Mál nr. 517/2021 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 517/2021
Þriðjudaginn 30. nóvember 2021
A
gegn
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 5. október 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 30. september 2021, um að synja umsókn hans um húsnæðisbætur.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi hefur fengið greiddar húsnæðisbætur frá janúar 2017 á grundvelli umsóknar frá 31. janúar það ár. Á umsókninni voru tilgreindir tveir heimilismenn, dætur kæranda. Með bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), dags. 2. september 2021, var kæranda tilkynnt að stofnunin hefði fjallað um rétt hans til húsnæðisbóta og frestað afgreiðslu umsóknar þar sem óljóst væri hvort skilyrði fyrir greiðslum húsnæðisbóta væru fyrir hendi. Óskað var eftir að kærandi legði fram samning sýslumanns um umgengni barns til að staðreyna að barn væri með aðsetur í leiguhúsnæði. Með erindi, dags. 3. september 2021, neitaði kærandi að afhenda umbeðin gögn. Með ákvörðun HMS, dags. 30. september 2021, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að umbeðin gögn hefðu ekki borist og því óljóst hvort skilyrði fyrir greiðslum húsnæðisbóta væru uppfyllt, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Með erindi, dags. 1. október 2021, óskaði kærandi eftir því að önnur dóttir hans yrði tekin af umsókn hans til þess að greiðslur gætu haldið áfram. HMS samþykkti þá beiðni kæranda samdægurs.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 5. október 2021. Með bréfi, dags. 6. október 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð HMS ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst 2. nóvember 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. nóvember 2021. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi tekur fram að hann vilji fá álit nefndarinnar á ágreiningsefni hans og HMS og eftir atvikum viðsnúningi á ákvörðun stofnunarinnar. HMS hafi hafnað áframhaldandi greiðslum til kæranda um viðbót við húsnæðisbætur vegna dóttur hans á forsendum þess að stofnunin þurfi afrit af umgengnissamningi/úrskurði vegna barnsins. Sú staða hafi komið upp þegar eldra barn kæranda hafi náð 18 ára aldri í september 2021 og umsókninni því verið breytt til að fella nafn hennar út. Þessari niðurstöðu HMS hafni kærandi alfarið og beri fyrir sig að húsnæðisbætur hafi ávallt verið greiddar og óslitið á þessum forsendum síðan 2016, án þess að stofnunin hafi nokkurn tímann óskað eftir þessum gögnum. Enn fremur hafni kærandi alfarið að afhenda stofnuninni umgengnisúrskurð með vísan til 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er varði friðhelgi einkalífs og fjölskyldu en einnig og ekki síst á forsendum persónuverndar. Kærandi telji að þau sjónarmið vegi mun þyngra en 13. gr. laga um húsnæðisbætur sem HMS byggi kröfu sína á og sé orðuð nokkuð opið. Kærandi hafi áður lent í alvarlegum gagnalekum hjá hinu opinbera sem hafi haft ófyrirséðar og slæmar afleiðingar og vilji því nú almennt ekki afhenda gögn eða veita aðgang að gögnum er varði persónulega hagi málsaðila nema ítrustu nauðsyn beri til. Kærandi telji að þær forsendur séu ekki fyrir hendi í þessu tilfelli. Gögn um umgengni frá sýslumönnum og dómstólum innihaldi almennt gríðarlega persónulegar upplýsingar, oftast einnig um þriðja aðila sem ekki komi húsnæðisbótamálum við, séu trúnaðarmál og komi HMS á engan hátt við. Einkum og sér í lagi í þeim tilfellum er komi til úrskurðar sýslumanna og dómstóla þegar um sé að ræða erfið samskipti foreldra. Ísland sé lítið land og fljótt fljúgi fiskisagan. Ef ekki sé hægt að staðfesta viðveru barna í húsnæði á annan hátt telji kærandi að HMS verði að láta þar við sitja líkt og hafi verið fram að þessu.
Kærandi bendi á að hann sé bótaþegi hjá Tryggingastofnun ríkisins og búi við nauman kost og því sé ákvörðun sem þessi aðför að afkomu hans þar sem þegar takmarkaðar ráðstöfunartekjur skerðist um ríflega 20.000 kr. á mánuði. Kærandi óski þess að úrskurðarnefndin taki afstöðu til þessa, felli ákvörðun HMS úr gildi og geri stofnuninni að halda greiðslum húsnæðisbóta óskertum eins og hefð sé orðin fyrir á milli aðila, án þessara gagna.
III. Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar
Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) kemur fram að af kærunni megi ráða að kærandi byggi á því fram að ákvörðun um frestun umsóknar á grundvelli þess að umgengnissamning hafi vantað og synjun umsóknar í kjölfarið, hafi ekki verið lögmæt. Í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur komi fram að búi foreldrar eða forsjáraðilar barns ekki saman skuli barnið teljast búsett á lögheimili sínu sem og í íbúðarhúsnæði þess foreldris eða forsjáraðila sem það eigi ekki lögheimili hjá, enda dvelji barnið hjá foreldrinu eða forsjáraðilanum í að lágmarki 30 daga á ári samkvæmt samningi um umgengni sem sýslumaður hafi staðfest, úrskurði sýslumanns um umgengni, dómi eða dómsátt. Barnið teljist þá sem heimilismaður hjá báðum foreldrum sínum eða forsjáraðilum til 18 ára aldurs, þrátt fyrir skilyrði b. liðar 2. mgr. 9. gr. sömu laga um að heimilismenn skuli búsettir í húsnæðinu.
Fyrir liggi að engin gögn sem kveðið sé á um í 3. mgr. 10. gr. laga um húsnæðisbætur hafi legið fyrir þegar ákvörðunin hafi verið tekin um frestun greiðslna á grundvelli 1. mgr. 24. gr. laga nr. 75/2016, né þegar ákvörðun hafi verið tekin um að synja umsókninni á grundvelli 2. mgr. 13. gr. sömu laga þann 30. september.
Upplýsingaöflun stofnunarinnar byggi á heimild í 14. gr. laga nr. 75/2016. Í 1. mgr. ákvæðisins segi að umsækjandi skuli veita upplýsingar og gögn sem óskað sé eftir til að staðreyna rétt viðkomandi til húsnæðisbóta. Umsækjandi hafi veitt umboð eins og tilskilið sé í 2. mgr. þann 31. janúar, enda sé slíkt skilyrði þess að greiddar séu út húsnæðisbætur á grundvelli laganna. HMS hafni því að hægt sé að neita því að framvísa gögnum á grundvelli þess að um sé að ræða persónupplýsingar en að halda áfram að nýta rétt til húsnæðisbóta þar sem þessar upplýsingar séu nauðsynlegar til að meta rétt viðkomandi samkvæmt lögum um húsnæðisbætur. Einnig bendi HMS á að meðal heimilda til að vinna með persónuupplýsingar samkvæmt 9. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga séu annars vegar samþykki hins skráða og hins vegar lagaskylda. Eins og rakið hafi verið að framan byggi upplýsingaöflun stofnunarinnar á lagaheimild, enda sé hér um að ræða gögn sem stofnuninni beri að afla til þess að staðreyna rétt umsækjanda til húsnæðisbóta. Því til viðbótar hafi kærandi undirritað samþykki fyrir vinnslunni. Stofnunin hafi þannig ótvíræða heimild til þess að óska eftir og vinna þær persónuupplýsingar sem kæran lúti að.
HMS geri kröfu um að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 30. september 2021, um að synja umsókn kæranda um húsnæðisbætur á þeirri forsendu að samningur sýslumanns um umgengni barns hefði ekki borist.
Í 8. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að húsnæðisbætur séu mánaðarlegar greiðslur sem greiðast til umsækjanda, sbr. þó 4. mgr. 21. gr., og skuli ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við grunnfjárhæðir sem miðast við fjölda heimilismanna, sbr. 3. tölul. 3. gr., að teknu tilliti til tekna, sbr. 17. gr., eigna, sbr. 18. gr., og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði, sbr. 19. gr. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laganna skulu húsnæðisbætur einungis veittar að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum, meðal annars að umsækjandi og aðrir þeir sem umsækjandi tilgreinir sem heimilismenn í umsókn séu búsettir í íbúðarhúsnæðinu, sbr. þó 10. gr. Í því ákvæði er fjallað um undanþágu frá skilyrðum um búsetu. Þar segir í 3. mgr. ákvæðisins:
„Búi foreldrar eða forsjáraðilar barns ekki saman skal barnið þrátt fyrir skilyrði a-liðar 2. mgr. 9. gr. teljast búsett á lögheimili sínu sem og í íbúðarhúsnæði þess foreldris eða forsjáraðila sem það á ekki lögheimili hjá enda dvelji barnið hjá foreldrinu eða forsjáraðilanum í að lágmarki 30 daga á ári samkvæmt samningi um umgengni sem sýslumaður hefur staðfest, sbr. 5. mgr. 46. gr. barnalaga, úrskurði sýslumanns um umgengni skv. 47. eða 47. gr. a sömu laga, dómi eða dómsátt. Telst barnið þá sem heimilismaður hjá báðum foreldrum sínum eða forsjáraðilum til 18 ára aldurs.“
Samkvæmt gögnum málsins óskaði HMS eftir því að kærandi legði fram samning sýslumanns um umgengni barns til að staðreyna að barnið væri með aðsetur í leiguhúsnæði. Kærandi varð ekki við þeirri beiðni og var umsókn hans því synjað með vísan til 2. mgr. 13. gr. laga nr. 75/2016 en í því ákvæði er HMS veitt heimild til að synja umsókn um húsnæðisbætur hafi nauðsynlegar upplýsingar og gögn ekki borist innan 45 daga frá móttökudegi umsóknarinnar.
Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 75/2016 kemur fram að umsækjandi skuli veita framkvæmdaraðila allar þær upplýsingar og gögn þeim til staðfestingar sem óskað er eftir og nauðsynlegar eru til að staðreyna rétt hans til húsnæðisbóta. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skulu umsækjandi og aðrir heimilismenn, 18 ára og eldri, veita skriflegt umboð fyrir því að framkvæmdaraðili afli nauðsynlegra upplýsinga og gagna til að afgreiða umsókn um húsnæðisbætur og framfylgja lögunum að öðru leyti. HMS hefur upplýst að kærandi hafi veitt slíkt umboð.
Í 15. gr. laga nr. 75/2016 er fjallað um heimild til upplýsingaöflunar. Þar segir í 1. mgr. að framkvæmdaraðila sé heimilt að fengnu skriflegu umboði umsækjanda og annarra heimilismanna, 18 ára og eldri, sbr. 2. mgr. 14. gr., að afla upplýsinga frá meðal annars sýslumönnum sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að framfylgja lögunum. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skulu þeir aðilar sem tilgreindir eru í 1. mgr. láta framkvæmdaraðila í té upplýsingar sem óskað hefur verið eftir en lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til að veita upplýsingarnar. Upplýsingar og gögn sem framkvæmdaraðili óskar eftir og unnt er að láta í té skal veita án endurgjalds og á því formi sem óskað er, sbr. þó 3. mgr. 19. gr. laga um skráningu einstaklinga. Þá segir í 3. mgr. ákvæðisins að framkvæmdaraðili geti aflað upplýsinga samkvæmt 1. mgr. rafrænt eða á annan hátt sem hann ákveði. Tryggja skuli að upplýsingaöflun og vinnsla persónuupplýsinga gangi ekki lengra en þörf krefji til að unnt sé að framfylgja lögunum.
Í athugasemdum með ákvæði 4. mgr. 10. gr. í frumvarpi til laga nr. 75/2016 er sérstaklega vísað í 1. mgr. 15. gr. er varðar upplýsingaöflun frá sýslumanni vegna samnings um umgengni. Þar segir:
„Ekki er nauðsynlegt að framkvæmdaraðili afli afrits af samningi um umgengni sem sýslumaður hefur staðfest eða úrskurði sýslumanns um umgengni, heldur nægir að framkvæmdaraðili afli upplýsinga frá sýslumanni á grundvelli 1. mgr. 15. gr. frumvarpsins um hvort gert sé ráð fyrir að barn dvelji hjá viðkomandi foreldri eða forsjáraðila í að lágmarki 30 daga á ári.“
Með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að HMS hafi verið rétt að freista þess að útvega upplýsingar er nauðsynlegar voru til þess að meta hvort skilyrði 3. mgr. 10. gr. laga nr. 75/2016 væru uppfyllt, nánar tiltekið hvort barn dveldist hjá kæranda í að lágmarki 30 daga á ári samkvæmt samningi um umgengni sem sýslumaður hefur staðfest, úrskurði sýslumanns um umgengni, dómi eða dómsátt. Þrátt fyrir það telur úrskurðarnefndin að HMS hafi ekki verið heimilt að synja umsókn kæranda, án þess að óska sjálf eftir upplýsingum frá sýslumanni eða dómstól um hvort staðfestur samningur um umgengni, úrskurður um umgengni, dómur eða dómsátt gerði ráð fyrir að barn kæranda dveldi hjá honum í að lágmarki 30 daga á ári eða leiðbeina kæranda um að hann gæti sjálfur lagt fram þær staðfestingar, án þess að leggja fram gögnin í heild sinni. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir HMS að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 30. september 2021, um að synja umsókn A, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir