Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 115/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 115/2017

Fimmtudaginn 27. apríl 2017

AgegnVinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 10. mars 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Vinnumálastofnunar, dags. 10. febrúar 2017, á umsókn hennar um húsnæðisbætur.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um húsnæðisbætur hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 19. janúar 2017. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. febrúar 2017, var kæranda tilkynnt að eignir skertu húsnæðisbætur að fullu og því væri umsókn hennar hafnað.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 17. mars 2017. Með bréfi, dags. 20. mars 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 24. mars 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. mars 2017, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að umsókn hennar um húsnæðisbætur hafi verið synjað vegna hárrar eignastöðu. Kærandi tekur fram að hún sé í Búsetakerfinu og hafi ávallt fengið greiddar húsaleigubætur. Húsaleigubætur séu henni mikilvægar vegna lágra tekna en án þeirra nái hún ekki endum saman. Kærandi fer því fram á að mál hennar verði endurskoðað.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar er vísað til 18. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur en þar komi fram að grunnfjárhæðir samkvæmt 2. mgr. 16. gr., eftir atvikum að teknu tilliti til lækkunar vegna tekna samkvæmt 17. gr., lækki sem nemi hlutfalli af samanlögðum eignum allra heimilismanna, 18 ára og eldri, sem fari umfram 6.500.000 kr. uns þær falli alveg niður við 60% hærri fjárhæð. Vinnumálastofnun sé þannig skylt við útreikning á húsnæðisbótum að lækka grunnfjárhæð bóta þegar framangreindum eignamörkum sé náð.

Vinnumálastofnun tekur fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá Ríkisskattstjóra, sem kærandi hafi staðfest í umsókn sinni um húsnæðisbætur, séu hreinar eignir hennar 14.356.886 kr. Í athugasemdum við 18. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um húsnæðisbætur sé sérstaklega áréttað að húsnæðisbætur skuli falla niður að fullu þegar eignir allra heimilismanna, 18 ára og eldri, á ársgrundvelli nemi fjárhæð sem sé 60% hærri en þau eignamörk sem um ræði í 18. gr. laganna, eða við 10.400.000 kr. Með eignum sé í þessu samhengi átt við allar eignir samkvæmt 72. gr. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt að frádregnum skuldum samkvæmt 1. mgr. 75. gr. sömu laga, sbr. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 75/2016. Af gögnum málsins og þeim upplýsingum sem kærandi veitti í umsókn sinni um húsnæðisbætur liggi ljóst fyrir að eignastaða hennar sé umfram þau eignamörk sem tilgreind séu í 18. gr. laga nr. 75/2016. Vinnumálastofnun hafi því verið skylt að synja umsókn hennar um húsnæðisbætur.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um synjun Vinnumálastofnunar á umsókn kæranda um húsnæðisbætur. Ágreiningurinn takmarkast við frádrátt frá grunnfjárhæð húsnæðisbóta vegna eigna kæranda en kærandi gerir ekki aðrar athugasemdir við útreikning Vinnumálastofnunar.

Í 8. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að húsnæðisbætur séu mánaðarlegar greiðslur sem greiðast til umsækjanda, sbr. þó 4. mgr. 21. gr., og skulu ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við grunnfjárhæðir sem miðast við fjölda heimilismanna, sbr. 3. tölul. 3. gr., að teknu tilliti til tekna, sbr. 17. gr., eigna, sbr. 18. gr., og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði, sbr. 19. gr.

Í 18. gr. laga nr. 75/2016 segir að grunnfjárhæðir samkvæmt 2. mgr. 16. gr., eftir atvikum að teknu tilliti til lækkunar vegna tekna samkvæmt 17. gr., lækki sem nemi hlutfalli af samanlögðum eignum allra heimilismanna, 18 ára og eldri, sem fari umfram 6.500.000 kr. uns þær falli alveg niður við 60% hærri fjárhæð (eða 10.400.000 kr.) Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna skal miða við eignir í lok þess almanaksárs þegar greiðslur húsnæðisbóta stóðu yfir. Þó skuli fasteign eða búseturéttur samkvæmt lögum um húsnæðissamvinnufélög, sem orðið getur andlag réttar til vaxtabóta, ekki teljast til eigna samkvæmt 1. mgr. hafi fasteignin eða búseturétturinn ekki verið í eigu umsækjanda eða annarra heimilismanna meðan á greiðslum húsnæðisbóta stóð á almanaksárinu. Þá kemur fram í 3. mgr. 18. gr. að með eignum í lögunum sé átt við allar eignir samkvæmt 72. gr. laga um tekjuskatt að frádregnum skuldum samkvæmt 1. mgr. 75. gr. sömu laga, sbr. þó 2. málsl. 2. mgr. Í 2. mgr. 72. gr. laga um tekjuskatt segir að framtalsskyldar eignir séu allar fasteignir, lausafé og hvers konar önnur verðmæt eignarréttindi, með þeim takmörkunum sem um ræði í 74. gr., og skipti ekki máli hvort eignirnar gefi af sér arð eða ekki.

Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kæranda samkvæmt upplýsingum Ríkisskattstjóra 14.256.886 kr. og hefur sú fjárhæð ekki sætt andmælum. Skerðast því húsnæðisbætur hennar að fullu á grundvelli 18. gr. laga nr. 75/2016. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. febrúar 2017, um synjun á umsókn A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta