Mál nr. 33/2013.
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík
Miðvikudaginn 12. febrúar 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 33/2013:
Kæra A
á ákvörðun
Reykjavíkurborgar
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með ódagsettri kæru, mótt. 17. júlí 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 29. apríl 2013, á umsókn hans um styrk vegna sérstakra erfiðleika að fjárhæð 155.000 kr. til kaupa á rúmi. Umsókn kæranda var synjað þar sem aðstæður kæranda voru ekki taldar falla að skilyrðum 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.
I. Málavextir og málsmeðferð
Kærandi sótti um styrk vegna sérstakra erfiðleika að fjárhæð 155.000 kr. til kaupa á rúmi hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 18. mars 2013. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 3. apríl 2013, með þeim rökum að hún samræmdist ekki reglum Reykjavíkurborgar. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs með bréfi, dags. 21. mars 2013. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 29. apríl 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:
„Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um styrk að upphæð kr. 155.000.- þar sem eigi verður talið að aðstæður umsækjanda falli að skilyrðum þeim sem sett eru í 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð varðandi aðstoð vegna sérstakra erfiðleika.“
Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 29. apríl 2013. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir synjun Reykjavíkurborgar með bréfi, dags. 4. júní 2013. Rökstuðningur var sendur kæranda með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 14. júní 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með ódagsettu bréfi, mótt. 17. júlí 2013. Með bréfi, dags. 17. júlí 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 13. september 2013. Með tölvupósti starfsmanns úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála 17. september 2013 var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti þann 30. september 2013. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. janúar 2013, óskaði nefndin að Reykjavíkurborg legði fram gögn um tekjur kæranda og bárust þau með bréfi, dags. 5. febrúar 2014.
II. Málsástæður kæranda
Kærandi kveðst vera öryrki og búa við mikla persónulega og félagslega erfiðleika. Hann eigi engan að. Hann þiggi örorkubætur þar sem hann sé ófær um að vinna en bæturnar dugi skammt. Kærandi kveðst búa í herbergi með sameiginlegri aðstöðu. Styrkur til að kaupa rúm upp á 155.000 kr. myndi breyta skuldastöðu kæranda til lengri tíma þar sem hann væri afar lengi að safna þeirri fjárhæð. Kærandi kveðst ekki hafa verið boðið samkomulag um félagslega ráðgjöf en taki því með þökkum bjóðist honum það. Ekki hafi staðið á kæranda að koma með upplýsingar sem óskað hafi verið eftir.
Vegna athugasemda Reykjavíkurborgar ítrekar kærandi að hann sé á örorkubótum og hafi því ekki háa framfærslu. Kærandi bendir á að styrkur fyrir rúmi myndi hjálpa til í skuldavanda hans þar sem styrkurinn myndi aðstoða hann við að fjárfesta í rúmi sem sé nauðsynlegt fyrir hann. Kærandi ítrekar að honum hafi aldrei verið boðin félagsleg ráðgjöf og myndi þiggja hana.
III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Í athugasemdum Reykjavíkurborgar vegna kærunnar eru ákvæði 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg rakin. Reykjavíkurborg telur ljóst að kærandi fullnægi ekki skilyrði a-liðar 24. gr. þar sem hann hafi ekki þegið fjárhagsaðstoð til framfærslu undanfarna sex mánuði eða lengur en tekjur kæranda séu töluvert yfir viðmiðunarmörkum grunnfjárhæðar fjárhagsaðstoðar frá Reykjavíkurborg. Þá sé skilyrðum d-liðar 24. gr. ekki fullnægt þar sem ekki liggi fyrir að styrkurinn muni breyta skuldastöðu kæranda til hins betra þegar til lengri tíma sé litið. Þá sé skilyrðum e-liðar 24. gr. ekki fullnægt þar sem ekki liggi fyrir samkomulag um félagslega ráðgjöf og/eða fjármálaráðgjöf um fjárhagsaðstoð. Kærandi fullnægi skilyrðum b-liðar 24. gr. þar sem gögn staðfesti að hann hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu í banka og varðandi skilyrði c-liðar þá hafi kærandi leitað til umboðsmanns skuldara en niðurstöður liggi ekki fyrir um mál hans þar. Reykjavíkurborg bendir á að fram komi í 24. gr. reglnanna að uppfylla þurfi öll skilyrði greinarinnar til að heimilt sé að veita styrk. Með hliðsjón af framansögðu hafi það verið mat velferðarráðs að skilyrði 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi ekki verið uppfyllt og því hafi velferðarráð staðfest synjun þjónustumiðstöðvar um styrk að fjárhæð 155.000 kr. Í málinu liggur einnig fyrir rökstuðningur Reykjavíkurborgar, dags. 14. júní 2013, og er hann efnislega samhljóða framangreindum röksemdum.
IV. Niðurstaða
Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá 1. janúar 2011, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda, dags. 18. mars 2013, um styrk vegna sérstakra erfiðleika að fjárhæð 155.000 kr. til kaupa á rúmi.
Úrskurðarnefndin tekur fram að með bréfi nefndarinnar, dags. 17. júlí 2013, var óskað allra gagna málsins frá Reykjavíkurborg. Hin kærða ákvörðun byggði meðal annars á upplýsingum um tekjur kæranda. Í gögnum sem bárust frá Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 13. september 2013, var hins vegar ekki að finna gögn þar að lútandi. Úrskurðarnefndin bendir á að afar brýnt er að við meðferð kærumála liggi fyrir öll þau gögn og upplýsingar sem hin kærða ákvörðun byggir á. Reykjavíkurborg hefði því verið rétt að leggja fram slík gögn, svo sem skattframtal. Verður í þeim efnum ekki talið nægjanlegt að leggja fram greinargerð fyrir áfrýjunarnefnd þar sem upplýsingar um tekjur kæranda voru skráðar. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Reykjavíkurborgar að framangreint verði haft í huga við afhendingu gagna í tilefni af stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála.
Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.
Í 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um aðstoð vegna sérstakra erfiðleika. Samkvæmt því er heimilt að veita einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki lán eða styrk vegna mikilla fjárhagslegra og félagslegra erfiðleika, að uppfylltum öllum neðangreindum skilyrðum:
a) umsækjandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum
undanfarna sex mánuði eða lengur,
b) staðfest sé að umsækjandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka,
sparisjóða eða annarra lánastofnana,
c) fyrir liggi yfirlit starfsmanns þjónustumiðstöðvar eða Umboðsmanns skuldara
um fjárhagsstöðu umsækjanda og tillögur að úrbótum þegar við á,
d) fyrir liggi á hvern hátt lán eða styrkur muni breyta skuldastöðu umsækjanda til
hins betra þegar til lengri tíma er litið,
e) fyrir liggi samkomulag um félagslega ráðgjöf og/eða fjármálaráðgjöf þegar það á
við
Við afgreiðslu umsóknar kæranda var miðað við að tekjur kæranda hafi verið 216.679 kr. Kærandi sótti um styrk vegna sérstakra erfiðleika í mars 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru tekjur kæranda 210.452 kr. í september 2012, 210.438 kr. í október 2012, 210.507 kr. í nóvember 2012, 240.433 kr. í desember 2012, 216.679 kr. í janúar 2013 og 216.700 kr. í febrúar 2013. Meðalmánaðartekjur kæranda undanfarna sex mánuði fyrir umsókn hans voru því 217.535 kr. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings, 18 ára eða eldri, sem rekur eigið heimili getur numið allt að 169.199 kr. á mánuði, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Tekjur kæranda voru því hærri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar og var því skilyrði a-liðar 1. mgr. 24. gr. reglnanna ekki fullnægt í málinu. Þegar af þeirri ástæðu átti kærandi ekki rétt á styrk vegna sérstakra erfiðleika á grundvelli 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.
Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 29. apríl 2013, um synjun á umsókn A, um styrk vegna sérstakra erfiðleika að fjárhæð 155.000 kr. til kaupa á rúmi, er staðfest.
Bergþóra Ingólfsdóttir,
formaður
Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir Gunnar Eydal