Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 26/2013.

 

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                              

 

Miðvikudaginn 15. janúar 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 26/2013:

 

 

Kæra A og B

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

 

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A og B, hér eftir nefnd kærendur, hafa með kæru, dags. 28. júní 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, frá 25. júní 2013, um synjun á beiðni um greiðsluerfiðleikaaðstoð.

 

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

 

Kærendur sóttu um greiðsluerfiðleikaaðstoð hjá Íbúðalánasjóði vegna atvinnuleysis. Umsókn kærenda var synjað á þeim grundvelli að miðað við forsendur greiðsluerfiðleikamats sem unnið var hjá banka var greiðslugeta ekki nægjanleg hvorki meðan úrræðum er beitt né að úrræðum loknum.

 

 

II. Málsmeðferð

 

Með bréfi, dags. 1. júlí 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og öllum gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 17. júlí 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 19. júlí 2013, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kærendum til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kærendum. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 3. september 2013, var kærendum tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

 

 

III. Sjónarmið kærenda

 

Kærendur óska þess að fá lán sitt fryst. Þau hafi barist við meirihluta eigenda í húsinu frá 2007 við að fá framkvæmdar viðgerðir vegna raka. Kærendur kveðast ekki búa þar lengur vegna veikinda sem stafað hafi af myglusveppi. Þau þurfi frystingu til að greiða húsaleigu. Annar kærenda hafi starfað sem dagforeldri en hafi misst starfið af þessum orsökum. Kærendur bíði nú dómsúrskurðar dómkvadds matsmanns. Þá kveðast þau enn fremur vera á götunni.

 

 

IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

 

Í athugasemdum Íbúðalánasjóðs vegna kærunnar kemur fram að í málinu liggi fyrir greiðsluerfiðleikamat Arion banka um úrlausn á greiðsluvanda kæranda skv. 5. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001. Samkvæmt greiðsluerfiðleikamatinu rúmist greiðslubyrði ekki innan greiðslugetu eins og áskilið sé í 4. gr. reglugerðarinnar. Íbúðalánasjóður hafi því synjað erindinu og bent kærendum á að leita ráðgjafar umboðsmanns skuldara.

 

 

V. Niðurstaða

 

Málskot kærenda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Í málinu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi borið að samþykkja umsókn kærenda um greiðsluerfiðleikaaðstoð.

 

Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga um húsnæðismál er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að fresta greiðslum hjá einstökum lánþegum vegna almennra lána, viðbótarlána og lána sem sjóðurinn hefur yfirtekið í allt að þrjú ár og leggja þær greiðslur við höfuðstól skuldarinnar, þyki slík aðstoð líkleg til að koma í veg fyrir greiðsluvanda. Er þar gert að skilyrði að greiðsluvandi stafi af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu eða atvinnuleysis eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Samkvæmt 8. mgr. 48. gr. laganna setur ráðherra nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins að fengnum tillögum stjórnar Íbúðalánasjóðs.

 

Í 4. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001, er að finna skilyrði fyrir greiðsluerfiðleikaaðstoð. Þar segir í 1. tölul. 4. gr. að heimilt sé að veita greiðsluerfiðleikaaðstoð stafi greiðsluerfiðleikar af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu, atvinnuleysi eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Þá segir í 4. tölul. 1. mgr. að skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar sé að greiðslubyrði umsækjanda eftir skuldbreytingu og/eða frestun á greiðslum og/eða lengingu lánstíma rúmist innan greiðslugetu. Um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir úrræðinu sem sótt er um. Samkvæmt greiðsluerfiðleikamati sem unnið var af Arion banka og liggur fyrir í málinu, yrði staða kærenda eftir lok greiðsluerfiðleikaaðstoðar neikvæð og greiðslubyrði þeirra myndi því ekki rúmast innan greiðslugetu.

 

Í greiðsluerfiðleikamati Arion banka frá 12. júní 2013 kemur fram að mánaðarleg útgjöld kærenda hafi verið 366.693 kr. Fjárhagsleg staða kærenda við gerð matsins var þannig að mánaðarlegar tekjur þeirra námu 391.479 kr., mánaðarleg útgjöld 366.693 kr. og greiðslugeta því 24.786 kr. Mánaðarleg greiðslubyrði kærenda næmi 114.591 kr. og fjárþörf kærenda var því 89.805 kr. umfram raunverulega greiðslugetu. Í greiðslumatinu var enn fremur farið yfir áætlaða stöðu kærenda á meðan úrræðunum yrði beitt og var miðað við að mánaðarlegar tekjur þeirra væru 391.479 kr., greiðslugeta 24.786 kr. og afgangur því 24.786 kr. Við lok úrræða var gert ráð fyrir að mánaðarlegar tekjur kærenda yrðu 391.479 kr. Að frádregnum mánaðarlegum útgjöldum yrði greiðslugeta kærenda því 24.786 kr. en mánaðarleg greiðslubyrði kærenda eftir lok úrræða 122.029 kr. Staða kærenda yrði því neikvæð um 97.243 kr. og því myndi greiðslubyrði kærenda eftir frestun á greiðslum ekki rúmast innan greiðslugetu. Þar sem greiðslubyrði kærenda eftir lok úrræða hefði ekki rúmast innan greiðslugetu þeirra, sbr. 4. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001, áttu kærendur því ekki rétt á greiðsluerfiðleikaaðstoð. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 25. júní 2013, um synjun á umsókn A og B, um beiðni um greiðsluerfiðleikaaðstoð, er staðfest.

 

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta