Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 56/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                      

Miðvikudaginn 28. janúar 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 56/2014:

  

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með bréfi, dags. 3. október 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 20. ágúst 2014, á umsókn hans um námsstyrk á haustönn 2014.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 20. maí 2014, sótti kærandi um námsstyrk hjá Reykjavíkurborg vegna haustannar 2014. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 26. júní 2014, á þeirri forsendu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 18. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 20. ágúst 2014 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð samþykkti að veita umsækjanda námsaðstoð til framfærslu tímabilið 1. september 2014 til 31. desember 2014 ásamt innritunar- og bókakostnaði samtals kr. 45.000.- skv. d-lið 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Samþykkt er að veita námsaðstoð fyrir ofangreint tímabil vegna lokaannar húsasmíðanáms enda er umrætt húsasmíðanám lánshæft við upphaf nýs skólaárs.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 20. ágúst 2014. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 6. október 2014. Með bréfi, dags. 8. október 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 22. október 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 27. október 2014, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 6. nóvember 2014.

Með bréfi til Reykjavíkurborgar, dags. 21. nóvember 2014, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um hvort kærandi hefði stundað nám á haustönn 2014 og hvort aðrir einstaklingar í sambærilegri stöðu og kærandi hefðu hlotið styrk á grundvelli 18. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Þann 4. desember 2014 bárust viðbótarathugasemdir frá kæranda og voru þær sendar Reykjavíkurborg með bréfi, dags. sama dag. Umbeðnar upplýsingar bárust með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 19. desember 2014, og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi, dags. sama dag. Þá bárust frekari athugasemdir frá kæranda með bréfi, dags. 5. janúar 2015.  


II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi verið án áfengis og fíkniefna í rúmlega tvö ár og hafi á því tímabili fengið áhuga á að mennta sig og gera meira úr lífi sínu. Hann hafi byrjað í húsasmíðanámi en komist að því að hann ætti mun auðveldara með bóknám en hann hafi haldið. Því vilji hann ljúka stúdentsprófi en hann geti fengið þær einingar sem hann hafi nú þegar lokið metnar upp í stúdentsprófið. Þá greinir kærandi frá því að hann viti til þess að Reykjavíkurborg hafi gert fjölmargar undanþágur á þeim skilyrðum sem séu fyrir skólastyrk en fjölmargt samferðafólk hans í endurhæfingarúrræðinu Grettistaki, bæði eldra og yngra en hann, stundi nám og hafi fengið styrk til þess.

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda og að hann hafi verið í tengslum við þjónustumiðstöð um langt skeið. Kærandi hafi fengið fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg þar til hann hafi byrjað í Grettistaki haustið 2012 og farið á endurhæfingarlífeyri. Kærandi hafi lokið Grettistaki í maí 2014 en samþykkt hafi verið að veita kæranda framfærslu í apríl 2014 og námsaðstoð í maí og júní 2014 þar sem kærandi hafði fullnýtt rétt sinn til endurhæfingarlífeyris. Kærandi hafi stundað nám á húsasmíðabraut og hefði að öllum líkindum átt eina önn eftir þar til námið yrði lánshæft. Kærandi hafi ákveðið að skipta um námsbraut sem hafi leitt til þess að mun lengra væri þar til hann ætti rétt á námslánum.

Ljóst sé að aðstæður kæranda falli ekki að skilyrðum 18. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð en ákvæðið sé heimildarákvæði og í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sé ekki að finna ákvæði sem skyldi sveitarfélög til að styrkja einstaklinga sem leggi stund á nám um námsstyrk. Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði d-liðar 18. gr. reglnanna hafi velferðarráð samþykkt að veita honum undanþágu til að ljúka húsasmíðanáminu. Ekki hafi þótt forsendur til þess að samþykkja undanþágu fyrir kæranda til að hefja nýtt nám.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá 1. janúar 2011, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um námsstyrk á haustönn 2014.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Umsókn kæranda um námsstyrk á haustönn 2014 var synjað á þeirri forsendu að skilyrði 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi ekki verið uppfyllt. Í 1. mgr. 18. gr. framangreindra reglna kemur fram að heimilt sé að veita námsstyrki, ásamt almennum skólagjöldum, innritunarkostnaði og bókakostnaði, í eftirfarandi tilvikum:

 

  1. til einstaklinga á aldrinum 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og hafa átt við mikla félagslega erfiðleika að stríða.

  2. til einstæðra foreldra á aldrinum 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og haft hafa atvinnutekjur sem eru lægri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglna þessara, undanfarna tólf mánuði.

    Skilyrði er að umsækjandi hafi átt í félagslegum erfiðleikum.

  3. til einstaklinga á aldrinum 18-24 ára sem ekki hafa lokið framhaldsskóla og eiga eftir ólokið að hámarki tvær annir. Um sé að ræða einstakling sem ekki hefur tök á að vinna með skóla og fyrir liggur mat á því að ef ekki komi til aðstoðar sé ljóst að viðkomandi flosni upp úr námi.

  4. til einstaklinga sem hafa verið atvinnulausir án bótaréttar eða þegið fjárhagsaðstoð í sex mánuði eða lengur og hafa ekki lokið grunnnámi sem gefur rétt á námsláni.

  5. Heimilt er að veita tekjulágum foreldrum fjárstyrk vegna náms 16 og 17 ára barna þeirra. Hér er átt við tekjulága foreldra sem átt hafa í langvarandi félagslegum erfiðleikum. Skal styrkurinn miða að því að greiða áætlaðan bókakostnað og skólagjöld. Leitast ber við að kanna aðstæður beggja foreldra þegar mat er lagt á umsókn um aðstoð vegna barna.

Þá kemur fram í 2. mgr. 18. gr. reglnanna að leggja þurfi inn umsókn tveimur mánuðum áður en nám hefst nema hvað varðar c-liðinn.

Samkvæmt gögnum málsins var synjun þjónustumiðstöðvar snúið við hjá velferðarráði sem samþykkti að veita kæranda námsstyrk vegna lokaannar húsasmíðanáms. Kærandi er ósáttur við að námsstyrkurinn hafi verið skilyrtur við húsasmíðanámið þar sem hann hugðist skipta um námsbraut. Kærandi telur að Reykjavíkurborg hafi ekki heimild til að skilyrða fjárhagsaðstoð líkt og gert hafi verið og að aldurstengd skilyrði 18. gr. reglnanna brjóti gegn mannréttindastefnu borgarinnar auk skráðum og óskráðum jafnræðisreglum stjórnsýsluréttar, stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Tekið skal fram að það er ekki á valdsviði úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála að kveða á um stjórnskipulegt gildi reglna sveitarfélaga, þ.e. hvort reglurnar samræmist lögum, heldur einskorðast endurskoðun úrskurðarnefndarinnar við að skera úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar.

Í a–c-liðum 18. gr. reglnanna er meðal annars gert að skilyrði að umsækjandi sé á aldrinum 18–24 ára. Kærandi var 31 árs þegar hann sótti um framangreindan styrk og því koma ákvæði a–c-liða 18. gr. reglnanna ekki til skoðunar. Þá á e-liður 18. gr. ekki við um kæranda. Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi hvorki verið atvinnulaus án bótaréttar né notið fjárhagsaðstoðar sér til framfærslu í sex mánuði eða lengur þegar umsókn hans barst Reykjavíkurborg líkt og gert er að skilyrði í d-lið 18. gr. Úrskurðarnefndin telur því að d-liður 18. gr. reglnanna hafi ekki átt við í máli kæranda.

Að framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að skilyrðum 18. gr. reglnanna hafi ekki verið fullnægt í málinu og átti kærandi því ekki rétt á námsstyrk á haustönn 2014. Engu að síður var kæranda veitt undanþága frá skilyrði d-liðar 18. gr. til að ljúka húsasmíðanáminu. Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 20. ágúst 2014, um synjun á umsókn A um námsstyrk á haustönn 2014 er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta