Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 101/2011

Miðvikudaginn 19. október 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 101/2011:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dagsettri 3. ágúst 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Íbúðalánasjóðs frá 6. júlí 2011 vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi kærði þá ákvörðun Íbúðalánasjóðs að taka ekki við umsókn hans um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði, áhvílandi á fasteigninni B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila. Í máli þessu liggur fyrir að kærandi leitaði sér upplýsinga hjá Íbúðalánasjóði í því skyni að sækja um niðurfærslu íbúðarlána hjá sjóðnum, eftir að umsóknarfrestur rann út, en umsóknarfrestur skv. 1. gr. laga nr. 29/2011, til breytinga á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, rann út þann 30. júní 2011.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dagsettu 5. ágúst 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dagsettu 22. ágúst 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dagsettu 24. ágúst 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Úrskurðarnefndinni bárust frekari athugasemdir frá kæranda þann 22. ágúst og 5. september 2011.

 

III. Sjónarmið kæranda

Í rökstuðningi með kæru sinni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dagsettri 3. ágúst 2011, segir kærandi að hann sé danskur að uppruna og hafi hvorki vitað af né þekkt til þeirra úrræða sem felast í 110% leiðinni. Þá segir kærandi að hann hafi flutt til C í atvinnuleit í janúar 2011, en þangað hafi honum borist upplýsingablað, dagsett 21. júní 2011, frá Íbúðalánasjóði þar sem honum hafi verið bent á möguleika til umsóknar um 110% leiðina, en við móttöku bréfsins hafi fresturinn þá verið runninn út. Þá segir kærandi að Íslandspóstur hafi séð um að framsenda allan póst til þeirra á C, en umrætt bréf hafi ekki borist honum fyrr en 3. júlí 2011, þó svo það sé dagsett 21. júní 2011. Kærandi gerir kröfu um að fá skýringu á því hvers vegna hann hafi ekki verið upplýstur um þetta úrræði á fyrri stigum málsins og fer einnig fram á að honum sé gert kleift að sækja um þetta úrræði.

Úrskurðarnefndinni barst bréf frá kæranda, dagsett 22. ágúst 2011. Þar segir kærandi að hann og maki hans séu lántakendur hjá Íbúðalánasjóði og líti því á sig sem viðskiptavini sjóðsins og geri kröfu um að þau séu upplýst um öll þau atriði sem áhrif geta haft á lán þeirra. Þá segir kærandi að hingað til hafi það aldrei brugðist, þar sem þeim hafi ætíð borist upplýsingar frá Íbúðalánasjóði um hver þau atriði sem áhrif hafi haft á lán þeirra hjá sjóðnum. Kærandi segist ekki hafa fengið upplýsingar í tæka tíð um möguleika á umsókn um 110% leiðina, en vísað hafi verið til upplýsinga í fjölmiðlum. Kærandi telur að Íbúðalánasjóður hafi því brugðist upplýsingaskyldu sinni gagnvart sér.

 

IV. Sjónarmið kærða

Íbúðalánasjóður áréttar að skv. 1. gr. laga nr. 29/2011 hafi Íbúðalánasjóði verið heimilt að taka við umsóknum til og með 30. júní 2011. Vakin hafi verið sérstök athygli á þessum tímamörkum í fjölmiðlum svo og þeim send bréf sem kynnu að nýta sér niðurfærsluna. Sjóðurinn telur sig ekki geta borið ábyrgð á því hvort póstur berist viðkomandi eða hvort viðkomandi hafi haft tök á því að kynna sér lagaákvæðið. Íbúðalánasjóður áréttar að í samræmi við ákvæðið hafi sjóðurinn því ekki tekið við umsóknum eftir tilgreint tímamark.

 

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Í máli þessu liggur fyrir að Íbúðalánasjóður neitaði að taka við umsókn kæranda um endurútreikning lána hjá sjóðnum samkvæmt 110% leiðinni, eftir að lögbundinn frestur til þess rann út skv. 1. gr. laga nr. 29/2011, um breytingu á lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál. Kærandi telur Íbúðalánasjóð hafa brugðist upplýsingaskyldu sinni gagnvart sér, þar sem hann hafi á umræddu tímabili verið búsettur erlendis og hafi því ekki borist upplýsingar um þau úrræði sem í 110% leiðinni felast í tæka tíð.

Í 1. gr. laga nr. 29/2011, um breytingu á lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál, kemur fram að Íbúðalánasjóði var heimilt að taka við umsóknum á grundvelli ákvæðisins til og með 30. júní 2011, sbr. einnig lið 4.2 í 4. gr. í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um aðlögun fasteignalána í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011. Samkvæmt skýru orðalagi 1. gr. laga nr. 29/2011 er Íbúðalánasjóði því ekki heimilt að taka við umsóknum eftir að frestur til þess rann út, þann 1. júlí 2011. Í fyrrgreindum lögum er ekki að finna ákvæði um að Íbúðalánasjóði sé skylt að tilkynna lántakendum um möguleika þeirra til úrræðisins, heldur kemur einungis fram í ákvæðinu að umsóknir skuli berast sjóðnum. Þrátt fyrir það var úrræðið kynnt í fjölmiðlum auk þess sem bréf voru send til lántakenda Íbúðalánasjóðs.

Það er álit úrskurðarnefndarinnar að Íbúðalánasjóði beri að gæta jafnræðis við afgreiðslur þeirra umsókna sem honum berast á grundvelli laga nr. 29/2011. Þá ber Íbúðalánasjóði að fylgja fyrrgreindum reglum. Þar er ekki að finna undanþágur sem heimilað gætu viðtöku umsókna um 110% leiðina eftir 1. júlí 2011.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum í 1. gr. laga nr. 29/2011 og 4. gr. í lið 4.2 í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, varðandi synjun um viðtöku á umsókn um endurútreikning á lánum A, áhvílandi á íbúðinni að B, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta