Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 222/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 222/2021

Fimmtudaginn 24. júní 2021

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. apríl 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 17. mars 2021, um synjun á umsókn hans um flutning á milli almenns félagslegs leiguhúsnæðis.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 10. febrúar 2021, sótti kærandi um flutning á milli almenns félagslegs leiguhúsnæðis hjá Reykjavíkurborg. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 8. mars 2021, með þeim rökum að hann uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 23. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði um að hafa búið í þrjú ár í núverandi félagslegu leiguhúsnæði áður en sótt væri um milliflutning. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi 17. mars 2021 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 28. apríl 2021. Með bréfi, dags. 30. apríl 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst úrskurðarnefndinni 11. maí 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. maí 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann sé að óska eftir flutningi því að það sé ómögulegt fyrir hann að finna einhvern frið í íbúð sinni. Kæranda hafi aldrei liðið jafn illa og í núverandi íbúð. Mikið ónæði og hávaði sé frá nágrönnum á neðri hæðinni og hann hafi margoft hringt á lögregluna vegna þeirra. Svar Reykjavíkurborgar um að kærandi sé ekki búinn að búa í núverandi húsnæði í þrjú ár sé bara bull. Kæranda vanti ekki flutning vegna þess að hann vilji ekki búa í íbúð sinni heldur geti hann einfaldlega ekki búið þar. Kærandi sé farinn að flýja íbúð sína á kvöldin til þess að komast undan þessum látum. Kærandi biðlar til úrskurðarnefndar að gera eitthvað í máli hans sem fyrst.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Kærandi hafi fengið úthlutað félagslegu leiguhúsnæði þann 6. desember 2019. Kærandi hafi sótt um milliflutning vegna ónæðis frá nágrönnum en fengið neitun þar sem hann hafi ekki búið þar í þrjú ár, samkvæmt 2. mgr. 23. gr. reglna um félagslegt leiguhúsnæði, og ekki hafi verið talið sýnt fram á að húsfélagið hafi fullreynt að ræða við íbúa og eigendur íbúðar. Sú ákvörðun hafi verið kærð til áfrýjunarnefndar velferðarmála Reykjavíkurborgar. Með bréfi til kæranda þann 17. mars 2021 hafi ákvörðun þjónustumiðstöðvar um undanþágu frá skilyrði um þriggja ára búsetu í núverandi félagslegu leiguhúsnæði verið hafnað.

Um félagslegt leiguhúsnæði gildi reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði sem samþykktar hafi verið á fundi velferðarráðs þann 13. mars 2019 og á fundi borgarráðs þann 2. maí 2019. Í 2. mgr. 23. gr. reglnanna sé mælt fyrir um möguleika til að fá milliflutning þegar þrjú ár séu liðin frá síðustu úthlutun, séu veigamiklar ástæður svo sem alvarlegt heilsuleysi eða mikil vandkvæði bundin áframhaldandi búsetu.

Kærandi hafi fengið úthlutað félagslegu leiguhúsnæði þann 6. desember 2019 og hafi sótt um milliflutning. Skilyrði milliflutnings sé sem fyrr segi að fyrir liggi veigamiklar ástæður, svo sem alvarlegt heilsuleysi eða vandkvæði bundin búsetu. Svo virðist sem kærandi hafi orðið fyrir ónæði vegna nágranna. Umræddir nágrannar séu leigjendur og húsfélagið hafi málið til meðferðar. Ekki sé sýnt fram á að húsfélagið hafi fullreynt að ræða við íbúa og eigendur íbúðar þannig að fullyrða megi að málið muni ekki leysast. Þá liggi fyrir að kærandi hafi ekki búið í hinu leigða í þrjú ár eða lengur. Verði því að komast að þeirri niðurstöðu að málið sé enn til meðferðar og enn sé ekki ástæða til að óska eftir milliflutningi. Engin gögn önnur en fullyrðingar kæranda liggi fyrir um umfang málsins. Verði því ekki hægt að fallast á kröfu kæranda um milliflutning.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um flutning á milli almenns félagslegs leiguhúsnæðis. Umsókninni var synjað á þeirri forsendu að skilyrði 2. mgr. 23. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði um þriggja ára búsetu frá síðustu úthlutun væri ekki uppfyllt.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Þá skuli sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við húsnæðismál, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í XII. kafla laganna er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti. Þá segir meðal annars í 64. gr. laganna að úrskurðarnefnd velferðarmála fjalli um hvort samþykkt þjónusta sé í samræmi við reglur viðkomandi sveitarstjórnar.

Í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, sem tóku gildi 1. júní 2019, er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna kemur fram að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa.

Í 2. mgr. 23. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði kemur fram að heimilt er að óska eftir milliflutningi þegar þrjú ár eru liðin frá síðustu úthlutun. Umsækjendur um milliflutning geta sótt um undanþágu frá skilyrðinu um þriggja ára búsetu í núverandi félagslegu leiguhúsnæði séu veigamiklar ástæður fyrir flutningi, svo sem alvarlegt heilsuleysi eða mikil vandkvæði bundin við núverandi búsetu.

Kærandi fékk úthlutað félagslegu leiguhúsnæði 6. desember 2019 og sótti um milliflutning 10. febrúar 2021. Ljóst er að kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 2. mgr. 23. gr. framangreindra reglna um þriggja ára búsetu frá síðustu úthlutun. Kærandi hefur greint frá ónæði og áreiti frá tilteknum nágrönnum og vanlíðan sinni í núverandi íbúð. Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur komið fram að nágrannar kæranda séu leigjendur og málið sé enn til meðferðar hjá húsfélaginu.

Að mati úrskurðarnefndarinnar eru þær ástæður sem kærandi tilgreinir fyrir umsókn um milliflutning ekki veigamiklar í skilningi 2. mgr. 23. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um milliflutning.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 17. mars 2021, um að synja umsókn A, um flutning á milli almenns félagslega leiguhúsnæðis, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta