Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 44/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                                   

Miðvikudaginn 10. desember 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 44/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

Með kæru, dags. 12. ágúst 2014, hefur B, f.h. A, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Íbúðalánasjóðs, dags. 25. júní 2014, á umsókn hans um veðlánaflutning.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 17. mars 2014, sótti kærandi um flutning láns nr. X af fasteigninni C, fastanúmer Y, yfir á fasteignina D, fastanúmer Z. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 25. júní 2014, á þeirri forsendu að kærandi hafi brotið lánareglur sjóðsins. Með bréfi, dags. 20. ágúst 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og frekari gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 26. ágúst 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 8. september 2014, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar.

Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 14. október 2014, var óskað eftir nánari upplýsingum og gögnum frá Íbúðalánasjóði sem bárust með bréfi sjóðsins, dags. 24. október 2014. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. október 2014, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Með bréfi, dags. 4. nóvember 2014, fór kærandi fram á að fá afhent fylgiskjöl sem bárust með bréfi Íbúðalánasjóðs frá 24. október 2014. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. nóvember 2014, var beiðni kæranda synjað að hluta. Þá bárust athugasemdir frá kæranda með bréfi, dags. 9. desember 2014.

 

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru er vísað til þess að hin kærða ákvörðun sé byggð á röngum forsendum, á henni séu ágallar sem varði ógildingu og ekki sé upplýst um öll málsatvik. Í rökstuðningi Íbúðalánasjóðs sé vísað í lánareglur sem hafi ekki verið í gildi þegar kærandi hafi tekið lán hjá sjóðnum og ekki sé að finna á neinu skjali sem hann hafi undirritað. Lánaskilmálar Íbúðalánasjóðs frá 1. nóvember 2013 geti ekki skuldbundið kæranda sem hafi tekið lán hjá sjóðnum 17. nóvember 2011.

Rannsókn Íbúðalánasjóðs hafi verið ófullnægjandi en ekki hafi verið gætt að því að fá fram hið sanna í málinu áður en synjað hafi verið um veðlánaflutning. Það sé bæði ósannað og rangt að kærandi hafi aldrei nýtt íbúðina til búsetu en kæranda hafi ekki verið gefið tækifæri til að andmæla þeim upplýsingum. Kærandi hafni því með öllu að hann hafi fengið lánið á fölskum forsendum, veitt rangar upplýsingar til að fá lánið eða að forsendur fyrir lánveitingu hafi brostið.

    

III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í afstöðu Íbúðalánasjóðs vegna kærunnar kemur fram að kærandi hafi ekki keypt fasteignina að D heldur hafi Íbúðalánasjóður og Íslandsbanki innleyst hana í sameiningu þann 30. júní 2014. Því verði ekki séð að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.

Í viðbótarathugasemdum Íbúðalánasjóðs kemur fram að kærandi hafi aldrei verið búsettur í C en samkvæmt 21. gr. reglugerðar nr. 522/2004 um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf er skilyrði lántöku hjá sjóðnum að um sé að ræða kaup til eigin nota. Í lánsumsókn hafi kærandi lýst því yfir að íbúðin væri til eigin nota og því skuldbundið sig til að nýta íbúðina til eigin búsetu. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands hafi kærandi verið skráður til heimilis að E frá árinu 2007. Lán sjóðsins hafi því ekki verið varið til kaupa á íbúð til eigin nota eins og áskilið sé í 21. gr. reglugerðarinnar. Grundvöllur lánveitingar hafi því verið brostinn og skilyrði til að flytja veðið á aðra eign ekki uppfyllt.

 

IV. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um veðlánaflutning.

Í 4. mgr. 21. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, kemur fram að veðlánaflutningur milli fasteigna sé heimill. Í reglugerð skuli kveða nánar á um það hvenær slík heimild sé fyrir hendi og með hvaða skilyrðum. Samkvæmt 1. mgr. 32. gr. reglugerðar um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, nr. 522/2004, getur Íbúðalánasjóður heimilað veðlánaflutning ÍLS-veðbréfs við eigendaskipti að íbúð sem lántaki er að selja yfir á íbúð sem hann er að kaupa eða byggja. Skilyrði fyrir veðlánaflutningi er að veðstaða lánsins eftir veðlánaflutning uppfylli reglur sjóðsins um lánveitingar.

Kærandi sótti um flutning láns nr. X af fasteigninni C yfir á fasteignina E. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að hann hafi brotið lánareglur sjóðsins þar sem hann hafi aldrei verið búsettur í fasteigninni. Að mati úrskurðarnefndarinnar á slík synjun sér ekki stoð í framangreindu skilyrði 32. gr. reglugerðar nr. 522/2004. Þar er eingöngu vísað til þess að veðstaða lánsins þurfi að uppfylla reglur sjóðsins um lánveitingar. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Íbúðalánasjóði hafi ekki verið heimilt að synja kæranda um veðlánaflutning á þeirri forsendu að hann hafi brotið lánareglur sjóðsins.  Hin kærða ákvörðun verður því felld úr gildi og málinu vísað aftur til Íbúðalánasjóðs til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 25. júní 2014, um synjun á umsókn A um veðlánaflutning er felld úr gildi og málinu vísað heim til nýrrar meðferðar.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta