Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 80/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 80/2024

Fimmtudaginn 2. maí 2024

A

gegn

Kópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með erindi, dags. 14. febrúar 2024, framsendi innviðaráðuneytið til úrskurðarnefndar velferðarmála kæru A, vegna afgreiðslu Kópavogsbæjar á umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 25. október 2022, sótti kærandi um félagslegt leiguhúsnæði hjá Kópavogsbæ. Umsókn kæranda var samþykkt 16. nóvember 2022 og var hann settur á biðlista eftir húsnæði. Í kæru til innviðaráðuneytis greinir kærandi frá því að hann sé húsnæðislaus og hafi verið á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá Kópavogsbæ í eitt og hálft ár.

Með bréfi, dags. 28. febrúar 2024, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Kópavogsbæjar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 4. apríl 2024. Greinargerð Kópavogsbæjar barst úrskurðarnefndinni 5. apríl 2024 þar sem fram kom að kærandi hefði þann 26. mars 2024 verið boðin íbúð hjá sveitarfélaginu sem hann hafi þegið daginn eftir. Greinargerð Kópavogsbæjar var kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. apríl 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II. Niðurstaða

Kærð er afgreiðsla Kópavogsbæjar vegna umsóknar kæranda um félagslegt leiguhúsnæði.

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga kemur fram að aðila máls hjá félagsþjónustu sveitarfélaga sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir teknar samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í sömu málsgrein segir að nefndin meti að nýju alla þætti kærumáls og að nefndin geti fellt úr gildi ógildanlegar ákvarðanir í heild eða að hluta en ekki tekið nýja ákvörðun í máli fyrir hönd sveitarfélags. Af framangreindu er ljóst að úrskurðarvald nefndarinnar er afmarkað við að fjalla um réttmæti tiltekinnar ákvörðunar eða ákvarðana sem teknar eru á grundvelli laga nr. 40/1991. Undantekning frá þeirri meginreglu er að finna í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem mælt er fyrir um að heimilt sé að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls. Úrskurðarnefndin telur að framkomin kæra hafi verið lögð fram á grundvelli framangreinds ákvæðis, enda ljóst að Kópavogsbær hafði þann 16. nóvember 2022 samþykkt umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði og var hann á biðlista eftir húsnæði.

Í greinargerð Kópavogsbæjar til úrskurðarnefndar var greint frá því að kærandi hefði þann 26. mars 2024 verið boðin íbúð hjá sveitarfélaginu sem hann hafi þegið. Í ljósi þessa og framangreinds hlutverks úrskurðarnefndarinnar er það mat nefndarinnar að lögvarðir hagsmunir kæranda af efnislegri úrlausn málsins séu ekki lengur til staðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum