Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 113/2011

Miðvikudaginn 16. nóvember 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 113/2011:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 17. ágúst 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, hér eftir nefndur kærði, frá 15. júlí 2011 um synjun á umsókn um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi kærðu ákvörðun um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni að B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 15. júlí 2011, var skráð fasteignamat á íbúð kæranda að B 12.450.000 kr. Við afgreiðslu umsóknar kæranda var miðað við skráð fasteignamat íbúðar kæranda. Uppreiknað verðmat íbúðarinnar var því 110% af skráðu fasteignamati eignar, eða 13.695.000 kr. Áhvílandi á íbúðinni voru 16.231.439 kr. Í endurútreikningnum kemur fram að kærandi er eigandi bifreiðarinnar X metin á 5.904 kr. ásamt því að eiga verðbréf í Ríkisvíxlasjóði að andvirði 3.402.781 kr.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 22. ágúst 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 9. september 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 13. september 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir ákvörðun Íbúðalánasjóðs um endurútreikning íbúðarlána vegna leiðréttingar lána í 110% leiðinni og þá niðurstöðu að veðrými sé á öðrum aðfararhæfum eignum sem lækki niðurfærslu veðskulda sem því nemur. Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 17. ágúst 2011, segir kærandi að hann geri athugasemdir við að Íbúðalánasjóður fylgi öðrum reglum en Landsbankinn, en bæði fyrirtækin séu í eigu ríkisins. Þá vísar kærandi til þess að hjá Landsbankanum skipti aðfararhæfar eignir engu máli ef íbúð sé metin á minna en 30.000.000 kr., en kærandi vísar til þess að skráð fasteignamat á íbúð hans sé 12.450.000 kr. en staða áhvílandi lána um áramótin hafi verið 16.231.439 kr.

Þá segir kærandi að niðurstaða Íbúðalánasjóðs um að synja umsókn hans á grundvelli peningalegrar eignar hans, alls 3.402.781 kr., sé brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga þar sem viðskiptavinir Landsbankans njóti betri kjara en þeir sem séu með lán hjá Íbúðalánasjóði. Þá segir kærandi að umrædd eign hans sem hafi komið til frádráttar niðurfærslu lána hans hjá Íbúðalánasjóði, sé tilkomin vegna námslána hans hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, en hann hafi lagt fyrir fé til þess að safna fyrir meistaranámi erlendis, en einnig þar sem hann sé í námi á vorönn 2011. Þá segir kærandi að honum finnist það skjóta skökku við ef peningaleg eign sem er í raun ekkert annað en skuld við LÍN veiki stöðu hans og möguleika á niðurfellingu lána hjá Íbúðalánasjóði.

Kærandi segist hafa tekið 12 milljóna króna lán árið 2005, ári seinna hafi hann greitt 1 milljón inn á höfuðstól lánsins, en í dag standi áhvílandi lán í tæpum 17 milljónum króna. Kærandi segist vera einstaklingur í námi og hann stefni á frekara nám ásamt því að verða skapandi þjóðfélagsþegn. Þá segir kærandi að miðað við niðurstöðuna og skuldastöðuna sé hvatinn til þess að snúa aftur eftir nám afar lítill. Kærandi telur litlar forsendur fyrir því að búa á Íslandi með tilliti til skuldastöðu hans sem hann hafi ekki getað séð fyrir að yrði með þeim hætti, sex árum eftir lántöku. Þá vísar kærandi einnig til neytendalaga þar sem kveðið er á um að réttur í lántökum skuli vera báðum megin, en telur að verðtryggð lán sýni fram á að svo sé ekki. Því segist kærandi vona að Íbúðalánasjóður sjái stöðu hans í öðru ljósi og endurskoði ákvörðun sína í máli hans.

 

IV. Sjónarmið kærða

Íbúðalánasjóður vísar til niðurstöðu útreikninga sem liggja fyrir í málinu, en samkvæmt útreikningnum sjóðsins í máli kæranda þá skerði aðrar aðfararhæfar eignir fyrirhugaða niðurfærslu lána miðað við 110% fasteignamat íbúðar. Íbúðalánasjóður áréttar að sjóðnum beri að taka tillit til verðbréfaeignar kæranda skv. 1. gr. laga nr. 29/2011, en einnig túlki sjóðurinn umrætt lagaákvæði á þá leið að ekki beri að reikna allar skuldir til skerðingar á eignum, heldur einvörðungu þær sem eru áhvílandi á viðkomandi eign og skerða veðrými hennar, svo sem bílalán og fasteignalán.

 

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Í málinu er ágreiningur um aðfararhæfar eignir í eigu kæranda sem komu til frádráttar niðurfærslu á lánum hans hjá Íbúðalánasjóði. Kærandi hefur fært fram þau rök að verðbréf í eigu hans séu í raun tilkomin vegna námslána hans hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og því sé ekki um að ræða aðfararhæfa eign sem eigi að koma til frádráttar niðurfærslu lána hans hjá Íbúðalánasjóði.

Um framkvæmd 110% leiðarinnar hafa verið sett lög nr. 29/2011 sem Íbúðalánasjóði ber að fylgja við afgreiðslu umsókna um lækkun húsnæðislána. Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011, sbr. lið 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011, kemur fram að lántaki skuli upplýsa kröfuhafa um aðrar aðfararhæfar eignir samkvæmt lögum um aðför, nr. 90/1989. Reynist veðrými vera til staðar á aðfararhæfum eignum á niðurfærsla skulda að lækka sem því nemur. Með aðfararhæfum eignum er átt við allar eignir nema þær séu sérstaklega undanþegnar fjárnámi. Aðfararhæfar eignir eru til dæmis fasteignir, bifreiðar og bankainnstæður. Auk fasteignar sinnar að B átti kærandi bifreið og verðbréf á þeim tíma er umsókn hans um niðurfærslu lána var afgreidd hjá Íbúðalánasjóði eins og rakið hefur verið.

Kærandi hefur jafnframt byggt á því að jafnræðisregla hafi verið brotin með hinni kærðu ákvörðun. Kærða ber að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast. Þá ber kærða að fylgja fyrrgreindum lögum og þar er ekki að finna undanþágur eða heimild til handa kærða til að gera slíkar undanþágur þegar sérstaklega stendur á. Í lögunum kemur skýrt fram að ef veðrými er á aðfararhæfum eignum skuli lækka niðurfærslu veðskulda sem því nemur. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum í 1. gr. 1.1 og 2. gr. 2.2 í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs, en það er ekki á valdi úrskurðarnefndar að víkja frá þeim lögum og reglum sem um ákvörðun Íbúðalánasjóðs gilda.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, um synjun á endurútreikning á lánum A, áhvílandi á íbúðinni að B, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta