Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 88/2011

Miðvikudaginn 25. maí 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 88/2011:

A

gegn

félags- og tómstundanefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

   

ÚRSKURÐUR :

Með bréfi, dags. 28. júní 2011, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun afgreiðslunefndar húsaleigubóta frá 9. júní 2011 á umsókn hans um greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann. Með bréfi sínu til Sveitarfélagsins Skagafjarðar, dags. 4. júlí 2011, óskaði úrskurðarnefndin eftir gögnum málsins og rökstuðningi fyrir synjun um greiðslu húsaleigubóta. Í ljós kom að félags- og tómstundanefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar hafði ekki fjallað um málið og tekið afstöðu í því og var hin kærða ákvörðun því ekki talin tæk til afgreiðslu hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála. Málið var því framsent til félags- og tómstundanefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Með bréfi umsjónarmanns húsaleigubóta í Skagafirði, mótt. 8. desember 2011, var úrskurðarnefndinni send niðurstaða félags- og tómstundanefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar, dags. 7. desember 2011, í máli kæranda. Kæranda voru send afrit framangreindra gagna auk þess sem óskað var eftir afstöðu félags- og tómstundanefndar til málsins. Bréf félagsmálastjóra Sveitarfélagsins Skagafjarðar er dagsett 5. janúar 2012.

 

I. Málavextir.

Kærandi og eiginkona hans reka bú á B. Einkahlutafélagið C er í eigu kæranda og eiginkonu hans. Kærandi og eiginkona hans, D, sóttu um húsaleigubætur með umsókn dagsettri 20. apríl 2011. Meðal gagna málsins er húsaleigusamningur um leigu íbúðarhússins að B, dags. 12. október 2010. Leigusali er skráður C og undir samninginn ritar fyrir hönd leigusala, D, eiginkona kæranda, og er hún skráð stjórnarmaður. Leigjandi er skráður A, búsettur að B.

 

II. Málsástæður kæranda.

Kærandi bendir á að hefðbundinni umsókn hans um húsaleigubætur hafi verið hafnað sökum vensla. Það sé á margan hátt öðruvísi þegar hlutafélagaformið sé valið á atvinnurekstur, hvort um sé að ræða bú í sveit eða fyrirtæki í þéttbýli. Í búrekstri búi viðkomandi rekstrarmaður á jörðinni og íbúðarhús sé samofið eignum á jörðinni, sem notaðar séu til tekjuöflunar. Það sé til að mynda krafa lánardrottna að engar eignir séu undanskildar þegar veð sé veitt fyrir lánum. Enginn möguleiki sé á því að leigja af öðrum þar sem þá væru fjarlægðir frá vinnustað (búinu) orðnar miklar. Eini möguleikinn sé því að leigja af því félagi (C) sem hafi rekstur búsins með höndum.

Kærandi krefst þess að hinni kærðu ákvörðun verði snúið kæranda í hag á þann veg að húsaleigubætur verði greiddar honum.

 

III. Málsástæður kærða.

Félags- og tómstundanefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar bendir á að kæranda hafi áður verið synjað um greiðslu húsaleigubóta. Nefndin hafi metið það svo að vensl kæranda og leigusala, C, sem sé einkahlutafélag í eigu kæranda og konu hans, séu með þeim hætti að girði fyrir rétt til húsaleigubóta. Varðandi frekari rökstuðning er vísað til rökstuddrar niðurstöðu afgreiðslunefndar húsaleigubóta, dags. 9. júní 2011. Þar kemur fram að þar sem leigusali, C, og leigutaki, þ.e. kærandi, hafi sama lögheimili og í ljósi þess að umsækjandi sé einn eigenda félagsins, auk þess sem sveitarfélagið hafi lagt fram lögtakskröfu vegna vangoldinna fasteignagjalda félagsins þyki eðlilegt að fara þess á leit að leigutaki leggi fram óvéfengjanleg gögn um að húsaleiga hafi raunverulega verið greidd samkvæmt framlögðum húsaleigusamningi allt frá 1. janúar 2010. Kærandi hafi í kjölfarið lagt fram kvittanir undirritaðar af honum sjálfum um að húsaleiga hafi verið greidd frá janúar 2011.

Fram kemur enn fremur í niðurstöðu afgreiðslunefndar húsaleigubóta að umsókn kæranda sé óvanaleg að því leyti að eigandi íbúðarinnar og leigusali sé einkahlutafélag, C. Kærandi sé forsvarsmaður og eigandi fyrirtækisins. Þinglýstur húsaleigusamningur hafi borist 18. maí 2010. Samningurinn sé undirritaður fyrir hönd C af D, eiginkonu kæranda, en hann undirriti samninginn sem leigjandi.

Í 16. gr. laga um húsaleigubætur sé ekki tekið á slíku fyrirkomulagi. Eini úrskurðurinn sem hafi gengið í keimlíku máli hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu hafi verið 6. október 2006 og fallið á þann veg að viðkomandi sveitarfélagi hefði ekki verið heimilt að synja umsókn um húsaleigubætur þar sem 6. gr. laganna kveði ekki á um vensl við fyrirsvarsmenn fyrirtækis sem jafnframt sé leigusali. Í því máli hafi tengdafaðir leigjanda verið forsvarsmaður einkahlutafélagsins sem í hlut hafi átt en leigjandi varamaður í stjórn. Í máli kæranda virðist horfa nokkuð öðruvísi við. Einkahlutafélagið sé skráð á sama stað og leigjendur búi, eiginkona og eiginmaður, sem bæði séu búandi í húsnæðinu, undirriti leigusamning hvort við annað. Í raun geri aðilar leigusamning við sjálfa sig, hafi í hendi sér ákvörðun um leigufjárhæð og önnur atriði varðandi framkvæmd samningsins.

Félags- og tómstundanefnd hafi metið það svo við afgreiðslu fyrri umsóknar kæranda að vensl leigjanda og leigusala séu með þeim hætti að girði fyrir rétt til húsaleigubóta. Umsókn kæranda, sem móttekin hafi verið 15. janúar 2010 um húsaleigubætur hafi því verið synjað. Þær aðstæður eigi að öllu leyti við fyrirliggjandi umsókn. Kærandi hafi sjálfur sótt um fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins til að greiða fasteignagjöld vegna C til að forða lögtakskröfu sveitarfélagsins. Bendi það til að hann sé óvéfengjanlega eigandi íbúðarinnar. Við bætist að kæranda hafi verið gefinn kostur á að sýna fram á með óvéfengjanlegum gögnum að húsaleiga hafi raunverulega verið greidd. Fyrirliggjandi kvittanir fullnægi engan veginn þeim kröfum. Hafi húsaleiga ekki verið greidd í raun verði að draga þá ályktun að um hreinan málamyndagjörning sé að ræða.

 

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort félags- og tómstundanefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar beri að veita kæranda húsaleigubætur vegna leigu hans á íbúðarhúsinu að B, en umsókn kæranda hefur verið hafnað vegna tengsla hans við leigusalann. Eins og fram hefur komið er leigusali umrædds íbúðarhúss einkahlutafélag, C. Kærandi er leigutaki og hann hefur sama lögheimili og leigusali. Hann og eiginkona hans eru í stjórn félagsins og eru meðal eigenda þess.

Í 6. gr. laga um húsaleigubætur nr. 138/1997, eru rakin atriði sem girða fyrir rétt til húsaleigubóta. Í 1. tölul. 6. gr. laganna kemur fram að réttur til húsaleigubóta sé ekki fyrir hendi ef umsækjandi eða einhver sem í húsnæðinu býr með honum er skyldmenni leigusala sem býr í sama húsi, í beinan legg eða kjörbarn, fósturbarn, systkini, barn þeirra eða tengdaforeldri. Þegar um vensl er að ræða, sbr. framanskráð, er gert ráð fyrir að venslamaður búi í húsnæðinu með leigutaka eins og hér háttar í rauninni til. Samsvarandi ákvæði var áður að finna í lögum nr. 100/1994, þar sem gerður var greinarmunur á því hvort leigusali og leigutaki byggju í sama húsnæði. Síðar var ákvæðinu breytt með setningu laga nr. 138/1997 þar sem bannið tók til allra íbúða sem væru í eigu skyldmenna eða tengdra, óháð því hvort leigusali og leigutaki byggju í sama húsnæði. Hafði ákvæðið sætt gagnrýni, og var talið rétt að breyta því til þess horfs sem það hafði áður verið með lögum nr. 100/1994, þar sem vægi skyldleikatengsla væri annað um leigufjárhæð, þegar leiguhúsnæðið væri annað en það sem leigusali byggi sjálfur í.

Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 138/1997 kemur fram að undanþegnir aðstoð væru þeir sem væru skyldir leigusala. Meginsjónarmið að baki reglunnar væru þau að vegna skyldleika greiddu margir leigjendur mjög lága eða jafnvel enga húsaleigu. Var talið að þeir aðilar, sem nytu þess að leigja af skyldmennum, hefðu ekki eins mikla þörf fyrir aðstoð og þeir sem leigja af óskyldum aðilum. Þá var einnig talið að ef þeim yrði veittur réttur til bóta gæti það leitt til mikils fjölda málamyndagerninga.

Í framangreindu ákvæði 6. gr. laga nr. 138/1997, með síðari breytingum, eru því rakin atriði sem girða fyrir rétt til húsaleigubóta. Í 1. tölul. 6. gr. laganna kemur fram að réttur til húsaleigubóta sé ekki fyrir hendi ef umsækjandi eða einhver sem í húsnæðinu býr með honum er skyldmenni leigusala sem býr í sama húsi í beinan legg eða kjörbarn, fósturbarn, systkini, barn þeirra eða tengdaforeldri. Þegar um vensl er að ræða, sbr. framanskráð, er gert ráð fyrir að venslamaður búi í húsnæðinu með leigutaka. Ekki eru í ákvæðinu tilgreind vensl við fyrirsvarsmenn fyrirtækja sem eru jafnframt leigusalar. Hefur úrskurðarnefnd félagsþjónustu áður fjallað um sambærilegt tilvik í máli nefndarinnar nr. 6/2006, þar sem svo háttaði til að gerður hafði verið leigusamningur við félag, en kærandi var stofnandi félagsins, fyrrum eigandi þess, og sat sem varamaður í stjórn þess.

Að mati úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála eru atvik í máli þessu með þeim hætti að ekki verður talið að þau falli undir orðalag 1. tölul. 6. gr. laga nr. 138/1997, og því var félags- og tómstundanefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar ekki heimilt eins og háttar til í máli þessu og rakið hefur verið og með vísan til 1. tölul. 6. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, með síðari breytingum, að synja kæranda um greiðslu húsaleigubóta á þeim grundvelli einum. Hinni kærðu ákvörðun er því hrundið og málinu vísað til félags- og tómstundanefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar að nýju til löglegrar meðferðar, og að kanna frekar hvort skilyrði umsóknar fyrir greiðslu húsaleigubóta séu fyrir hendi, svo sem að leiga hafi verið greidd.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir, formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun félags- og tómstundanefndar í máli A, er felld úr gildi og lagt fyrir félags- og tómstundanefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar að taka málið fyrir að nýju.

 

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                               Gunnar Eydal

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta