/2022
Fimmtudaginn 24. mars 2022
A og
B
gegn
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 29. janúar 2022, kærði C lögmaður, f.h. A, og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 25. nóvember 2021, um að synja beiðni þeirra um afskrift veðkröfu.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með bréfi til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 13. september 2021, óskuðu kærendur eftir að áhvílandi húsnæðislán þeirra yrði afskrifað á þeirri forsendu að fasteign þeirra hefði eyðilagst af óviðráðanlegum orsökum, sbr. 2. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál. Umsókn kærenda var synjað með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 25. nóvember 2021, á þeirri forsendu að tjónið væri ekki af óviðráðanlegum orsökum.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. janúar 2022. Með bréfi, dags. 1. febrúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 15. febrúar 2022, og var hún kynnt kærendum með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. febrúar 2022. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) verði skylt að fella niður lán nr. X. Kærendur telji að ákvörðun stofnunarinnar sé byggð á röngu mati á atvikum málsins og rangri túlkun á 2. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál og 16. gr. reglna HMS um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða. Kærendur hafni því að ekki hafi verið sýnt fram á að fasteign þeirra hafi eyðilagst af óviðráðanlegum orsökum, sbr. 2. mgr. 47. gr. laga um húsnæðismál. Í matsgerð D, dómkvadds matsmanns, meti hann fasteignina eyðilagða. Orsakir þess telji hann líklega nokkrar og samverkandi: Biluð hitaveitulögn, röng uppbygging byggingarhluta, léleg rakasperra eða slæmur frágangur hennar og mygla í nýju byggingarefni. Dómkvaddur matsmaður fullyrði ekkert um afleiðingar einnar orsakar umfram aðra fyrir eyðileggingu fasteignarinnar.
Kærendur telji ærið langsóttar þær vangaveltur matsmanns um að mygla í þaki sé mögulega vegna byggingarefnis (borðaklæðningar) sem hafi verið myglað þegar það hafi komið frá söluaðila. Kærendur telji að almennt hljóti aðkeypt byggingarefni að koma óskemmt frá seljanda þess og ályktanir um annað verði að eiga sér einhverja stoð en hana sé ekki að finna í matsgerðinni. Þá telji kærendur að matsmaður geti ekki með neinni vissu fullyrt nokkuð um að vinna byggingarverktaka við endurnýjun þaks hafi verið í ósamræmi við teikningar eða viðurkenndar aðferðir. Umfjöllun matsmanns um frágang rakasperru undir einangrun séu bersýnilega getgátur hans en hann segi „ekki ljóst“ hvernig staðið hafi verið að þeirri vinnu.
Ekki sé um það deilt að leka hafi orðið vart í vegg á norðurhlið fasteignarinnar árið 2016 vegna sprungu í hitaveitulögn. Dómkvaddur matsmaður telji lekann vera eina af orsökum eyðileggingar fasteignarinnar og kærendur hafi ekki getað komið í veg fyrir hann. Kærendur telji því að leki frá hitaveitulögn og mygluvöxtur honum tengdum hafi verið óviðráðanleg orsök, sbr. 2. mgr. 47. gr. laga um húsnæðismál. Í umræddu lagaákvæði, lögskýringargögnum og reglum HMS sé ekki um það fjallað hvernig beri að taka á atvikum, eins og dómkvaddur matsmaður telji um að ræða í þessu máli, þ.e. þegar orsakir eyðileggingar fasteignar séu fleiri en ein eða þegar um samverkandi orsakir sé að ræða. Það skilyrði sé ekki sett í framangreindum reglum fyrir afskrift veðkröfu að eyðileggingu fasteignar megi rekja til einnar meginorsakar. Hvað sem því líði þá leggi dómkvaddur matsmaður ekki á það mat hver sé aðalorsök eyðileggingar fasteignarinnar og því með öllu ósannað að helstu orsakir tjónsins liggi í rangri uppbyggingu og slæmum frágangi byggingarhluta hússins, eins og segi í rökstuðningi HMS frá 16. desember 2021.
Með vísan til framangreinds telji kærendur sig hafa sýnt fram á að fasteign þeirra að E hafi eyðilagst af óviðráðanlegum orsökum. Af þeim sökum hafi HMS borið að verða við kröfu um afskrift veðskuldar nr. X.
III. Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar
Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) kemur fram að kærendur hafi lagt fram umsókn, dags. 4. júní 2018, vegna húsnæðisláns þeirra nr. X, áhvílandi á fasteigninni E, fnr. X. Í umsókninni sé gerð krafa um að framangreint lán verði fellt niður vegna eyðileggingar íbúðarinnar með vísan til 2. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál. Að sögn kærenda sé íbúðin með öllu óíbúðarhæf og ónýt vegna verulegra mygluskemmda og sveppagróðurs. Gögn sem hafi fylgt með erindinu hafi meðal annars verið skýrsla sveppafræðings og húsasmíðameistara, erindi skipulags- og byggingarfulltrúa F og staðfesting á vátryggingum frá VÍS. Við staðfestingu móttöku umsóknarinnar hafi kærendur verið upplýstir um gildandi lagaheimild og vinnureglur um afskriftir veðkrafna í sérstökum tilfellum. Þar hafi meðal annars komið fram að með umsókn skuli fylgja matsgerð dómkvaddra matsmanna um eyðileggingu húss þar sem fram komi staðfesting og lýsing á tjóni, veðmat á tjóni og á óviðráðanlegum orsökum eyðileggingarinnar. Tekið hafi verið fram að aðeins í undantekningartilvikum væri heimilt að víkja frá kröfu um dómkvaðningu, enda væri eyðilegging það augljós að mati starfsmanna stofnunarinnar og sýnt yrði fram á tjónið með öðrum hætti.
Við vinnslu málsins hjá Íbúðalánasjóði og síðar HMS hafi verið aflað frekari upplýsinga og gagna, meðal annars kostnaðaráætlunar vegna endurbóta, verðmati frá tveimur fasteignasölum og ástandsskýrslu vegna raka og myglu í burðarvirki. Einnig hafi verið leitað álits byggingarfræðings HMS og staðfestingar greiðsluerfiðleikanefndar á að gerð yrði krafa til kærenda um matsgerð dómkvaddra matsmanna. Þann 19. mars 2019 hafi verið áréttað við kærendur sú krafa að aflað yrði matsgerðar dómkvaddra matsmanna með vísan til 16. kafla reglna um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða. Það hafi verið mat stofnunarinnar með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum að umþrætt eyðilegging á fasteigninni væri ekki augljós og ekki hefði verið sýnt fram á óviðráðanlegar orsakir eyðileggingarinnar. Af þeirri ástæðu væri óskað eftir matsgerð um eyðileggingu hússins þar sem fram kæmi meðal annars staðfesting og lýsing á tjóni, verðmat á tjóni og á óviðráðanlegum orsökum eyðileggingarinnar. Lögmaður kærenda hafi þann 10. október 2019 upplýst að hann hygðist óska eftir dómkvöddum matsmönnum og leggja fram matsgerð.
Þann 28. ágúst 2020 hafi Héraðsdómur Norðurlands eystra móttekið matsbeiðni frá kærendum (matsbeiðendur) í máli nr. M-X/2020. Með matinu hygðust kærendur afla sér sönnunargagns sem sýndi fram á að íbúðarhúsið hefði eyðilagst af óviðráðanlegum orsökum, sbr. 2. mgr. 47. gr. laga um húsnæðismál. Matsbeiðnin hafi verið tekin fyrir í þinghaldi sem hafi farið fram 15. október sama ár og hafi D byggingarfræðingur hjá EFLU verið skipaður dómkvaddur matsmaður. Matsskoðun hafi síðan farið fram 26. nóvember á eigninni sjálfri þar sem aðstæður hafi verið skoðaðar og umræður um dreifingu myglu í húsinu. Matsgerð dómkvadds matsmanns sé dagsett 4. febrúar 2021.
Með bréfi, dags. 13. september 2021, hafi HMS verið send fyrirliggjandi matsgerð. Í bréfinu komi fram að það sé mat kærenda með hliðsjón af matsgerðinni að fasteignin hafi eyðilagst af óviðráðanlegum orsökum og því væri óskað eftir að HMS myndi afskrifa útistandandi lán. Umsókn kærenda um niðurfellingu láns vegna eyðileggingar fasteignarinnar hafi verið lögð fyrir lánanefnd HMS þann 24. nóvember. Niðurstaða lánanefndar hafi verið sú að ekki væri unnt að verða við umsókninni þar sem ekki væri hægt að fullyrða að fasteignin hefði eyðilagst af óviðráðanlegum orsökum. HMS telji að framkvæmdir við eignina hafi ekki verið í samræmi við viðurkennda verkhætti og helstu orsakir tjónsins liggi því í rangri uppbyggingu og slæmum frágangi byggingarhluta hússins. Það sé mat HMS að eyðilegging sem komin sé til vegna mannlegra mistaka geti ekki talist óviðráðanleg orsök og umsókninni hafi af þeim sökum verið hafnað. Til grundvallar ákvörðuninni hafi legið framangreind matsgerð.
HMS byggi á því að málsmeðferðin hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að ákvörðunin hafi verið tekin í samræmi við ákvæði laga nr. 44/1998 um húsnæðismál og reglur stjórnar HMS um meðferð greiðsluerfiðleika. Við meðferð málsins hafi HMS farið yfir fyrirliggjandi gögn og forsendur sem hafi legið fyrir við mat á því hvort kærendur uppfylltu neðangreind skilyrði fyrir niðurfellingu lánsins.
Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. laga um húsnæðismál sé heimilt að afskrifa útistandandi veðkröfur þegar íbúð sem hafi staðið að veði fyrir viðkomandi kröfu hafi eyðilagst af óviðráðanlegum orsökum. Afskriftarheimildin nái til veðkrafna að því leyti sem söluverð, afsláttur eða bætur dugi ekki til að greiða þær upp miðað við veðröð áhvílandi lána. Skilyrði fyrir afskriftum samkvæmt þessari málsgrein sé að fasteignareigandi hafi tekið venjubundnar fasteignatryggingar. Samkvæmt ákvæðinu séu tvö grundvallarskilyrði sem þurfi að vera uppfyllt svo að heimilt sé að afskrifa kröfu. Í fyrsta lagi þurfi eignin að vera ónýt og í öðru lagi þurfi eyðileggingin að vera af óviðráðanlegum orsökum. Í reglum HMS um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða sé einnig fjallað um afskrift veðkrafna í sérstökum tilfellum. Í 16 gr. reglnanna segir meðal annars að umsækjandi verði að sýna fram á að tjónið sé af óviðráðanlegum orsökum og að eignin sé eyðilögð, þ.e. að tjónið verði metið sem nemi að minnsta kosti 85% af brunabótamati íbúðar og að söluverð, bætur eða afsláttur nægi ekki til að greiða upp veðkröfur. Með umsókn skuli fylgja matsgerð dómkvaddra matsmanna um eyðileggingu húss þar sem fram komi meðal annars staðfesting og lýsing á tjóni, verðmat á tjóni og á óviðráðanlegum orsökum eyðileggingarinnar.
Þegar heimildin til afskrifta í sérstökum tilfellum hafi fyrst verið sett í lög hafi sagt í athugasemdum um 3. gr. laga nr. 77/2001 að lagt væri til að heimildir sjóðsins til að afskrifa veðlán yrðu rýmkaðar. Þau tilvik hafi komið upp að íbúðir hafi eyðilagst af óviðráðanlegum orsökum, svo sem af völdum veggjatítla og jarðhræringa. Ákvæðinu hafi síðan verið breytt með lögum nr. 57/2004 þar sem nauðsynlegt hafi þótt að taka af allan vafa um tilgang ákvæðisins og hvaða skilyrðum verði að fullnægja til þess að heimildinni verði beitt. Ljóst sé af lestri ákvæðisins og lögskýringargögnum að um algera undantekningarreglu sé að ræða frá þeirri meginreglu sem gildi í íslenskum rétti að samninga beri að halda. HMS telji því að túlka verði heimildina þröngt og að afskrift komi eingöngu til greina við þær séstöku aðstæður þegar íbúð hafi eyðilagst af óviðráðanlegum orsökum.
Við mat á óviðráðanlegum orsökum sé horft til hvers tilviks fyrir sig og hverjar orsakir eyðileggingar séu taldar vera og stuðst við álit dómkvaddra matsmanna þegar eyðileggingin sé ekki það augljós, að mati starfsmanna HMS. Þá liggi fyrir að eiganda verði ekki beinlínis kennt um tjónið eða að hann hefði getað eða átt að geta forðað því. Í fyrirliggjandi matsgerð séu fimm matsspurningar sem ætlað sé að staðfesta og lýsa tjóninu, verðmeta tjónið og meta hvort tjónið sé af óviðráðanlegum orsökum. Það sé mat dómkvadds matsmanns að eignin sé eyðilögð. Um orsakir tjónsins segi meðal annars í matsgerðinni að líklegt sé að fleiri en einn þáttur hafi leitt til svo víðtækrar myglu sem raun beri vitni. Þannig liggi orsakir í samverkun frá bilaðri lögn, rangri uppbyggingu byggingarhluta, lélegum eða slæmum frágangi rakasperru innst og myglu í nýju byggingarefni sem hafi leitt til þess að mygla hafi vaxið upp og breiðst út um allt húsið og gert það óíbúðarhæft. Fram komi hjá matsmanni að við skoðun hafi hvorki verið hægt að skoða hvers konar bilun hafi orðið á lögn eða hvaða áhrif bilun á lögn hafi haft á myglutjón né heldur meta stærð svæðis sem hafi orðið fyrir tjóni út frá lekanum þar sem búið hafi verið að rífa allt í burtu, bæði lagnir, klæðningu og það sem hefði getað sýnt útbreiðslu rakans. HMS telji því að ekki sé hægt að fullyrða með óyggjandi hætti að umþrætt eyðilegging verði að öllu leyti rakin til lekans á árinu 2016. Hvort tjónið sé tilkomið af óviðráðanlegum orsökum segi í matsgerðinni:
„Við mat á því hvort orsakir tjóns hafi tilkomið af óviðráðanlegum orsökum verður að teljast sennilegt, að orsakir hafi verið viðráðanlegar. Frá sjónarhóli hönnuða og húsasmiða í byggingariðnaði er þeim ljóst að hverju þarf að hyggja við uppbyggingu timburhúsa og hvað þarf að passa að sé í fullkomnu lagi í frágangi slíkra húsa. Þeir, í sameiningu, hefðu getað komið í veg fyrir mistök í uppbyggingu og frágangi byggingarhluta en ekki komið í veg fyrir bilun í lögn. Ekki liggja fyrir nein hönnunargögn um enduruppbyggingu veggja og þaks en húseigendur sögðust hafa fengið fyrirmæli frá hönnuði um uppbyggingu veggja og þaks þar sem aukaeinangrun væri komið fyrir og fengið byggingarmeistara frá Verktakafyrirtækinu G til að sjá um framkvæmdir við veggi.“
Í því máli sem hér sé til umfjöllunar séu orsakir eyðileggingarinnar að mati HMS, þ.e. orsakir myglunnar, að framkvæmdir við eignina hafi ekki verið í samræmi við viðurkennda verkhætti og helstu orsakir tjónsins liggi því í rangri uppbyggingu og slæmum frágangi byggingarhluta hússins. Það sé mat HMS að eyðilegging sem sé komin til vegna mannlegra mistaka geti ekki talist óviðráðanleg orsök og umsókninni af þeim sökum hafnað. Niðurstaða HMS sé í samræmi við mat dómkvadds matsmanns sem telji sennilegt að orsakir hafi verið viðráðanlegar, þ.e. sá hluti sem snúi að ágöllum við uppbyggingu byggingarhluta og frágangi. Að öðru leyti sé vísað til matsgerðar, ákvörðunar og rökstuðnings HMS í málinu.
Það hafi verið niðurstaða HMS að skilyrði fyrir afskrift samkvæmt 2. mgr. 47. gr. laga um húsnæðismál væru ekki uppfyllt. HMS geri þá kröfu að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um að synja beiðni kærenda um afskrift veðkröfu á grundvelli 2. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál með vísan til þess að fasteign þeirra hefði eyðilagst af óviðráðanlegum orsökum.
Um afskriftir veðkrafna Íbúðalánasjóðs fer eftir 47. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laganna er heimilt að afskrifa útistandandi veðkröfur Húsnæðissjóðs og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem glatað hafa veðtryggingu við nauðungarsölu íbúðar. Einnig er heimilt, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar, að afskrifa útistandandi veðkröfur Húsnæðissjóðs og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þegar íbúð sem stóð að veði fyrir viðkomandi kröfu hefur eyðilagst af óviðráðanlegum orsökum. Afskriftarheimildin nær til veðkrafna stofnunarinnar að því leyti sem söluverð, afsláttur eða bætur duga ekki til að greiða þær upp miðað við veðröð áhvílandi lána. Skilyrði fyrir afskriftum samkvæmt þessari málsgrein er að fasteignareigandi hafi tekið venjubundnar fasteignatryggingar.
Samkvæmt lagaákvæðinu eru tvö grundvallarskilyrði sem þurfa að vera uppfyllt svo að heimilt sé að afskrifa veðkröfur. Í fyrsta lagi þarf viðkomandi fasteign að vera ónýt og í öðru lagi þarf eyðileggingin að vera af óviðráðanlegum orsökum.
Í 16. gr. reglna HMS um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða er nánar fjallað um afskrift veðkrafna á grundvelli ákvæðisins. Þar segir að umsækjandi verði að sýna fram á að:
„i. tjónið sé af óviðráðanlegum orsökum
ii. eignin sé eyðilögð, þ.e. að tjónið verði metið sem nemur a.m.k 85% af brunabótamati íbúðar.
iii. söluverð, bætur eða afsláttur nægi ekki til að greiða upp veðkröfur sjóðsins m.v. veðröð. Með bótum er átt við hvers konar greiðslur eða afslátt vegna tjónsins, þó ekki styrki frá einkaaðilum eða opinberum aðilum.“
Þá segir að með umsókn um afskrift skuli fylgja eftirfarandi gögn eða upplýsingar:
„Matsgerð dómkvaddra matsmanna um eyðileggingu húss, þar sem fram kemur m.a. staðfesting og lýsing á tjóni, verðmat á tjóni og á óviðráðanlegum orsökum eyðileggingarinnar.
Staðfesting á fjárhæð bóta sem eigandi hefur fengið eða telur sig fá svo og ef eigandi fær engar bætur vegna tjónsins.
Yfirlýsing eiganda um að hann muni ekki sækja bætur eða frekari bætur en hann hefur þegar fengið og ástæður þessa.
Staðfesting á vátryggingu íbúðar.
Önnur gögn sem nauðsynleg eru að mati starfsmanna HMS til að leggja mat á umsókn.“
Í fyrirliggjandi matsgerð dómkvadds matsmanns, dags. 4. febrúar 2021, er að finna lýsingu á ástandi fasteignarinnar við skoðun hennar í nóvember 2020. Þar segir meðal annars að mygla væri sýnileg mjög víða, bæði á útveggjum og í þakviðum sem og í berandi innveggjum. Myglan væri það mikil og það víða að ekki væri annað hægt en að bregðast við og fjarlægja mygluna úr byggingarefninu. Umfangsmikla aðgerð þyrfti til að losna við alla þessa sýktu byggingarhluta og fjarlægja myglu úr þeim byggingarhlutum sem ekki verði endurnýjaðir. Þar á meðal úr steypu sem liggi að sýktu byggingarefni.
Í umfjöllun um hvort fasteignin væri ónýt segir að miðað við ástand hússins þar sem mygla sé dreifð um nánast allt þak og í stórum hluta veggja og þær umfangsmiklu aðgerðir sem þurfi að framkvæma í endurbótum til að vera með ósýkta byggingu, sé það metið svo að ekki borgi sig að taka húsið í sundur til að hreinsa burtu myglu í timbrinu og því þurfi hreinlega að rífa núverandi byggingu til grunna, farga efninu og byggja að nýju úr ósýktu byggingarefni. Eignin væri því metin eyðilögð.
Í matsgerðinni er einnig að finna umfjöllun um orsakir tjónsins. Þar segir að mygla þurfi raka til að vaxa. Rakinn geti komið af ýmsum uppruna svo sem frá úrkomu, raka í innilofti (eldun, þvottur, böð) og frá lekum lögnum. Gallar í útfærslum og framkvæmd við uppbyggingu þaka og útveggja séu einnig algeng vandamál og beri þar hæst óvönduð vinnubrögð við staðsetningu, uppsetningu og frágang rakasperru. Ranglega staðsett rakasperra sé jafnvel verri en engin. Þá segir einnig:
„Við skoðun sást að unnið hafði verið að því að auka við einangrun útveggja og virðist það hafa verið unnið utan frá. Búið var að klæða nokkra veggi með panel að utan. Við nánari skoðun á uppbyggingu veggjarins sést að rakasperra er ragnlega staðsett, en henni var komið fyrir utan á gamla veggnum og þar utan við er einangrun og krossviður. Rakasperra á þessum stað getur lokað raka sem berst innan úr húsinu inni í gamla veggnum. Veggir á suður- og vesturhlið, þar sem ekki var búið að klæða með panel, voru með olíusoðinni krossvið sem vindvörn. Krossviðurinn var settur utan á húsið á árunum 2012-2013, samkvæmt upplýsingum húseiganda. Þessi gerð krossviðar hefur verið talinn of þéttur til að nota sem vindvörn og getur haldið raka inni í veggjum.“
Í lok þessarar umfjöllunar kemur fram að niðurstaðan sé því sú að líklegt sé að fleiri en einn þáttur hafi leitt til svo víðtækrar myglu sem raun beri vitni. Orsakir liggi í samverkun frá bilaðri lögn, rangri uppbyggingu byggingarhluta, lélegri eða slæmum frágangi rakasperru innst og myglu í nýju byggingarefni sem hafi leitt til þess að mygla hafi vaxið upp og breiðst út um allt húsið og gert það óíbúðarhæft.
Í umfjöllun um hvort tjónið sé tilkomið af óviðráðanlegum orsökum segir svo í matsgerðinni:
„Við mat á því hvort orsakir tjóns hafi tilkomið af óviðráðanlegum orsökum verður að teljast sennilegt, að orsakir hafi verið viðráðanlegar. Frá sjónarhóli hönnuða og húsasmiða í byggingariðnaði er þeim ljóst að hverju þarf að hyggja við uppbyggingu timburhúsa og hvað þarf að passa að sé í fullkomnu lagi í frágangi slíkra húsa. Þeir, í sameiningu, hefðu getað komið í veg fyrir mistök í uppbyggingu og frágangi byggingahluta en ekki komið í veg fyrir bilun í lögn. Ekki liggja fyrir nein hönnunargögn um enduruppbyggingu veggja og þaks en húseigendur sögðust hafa fengið fyrirmæli frá hönnuði um uppbyggingu veggja og þaks þar sem aukaeinangrun væri komið fyrir og fengið byggingameistara frá Verktakafyrirtækinu G til að sjá um framkvæmdir við veggi.“
Í gögnum málsins liggur einnig fyrir mat sérfræðings HMS þess efnis að tjónið væri ekki af óviðráðanlegum ástæðum. Hann tekur þar fram að ef rétt hefði verið staðið að verki við hönnun og framkvæmdir mætti ætla að komist hefði verið hjá þeim byggingargöllum sem hafi orsakað mygluna. Hönnuðum og faglærðum iðnaðarmönnum ætti að vera alveg ljóst að hverju þyrfti að huga við byggingu og endurbætur á timburhúsum og hefðu þeir í sameiningu átt að geta komið í veg fyrir þá byggingargalla sem hafi orsakað mygluna, en þó fyrir utan vatnslekann.
Á grundvelli framangreinds mat HMS það svo að tjón á fasteign kærenda væri ekki af óviðráðanlegum orsökum og því var beiðni þeirra um afskrift veðkröfu synjað. Að mati HMS var tjónið ekki nægilega sennileg afleiðing bilunar í lögn á árinu 2016. Orsakir vandans virtust helst liggja í rangri uppbyggingu byggingarhluta, vöntun á rakasperru innst í veggjum og þaki ásamt myglu í nýju byggingarefni.
Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið gögn málsins og telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við framangreint mat stofnunarinnar sem fær stoð í matsgerð dómkvadds matsmanns sem ekki hefur verið hnekkt. Af ákvæði 2. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1998 um afskriftarheimild er ljóst að það verður að vera ótvírætt að íbúð hafi eyðilagst af óviðráðanlegum orsökum. Í framangreindri matsgerð kemur fram, eins og áður sagði, að orsakir liggi í samverkun frá bilaðri lögn, rangri uppbyggingu byggingarhluta, lélegum eða slæmum frágangi rakasperru innst og myglu í nýju byggingarefni. Af matsgerðinni má ráða að ekki sé hægt að slá því föstu að tjón á fasteign kærenda sé eingöngu tilkomið vegna óviðráðanlegs vatnsleka sem varð árið 2016 heldur sé um nokkra samverkandi þætti að ræða. Er það mat matsmanns að orsakirnar hafi verið viðráðanlegar og rakið hvernig hönnuðir og húsasmíðameistarar hefðu getað komið í veg fyrir mistök í uppbyggingu og frágangi byggingahluta. Með vísan til þess og alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að tjónið sé ekki af óviðráðanlegum orsökum og skilyrði til afskriftar veðkröfu sé ekki uppfyllt. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 25. nóvember 2021, um að synja beiðni A og B, um afskrift veðkröfu, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir