Mál nr. 246/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 246/2024
Föstudaginn 13. september 2024
A
gegn
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 28. maí 2024, kærði B lögmaður f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 29. febrúar 2024, um að synja beiðni hans um endurupptöku máls.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 1. mars 2021, sótti kærandi um húsnæðisbætur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vegna leigu á íbúðarhúsnæði að C. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 12. mars 2021, var kæranda tilkynnt að umsókn um húsnæðisbætur hefði verið samþykkt og að greiðslur til hans næmu 32.460 kr. á mánuði að teknu tilliti til tekna og eigna heimilismanna í leiguhúsnæðinu, en kærandi var einn skráður heimilismaður á umsókninni. Með umsókn, dags. 8. júní 2022, sótti kærandi um húsnæðisbætur vegna leigu á íbúðarhúsnæði að D. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 10. júní 2022, var kæranda tilkynnt að umsókn um húsnæðisbætur hefði verið samþykkt og að greiðslur til hans næmu 35.706 kr. á mánuði, að teknu tilliti til tekna og eigna heimilismanna í leiguhúsnæðinu en kærandi var áfram einn skráður heimilismaður. Með erindi, dags. 25. janúar 2024, óskaði kærandi eftir leiðréttingu á greiðslum húsnæðisbóta til hans frá 1. mars 2021 með vísan til þess að heimilismenn hefðu verið fjórir, þ.e. hann og þrjú börn hans. Með ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 29. febrúar 2024, var kæranda tilkynnt að beiðni hans um endurupptöku ákvörðunar stofnunarinnar frá 10. júní 2022 hefði verið hafnað. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 14. mars 2024.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. maí 2024. Með bréfi, dags. 4. júní 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst 25. júní 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. júlí 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda 5. júlí 2024 og voru þær kynntar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. júlí 2024. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru greinir frá því að kærð sé ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 29. febrúar 2024 um höfnun á endurupptöku ákvörðunar stofnunarinnar frá 10. júní 2022 er varði samþykkt á umsókn um húsnæðisbætur á grundvelli laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Þess sé jafnframt krafist að úrskurðarnefnd velferðarmála úrskurði Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til greiðslu hæfilegrar lögmannsþóknunar til kæranda.
Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sé svohljóðandi:
„Beiðni um endurreikning er hafnað þar sem skilyrði fyrir endurupptöku málsins eru ekki uppfyllt, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Meira en þrír mánuðir eru liðnir frá því að umsækjanda var tilkynnt um ákvörðunina. Þá telur húsnæðisbótanefnd HMS að ekki séu til staðar veigamiklar ástæður sem uppfylli skilyrði fyrir endurupptöku.“
Málsatvik séu með þeim hætti að kærandi sé fráskilinn einstæður faðir, með þrjár ungar dætur sínar á framfærsluskyldum aldri. Kærandi hafi sameiginlegt forræði með barnsmóður sinni.
Kærandi hafi tekið á leigu íbúðarhúsnæði, C, fyrir sig og dæturnar, frá 1. mars 2021. Af því tilefni hafi hann leitað til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar símleiðis, auk þess sem hann hafi leitað eftir upplýsingum á heimasíðu stofnunarinnar um hvort hann mætti ekki setja dætur sínar þrjár á umsókn sína um húsnæðisbætur. Í símtali við starfsmann stofnunarinnar árið 2021 hafi honum verið tjáð, aukinheldur sem það hafi komið fram á heimasíðu stofnunarinnar um reglur og undanþágur, að aðeins þau börn/heimilismenn sem hefðu lögheimili hjá honum gætu verið á umsókn. Í samræmi við þessar upplýsingar hafi kærandi skilað inn umsókn þar sem dætranna hafi ekki verið getið.
Í júní 2022 hafi kærandi flutt í D þar sem hann búi nú og hafi þá sent inn nýja umsókn og aftur haft samband þar sem börn hans séu meira eða minna hjá honum, eða 20 til 22 sólarhringa í mánuði. Kæranda hafi aftur verið tjáð að aðeins þau börn/heimilismenn sem hefðu fasta búsetu færu á samning.
Í september 2023 hafi ein dóttir kæranda loks verið skráð hjá honum þar sem hún búi hjá honum ásamt hinum dætrunum og aftur hafi verið haft samband við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Kæranda hafi þá verið tjáð að hann ætti rétt á húsnæðisbótum með fjórum heimilismönnum, ekki einum, og ætti rétt á að fá bætur samkvæmt reglum stofnunarinnar þar sem börn hans væru öll hjá honum meira en 30 daga á ári.
Með vísan til 26. gr. laga um húsnæðisbætur hafi kærandi þann 25. janúar 2024 óskað eftir endurútreikningi húsnæðisbóta og að bótagreiðslur til hans yrðu að fengnum þeim endurútreikningi leiðréttar aftur í tímann, frá og með 1. mars 2021.
Þann 14. febrúar 2024 hafi kærandi rætt við starfsmann Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í síma. Starfsmaðurinn hafi upplýst kæranda um að málið væri á lokametrunum og að hann hefði heyrt af máli hans. Starfsmaðurinn hafi tekið fram að það sem máli skipti væri umgengnissamningur, en sá samningur væri til og undirritaður í júní 2019, annað skipti ekki máli. Farið yrði strax í málið og það afgreitt „nema eitthvað sérstakt komi upp“.
Þann 29. febrúar 2024 hafi kæranda verið tilkynnt að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefði hafnað umkröfðum endurútreikningi og leiðréttingu. Þar sé vísað til þess að í erindi kæranda frá 25. janúar 2024 hafi verið óskað eftir endurpptöku á ákvörðun stofnunarinnar frá 10. júní 2022 er hafi varðað samþykkt á umsókn um húsnæðisbætur á grundvelli laga um húsnæðisbætur.
Fram komi í bréfinu að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telji að þær upplýsingar sem fram hafi komið í erindi kæranda hafi ekki leitt til þess að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væru uppfyllt, þar sem ekki væri um nýjar upplýsingar að ræða sem hafi sýnt fram á að ákvörðun stofnunarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, eða að íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Eftir að þrír mánuðir væru liðnir frá því að aðila hafi verið tilkynnt um ákvörðunina eða hafi mátt vera kunnugt um breytingu á atvikum er ákvörðun hafi verið byggð á, yrði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins.
Með tölvupósti þann 5. mars 2024 hafi verið óskað eftir rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun. Þann 14. mars 2024 hafi sá rökstuðningur borist. Í rökstuðningi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segi meðal annars að stofnunin hafi samþykkt umsókn kæranda um húsnæðisbætur í júní 2022 og hafi ákvörðunin verið tekin á grundvelli laga um húsnæðisbætur. Í umsókn hafi aðeins einn heimilismaður verið skráður en útreikningur húsnæðisbóta taki mið af fjölda heimilismanna. Aðrir heimilismenn hafi ekki verið tilgreindir í umsókn. Með bréfi, dags. 26. júní 2022, hafi stofnunin tilkynnt um nýja tekju- og eignaáætlun sem lögð hafi verið til grundvallar við útreikning húsnæðisbóta. Þar hafi athygli verið vakin á því að það væri á ábyrgð umsækjanda að upplýsa stofnunina um allar þær breytingar sem kynnu að hafa áhrif á rétt til húsnæðisbóta.
Í rökstuðningnum sé bent á að í 14. gr. laga um húsnæðisbætur sé fjallað um upplýsingaskyldu umsækjanda og annarra heimilismanna. Sú skylda sé lögð á þann sem fái greiddar bætur að upplýsa Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um allar breytingar sem verði á högum hans og/eða annarra heimilismanna eða öðrum þeim atriðum sem kunni að hafa áhrif á greiðslu húsnæðisbóta, sbr. 3. mgr. Þannig beri umsækjandi ábyrgð á að stofnuninni sé tilkynnt um þær breytingar sem kunni að verða á högum hans eða annarra heimilismanna eða eftir atvikum öðrum atriðum sem geti haft áhrif á rétt hans til húsnæðisbóta, þannig að unnt sé að endurmeta rétt viðkomandi til húsnæðisbóta. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun byggi meðal annars útreikninga sína á fjárhæð húsnæðisbóta á þeim upplýsingum sem umsækjandi og aðrir heimilismenn veiti stofnuninni.
Svo segi að með bréfi, dags. 30. maí 2023, hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun birt lokauppgjör vegna húsnæðisbóta vegna ársins 2022. Við endurútreikning hafi komið í ljós að kærandi hafi hvorki fengið ofgreiddar né vangreiddar húsnæðisbætur árið 2022. Engar athugasemdir hafi borist stofnuninni og því hafi fyrirliggjandi upplýsingar verið notaðar við endurútreikning húsnæðisbóta. Fjárhæð húsnæðisbóta fari eftir fjölda fólks á heimilinu, tekjum, eignum og leiguverði.
Í rökstuðningi komi fram að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi með bréfi, dags. 7. september 2023, tilkynnt um endurútreikning sem hafi byggst á breytingum á fjölda heimilismanna, nánar tiltekið þannig að þremur dætrum kæranda hafi verið bætt við sem heimilsmenn í umsókn.
„Fjárhæð húsnæðisbóta hækkaði miðað við fjölda heimilsmanna og hefur frá ágúst 2023 verið greitt miðað við fjóra heimilismenn. Endurútreikningur var gerður eftir að upplýsingar bárust um breytingar á högum annarra heimilismanna.“
Í rökstuðningi sé síðan vísað til þess að þann 25. janúar 2024 hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun borist beiðni um leiðréttingu á húsnæðisbótum þar sem krafist hafi verið leiðréttingar á bótum frá og með mars 2021, frá því að kærandi hafi tekið á leigu íbúðarhúsnæði við C og miðað við breytingu á fjölda heimilismanna.
Vísað sé í höfnunina sem fram komi í bréfinu frá 29. febrúar 2024 en samkvæmt því sem þar komi fram hafi skilyrði fyrir endurupptöku ekki verið uppfyllt. Síðan segi að samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga ætti aðili máls rétt á því að mál væri tekið til meðferðar á ný ef annað hvort ákvörðun stjórnvalds hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin.
Svo segi að eftir að þrír mánuðir séu liðnir frá því að aðila hafi verið tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. verði beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju sé ár liðið frá fyrrgreindum tímamörkum.
Að endingu sé það mat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að ákvörðun stofnunarinnar hafi hvorki byggst á ófullnægjandi gögnum né röngum upplýsingum um málsatvik og ekki séu til staðar veigamiklar ástæður sem uppfylli skilyrði um endurupptöku.
Kærandi staðnæmist fyrst við þá sérstöku fullyrðingu sem komi fram í lok rökstuðnings Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að upphafleg ákvörðun stofnunarinnar um fjárhæð húsnæðisbóta frá 1. mars 2021 hafi hvorki byggst á ófullnægjandi gögnum né röngum upplýsingum. Þessi fullyrðing sé í fullkominni mótsögn við þá staðreynd sem rakin sé annars staðar í rökstuðningi stofnunarinnar um að þegar réttar upplýsingar hafí komið um fjölda heimilismanna hafí húsnæðisbætur verið hækkaðar til samræmis við það frá ágúst 2023. Fyrir liggi að heimilismenn hjá kæranda hafi sannarlega verið fjórir þegar húsnæðisbætur hafi verið reiknaðar í mars 2021, enda hafi útreikningarnir miðað við að kærandi væri einn á heimili. Að mati kæranda minni þessi rökleiðsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á gamlar öfugmælavísur þar sem refhvörfum (e. oxymoron) sé beitt sem stílbrigði (heitur snjór, duglegur letingi og svo framvegis).
Annars sé aðalástæðan fyrir þeirri röngu niðurstöðu sem birtist í hinni kærðu ákvörðun sú staðreynd að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun rugli saman annars vegar ákvæðum 25. og 26. gr. laga um húsnæðisbætur um endurútreikning og gagnkvæman endurkröfurétt vegna ofgreiddra eða vangreiddra húsnæðisbóta og hins vegar hinum almennu reglum stjórnsýsluréttarins um endurupptöku stjórnvaldsákvarðana, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Fyrir liggi, meðal annars með dómi Hæstaréttar í máli nr. 38/2020, að sérlög gangi framar almennum lögum. Stjórnsýslulög séu lög sem gildi með almennum hætti um stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Lög um húsnæðisbætur séu sérlög um greiðslu ríkisins á húsnæðisbótum til leigjenda.
Lög um húsnæðisbætur kveði á um að árlega skuli endurreikna húsnæðisbætur til leigjenda. Hvort sem þeir reglulegu endurútreikningar húsnæðisbóta eða nýjar og óvæntar upplýsingar berist, sem ekki hafi legið til grundvallar útreikningi húsnæðisbóta, leiði til leiðréttingar á útgreiddum húsnæðisbótum, geti tvennt gerst í kjölfar slíks endurútreiknings. Annars vegar að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun eignist fyrir hönd ríkissjóðs endurkröfurétt á bótaþega vegna þess sem ofgreitt hefur verið og hins vegar að bótaþegi eigi kröfu á hendur stofnuninni fyrir hönd ríkissjóðs vegna þess sem upp á vanti og sé vangreitt. Ákvæði 25. gr. laganna sé svohljóðandi:
„Rétt til húsnæðisbóta má endurskoða hvenær sem er og endurreikna fjárhæð húsnæðisbóta þannig að húsnæðisbætur verði í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna.
Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur og eignir næstliðins almanaksárs skv. 17. og 18. gr. liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal framkvæmdaraðili endurreikna fjárhæðir húsnæðisbóta vegna þess almanaksárs á grundvelli þeirra upplýsinga.
Leiði endurreikningur skv. 1. og 2. mgr. til breytinga á fjárhæð húsnæðisbóta skal leiðrétta húsnæðisbætur skv. 26. gr.
Þá sé ákvæði 26. gr. laga nr. 75/2016 svohljóðandi:
„Hafi umsækjandi fengið hærri húsnæðisbætur en honum bar á umræddu tímabili ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var. Framkvæmdaraðili skal að jafnaði draga ofgreiddar húsnæðisbætur frá síðar tilkomnum húsnæðisbótum sama aðila á næstu tólf mánuðum eftir að endurreikningur skv. 25. gr. liggur fyrir. Framkvæmdaraðili á einnig endurkröfurétt á hendur umsækjanda eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum. Ekki er heimilt að draga frá húsnæðisbótum hærri fjárhæð en nemur 25% af húsnæðisbótagreiðslum í hverjum mánuði.
Verði ofgreiddar húsnæðisbætur ekki innheimtar skv. 1. mgr. fer um innheimtu þeirra skv. 3. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda. Ráðherra getur þó falið sérstökum innheimtuaðila að annast innheimtu. Heimilt er að skuldajafna ofgreiddum húsnæðisbótum á móti inneign umsækjanda vegna ofgreiddra skatta eða barnabóta samkvæmt lögum um tekjuskatt. Ráðherra er fer með tekjuöflun ríkisins skal setja í reglugerð nánari reglur um skuldajöfnun og forgangsröð.
Hafi umsækjandi ekki fengið húsnæðisbætur sem honum bar eða fengið lægri húsnæðisbætur en honum bar skal framkvæmdaraðili greiða umsækjanda þá fjárhæð sem vangreidd var ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu framkvæmdaraðila. Skulu vextirnir vera jafnháir vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu. Hafi húsnæðisbætur verið vangreiddar vegna skorts á upplýsingum frá umsækjanda falla vextir niður.
Ákvarðanir framkvæmdaraðila um endurkröfu ofgreiddra húsnæðisbóta skv. 1. mgr. eru aðfararhæfar án undangengins dóms. Hið sama á við um úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála um endurkröfu ofgreiddra húsnæðisbóta.
Ofgreiddar húsnæðisbætur sem endurgreiddar eru samkvæmt lögum þessum skulu renna í ríkissjóð.“
Um þann rétt bótaþega að geta krafið um ógreiddar eða vangreiddar húsnæðisbætur segi í greinargerð með 26. gr. laga um húsnæðisbætur:
„Hafi breytingar á högum umsækjanda og/eða annarra heimilismanna eða öðrum þeim atriðum sem áhrif geta haft á rétt hans til húsnæðisbóta eða fjárhæð þeirra leitt til þess að greiddar hafi verið of lágar húsnæðisbætur á tilteknu tímabili er gert ráð fyrir að framkvæmdaraðili greiði þá fjárhæð sem var vangreidd ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem hin vangreidda fjárhæð var í vörslum framkvæmdaraðila. Lagt er til að vextirnir verði jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir eru á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu og eru þeir jafnháir 2/3 hlutum almennra vaxta skv. 4. gr. sömu laga. Komist úrskurðarnefnd velferðarmála að þeirri niðurstöðu að umsækjandi sem áður hefur verið synjað um húsnæðisbætur hafi átt rétt til húsnæðisbóta eða að umsækjandi hafi átt rétt til hærri húsnæðisbóta en honum voru reiknaðar er enn fremur gert ráð fyrir að framkvæmdaraðili endurgreiði hina vangreiddu fjárhæð ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu fyrir tímabilið sem fjárhæðin var í vörslum framkvæmdaraðila. Ekki er gert ráð fyrir að vextir verði greiddir af fjárhæð vangreiddra húsnæðisbóta ef rekja má ástæðu þess að viðkomandi fékk lægri húsnæðisbætur en honum bar til skorts á upplýsingum af hans hálfu. Þykir eðlilegt að hann beri hallann af því að veita ófullnægjandi upplýsingar sem leiða til þess að ákvörðun um húsnæðisbætur sé haldin annmörkum.“
Nokkur atriði þurfi að hafa í huga í tengslum við 25. og 26. gr. laga um húsnæðisbætur.
Í fyrsta lagi sé Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skylt að verða við kröfu bótaþega um greiðslu vangreiddra bóta komi á daginn að húsnæðisbætur hafi með einhverjum hætti verið vanreiknaðar. Þetta sé ekkert valkvætt stjórnsýsluúrræði eins og ráða megi af hinni kærðu ákvörðun.
Í öðru lagi sé hvorki í 26. gr. laga um húsnæðisbætur né annars staðar í lögunum, greinargerð eða reglugerð kveðið á um nein tímamörk krafna, hvorki endurkrafna Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar né krafna bótaþega um greiðslu á því sem hafi verið vangreitt. Ákvæði stjórnsýslulaga um tímamörk endurupptöku stjórnvaldsákvarðana komi þessu ekki við. Ekki sé annað að sjá en að almennar reglur laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 eigi við hér. Af þessu tilefni sé vísað til nokkurra úrskurða úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem fyrir liggi að lengri tími en þrír mánuðir hafi liðið frá ákvörðun um greiðslu bóta þar til endurútreikningur hafi átt sér stað og krafa verið gerð um endurgreiðslu.
Í þriðja lagi sé í hinni kærðu ákvörðun margsinnis ítrekað að það sé á ábyrgð umsækjanda um húsnæðisbætur eða bótaþega að veita réttar upplýsingar. Þessi ranga upplýsingagjöf kæranda virðist hafa verið ráðandi atriði í hinni kærðu ákvörðun um að hafna kæranda um afturvirka leiðréttingu húsnæðisbóta. Til þess séu engar forsendur enda liggi fyrir í 3. mgr. 26. gr. laga um húsnæðisbætur að orsakist vangreiddar húsnæðisbætur af rangri eða ófullnægjandi upplýsingagjöf bótaþega eða umsækjanda leiði það ekki til missis réttar til endurgreiðslu, heldur til þess að réttur til vaxta á hinar vangreiddu húsnæðisbætur falli niður.
Í fjórða lagi sé ekki við kæranda að sakast að rangar upplýsingar hafi verið veittar um fjölda heimilismanna hjá kæranda. Í samtölum hans við upphaf umsóknar hafi honum verið gefnar rangar upplýsingar auk þess sem heimasíða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hafi á þeim tíma gefið villandi upplýsingar um skráningu heimilismanna. Það sé því ekki kæranda að kenna að upplýsingar hans hafi ekki verið alls kostar réttar. Kæranda beri því óskert krafa um greiðslu vaxta. Þess megi geta að upplýsingum um skráningu heimilismanna í umsókn um húsnæðisbætur hafi verið breytt eftir að mál þetta hafi komið upp til samræmis við það sem nú megi sjá.
Í fimmta lagi sé því hafnað að ekki séu veigamiklar ástæður fyrir því að fá þetta leiðrétt. Afturvirk leiðrétting breyti miklu fyrir kæranda enda sé hann öryrki með þrjú börn á framfærslu sem nú séu hjá honum 300 daga á ári þrátt fyrir að samkomulag segi til um annað og aðeins sé kveðið á um eitt lögheimili.
Til fróðleiks megi nefna að þann 24. maí 2024 hafi komið lokauppgjör til kæranda á heimasíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og honum gefinn tíu daga frestur til að koma með athugasemd. Þrátt fyrir öll samskipti og beiðnir sé lokauppgjör vegna 2023 rangt; eingöngu einn heimilismaður sé skráður fyrstu sjö mánuði ársins 2023 en ekki fjórir og þurfi kærandi að gera athugasemd við lokauppgjör þrátt fyrir að stofnuninni hafi verið fullkunnugt um að heimilismenn væru fjórir. Þar sem kærandi hafi nú þegar óskað eftir leiðréttingu á húsnæðisbótum fyrir árið 2023 nái þessi kæra til tímabilsins frá 1. mars 2021 til 31. desember 2022. Þegar þessi kæra verði tekin til skoðunar verði framangreindur tíu daga frestur liðinn.
Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er ítrekað það sem fram kemur í kæru.
Varðandi málsatvik sé áhersla lögð á að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vísi í greinargerð sinni til heimasíðu stofnunarinnar eins og hún sé nú eftir breytingu en ekki eins og hún hafi verið þegar kærandi hafi lagt inn umsókn og upplýsingar.
Ákvæði stjórnsýslulaga um endurupptöku stjórnvaldsákvarðana séu almenn ákvæði sem eigi við þegar ekki sé kveðið á um endurskoðun ákvarðana með sértækum hætti eins og í lögum um húsnæðisbætur. Það að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skuli í greinargerð sinni ekki minnast á þessi skýru lagarök sýni að mati kæranda að þar á bæ sé fátt um svör.
III. Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar
Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um húsnæðisbætur til stofnunarinnar þann 1. mars 2021 vegna leigu á íbúðarhúsnæði við C. Umsókn kæranda nr. 67082 hafi verið samþykkt þann 12. mars 2021 og hafi kærandi aðeins einn verið skráður heimilismaður á umsókninni. Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hafi fylgt upplýsingar um útreikning á húsnæðisbótum.
Samkvæmt 12. gr. reglugerðar um húsnæðisbætur nr. 1200/2016 haldi umsókn gildi sínu svo lengi sem skilyrði fyrir rétti til húsnæðisbóta séu uppfyllt en þó aldrei lengur en til loka leigusamnings. Leigusamningi vegna leigu á íbúðarhúsnæðinu við C hafi lokið 31. maí 2022 og hafi umsókn kæranda þá fallið úr gildi.
Við endurreikning húsnæðisbóta vegna ársins 2021, dags. 3. júní 2022, hafi komið í ljós að kærandi hafi hvorki fengið ofgreiddar né vangreiddar húsnæðisbætur á árinu 2021. Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda og því hafi fyrirliggjandi upplýsingar verið notaðar við endurreikninginn.
Kærandi hafi flust búferlum árið 2022 og sótt um húsnæðisbætur til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að nýju þann 8. júní 2022 vegna leigu á íbúðarhúsnæði við D. Umsókn kæranda nr. 83959 hafi verið samþykkt þann 10. júní 2022 og sem fyrr hafi aðeins einn heimilismaður verið skráður á umsókn. Kæranda hafi þann 26. júní 2022 verið send ný tekju- og eignaáætlun sem lögð hafi verið til grundvallar við útreikning húsnæðisbóta. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við þá áætlun og hafi honum verið greiddar húsnæðisbætur á grundvelli þessara tekju- og eignaforsendna og fjölda heimilismanna samkvæmt umsókninni. Í bréfinu hafi einnig verið vakin athygli á því að það væri á ábyrgð kæranda að upplýsa Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um allar þær breytingar sem yrðu á aðstæðum sem kynnu að hafa áhrif á rétt til húsnæðisbóta.
Við endurreikning húsnæðisbóta vegna ársins 2022, dags. 30. maí 2023, hafi komið í ljós að kærandi hafi hvorki fengið ofgreiddar né vangreiddar húsnæðisbætur á árinu 2022. Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda og því hafi fyrirliggjandi upplýsingar verið notaðar við endurreikninginn.
Þann 4. september 2023 hafi kærandi haft samband við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun símleiðis vegna breytingar á lögheimilisskráningu einnar dóttur sinnar. Í símtalinu hafi kæranda verið leiðbeint af starfsmanni stofnunarinnar um að honum væri heimilt að skrá dætur sínar þrjár sem heimilismenn á umsókn um húsnæðisbætur þrátt fyrir að þær væru ekki allar með skráð lögheimili hjá kæranda, enda dveldu þær hjá honum í að minnsta kosti 30 daga á ári, sbr. undanþáguheimild í 3. mgr. 10. gr. laga um húsnæðisbætur nr. 75/2016. Í kjölfar símtalsins hafi kærandi sent forsjársamning til stofnunarinnar til staðfestingar á samkomulagi, dags. 1. júlí 2019, um umgengni barnanna.
Með bréfi, dags. 7. september 2023, hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tilkynnt kæranda um endurreikning húsnæðisbóta á grundvelli upplýsinga um breytingu á fjölda heimilismanna. Fjölda heimilismanna hafi verið breytt þannig að þremur dætrum kæranda hafi verið bætt við sem heimilismönnum á umsókn hans. Þar sem fjöldi heimilismanna á umsókninni hafi tekið breytingum hafi fjárhæð húsnæðisbóta hækkað frá og með ágúst 2023.
