Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Nr. 120/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 120/2019

Fimmtudaginn 15. ágúst 2019

A

gegn

Kópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 13. mars 2019, kærði B félagsráðgjafi, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Kópavogsbæjar frá 29. nóvember 2018  um synjun á umsókn hans um sérstakan húsnæðisstuðning.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um sérstakan húsnæðisstuðning hjá Kópavogsbæ með umsókn, dags. 29. nóvember 2018. Með bréfi Kópavogsbæjar, dagsettu sama dag, var umsókn kæranda um sérstakan húsnæðisstuðning synjað á þeirri forsendu að slíkur stuðningur væri ekki greiddur til leigutaka í félagslegu leiguhúsnæði í eigu sveitarfélags, sbr. 1. gr. reglna Kópavogsbæjar um sérstakan húsnæðisstuðning. Með tölvupósti, dags. 13. desember 2018, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun Kópavogsbæjar og var hann veittur með tölvupósti sama dag.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 13. mars 2019. Með bréfi, dags. 25. mars 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Kópavogsbæjar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Kópavogsbæjar barst 19. apríl 2019 og með bréfi, dags. 23. apríl 2019, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust úrskurðarnefndinni 22. maí 2019 og  með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. maí 2019, voru athugasemdir kæranda sendar Kópavogsbæ. Athugasemdir Kópavogsbæjar bárust 5. júní 2019 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. júní 2019, voru þær sendar kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust úrskurðarnefndinni, dags. 19. júní 2019, og voru þær sendar Kópavogsbæ til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur meðal annars fram að með ákvörðun Kópavogsbæjar hafi kæranda verið synjað um húsnæðisstuðning á grundvelli 1. gr. reglna Kópavogsbæjar um sérstakan húsnæðisstuðning, sem segi orðrétt:

„Sérstakur húsnæðisstuðningur er ætlaður þeim fjölskyldum og einstaklingum sem leigja á almennum markaði og eru ekki á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa og þungrar framfærslubyrði“

Rökstuðningur fyrir reglunni hjá sveitarfélaginu hafi byggst á því að sveitarfélagið hafi ákveðið að halda áfram að „hafa leigu í lágmarki“ og því hafi ekki átt að greiða sérstakan húsnæðisstuðning.

Í málinu reyni á 65. gr. og 76. gr. stjórnarskrárinnar, lög nr. 75/2016 um húsnæðisstuðning, stjórnsýslulög nr. 37/1993 og almennar grunnreglur stjórnsýsluréttar, einkum lögmætis- og réttmætisreglur. Jafnframt komi reglur Kópavogs um sérstakan húsnæðisstuðning til skoðunar.

Varðandi úrvinnslu opinberra aðila á svipuðum málum og dómum Hæstaréttar í málum, sem varða félagsmálaréttinn, megi ráða að við úthlutun félagslegra gæða verði að gæta þess að:

  1. Tryggja fólki lágmarksrétt
  2. Að úthlutunin verði gerð á jafnréttisgrundvelli, með öðrum orðum að fólki verði ekki mismunað
  3. Reglur verði ávallt að vera í samræmi við lagaákvæði
  4. Stjórnvöld verði ávallt að gæta að því að sinna sínu skyldubundna mati.

Í þessu samhengi megi sjá dóm Hæstaréttar í máli nr. 125/2000, álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4747/2000 sem fjalli um hið félagslega eðli og það að ekki sé hægt að beita þrengjandi lögskýringum í almannatryggingarétti, álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2796/1999 sem segi skýrt að opinberir aðilar skuli leita leiða til að markmið laganna náist, ekki öfugt, með því til dæmis að við val á lögskýringarkostum skuli leitast við að finna þá leið sem best samræmist markmiði laganna. Einnig megi líta til nýlegs álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9937/2018 þar sem segi að stjórnvöld verði að líta til stjórnarskrárákvæða og mannréttindasamninga með ítarlegri hætti en nú sé gert í stjórnsýslunni á Íslandi.

Í 2. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur sé kveðið á um skýrt markmið: „Markmið laga þessara er að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda með greiðslu húsnæðisbóta vegna leigu á íbúðarhúsnæði.“

Af ákvæðinu sé ljóst að markmiðið eigi að vera lækkun húsnæðiskostnaðar efnaminni leigjenda og stjórnvöld verði að horfa til slíkra markmiða. Á svipað mál hafi reynt í dómi Hæstaréttar nr. 728/2015. Í honum hafi komið fram að reglur sveitarfélaga verði að samræmast lögum um húsnæðisbætur og jafnræðisreglum stjórnsýsluréttar og stjórnarskrár. Þar sagði Hæstiréttur að sveitarfélagið yrði að gæta þess að ekki yrði hallað á umsækjanda í samanburði við aðra íbúa.

Í máli kæranda reyni á reglu sem útiloki alla sem ekki séu á almennum markaði og málið sé þess vegna ekki skoðað frekar, þrátt fyrir að öll lagaákvæði í málinu hafi þann tilgang að svara ákveðinni þörf. Reglurnar eins og sveitarfélagið hafi lagt þær upp hafi augljóslega þann tilgang að útiloka að þörfin verði skoðuð sérstaklega.

Hér ætti málinu strax að ljúka því að sveitarfélag geti einfaldlega ekki takmarkað skyldu sína með þessum hætti. Sveitarfélagið sé bundið af lagaákvæðum, orðalagi þeirra og þeirri skyldu sem í þeim felast. Í raun sé þar með ekki þörf að skoða hinn málefnalega grundvöll reglnanna. Ef hann sé skoðaður sérstaklega sé ljóst að hann sé byggður á sandi. Orðrétt sé hann afmarkaður með þessum hætti: „Í Kópavogi var ekki farin sú leið að hækka leigu og greiða niður í formi sérstakra húsaleigubóta heldur var ákveðið að halda áfram leigu í lágmarki.“

Greiðsla húsaleigubóta komi til vegna húsnæðiskostnaðar, ekki vegna þess að mögulega hafi sveitarfélag ekki hækkað leigu sína. Slíkt feli ekki í sér sjálfkrafa að húsnæðiskostnaður sé ekki íþyngjandi hjá einstaklingum sem þessi mál snúist um. Það sé á engan hátt hægt að segja að óljósar fullyrðingar sveitarfélagsins um að það hafi ekki hækkað leigu, eins og önnur sveitarfélög, geti talist málefnalegur grunnur fyrir reglunum. Slík fullyrðing komi raunverulegum kostnaði einstaklinga ekkert við. Einnig byggi fullyrðingin á því að leigu hafi verið haldið í lágmarki en sú fullyrðing sé ekki rökstudd með neinum gögnum.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð komi fram að í málinu reyni á rétt kæranda til húsnæðisstuðnings. Húsnæðisstuðningur sé félagslegar greiðslur sem verði ekki takmarkaðar nema með skýrum heimildum og skýrum leiðum. Leiðin sem Kópavogsbær hafi farið sé að útiloka alla þá sem ekki séu á almennum húsnæðismarkaði. Með öðrum orðum sé með reglunni komið í veg fyrir að einstaklingur fái úrvinnslu á málum sínum. Þarna sé um að ræða hreint og klárt brot á grunnreglum stjórnsýsluréttar. Hvorki sá lagarammi sem unnið sé eftir né grunnreglur stjórnsýsluréttar bjóði sveitarfélaginu upp á þennan möguleika. Af þessu sé hægt að ráða að ekki sé þörf á því að skoðun á því hvort grunnur sveitarfélagsins sé málefnalegur eða fari ekki fram.

Ef gengið verði svo langt að meta hvort grunnur sveitarfélagsins standist kröfur stjórnsýsluréttar þá verði málið jafnvel enn auðveldara fyrir úrskurðarnefndina. Af dómi Hæstaréttar í máli nr. 728/2015 sé ljóst að ekki sé hægt að takmarka rétt einstaklinga, sem séu í sambærilegri stöðu, á grundvelli þess í hvernig búsetuformi þeir búi. Reglan sem sveitarfélagið hafi skapað feli í sér beina mismunun á grundvelli þess í hvernig húsnæðisformi einstaklingur búi. Greinargerð sveitarfélagins byggi á rökvillu og uppfylli því ekki grunnskilyrði réttmætisreglu stjórnsýsluréttar um málefnalegan grunn. Í greinargerð sveitarfélagsins komi fram að það stilli málinu upp með þeim hætti að það hafi staðið frammi fyrir tveimur kostum, þ.e. annars vegar að niðurgreiða leiguhúsnæði eða hins vegar að bjóða þeim sem standa utan félagslega leigukerfisins sérstakan húsnæðisstuðning tengdan tekjum þeirra og eignum. Jafnframt hafi það verið stutt með vísan til 78. gr. stjórnarskrárinnar að þessir einu möguleikar hafi verið fyrir hendi. Í einfaldri rökfræði teljist það vera svokölluð röktvennuvilla þegar tveir möguleikar sem útiloka ekki hvorn annan séu settir upp með þeim hætti að þeir útiloki hvorn annan. Í þessu máli sé allt málið byggt upp á slíkri valtvennurökvillu þar sem möguleikar þeir sem sveitarfélagið skelli upp útiloki alls ekki hvorn annan. Þvert á móti sé ljóst að möguleikarnir styðji hvorn annan. Það geti aldrei verið í samræmi við grunnreglur stjórnsýsluréttar að byggja ákvarðanatöku á einfaldri rökvillu. Rökvillu sem virðist hafa verið sett fram til að setja ákvörðun, sem ekki með neinum hætti sé hægt að réttlæta, í einhvers konar búning hlutlægrar stjórnsýslu.

Það sem veki mesta athygli í málinu sé að sveitarfélagið hafi opinberað málflutning sinn með þeim hætti sem það geri í greinargerð sinni. Lágmarkskrafa réttmætisreglunnar hljóti alltaf að vera sú að ákvarðanataka standist einfalda rökfræðilega skoðun.

Í greinargerð sveitarfélagsins virðist koma fram rangar tölur um skattskyldar tekjur kæranda. Réttar tölur séu eftirfarandi:

Hlutfall heildartekna kæranda til greiðslu húsaleigu – upphæðir á mánuði árið 2019

Heildarráðstöfunartekjur

Leiga

Húsnæðisbætur

Hlutfall

269.589 kr.

117.092 kr.

31.384 kr.

31,8%

Heildartekjur fyrir skatt

Leiga

Húsnæðisbætur

Hlutfall

310.755 kr.

117.092

31.384 kr.

27,6%

 

Þessar tölur sýni skýrt og klárt fram á íþyngjandi húsnæðiskostnað kæranda eins og hann hafi verið skýrður samkvæmt opinberum viðmiðum. Þessir útreikningar feli þó einungis í sér algert lágmark yfir húsnæðiskostnað kæranda. Ef horft verði til raunverulegs húsnæðiskostnaðar þar sem húsnæðiskostnaður sé meiri en einungis leiga, líka hjá leigjendum, verði útkoman enn verri.

Ljóst sé að kærandi hafi íþyngjandi húsnæðiskostnað og mál hans fáist ekki skoðað með neinum hætti á grundvelli reglna sem sveitarfélagið sjálft hafi opinberað að byggi á ómálefnalegum grunni.

Í athugasemdum lögmanns vegna greinargerðar Kópavogsbæjar kemur fram að í fyrsta lagi komi ekkert fram í greinargerðinni sem geti talist rökstuðningur fyrir því hver hinn málefnalegi grunnur reglnanna sé. Hvergi sé því svarað að reglur bæjarins byggi á grunnrökvillu sem bærinn geti ekki byggt reglur sínar á. Varla sé hægt að draga aðra ályktun en þá að í því felist viðurkenning bæjarins á því að reglurnar byggi á ómálefnalegum grunni. Í öðru lagi komi fram að Kópavogsbær telji að ákveðnir einstaklingar búi við mismunandi stöðu eftir húsnæðisstöðu og vísi til ákveðinnar tölfræði. Það geti ekki talist málefnalegur grunnur í skilningi stjórnsýsluréttar og stjórnarskrár. Kópavogsbær sé einfaldlega að viðurkenna að ástæðan fyrir því að einstaklingar séu taldir vera í mismunandi stöðu sé sú að leiga sé að meðaltali hærri hjá einum hópnum en öðrum. Að telja þetta sem málefnalegan grunn fyrir reglunni væri álíka gáfulegt og segja að einstaklingur gæti ekki átt rétt örorkugreiðslum vegna þess að fólk hafi það gott að meðaltali. Þessi tölfræði komi málinu ekkert við. Þarna virðist vanta skilning á því hvert markmið húsnæðisstuðnings sé en það sé að koma til móts við einstaklinga vegna hás húsnæðiskostnaðar. Meðaltalsútreikningur um stöðu einstaklinga geti aldrei undir nokkrum kringumstæðum komið í stað skyldubundins mats stjórnvalda. Í þriðja lagi mótmæli Kópavogsbær tilvísun til dóms Hæstaréttar í máli nr. 728/2015 á þeim grunni að þar hafi dómstóllinn komist að því að ekki megi mismuna einstaklingum í sömu eða sambærilegri stöðu. Auðvitað sé sú fullyrðing rétt, en fordæmisgildi dómsins byggi á dýpri rótum jafnræðisreglunnar sem sé grundvöllur lýðræðisfyrirkomulags réttarríkisins. Hið rétta í málinu sé að af þeim dómi megi ráða að stjórnvöld séu algerlega bundin af því að allar reglur þeirra skuli byggja á jafnréttisgrunni. Kjarni jafnræðisreglunnar, allt frá því að Aristóteles hafi skýrt hvað felist í kröfu um jafnræði, sé sá að fólk skuli fá sömu meðferð ef tilvik séu eins og mismunandi meðferð eftir því hlutfalli sem málin séu ólík (grunnregla um proportionality). Jafnframt sé einnig ljóst að í jafnræðisreglunni felist bann við því að reglur séu settar sem hafi þann tilgang eða áhrif að einstaklingar njóti ekki sama réttar, sjá til dæmis 5. gr. Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hin einfalda mynd sem Kópavogsbær byggi á sé greinilega misskilningur á jafnræðisreglunni þar sem útkoman í málinu valdi því að einstaklingar í sömu þörf fyrir húsnæðisstuðning fái ekki stuðning eftir þörfum með sama hætti. Niðurstaða reglunnar sé skýr og klár mismunun. Því miður virðist það vera lenska í íslenskri lögfræði, til dæmis þegar stjórnvöld setji reglur, að áðurnefnda grunnhugsun jafnræðisreglunnar, sem stjórnarskráin byggist á, komist ekki til skila. Reglur Kópavogsbæjar séu framtíðarskólabókardæmi um það hvernig reglur sem hafa skýrt félagslegt hlutverk eigi ekki að vera.

III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sé mælt fyrir um úrræði einstaklinga sem eigi við húsnæðisvanda að etja. Í XII. kafla laganna sé fjallað um húsnæðismál en þar sé lögð skylda á sveitarfélögin að annast þau tilvik þegar íbúar geti ekki leyst úr húsnæðisvanda sínum sjálfir. Í 45. gr. segi að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur sé og þörf sé á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærsluskyldu eða annarra félagslegra aðstæðna.

Kópavogsbær hafi yfir að ráða ríflega 400 íbúðum sem leigðar séu út til þeirra sem erfitt eigi með að sjá sér fyrir húsnæði, meðal annars vegna lágra tekna. Kærandi hafi fengið úthlutað slíku húsnæði.

Í 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar sé mælt fyrir um að sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveði. Þar afleiðandi geta þau útfært nánar þær skyldur sem lög leggi á þau. Ein af þeim skyldum, sem löggjafinn hafi lagt á sveitarfélögin, sé að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda.

Þegar komi að því að aðstoða þær fjölskyldur sem erfitt eigi með að standa undir húsnæðiskostnaði, hafi Kópavogsbær á grundvelli heimildar í 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar, ákveðið að fara tvær leiðir. Annars vegar með því að bjóða upp á niðurgreitt félagslegt leiguhúsnæði þar sem leigu sé haldið í lágmarki og hins vegar að bjóða þeim sem standi utan félagslega leigukerfisins upp á sérstakan húsnæðisstuðning tengdan tekjum þeirra og eignum.

Kærandi falli undir fyrrnefnda leið sem þýði að hann hafi ótímabundinn leigusamning um félagslega leiguíbúð. Kærandi hafi undirritað húsaleigusamning um félagslega leiguíbúð að X þann 18. júní 2014. Íbúðin sé 68,7 fermetrar að stærð og greiði kærandi 85.708 krónur í húsaleigu á mánuði að frádregnum húsnæðisbótum.

Skattskyldar tekjur kæranda á mánuði séu 335.709 krónur. Húsnæðiskostnaður kæranda sé því sem nemur 25% af skattskyldum tekjum hans sem sé í samræmi við það viðmið sem stjórnvöld hafa boðað að horft sé til, sbr. 1. gr. laga um almennar íbúðir nr. 52/2016, það er að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda eða að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna.

Unnið sé að skýrslu um félagslegt leiguhúsnæði í Kópavogi og af því tilefni hafi ráðgjafarfyrirtækið Gnaris unnið greiningu á leiguverði í félagslegu húsnæði og á almennum markaði. Athugun þessi hafi leitt meðal annars í ljós að 83% leigjenda hjá Kópavogsbæ séu með greiðslubyrði sem sé innan við 25% af tekjum. Niðurstaða athugunnar sé sú að leiga á markaði sé um 80% hærri en leiguverð félagslegra íbúða hjá Kópavogsbæ, óháð stærð íbúða.

Leiga á félagslegum íbúðum sé um 55% af leigu á almennum markaði, óháð stærð íbúða. Þá komi fram líkan í óbirtri skýrslu Gnaris sem sýni hvernig núverandi verðlagning á leigu félagslegs leiguhúsnæðis í Kópavogi sé í samræmi við almennt leiguverð. Miðað við þá reikniformúlu væri leiga fyrir íbúð sömu stæðar og íbúð kæranda á almennum markaði tæplega 185.000 krónur. Hámarksupphæð húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings sé 82.000 krónur. Húsnæðiskostnaður kæranda á almennum markaði yrði því 103.000 krónur eða 30% af skattskyldum tekjum.

Vegna þess að leiguverði sé stillt í hóf sé kerfið í heild sinni ósjálfbært. Afkoma ársins 2018 hafi verið 49 milljónir á meðan afborganir lána verið 154 milljónir. Þá sé ekki talinn annar rekstrarkostnaður. Það megi því vera ljóst að umtalsverður stuðningur sé við leigutaka í félagslegu leiguhúsnæði hjá Kópavogsbæ.

Mismunun, í skilningi 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sé afmörkuð með vísan til þess að um sé að ræða ólíka meðferð sambærilegra mála, eða sömu meðferð mjög ólíkra mála, sem ekki verði réttlætt með hlutlægum og málefnalegum ástæðum. Af dómum Hæstaréttar megi sjá að við mat á því hvort um hlutlægar og málefnalegur ástæður sé að ræða sé litið til þess hvort sú meðferð, sem kvartað sé undan, stefni að lögmætu markmiði og hvort gætt sé meðalhófs.

Staðreyndir málsins séu þær að leigjendur á almennum markaði greiði að meðaltali 80% hærri leigu en leigjendur félagslegs húsnæðis í Kópavogi og að greiðslubyrði 83% leigjenda í félagslega kerfinu í Kópavogi sé innan við fjórðungur af skattskyldum tekjum þeirra. Þær aðferðir sem Kópavogsbær beiti til að rétta hlut tekjulágra leigjenda uppfylli því þau skilyrði sem sett séu, þ.e. að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum.

Í athugasemdum Kópavogsbæjar er mótmælt tilvísun í dóm Hæstaréttar í máli nr. 728/2015. Niðurstaða Hæstaréttar byggi á því að Reykjavíkurborg hafi verið að mismuna hópi leigjenda sem bjuggu við hliðstæðar aðstæður. Leigjendur félagslegra leiguíbúða hjá Kópavogsbæ og leigjendur á almennum markaði búi við gjörólíkar aðstæður eins og rakið hafi verið í fyrri greinargerð Kópavogsbæjar. Leigjendur á almennum markaði greiði að meðaltali 80% hærri leigu en leigjendur félagslegs húsnæðis í Kópavogi. Mismunun, í skilningi 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sé afmarkað með vísan til þess að um sé að ræða ólíka meðferð sambærilegra mála, eða sömu meðferð ólíkra mála, sem ekki verði réttlætt með hlutlægum og málefnalegum ástæðum.

V.  Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um synjun Kópavogsbæjar á umsókn kæranda um sérstakan húsnæðisstuðning. Umsókn kæranda um sérstakan húsnæðisstuðning var synjað á þeirri forsendu að 1. gr. reglna Kópavogsbæjar um sérstakan húsnæðisstuðning væru ekki uppfyllt þar sem kærandi leigði ekki húsnæði á almennum markaði.

Í IV. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Þar segir í 12. gr. að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Aðstoð og þjónusta skal jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf, sbr. 2. mgr. 12. gr. Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 skulu sveitarfélög veita sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við nánari reglur sem sveitarstjórn setur.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. reglna Kópavogsbæjar um sérstakan húsnæðisstuðning er sérstakur húsnæðisstuðningur fjárstuðningur til greiðslu á húsaleigu umfram húsnæðisbætur sem veittar eru á grundvelli laga nr. 75/2016. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. er hann ætlaður þeim fjölskyldum og einstaklingum sem leigja á almennum markaði og íbúum áfangaheimilisins að Nýbýlavegi 30.

Með 2. mgr. 45. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga hefur sveitarfélögum verið eftirlátið mat á því hvort veita skuli einstaklingi sérstakan húsnæðisstuðning samkvæmt nánari reglum sem sveitarstjórn setur.

Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur Kópavogsbær afnumið hið skyldubundna mat með reglu 2. mgr. 1. gr. reglna sveitarfélagsins þannig að þeir umsækjenda sem leigja félagslegt húsnæði eiga ekki möguleika á að fá sérstakan húsnæðisstuðning. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Þar sem Kópavogsbær lagði ekki sérstakt mat á umsókn kæranda, verður að telja að aðstæður kæranda hafi ekki verið rannsakaðar með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, áður en ákvörðun var tekin um að synja umsókn hans.

Úrskurðarnefnd velferðarmála getur því ekki fallist á það sjónarmið sveitarfélagsins að því hafi verið heimilt að afnema matið á grundvelli þess að húsaleiga á almennum íbúðum væri að meðaltali hærri en á félagslegum íbúðum. Þó gæti umrætt sjónarmið sveitarfélagsins verið einn liður í því sem lagt yrði til grundvallar við heildstætt mat á aðstæðum kæranda.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar afgreiðslu sveitarfélagsins.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 29. nóvember 2018, um að synja umsókn A, um sérstakan húsnæðisstuðning á grundvelli 1. gr. reglna Kópavogsbæjar um sérstakan húsnæðisstuðning, er felld úr gildi. Lagt er fyrir sveitarfélagið að taka umsókn kæranda til meðferðar að nýju.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta