Mál nr. 83/2011- endurupptaka
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík
Miðvikudaginn 15. janúar 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 83/2011:
Beiðni A og B
um endurupptöku máls
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A og B, hér eftir nefnd kærendur, hafa með erindi, dags. 15. júlí 2013, óskað endurupptöku máls nr. 83/2011 er varðaði kæru á ákvörðun Íbúðalánasjóðs vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum vegna fasteignar að C. Úrskurður í málinu var kveðinn upp á fundi nefndarinnar þann 14. september 2011 þar sem hin kærða ákvörðun var staðfest. Vegna breyttrar framkvæmdar úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun verðmats er Íbúðalánasjóður byggði á við niðurfærslu veðlána voru kærendur með bréfi, dags. 28. júní 2013, sérstaklega upplýst um heimild þeirra til að óska endurupptöku málsins og endurskoðunar verðmats.
I. Helstu málsatvik og kæruefni
Kærendur kærðu synjun um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni C, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.
Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 31. maí 2011, var skráð fasteignamat á íbúð kærenda að C 21.650.000 kr. Verðmat fasteignar kærenda var 25.800.000 kr samkvæmt mati sem framkvæmt var þann 31. mars 2011 af löggiltum fasteignasala frá fasteignasölunni Fasteignasölu Íslands. Staða áhvílandi lána var 28.401.405 kr. Í endurútreikningnum kemur fram að kærendur eru eigendur bifreiðarinnar C sem metin er á 540.000 kr.
Við endurupptöku máls þessa hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála voru tveir löggiltir fasteignasalar kallaðir til ráðgjafar og aðstoðar sem skoðuðu fasteign kærenda og endurskoðuðu verðmat það er Íbúðalánasjóður aflaði, dags. 1. apríl 2011, þar sem fasteignin var metin á 25.800.000 kr., og lagt var til grundvallar ákvörðun sjóðsins í máli kærenda. Niðurstaða endurskoðunarinnar leiddi í ljós að verðmatið gæfi ekki rétta mynd af verðmæti fasteignarinnar eins og það var á þeim tíma er umrætt verðmat fór fram. Samkvæmt hinu endurskoðaða verðmati, dags. 11. desember 2013, er fasteignin metin á 19.500.000 kr.
II. Málsmeðferð
Með bréfi, dags. 29. júní 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 13. júlí 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 27. júlí 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kærendum til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kærendum.
Með bréfi, dags. 28. júní 2013, voru kærendur upplýst um heimild þeirra til að óska endurupptöku málsins og endurskoðunar verðmats. Kærendur óskuðu endurupptöku málsins með erindi, dags. 15. júlí 2013. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. desember 2013, var hið endurskoðaða verðmat sent kærendum til kynningar.
III. Sjónarmið kærenda
Kærendur kæra niðurstöðu útreikninga Íbúðalánasjóðs vegna leiðréttingar lána í 110% leiðinni vegna lána sem þau tóku vegna íbúðarkaupa árið 2007. Kærendur segjast hafa fjárfest sparnaði sínum, u.þ.b. sjö milljónum króna í áðurnefnd íbúðarkaup, en lán frá Íbúðalánasjóði hafi verið byggt á skráðu fasteignamati íbúðar. Einnig hafi þau fjármagnað íbúðarkaup sín með hattaláni hjá viðskiptabanka sínum á þeim tíma, Byr sparisjóði. Þá segja kærendur að lán þeirra hafi hækkað í takt við verðtrygginguna og þau hafi beðið eftir lausn á sínum málum. Segjast kærendur hafa greitt af áhvílandi lánum og standi í skilum með þau lán, en annað hafi þurft að sitja á hakanum. Þá segja kærendur að fjórum mánuðum eftir umsókn þeirra um 110% leiðréttinguna séu þau enn í skilum með áhvílandi íbúðalán, en þau hafi fengið synjun byggða á verðmati fasteignasala, en umrætt verðmat sé 25% hærra en skráð fasteignamat íbúðar. Þá segja kærendur að aðeins ein fyrirvinna sé á heimili þeirra, þau hafi varið öllum sínum sparnaði í íbúðarkaupin, en lánin tvö sem þau hafi tekið fyrir 80% af skráðu fasteignamati íbúðar á þeim tímapunkti hafi hækkað um u.þ.b. 8 milljónir og því telji þau að þau hafi í raun orðið af 15 milljónum króna.
Kærendur segjast því standa frammi fyrir tveimur valkostum, þau hafi tapað öllu að því er virðist og því sé annar valkosturinn að verða gjaldþrota og búa endurgjaldslaust í íbúðinni þar til þeim verði hent út. Hinn valkosturinn sé að kæra úrskurð Íbúðalánasjóðs sem kærendur telji vera geðþóttaákvörðun um matsverð fasteignarinnar, bíða í þrjá mánuði og fá mögulega neitun aftur. Kærendur segjast hafa gert óformlega könnun á matsverði fasteignasalans á íbúðinni og þau hafi fengið mat sem verið 3% hærra en skráð fasteignamat íbúðar og annað mat sem var 5% hærra en skráð fasteignamat. Kærendur segjast einnig hafa leitað til fasteignasölunnar sem hafi séð um verðmat íbúðar þeirra fyrir Íbúðalánasjóð og fengið þau svör að verðmæti fasteignamarkaðarins væri haldið uppi af fjárfestum, Íbúðalánasjóði og viðskiptabönkunum þar sem þessir aðilar ættu eða væru að eignast meirihluta fasteignamarkaðarins. Þá segja kærendur að þau hafi einnig fengið þau svör hjá fasteignasölunni að „það þýðir ekki að íbúðin seljist, hvað þá á þessu matsverði“.
Þá segja kærendur að þau vilji standa við sitt og þau geri sér grein fyrir því að ekki sé hægt að fella niður skuldir og færa allt til fortíðar en þau krefjist sanngirni í meðferð mála sinna, ábyrgðin geti ekki eingöngu verið þeirra. Kærendur segja að þau myndu sætta sig við að tapa þeim sjö milljónum sem þau hafi fjárfest í íbúð sinni, ef lánið myndi lækka sem því nemur, en niðurstaðan af því yrði u.þ.b. 110% af skráðu fasteignamati, en ekki verðmati fasteignasala sem varla hafi skoðað íbúð þeirra. Með því móti myndu mánaðarlegar greiðslur kærenda lækka og verða viðráðanlegar og þau gætu haldið áfram að standa í skilum.
Kærendur spyrja hvort verið sé að refsa þeim fyrir að skulda ekki nóg, ef þau hefðu tekið alla fjárhæðina að láni er þau keyptu íbúð sína, eins og hafi staðið þeim til boða árið 2007, þá væru þau líklega betur stödd, lánið væri niðurgreitt og þau ættu enn innstæðu í banka. Því spyrja kærendur hvort verið sé að refsa þeim fyrir að velja „öruggan“ valkost, sem var eini ríkisrekni bankinn á þeim tíma, Íbúðalánasjóður, í stað þess að fá alla fjárhæðina lánaða hjá viðskiptabanka. Kærendur benda á að Íbúðalánasjóður hafi keypt lán þeirra af Byr sparisjóði og fært yfir í sitt eignasafn. Telja kærendur að lán þeirra hafi verið keypt með afskriftum, en þau fái ekki að njóta góðs af því. Þá spyrja kærendur hvernig þau geti farið að því að komast í hinn bankann „sinn“, Landsbankann, til þess að fá lausn sinna mála og niðurgreiðslu miðað við fasteignamat en ekki geðþóttaákvarðanir fasteignasala.
Kærendur benda einnig á að þörf sé á miklum endurbótum á fasteign þeirri sem íbúð þeirra sé í og sé um að ræða framkvæmdir bæði inni í fasteign sem og viðhaldi á utanhúss.
Kærendur benda á að þar að auki hafi tólf ára gömul bifreið í eigu þeirra verið metin til frádráttar mögulegri niðurfærslu. Samkvæmt mati ríkisskattstjóra um áramótin 2010 sé verðmæti bifreiðarinnar 560.000 kr., en kærendur gera athugasemd við að miðað skuli við mat ríkisskattstjóra en ekki söluverð, eins og viðmiðið sé um fasteign þeirra. Kærendur telja mat ríkisskattstjóra vera 200.000 kr. hærra en söluverð bílsins. Benda kærendur á að þau eigi tvö börn og fyrirvinnan á heimilinu vinni í öðru bæjarfélagi og því þurfi þau á bifreið að halda. Þá segja kærendur að þau séu ráðþrota og viti ekki hvert þau eigi að snúa sér, en þau hafi ávallt verið „góðir skuldarar“ og staðið í skilum og vilji halda því áfram.
IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs
Íbúðalánasjóður áréttar að synjun á umsókn kærenda var byggð á því að ekki væru uppfyllt skilyrði laga nr. 29/2011, til breytinga á lögum um húsnæðismál, þar sem áhvílandi lán að frádregnum aðfararhæfum eignum væru ekki yfir 110% af verðmæti eignarinnar svo sem kveðið er á um í lögunum.
Íbúðalánasjóður vísar til athugasemda kærenda við afgreiðslutíma málsins. Íbúðalánasjóður bendir á að sjóðurinn hafi opnað fyrir rafrænar umsóknir um niðurfærslu veðlána í lok janúarmánaðar 2011. Lagaheimild til afskrifta hafi þó ekki fengist fyrr en þann 6. apríl 2011 og afgreiðslur mála hafi ekki hafist fyrr en þá. Leitast hafi verið við að afgreiða umsóknir eins og hratt og unnt hafi verið, en ljóst sé að afgreiðsla málanna taki nokkuð langan tíma. Ráðnir hafi verið sex nýir starfsmenn til úrvinnslu umsókna auk þess sem reyndir starfsmenn sjóðsins hafi stjórnað verkefninu og veitt leiðbeiningar. Verið sé að leita leiða til þess að stytta tímann, til dæmis með því að stytta afgreiðslutímann, með leiðum eins og að bæta við frekara starfsfólki og með því að slípa til verkferla.
Íbúðalánasjóður vísar til athugasemda kærenda um að verðmat á eign þeirra sé ekki í neinu samræmi við raunverulegt markaðsvirði og/eða fasteignamat eignarinnar. Íbúðalánasjóður áréttar að sjóðurinn óski ávallt eftir verðmati löggilts fasteignasala sem lagt sé til grundvallar við afgreiðslu mála nema fasteignamat sé hærra. Verðmat vegna eignar kærenda liggi fyrir en niðurstaðan sé 25.800.000 kr. Niðurstaða verðmats sé borin saman við fasteignamat, framreiknað kaupverð eignarinnar sé miðað við vísitölu fasteignaverðs og verðmat sambærilegra eigna. Það sé mat Íbúðalánasjóðs að engin ástæða hafi verið til að rengja verðmatið á íbúð kærenda, enda sé það í ágætu samræmi við verðmöt annarra sambærilegra eigna í Hafnarfirði og einnig í samræmi við uppreiknað kaupverð eignarinnar, þó það sé tæplega 20% hærra en fasteignamat eignarinnar. Um sé að ræða 134,5 fermetra eign í litlu fjölbýli í Hafnarfirði eins og nánar sé lýst í verðmatinu. Vinnuregla Íbúðalánasjóðs um verðmat fasteignar byggi á því sjónarmiði að sjóðurinn telji sér ekki fært að leggja mat á það í hvaða tilvikum fasteignamat endurspegli raunverulegt verðmæti eignarinnar, en eins og fram kemur í heimildarákvæðinu skal miða við fasteignamat eða verðmat eignar hvort heldur er hærra. Samkvæmt því hafi Íbúðalánasjóður miðað við verðmat fasteignar í tilviki kærenda.
Íbúðalánasjóður vísar til ummæla kærenda í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndarinnar um að lánsafgreiðsla hafi upphaflega miðast við fasteignamat eignarinnar en niðurfærsla miðist síðan við markaðsverð, en þetta telur Íbúðalánasjóður vera rangt. Lánaafgreiðslur Íbúðalánasjóðs hafi aldrei miðast við fasteignamat eigna. Lán séu veitt fyrir tilteknu hlutfalli af kaupverði fasteignar, innan þeirra reglna sem gildi um hámarkslán og veðsetningu eignar á hverjum tíma.
Íbúðalánasjóður vísar til upplýsinga sem fram komi í umsóknarskrá Íbúðalánasjóðs, en þar komi fram að kaupverð íbúðarinnar þegar kærendur keyptu hana hafi verið 26.900.000 kr. Veitt hafi verið lán hjá Íbúðalánasjóði til kaupanna að fjárhæð 18.000.000 kr. sem hafi verið hámarkslán sjóðsins á þeim tíma, en einnig hafi kærendur fengið hattalán hjá Byr sparisjóði að fjárhæð 3.250.000 kr. Upphafleg lánsfjárhæð kærenda hafi því verið 21.520.000 kr. en útborgun hafi verið 5.380.000 kr. Fasteignamat eignarinnar á þeim tíma hafi verið 25.500.000 kr., samkvæmt þessu er upphafleg veðsetning eignarinnar 80% af kaupverði en tæplega 85% af fasteignamati.
Íbúðalánasjóður vísar til athugasemda kærenda um að lán þeirra hjá Byr sparisjóði hafi verið keypt á afslætti, en hið rétta sé að Íbúðalánasjóður hafi keypt lánasöfn nokkurra fjármálastofnana með heimild í neyðarlögum. Kaupverð lánanna sé bókfært verð en gert sé ráð fyrir því að hluti af greiðslu kaupverðsins komi til greiðslu eftir frammistöðu lánasafnsins. Ekki sé því um að ræða að lánin séu keypt á afslætti.
Íbúðalánasjóður hefur engar athugasemdir við það sem fram kemur í rökstuðningi með kæru um að umsækjendur hafi farið varlega við kaup á íbúðinni og tekið lán sem var talsvert undir þeirra hámarksgreiðslugetu samkvæmt greiðslumati. Íbúðalánasjóður áréttar að lántaka sem var 80% af verði eignar hafi verið í fullu samræmi við það sem talið var eðlilegt í fjárfestingum á þeim tíma. Gífurleg verðbólga hafi síðan valdið hækkunum á lánum þannig að mörg heimili séu í þeirri stöðu að hafa tapað fé, að hluta eða heild sem varið hafi verið til fasteignakaupa. Þá sé 110% leiðinni ekki ætlað að leiðrétta þetta misvægi, heldur eingöngu að færa áhvílandi veðskuldir niður í 110% af verðmæti eigna. Þannig sé ekki verið að leiðrétta eða bæta íbúðarkaupendum það tjón sem þeir hafi orðið fyrir með því að tapa fé sem lagt hafi verið í íbúðarkaup.
Íbúðalánasjóður vísar til ummæla kærenda um að markaðsvirði íbúðar sé metið allt of hátt, en þar vísi þau til umsagna ónefndra fasteignasala og ummæla sem höfð séu eftir þeim fasteignasala sem skoðaði eignina fyrir Íbúðalánasjóð. Íbúðalánasjóður telur sér ekki fært að tjá sig um slíkar umsagnir, en vísar til þess að í verðmati Hauks Geirs Garðarssonar, löggilts fasteignasala, komi fram að eignin sé verðmetin eftir bestu samvisku og að viðkomandi hafi engra hagsmuna að gæta. Í þessu sambandi telur Íbúðalánasjóður einnig rétt að vekja athygli á því að ágætt samræmi sé milli verðmata vegna 110% leiðarinnar og þeirra verða sem liggi til grundvallar við lánveitingar sjóðsins á árinu 2011. Varðandi þær athugasemdir kærenda að húsið þarfnist endurnýjunar vísar Íbúðalánasjóður til verðmats fasteignasala á íbúð kærenda, en þar komi fram að teppi á sameign séu léleg og að komið sé að viðhaldi eignarinnar að utan, en verðmat fasteignar taki mið af því.
Íbúðalánasjóður áréttar að 110% leiðrétting íbúðalána sé ekki hugsuð sem greiðsluvandaúrræði. Fjölmörg úrræði hafi verið sett fram til aðstoðar þeim sem séu í greiðsluvanda eins og sértæka skuldaaðlögun þar sem greiðslubyrði sé löguð að greiðslugetu aðila, tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna og greiðsluaðlögun einstaklinga. Einnig sé unnt að sækja um frestun á greiðslu afborgana eða afborgana og vaxta, ef um er að ræða tímabundinn greiðsluvanda. Það sé mat Íbúðalánasjóðs að vissulega sé það svo að hefðu kærendur skuldað meira, þ.e. tekið hærra lán til íbúðarkaupanna, sé hugsanlegt að skilyrði um lækkun lána hefðu verið uppfyllt, en þá hefðu þær innstæður á banka sem umsækjendur vísa til komið til frádráttar afskrifta. Íbúðalánasjóður bendir á að sjóðurinn hafi ekki heimild til að selja lán sín til annarra kröfuhafa og engin dæmi séu um slíkt. Því sé engin leið fyrir kærendur að komast í hinn bankann sinn, Landsbankann, til þess að eiga kost á niðurfærslu miðaða við skráð fasteignamat eignarinnar.
V. Niðurstaða
Kærendur hafa óskað endurupptöku máls nr. 83/2011 hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála er varðaði umsókn kærenda um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði áhvílandi á fasteign þeirra að C. Úrskurður í málinu var kveðinn upp á fundi nefndarinnar þann 14. september 2011 þar sem hin kærða ákvörðun var staðfest.
Með lögum nr. 29/2011 var Íbúðalánasjóði veitt heimild til að færa niður veðkröfur sjóðsins á hendur einstaklingum að uppfylltum tilteknum skilyrðum enda væri uppreiknuð staða veðkrafna 1. janúar 2011 umfram 110% af verðmæti fasteignar í eigu lántaka eða maka hans. Í 3. mgr. 1. gr. laganna kemur fram að við verðmat fasteigna samkvæmt ákvæðinu skyldi miða við fasteignamat eða markaðsverð þeirra, hvort sem væri hærra. Samkvæmt fyrrgreindu ákvæði gat Íbúðalánasjóður aflað á eigin kostnað verðmats löggilts fasteignasala, teldi hann skráð fasteignamat fyrir 2011 ekki gefa rétta mynd af verðmæti eignar.
Í bréfi umboðsmanns Alþingis til velferðarráðherra, dags. 29. febrúar 2012, í tilefni kvartana vegna úrskurða úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála kom meðal annars fram að umboðsmaður fengi ekki séð að úrskurðarnefndin hafi í málum er varða 110% leiðina hjá Íbúðalánasjóði, metið sjálfstætt, svo sem með því að afla umsagnar eða álits annars löggilts fasteignasala, hvort verðmat fasteigna væri í samræmi við markaðsvirði. Í svari velferðarráðherra til umboðsmanns, dags. 28. júní 2012, kom meðal annars fram að eðlilegt þætti að úrskurðarnefndin legði sjálfstætt mat á fyrirliggjandi verðmat fasteigna í málum þar sem ágreiningur væri um verðmatið. Teldi nefndin sig ekki hafa þá sérþekkingu sem þurfi til væri nefndinni heimilt að leita álits sérfróðra manna, sbr. 65. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. einnig 42. gr. laga um húsnæðismál.
Í því skyni að meta hvort verðmat fasteignasala hafi gefið rétta mynd af verðmæti fasteignarinnar á þeim tíma er það fór fram, kallaði úrskurðarnefndin tvo löggilta fasteignasala til ráðgjafar og aðstoðar, sbr. 5. málsl. 1. mgr. 65. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, við mál þetta og önnur sambærileg ágreiningsmál sem lögð hafa verið fyrir nefndina. Tekið skal fram að hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er að endurskoða stjórnvaldsákvarðanir Íbúðalánasjóðs sem skotið er til nefndarinnar. Endurskoðaðir eru allir þættir kærðrar ákvörðunar, meðal annars gögn líkt og verðmat fasteignasala sem Íbúðalánasjóður byggir ákvörðun á. Til voru kvaddir tveir reyndir fasteignasalar, karl og kona, sem starfa að venju ekki saman. Fengu þau afrit af helstu gögnum málsins, svo sem kæru, athugasemdum kærenda, verðmati sem Íbúðalánasjóður aflaði, verðmati sem kærendur öfluðu, ef svo bar við, og öðrum þeim gögnum sem talið er að geti veitt upplýsingar um verðmæti fasteignarinnar. Þau skoðuðu fasteignina annað eða bæði og lögðu í sameiningu mat á hvert verðmæti fasteignarinnar hafi verið á þeim tíma þegar fyrirliggjandi verðmat fór fram. Úrskurðarnefndin tekur fram að það er mat nefndarinnar að rétt sé að endurskoðun verðmats verði eingöngu látið hafa áhrif á niðurstöðu máls, kærendum til hagsbóta. Leiði endurskoðun fyrirliggjandi verðmats í ljós að verðmatið hafi verið of lágt, þ.e. að niðurfærsla lána kærenda hjá Íbúðalánasjóði hafi verið of mikil miðað við hið endurskoðaða mat, verður það mat ekki lagt til grundvallar niðurstöðu nefndarinnar. Enn fremur skal tekið fram að við mat úrskurðarnefndarinnar á því hvort rétt sé að taka mál kærenda til nýrrar efnislegrar meðferðar verður fyrst og fremst litið til þess hvort verðmat það er Íbúðalánasjóður byggði á teljist hafa gefið rétta mynd af verðmæti fasteignarinnar.
Í máli þessu aflaði Íbúðalánasjóður verðmats og var á því byggt við afgreiðslu umsóknar kærenda. Samkvæmt því var fasteignin metin á 25.800.000 kr. Fasteignasalar á vegum nefndarinnar hafa endurskoðað fyrirliggjandi verðmat og er niðurstaða endurskoðunarinnar sú að verðmatið sé ekki í samræmi við verðmæti fasteignarinnar eins og það var á þeim tíma er umrætt verðmat fór fram. Fasteignasalarnir hafa metið fasteignina á 19.500.000 kr. Líkt og að framan greinir skal við verðmat fasteigna miða við fasteignamat eða markaðsverð þeirra, hvort sem er hærra, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011. Fasteignamat fasteignar kæranda var 21.650.000 kr. og er því hærra en markaðsverð fasteignarinnar. Við úrlausn máls þessa verður því miðað við fasteignamat.
Fasteignamat fasteignar kærenda er 21.650.000 kr. og 110% fasteignamat nemur því 23.815.000 kr. Staða áhvílandi íbúðalána kærenda á lánum Íbúðalánasjóðs þann 1. janúar 2011 var 28.401.405 kr. Veðsetning umfram 110% er því 4.586.405 kr. Veðrými sem kemur til frádráttar vegna annarra eigna nemur 540.000 kr. Uppreiknuð staða veðkrafna Íbúðalánasjóðs á hendur kærendum er því umfram 110% af verðmæti fasteignarinnar og veðrými á aðfararhæfum eignum svarar ekki að öllu leyti til fyrirhugaðrar niðurfærslu veðkröfu, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011. Hin kærða ákvörðun frá 31. maí 2011 verður því felld úr gildi og lagt fyrir Íbúðalánasjóð að taka nýja ákvörðun í máli kærenda á grundvelli þeirra upplýsinga sem lágu til grundvallar ákvörðun sjóðsins en þó þannig að miðað sé við fasteignamat fasteignar kærenda að fjárhæð 21.650.000 kr.
Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 31. maí 2011, um synjun endurútreikning á lánum A og B, áhvílandi á fasteigninni að C, er felld úr gildi og lagt fyrir sjóðinn að taka nýja ákvörðun í máli kærenda á grundvelli þeirra upplýsinga sem lágu til grundvallar ákvörðun sjóðsins en þó þannig að miðað sé við að verðmæti fasteignar kærenda sé 21.650.000 kr.
Bergþóra Ingólfsdóttir,
formaður
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir Gunnar Eydal