Þann 25. janúar 2024 hafi stofnuninni borist skriflegt erindi frá kæranda. Kærandi hafi óskað eftir því að húsnæðisbætur yrðu leiðréttar afturvirkt frá 1. mars 2021 með tilliti til þess að honum hafi verið heimilt frá upphafi að skrá fjóra heimilismenn á umsókn sína um húsnæðisbætur. Kærandi hafi vísað til 26. gr. laga um húsnæðisbætur um leiðréttingu á húsnæðisbótum til grundvallar beiðni sinni.
Kærandi hafi haft samband símleiðis þann 14. febrúar 2024 vegna fyrirspurnar um stöðu á erindi sínu og rætt við starfsmann Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Í símtalinu hafi kæranda verið tilkynnt að tafir á úrlausn hafi stafað vegna veikindaleyfis þess starfsmanns sem hafi haft málið undir höndum. Starfsmaðurinn hafi einnig tekið fram í símtalinu að hann þekkti málið ekki til hlítar og gæti því ekki lofað því hver niðurstaða þess yrði.
Með bréfi þann 29. febrúar 2024 hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tilkynnt kæranda að beiðni um endurupptöku hefði verið hafnað á grundvelli þess að skilyrði fyrir endurupptöku málsins væru ekki uppfyllt, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Meira en þrír mánuðir væru liðnir frá því að kæranda hefði verið tilkynnt um ákvörðunina og að mati stofnunarinnar væru ekki til staðar veigamiklar ástæður sem uppfylltu skilyrði fyrir endurupptöku.
Þann 5. mars 2024 hafi kærandi óskað eftir frekari rökstuðningi fyrir fyrrnefndri ákvörðun, sbr. heimild í 21. gr. stjórnsýslulaga. Með bréfi þann 14. mars 2024 hafi kæranda verið sendur rökstuðningur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fyrir synjun um endurupptöku.
Þann 28. maí 2024 hafi ákvörðun stofnunarinnar um að hafna beiðni um endurupptöku ákvörðunar frá 10. júní 2022 er varði samþykkt á umsókn um húsnæðisbætur verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Með bréfi, dags. 24. maí 2024, hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tilkynnt kæranda um niðurstöðu endurreiknings húsnæðisbóta fyrir árið 2023. Endurreikningurinn sé í samræmi við álagningu skattyfirvalda og byggi á upplýsingum um tekjur og eignastöðu allra heimilismanna, 18 ára og eldri, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um húsnæðisbætur. Kærandi hafi þann 25. maí 2024 gert athugasemdir við niðurstöðu lokauppgjörsins og óskað efir leiðréttingu í samræmi við fjóra heimilismenn frá 1. janúar 2023. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi framkvæmt nýjan endurreikning, dags. 5. júní 2024 þar sem niðurstaðan hafi verið sú að kæranda hefðu verið vangreiddar bætur að fjárhæð 192.682 kr. að teknu tilliti til fjölda heimilismanna á því almanaksári sem endurreikningurinn hafi miðast við. Í samræmi við endurreikninginn hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun endurgreitt kæranda þann 10. júní 2024 þær húsnæðisbætur sem hafi vantað upp á vegna hlutaðeigandi árs.
Mál þetta varði ósk kæranda um endurreikning og leiðréttingu húsnæðisbóta vegna tímabilsins frá 1. mars 2021 til 31. desember 2022.
Í 6. gr. reglugerðar um húsnæðisbætur nr. 1200/2016 segi meðal annars að í umsókn skuli tilgreina nafn og kennitölu umsækjanda, nöfn og kennitölu annarra heimilismanna en umsækjanda og hvort einhverjir þeirra sem búi í íbúðarhúsnæðinu eigi lögheimili annars staðar og ef svo sé hvort undanþága frá skilyrðum um búsetu eigi við, sbr. 10. gr. laga um húsnæðisbætur.
Í 14. gr. laga um húsnæðisbætur segi að umsækjandi skuli veita Húsnæðis- og mannvirkjastofnun allar þær upplýsingar og gögn þeim til staðfestingar sem óskað sé eftir og nauðsynlegar séu til að staðreyna rétt hans til húsnæðisbóta. Aukinheldur skuli umsækjandi upplýsa um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans og/eða heimilismanna eða öðrum þeim atriðum sem kunni að hafa áhrif á rétt hans til húsnæðisbóta á þeim tíma sem hann fái greiddar húsnæðisbætur. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun byggi meðal annars útreikninga sína á fjárhæð húsnæðisbóta á þeim upplýsingum sem umsækjandi veiti stofnuninni.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sé í reglubundnu sambandi við húsnæðisbótaþega sem beri ábyrgð á að veita réttar upplýsingar um sínar aðstæður. Ársfjórðungslega sé húsnæðisbótaþegum send ný tekju- og eignaáætlun sem byggð sé á nýjustu upplýsingum og ef ekki berist athugasemdir sé áætlunin lögð til grundvallar við útreikning húsnæðisbóta á bótagreiðsluárinu.
Í VII. kafla laganna sé fjallað um endurreikning og leiðréttingu húsnæðisbóta. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi heimild til að endurreikna húsnæðisbætur innan almanaksársins þegar stofnunin telji ástæðu til og samræma fjárhæð húsnæðisbóta þeim breytingum sem hafi orðið á högum heimilismanna. Enn fremur sé kveðið á um að þegar endanlegar upplýsingar liggi fyrir um tekjur og eignir næstliðins almanaksárs við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum fari fram lokauppgjör á húsnæðisbótum fyrir hlutaðeigandi ár. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sé þá skylt að endurreikna fjárhæðir húsnæðisbóta á grundvelli þeirra upplýsinga. Leiði endurreikningur til breytinga á fjárhæð húsnæðisbóta leiðrétti stofnunin húsnæðisbætur og sé í lögunum mælt fyrir um hvernig slík leiðrétting á húsnæðisbótum skuli fara fram. Þannig sé gert ráð fyrir að hafi viðkomandi fengið greiddar hærri húsnæðisbætur á umræddu tímabili en honum hafi borið skuli hann endurgreiða hina ofgreiddu fjárhæð og á sama hátt að hafi viðkomandi fengið lægri húsnæðisbætur en honum hafi borið skuli stofnunin greiða honum vangreidda fjárhæð húsnæðisbóta.
Eins og áður segi hvíli á umsækjendum um húsnæðisbætur upplýsingaskylda gagnvart Húsnæðis- og mannvirkjastofnun meðal annars um allar breytingar sem verði á högum hans og/eða annarra heimilismanna eða öðrum þeim atriðum sem kunni að hafa áhrif á greiðslu húsnæðisbóta. Stofnunin byggi útreikninga húsnæðisbóta á upplýsingum sem umsækjendur veiti og einnig upplýsingum sem sóttar séu á grundvelli 15. gr. laganna.
Þegar kærandi hafi upphaflega sótt um húsnæðisbætur í mars 2021 hafi ekki verið tilgreindir aðrir heimilismenn en umsækjandi á umsókn. Á árunum 2021 og 2022 hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun engar upplýsingar eða gögn haft undir höndum um fjölda annarra heimilismanna en umsækjanda. Upplýsingar um forsjársamning vegna þriggja barna kæranda hafi fyrst legið fyrir hjá stofnuninni í byrjun september 2023 og í framhaldinu hafi fjöldi heimilismanna tekið breytingum á gildandi umsókn. Við breytinguna hafi verið miðað við að börnin dveldu hjá kæranda í að lágmarki 30 daga á ári, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga um húsnæðisbætur.
Að sögn kæranda hafi honum verið tjáð af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á þeim tíma sem hann hafi sótt um húsnæðisbætur að hann mætti ekki setja börn sín á umsóknina nema þau væru með lögheimili hjá honum. Ekkert hafi komið fram í gögnum málsins sem staðfesti orð kæranda. Hins vegar sé rétt að benda á að á heimasíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sé að finna ítarlegar upplýsingar um umsókn og skilyrði til greiðslu húsnæðisbóta. Þar komi meðal annars fram að aðrir heimilismenn þurfi ekki að vera orðnir 18 ára og að foreldri sem fái barn sitt til sín að lágmarki 30 daga á ári geti skráð barn sitt sem heimilismann jafnvel þótt barnið sé með lögheimili hjá hinu foreldrinu. Ljóst sé að upplýsingar um skráningu annarra heimilismanna hafi verið aðgengilegar á heimasíðu stofnunarinnar allt frá því að kærandi hafi sótt um og einnig komi upplýsingarnar skýrt fram í umsóknarferli húsnæðisbóta. Kæranda eins og öðrum umsækjendum um húsnæðisbætur gefist tækifæri til að kynna sér skilyrði til húsnæðisbóta og upplýsa um hagi sína eða breytingar á þeim, sbr. 14. gr. laga um húsnæðisbætur. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun geti ekki tekið undir með kæranda að heimasíða stofnunarinnar hafi gefið villandi upplýsingar um skráningu heimilismanna.
Eins og áður hafi komið fram varði mál þetta ósk kæranda um endurreikning og leiðréttingu húsnæðisbóta aftur í tímann fyrir tímabilið 1. mars 2021 til 31. desember 2022. Annars vegar vegna umsóknar nr. 67082 sem hafi fallið úr gildi 31. maí 2022 og hins vegar núgildandi umsóknar nr. 83959.
Þegar teknar séu ákvarðanir um réttindi og skyldur samkvæmt lögum um húsnæðisbætur gildi stjórnsýslulög. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi hafnað beiðni kæranda um endurupptöku á grundvelli þess að skilyrði fyrir endurupptöku málsins hafi ekki verið uppfyllt, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Um rökstuðning Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fyrir fyrrnefndri ákvörðun sé vísað í bréf stofnunarinnar til kæranda, dags. 14. mars 2024.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun geri þá kröfu að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest.
Varðandi kröfu kæranda um að úrskurðarnefnd úrskurði Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til greiðslu hæfilegrar lögmannsþóknunar til kæranda vilji stofnunin benda á að það sé meginregla íslensks réttar að borgararnir verði sjálfir að bera þann kostnað sem þeir hafi af erindum sínum til stjórnvalda og málarekstri fyrir þeim. Sérstaka lagaheimild þurfi til svo unnt sé að krefjast greiðslu slíks kostnaðar úr hendi stjórnvalda. Ekki sé að finna ákvæði í lögum nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála sem heimili nefndinni að ákvarða þátttöku í kostnaði vegna lögmannsaðstoðar og telji Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að hafna eigi kröfu kæranda um greiðslu lögmannsþóknunar.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 29. febrúar 2024, um að synja beiðni kæranda um leiðréttingu á greiðslum húsnæðisbóta til hans frá 1. mars 2021 með vísan til þess að heimilismenn hefðu verið fjórir frá þeim tíma en ekki einn eins og tilgreint var í umsókn.
Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:
- ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
- íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafaverulega frá því að ákvörðun var tekin.
Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því. Aðili máls kann einnig að eiga rétt á endurupptöku máls á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef efnislegur annmarki er á ákvörðun stjórnvalds.
Fyrir liggur að kærandi var einn skráður heimilismaður á umsókn sinni um húsnæðisbætur, dags. 1. mars 2021, vegna leigu á íbúðarhúsnæði við C. Þegar kærandi sótti um húsnæðisbætur að nýju þann 8. júní 2022 vegna leigu á íbúðarhúsnæði við D var hann sem fyrr einn skráður heimilismaður á umsókn. Kæranda var tilkynnt þann 7. september 2023 að fjárhæð húsnæðisbóta til hans hefði hækkað frá og með ágúst 2023 á grundvelli breytingar á fjölda heimilismanna. Umrædd breyting varð í kjölfar símtals kæranda við starfsmann Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þar sem kæranda var tjáð að honum væri heimilt að skrá dætur sínar þrjár á umsókn um húsnæðisbætur á grundvelli undanþáguheimildar í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Kærandi hefur vísað til þess að honum hafi árið 2021 verið veittar rangar upplýsingar um skráningu heimilismanna á umsókn um húsnæðisbætur, auk þess sem upplýsingar á heimasíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hafi verið villandi.
Í 8. gr. laga nr. 75/2016 kemur fram að húsnæðisbætur séu mánaðarlegar greiðslur sem greiðast til umsækjanda, sbr. þó 4. mgr. 21. gr., og skuli ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við grunnfjárhæðir sem miðast við fjölda heimilismanna, sbr. 3. tölul. 3. gr., að teknu tilliti til tekna, sbr. 17. gr., eigna, sbr. 18. gr., og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði, sbr. 19. gr. Samkvæmt ákvæði 3. mgr. 10. gr. laga nr. 75/2016 skal barn teljast búsett á lögheimili sínu sem og í íbúðarhúsnæði þess foreldris eða forsjáraðila sem það á ekki lögheimili hjá ef það dvelur hjá foreldrinu eða forsjáraðilanum í að lágmarki 30 daga á ári samkvæmt t.d. samningi um umgengni sem sýslumaður hefur staðfest, sbr. 6. mgr. 46. gr. barnalaga. Telst þá barnið sem heimilismaður hjá báðum foreldrum sínum eða forsjáraðilum til 18 ára aldurs. Í gögnum málsins liggur slíkur samningur fyrir og tók hann gildi 28. júní 2019. Er því óumdeilt að skilyrði 3. mgr. 10. gr. laga nr. 75/2016 var uppfyllt þegar kærandi lagði fyrst inn umsókn um húsnæðisbætur 1. mars 2021. Að því virtu liggur fyrir að báðar ákvarðanir Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 12. mars 2021 og 10. júní 2022, voru byggðar á röngum upplýsingum um málsatvik. Að mati úrskurðarnefndar er skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga því uppfyllt í máli kæranda. Kemur þá til skoðunar hvort veigamiklar ástæður mæli með endurupptöku, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem kærandi óskaði eftir endurupptöku þegar meira en ár var liðið frá því að honum var tilkynnt um framangreindar ákvarðanir. Að mati nefndarinnar á það við í máli kæranda, enda líkur leiddar að því að breyttur fjöldi heimilismanna á umsókn leiði til hærri húsnæðisbóta og þar með líklegt að báðum ákvörðunum yrði breytt ef þær yrðu enduruppteknar.
Með vísan til framangreinds er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um að synja beiðni kæranda um leiðréttingu á greiðslum húsnæðisbóta frá 1. mars 2021, felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.
Hvað varðar kröfu kæranda um að nefndin úrskurði Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til greiðslu hæfilegrar lögmannsþóknunar skal tekið fram að það er meginregla íslensk réttar að borgararnir verða sjálfir að bera þann kostnað sem þeir hafa af málarekstri fyrir stjórnvöldum, sbr. dóm Hæstaréttar frá 30. október 2008 í máli nr. 70/2008. Sérstök lagaheimild þarf að vera fyrir hendi svo að unnt sé að krefjast greiðslu slíks kostnaðar úr hendi stjórnvalda. Slík heimild er hvorki í lögum nr. 75/2016 um húsnæðisbætur né lögum nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Þegar af þeirri ástæðu að lagaheimild fyrir greiðslu lögmannskostnaðar skortir er kröfu kæranda hafnað.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 29. febrúar 2024, um að synja beiðni A, um endurupptöku máls, er felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar. Kröfu um greiðslu lögmannskostnaðar er hafnað.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir