Mál nr. 63/2017
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 63/2017
Fimmtudaginn 11. maí 2017
AgegnSveitarfélaginu Skagafirði
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 13. febrúar 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, synjun Sveitarfélagsins Skagafjarðar, dags. 6. febrúar 2017, á umsókn hans um fjárhagsaðstoð.
I. Málavextir og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 25. janúar 2017, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð frá Sveitarfélaginu Skagafirði fyrir tímabilið febrúar til maí 2017. Umsókn kæranda var synjað með tölvupósti félagsmálastjóra þann 6. febrúar 2017 á þeirri forsendu að tekjur væru yfir viðmiðunarmörkum, sbr. 10. og 11. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 13. febrúar 2017. Með bréfi, dags. 17. febrúar 2017, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Sveitarfélagsins Skagafjarðar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð sveitarfélagsins barst með bréfi, dags. 21. mars 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dagsettu sama dag, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 31. mars 2017 og frekari gögn þann 3. apríl 2017. Voru þau send sveitarfélaginu til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. apríl 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá aðstæðum sínum og fjölskyldu sinnar og tekur fram að hann hafi sótt um neyðaraðstoð frá sveitarfélaginu vegna þeirra aðstæðna og tímabundinna fjárhagsörðugleika. Kærandi gerir athugasemd við að sveitarfélagið hafi eingöngu litið til tekna þeirra hjóna en ekki skulda og að þau séu í tímabundnum fjárhagsvandræðum vegna ákveðinna aðstæðna. Kærandi hafi lagt fram öll gögn um skuldir sínar og því hafi sveitarfélaginu átt að vera kunnugt um skuldabyrði hans. Kærandi bendir á að leigutekjur þeirra hjóna séu lægri en afborgun af láni sem hvíli á fasteign þeirra en hún sé á söluskrá. Kærandi fer því fram á að synjun sveitarfélagsins verði hnekkt.
III. Sjónarmið Sveitarfélagsins Skagafjarðar
Í greinargerð Sveitarfélagsins Skagafjarðar kemur fram að kæranda hafi verið synjað um fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu á þeirri forsendu að samanlagðar tekjur kæranda og eiginkonu hans hafi verið hærri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar hjóna. Grunnfjárhæð hjóna sé 258.629 kr. á mánuði, sbr. 9. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð, en tekjur þeirra hjóna fyrir janúarmánuð hafi numið 354.246 kr. Kærandi hafi fengið 111.386 kr. í atvinnuleysisbætur, 70.000 kr. í leigutekjur og eiginkona hans 172.860 kr. í launatekjur. Samanlagðar tekjur þeirra á tímabilinu október 2016 til janúar 2017 hafi verið 1.189.747 kr. eða 297.436 kr. á mánuði. Tekjur þeirra þá viðmiðunarmánuði séu því töluvert umfram framangreinda grunnfjárhæð.
Sveitarfélagið vísar til þess að samkvæmt 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga meti félagsmálanefnd þörf og ákveði fjárhagsaðstoð til einstaklinga. Sveitarfélagið hafi sett reglur um fjárhagsaðstoð í samræmi við framangreint ákvæði en sú meginregla gildi að umsækjandi eigi einungis rétt á að fá greidda fjárhagsaðstoð ef hann eða maki hans geti ekki framfleytt umsækjanda, sbr. 1. gr. reglnanna. Fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins sé neyðaraðstoð sem ekki beri að veita nema engir aðrir möguleikar séu fyrir hendi eins og lánveiting frá banka. Við mat á fjárhagsaðstoð sé tekið mið af því að einstaklingur njóti hagræðis af því að búa með öðrum. Að mati sveitarfélagsins njóti hjón hagræðis af því að halda saman heimili auk þess sem þeim sé skylt að framfæra maka sinn og börn. Mat sveitarfélagsins á upphæð fjárhagsaðstoðar sé málefnalegt og í samræmi við lög.
IV. Niðurstaða
Í máli þessu er ágreiningur um synjun Sveitarfélagsins Skagafjarðar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð.
Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á umfangi aðstoðar að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.
Í III. kafla reglna Sveitarfélagsins Skagafjarðar er kveðið á um rétt til fjárhagsaðstoðar, mat á fjárþörf og útreikning fjárhagsaðstoðar. Þar segir í 1. mgr. 8. gr. að við ákvörðun um fjárhagsaðstoð skuli grunnfjárþörf til framfærslu, sbr. 9. gr., lögð til grundvallar og frá henni dregnar heildartekjur, sbr. 10. gr. Við mat á fjárhagsaðstoð skuli leggja til grundvallar meðaltekjur síðustu þriggja mánaða og taka skuli tillit til sérstakra aðstæðna eftir því sem við á, sbr. 2. og 3. mgr. 8. gr. reglnanna. Grunnfjárhæð hjóna og fólks í skráðri sambúð nemur 258.629 kr. á árinu 2017. Í 10. gr. reglnanna kemur fram að allar tekjur umsækjanda og maka ef við á, í þeim mánuði sem sótt sé um og þrjá mánuði á undan, séu taldar með við mat á fjárþörf. Með tekjum sé átt við allar tekjur og greiðslur til umsækjanda og maka, þ.e. atvinnutekjur, allar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, greiðslur úr lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, atvinnuleysisbætur, leigutekjur o.s.frv. og komi þær til frádráttar. Miða skuli við heildartekjur eftir að staðgreiðsla skatta, stéttarfélagsgjöld og lífeyrissjóður hafi verið dregin frá.
Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið febrúar til maí 2017 með umsókn, dags. 25. janúar 2017, og bar því að miða við tekjur kæranda og maka hans á tímabilinu október 2016 til janúar 2017. Miðað við fyrirliggjandi gögn voru meðaltekjur kæranda og maka hans framangreinda mánuði 297.436 kr. og hefur sú fjárhæð ekki sætt andmælum. Samanlagðar tekjur þeirra voru því hærri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sbr. 9. gr. reglna sveitarfélagsins Skagafjarðar um fjárhagsaðstoð. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði reglnanna og því ekki átt rétt á fjárhagsaðstoð fyrir framangreint tímabil.
Kærandi byggir kæru sína á því að skuldir þeirra hjóna séu umfram greiðslugetu og að þau séu í tímabundnum fjárhagsvandræðum vegna ákveðinna aðstæðna. Úrskurðarnefndin tekur fram að fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins er bundin við ákveðna grunnfjárhæð en um hámarks fjárhagsaðstoð er að ræða óháð skuldastöðu umsækjenda. Hin kærða ákvörðun var því í samræmi við reglur sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð.
Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Sveitarfélagsins Skagafjarðar, dags. 6. febrúar 2017, um synjun á umsókn A, um fjárhagsaðstoð er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson