Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 463/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 463/2019

Fimmtudaginn 19. mars 2019

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. nóvember 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 23. október 2019, um útreikning á húsnæðisbótum.

Þann 1. janúar 2020 tók Húsnæðis- og mannvirkjastofnun við hlutverki, verkefnum og skyldum Íbúðalánasjóðs, sbr. lög nr. 137/2019 um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur þegið húsnæðisbætur frá upphafi árs 2017. Þann 23. október 2019 var kæranda birtur endurreikningur þar sem fram kom að Íbúðalánasjóður hafi gert nýja tekju- og eignaáætlun fyrir hann sem lögð yrði til grundvallar útreikningi húsnæðisbóta og að greiðsluáætlun yrði byggð á þeim útreikningi.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 7. nóvember 2019. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Íbúðalánasjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 4. desember 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. desember 2019. Athugasemdir bárust frá kæranda 18. desember 2019 og voru þær sendar Íbúðalánasjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. desember 2019. Athugasemdir bárust frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun 6. janúar 2020 og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. janúar 2020. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að tilefni kærunnar sé að Íbúðalánasjóður hafi lækkað húsaleigubætur umfram það sem eðlilegt sé og áætlað rangar mánaðartekjur. Sú ákvörðun hafi orðið til þess að velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafi fellt niður greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings til kæranda. Kæran beinist gegn Íbúðalánasjóði og endurútreikningi hans á tekjum en sérstakur húsnæðisstuðningur sé á verksviði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og þar með á ábyrgð þess en það vísi ábyrgðinni frá sér. Kærandi óski eftir að báðir aðilar, Íbúðalánasjóður og velferðarsvið Reykjavíkurborgar, verði látnir sæta ábyrgð vegna rangs útreiknings og niðurfellingar bóta en ef eingöngu sé hægt að kæra annan aðilann þá beinist kæran að Íbúðalánasjóði. Kærandi telji ákvörðun Íbúðalánasjóðs, sem og framkvæmd útreikninga, ekki vera samkvæmt lögum og reglum þar sem heildarlaun hans séu undir hærri viðmiðunarmörkum en samt séu greiðslur felldar niður eða lækkaðar. Íbúðalánasjóður áætli mánaðarlaun ekki samkvæmt lögum né beiti réttum aðferðum við innheimtu ofreiknaðra bóta. Velferðarsvið hafi brotið gegn stjórnsýslulögum og ekki gætt meðalhófs, ekki tilkynnt ákvörðun, ekki fylgt rannsóknarreglu og ekki virt andmælarétt. Þá brjóti velferðarsvið gegn framkvæmd reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning með því að fela Íbúðalánasjóði ákvörðunarrétt vegna sérstaks húsnæðisstuðnings sem einnig fari á svig við rétta stjórnsýsluhætti. Kærandi fari fram á að hinni kærðu ákvörðun verði hnekkt, að sérstakur húsnæðisstuðningur og húsaleigubætur verði greiddar út frá meðaltali mánaðarlauna yfir árið og að skerðingar séu í samræmi við réttar tekjur.

Kærandi vísar til þess að þann 18. júní 2019 hafi Alþingi samþykkt lög nr. 97/2019, um breytingu á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar. Sú breyting hafi verið gerð að Tryggingastofnun ríkisins bæri að telja 65% af öðrum tekjum til tekna við útreikning örorkubóta í stað 100% áður. Breytingin hafi tekið gildi frá og með 1. janúar 2019, þ.e. hafi verið afturvirk. Aukatekjur kæranda séu úr lífeyrissjóði og nemi 655.652 kr. á ári. Breytingin hafi þýtt að Tryggingastofnun hafi hækkað framfærslu kæranda um 27.342 kr. á mánuði. Leiðréttingin hafi verið greidd í einu lagi þann 22. ágúst 2019 fyrir tímabilið janúar til ágúst og fjárhæðin hafi verið 218.738 kr. fyrir skatt. Í bréfi frá Íbúðalánasjóði, dags. 23. október 2019, hafi kæranda verið tilkynnt um endurreikning á tekjum hans sem lægju til grundvallar útreikningi á húsnæðisbótum. Niðurstaða útreikningsins sé að tekjur hans nemi 405.510 kr. á mánuði og því lækki húsaleigubætur úr 32.460 kr. á mánuði í 25.102 kr. Á greiðsluseðli frá Félagsbústöðum fyrir nóvember hafi svo komið í ljós að sérstakur húsnæðisstuðningur hafi fallið niður, úr 32.460 kr. á mánuði niður í 0 kr. Brottfall sérstakra húsnæðisbóta hafi ekki verið tilkynnt af velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Algjör óvissa sé um hvert kærandi eigi að snúa sér til að fá leiðréttingu sinna mála því tekjur hans séu undir hærri viðmiðunarmörkum. Þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar hafi bent kæranda á að hafa samband við Íbúðalánasjóð vegna útreikningsins. Þar væru allar upplýsingar um tekjur skráðar inn og greiðsla þeirra væri alltaf miðuð við útreikning sjóðsins. Kæranda hafi því verið vísað á Íbúðalánasjóð sem beri ekki nokkra ábyrgð á sérstökum húsnæðisstuðningi. Í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði um endurreikning sé sérstaklega tekið fram að útreikningur húsnæðisbóta geti haft áhrif á sérstakan húsnæðisstuðning. Athugasemdum og spurningum um sérstakan húsnæðisstuðning skuli beint til lögheimilis sveitarfélags. Kærandi hafi sent Íbúðalánasjóði tvo tölvupósta þar sem hann hafi óskaði eftir endurupptöku útreikningsins og hafi sérstaklega tiltekið áhrif þess útreiknings á sérstakan húsnæðisstuðning. Íbúðalánasjóður hafi ekki tekið neina afstöðu til sérstaka húsnæðisstuðningsins, enda sé sá málaflokkur ekki á vegum Íbúðalánasjóðs. Íbúðalánasjóður vísi á Reykjavíkurborg og Reykjavíkurborg vísi á Íbúðalánasjóð. Það hafi því myndast hringur þar sem báðir aðilar vísi ábyrgðinni annað. Slíkt geti vitanlega ekki gengið upp. Kæranda sýnist að velferðarsvið Reykjavíkur hafi framselt ákvörðunarvald um greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings til Íbúðalánasjóðs án lagaheimildar. Þar sem fulltrúar velferðarsviðs vísi kæranda á Íbúðalánasjóð verði hann að miða kröfur sínar við útreikning Íbúðalánasjóðs. Því kæri hann endurreikning Íbúðalánasjóðs og sérstaklega áætlun um mánaðarlaun því sú áætlun verði til þess að sérstakur húsnæðisstuðningur falli niður.

Kærandi bendir á að í reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning segi í 5. grein um áhrif tekna á sérstakan húsnæðisstuðning að efri tekjumörk á mánuði miðist við 404.688 kr. á mánuði. Áætlun Íbúðalánasjóðs segi kæranda hafa 405.510 kr. á mánuði, eða 822 kr. yfir efri tekjumörkum. Það virðist vera ástæða þess að greiðslur sérstaks húsnæðisstuðnings falli niður. Þar sem kæranda sé vísað í hring af stofnununum geti hann ekki vísað í nákvæmar ástæður niðurfellingar greiðslu. Þar sem meðaltal mánaðarlauna fyrir árið 2019 sé um það bil 345.406 kr. telji kærandi að brotið sé gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að fella niður greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings sé verulega íþyngjandi ákvörðun. Í endurreikningi Íbúðalánasjóðs sé því haldið fram að kærandi sé með 405.510 kr. á mánuði. Sjóðurinn taki saman tekjur í júlí, ágúst og september, reikni meðaltal tekna út frá því og noti sem grundvöll til útreiknings húsnæðisbóta. Þetta fyrirkomulag, að meðaltal þriggja mánaða sé notað, gangi gegn 20. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Kærandi sjái ekki betur en að Íbúðalánasjóður gangi á svig við þá lagagrein með því að dreifa leiðréttingunni frá Tryggingastofnun á síðustu þrjá mánuði ársins. Þann 29. október 2019 hafi kærandi sent bréf til Íbúðalánasjóðs og skýrt ástæður aukagreiðslunnar og tiltekið að við breytinguna myndu árslaun hans verða 4.150.388 kr. eða sem næmi 345.866 kr. að meðaltali á mánuði. Í svari Íbúðalánasjóðs sé vísað til Excel skjals þar sem árstekjur kæranda séu áætlaðar 4.144.866 kr. og meðaltal mánaðarlauna 345.406 kr. Upphæðir sem séu mjög nálægt því sem hann hafi sent. Þrátt fyrir það hafi Íbúðalánasjóður vísað til þess að tekjuáætlun yrði ekki breytt að svo búnu. Íbúðalánasjóður hafi því handbærar allar þær upplýsingar sem þurfi til að upphæðir verði rétt út reiknaðar og reikni þær rétt út á áðurnefndu Excel skjali en leggi svo 1/3 af tekjum þriggja mánaða sem grundvöll fyrir útreiknuðum húsnæðisbótum í stað þess að leggja 1/12 af áætluðum tekjum á almanaksárinu eins og lögin kveði á um. Við þá ákvörðun fari upphæð mánaðarlauna 822 kr. yfir tekjumörk reglna Reykjavíkurborgar. Ákvörðunin sé því verulega íþyngjandi, þar að auki röng, og brjóti gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Kærandi gerir einnig athugasemd við aðferð Íbúðalánasjóðs vegna innheimtu ofgreiddra húsaleigubóta. Með því að áætla mánaðartekjur rangt sýnist kæranda að Íbúðalánasjóður sé að beita röngum aðferðum við innheimtu ofgreiddra bóta. Kærandi fari fram á að ákvörðunum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Íbúðalánasjóðs sé hnekkt, að sérstakur húsnæðisstuðningur og húsaleigubætur verði greiddar út frá meðaltali mánaðarlauna yfir árið og að skerðingar séu í samræmi við réttar tekjur.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að misræmi sé á milli þeirra upplýsinga sem fram komi í greinargerð Íbúðalánasjóðs og hinni kærðu ákvörðun frá 23. október 2019. Sú ákvörðun beri það klárlega með sér að meðaltalstekjur þriggja mánaða, júlí til september, séu yfirfærðar á allt árið og látið sem hann hafi 405.402 kr. á mánuði hvern mánuð ársins, eða 4.864.824 kr. á ári, enda fjármagnstekjum bætt við áður en áætluð mánaðarlaun séu reiknuð. Ekki séu sömu fjárhæðir í greinargerð Íbúðalánasjóðs. Þar séu meðaltekjur kæranda fyrir tímabilið júlí til september yfirfærðar á tímabilið október til desember. Að mati kæranda sé Íbúðalánasjóður með því að beita brögðum til að innheimta það sem hafi verið ofgreitt fyrr á árinu. Kærandi skilji ákvæði 25. gr. laga um húsnæðisbætur þannig að það eigi að jafna heildargreiðslum á alla mánuði ársins, í hans tilfelli verði húsnæðisbætur 30.511 kr. á mánuði og því beri að greiða þá upphæð þá mánuði sem eftir sé af almanaksárinu. Í ákvæðinu sé ekki minnst á jöfnun eftirstöðva heldur að jafna beri á alla mánuði almanaksársins, ekki þá mánuði sem eftir séu af árinu. Klásúlan um þá mánuði eða hluta úr mánuði sem veiti rétt til húsnæðisbóta eigi ekki við í þessu tilviki, enda sé þar verið að vísa til þess þegar leigusamningur nái einungis yfir hluta árs eða mánaðar.

Kærandi tekur fram að meginkvörtun hans sé að Íbúðalánasjóður áætli að hann sé með 405.510 kr. í mánaðartekjur. Sjóðurinn rökstyðji ekki þá ákvörðun ekki sérstaklega í greinargerð sinni né á hvaða lagagrundvelli sú upphæð sé ákvörðuð. Þá upphæð virðist velferðarsvið Reykjavíkurborgar nota sem viðmið til greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings, sem tæknilega séð sé ekki í höndum Íbúðalánasjóðs, en áætlun mánaðarlauna sé þó algerlega Íbúðalánasjóðs og á hans ábyrgð. Kærandi telji að ákvörðun áætlaðra mánaðarlauna sé íþyngjandi og gangi gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Ljóst sé að Íbúðalánasjóður hafi vitneskju um áhrif útreikningsins á sérstakan húsnæðisstuðning og þá hljóti að vera eðlilegt að krefjast þess að sjóðurinn sýni aðgát við útreikning og áætli bótaþegum ekki hærri tekjur en eðlilegt sé. Í gildandi tekjuáætlun komi fram að rauntekjur kæranda fyrir október og nóvember 2019 séu 338.471 kr. í hvorum mánuði fyrir sig. Hins vegar áætli sjóðurinn að tekjur fyrir hvorn mánuð séu 405.510 kr. Rauntekjur í desember séu 394.198 kr. en hækkun sé vegna desemberuppbótar. Sjóðurinn áætli 405.510 kr. í tekjur fyrir desember. Þetta hafi verulega íþyngjandi áhrif á húsnæðiskostnað kæranda. Í nóvember og desember fari hann yfir 40% sem sé opinbert viðmið Hagstofunnar um íþyngjandi húsnæðiskostnað. Kærandi telji að aðferðir Íbúðalánasjóðs séu nú þegar íþyngjandi og hafi valdið honum óþarfa óþægindum. Sjóðurinn gangi að hans mati harðar fram en hann þurfi að gera og gæti þar með ekki meðalhófs.

III.  Sjónarmið Íbúðalánasjóðs/Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Íbúðalánasjóðs er vísað til þess að ákvörðun um sérstakan húsnæðisstuðning sé á hendi Reykjavíkurborgar, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Af þeim sökum muni Íbúðalánasjóður ekki taka afstöðu til þeirra atriða er fjalli um sérstakan húsnæðisstuðning og beinist gegn Reykjavíkurborg heldur einungis til þeirra er varði húsnæðisbætur samkvæmt lögum nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Í 8. gr. laganna komi fram að húsnæðisbætur séu mánaðarlegar greiðslur sem greiðist til umsækjanda og skuli ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við grunnfjárhæðir sem miðist við fjölda heimilismanna að teknu tilliti til tekna, eigna og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði. Í V. kafla laganna sé fjallað um útreikning húsnæðisbóta. Sú grunnfjárhæð sem tilgreind sé fyrir einn heimilismann sé sú hámarksfjárhæð húsnæðisbóta er kærandi eigi rétt á yfir almanaksárið fari tekjur ekki umfram skilgreind skerðingarmörk laganna. Í 1. mgr. 20. gr. laga um húsnæðisbætur sé útreikningur skilgreindur. Íbúðalánasjóður byggi tekju- og eignaáætlanir umsækjenda á nýjustu upplýsingum á hverjum tíma er sjóðurinn afli samkvæmt 15. gr. laganna. Hvernig sjóðurinn setji upp áætlanir sínar fari síðan eftir 1. mgr. 17. og 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1200/2016. Samkvæmt þeim ákvæðum skuli Íbúðalánasjóður áætla tekjur og eignir kæranda sem lagðar séu til grundvallar útreikningi húsnæðisbóta og greiðsluáætlun byggist á. Við gerð slíkrar áætlunar sæki Íbúðalánasjóður nýjustu upplýsingar til ríkisskattstjóra og taki áætlunin mið af heildartekjum, þar með talið fjármagnstekjum, heildareignum, ásamt orlofs- og desemberuppbót. Til að áætlunin sé sem réttust fari sjóðurinn eftir reiknireglu sem eigi sér stoð í 20. gr. laga um húsnæðisbætur og 18. gr. reglugerðarinnar, sem sé að mati sjóðsins í samræmi við tilgang ákvæðanna. Áætlunin sé síðan endurskoðuð reglulega og eigi sjaldnar en ársfjórðungslega, samkvæmt 1. mgr. 20. gr. reglugerðarinnar, sem geri það að verkum að reiknireglan skipti tekjuárinu upp í fjórðunga og taki mið af tekjuupplýsingum sem séu fyrirliggjandi hverju sinni. Sú reikniregla sem notuð sé til útreiknings húsnæðisbóta fyrir kæranda sé sérsniðin fyrir þá umsækjendur sem fái meirihluta tekna sinna frá Tryggingastofnun ríkisins og taki í grunninn mið af tekjum samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra, auk sérstakra hækkana eða viðbótagreiðslna sem Tryggingastofnun hafi tilkynnt að til standi að greiða, svo sem almennar hækkanir, orlofs- og desemberuppbót o.s.frv. Íbúðalánasjóður árétti að tekjuáætlun kæranda sé sett upp í samræmi við gildandi reglur og að sjóðurinn telji að gildandi tekjuáætlun sé eins rétt áætluð og mögulegt sé miðað við fyrirliggjandi upplýsingar á þeim tíma. Það sé afstaða sjóðsins að við gerð áætlunar kæranda verði að horfa heildstætt á þær forsendur sem lagðar séu til grundvallar við útreikning húsnæðisbóta samkvæmt 16.-19. gr. laga um húsnæðisbætur, þ.e. að við útreikning sé tekið mið af þeirri grunnfjárhæð húsnæðisbóta sem kærandi eigi rétt á hverju sinni að teknu tilliti til tekna, eigna og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði.

Íbúðalánasjóður tekur fram að heimilt sé að endurskoða rétt til húsnæðisbóta hvenær sem er og endurreikna fjárhæð bóta til að húsnæðisbætur verði í samræmi við þær breytingar sem hafi orðið á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna, sbr. 1. mgr. 25. gr. Þá beri sjóðnum, leiði endurreikningur til breytinga á fjárhæð húsnæðisbóta, að leiðrétta húsnæðisbætur samkvæmt 26. gr., sbr. 2. mgr. 25. gr. laganna. Samkvæmt athugasemdum við 25. gr. frumvarps til laga um húsnæðisbætur beri Íbúðalánasjóði að jafna áætluðum heildargreiðslum húsnæðisbóta á alla mánuði almanaksársins, sem sé t.d. gert í upphafi hvers árs. Í kjölfarið geti slík áætlun tekið breytingum svo sem við eftirlit, líkt og í máli kæranda, og þá beri sjóðnum að endurreikna og jafna eftirstöðvum þeirrar grunnfjárhæðar sem kærandi eigi rétt til á þá mánuði sem eftir standi á árinu og greiða bætur eftir því. Í ljósi framangreinds megi sjá að við gerð áætlunar kæranda hafi Íbúðalánasjóður endurreiknað húsnæðisbætur í samræmi við 25. gr. laganna. Það sé afstaða sjóðsins að við síðasta endurreikning hafi sjóðurinn reiknað húsnæðisbætur í samræmi við breytingar á tekjum kæranda og jafnað heildargreiðslur húsnæðisbóta á þá mánuði sem eftir væru af árinu 2019 að teknu tilliti til þegar greiddra húsnæðisbóta.

Íbúðalánasjóður hafni alfarið athugasemdum kæranda þess efnis að sjóðurinn beiti röngum aðferðum við innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta. Ekki liggi enn fyrir endanlegar upplýsingar frá ríkisskattstjóra um tekjur kæranda og hvort hann hafi í raun fengið ofgreitt eður ei á árinu 2019. Í endurreikningsbréfi, dags. 23. október 2019, sé ekki verið að tilkynna kæranda um mögulega ofgreiðslu þegar óljóst sé hvort kærandi hafi fengið ógreiddar húsnæðisbætur. Endanlegar upplýsingar um tekjur og eignir liggi ekki fyrir fyrr en við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum sem samkvæmt venju eigi sér stað um mitt ár vegna næstliðins árs, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um húsnæðisbætur. Íbúðalánasjóður hafi því ekki upplýsingar um hverjar rauntekjur kæranda séu fyrir allt árið 2019 fyrr en við árlegt lokauppgjör húsnæðisbóta og því byggi áætlun vegna nóvember og desembermánaðar meðal annars á greiðsluáætlun kæranda frá Tryggingastofnun ríkisins, enda enn ófyrirséð hvort einhverjar viðbótartekjur kunni að koma til, svo sem fjármagnstekjur, sem ekki sjáist fyrr en á skattframtali vegna ársins 2019. Af þeim sökum telji sjóðurinn ekki rétt að upplýsa kæranda um einhvern möguleika á ofgreiðslu, sem sé ekki fyrirliggjandi, leita samninga og gera kröfu um endurgreiðslu fyrr en endanlegar upplýsingar um tekjur og eignir kæranda liggi fyrir við álagningu á opinberum gjöldum. Íbúðalánasjóður krefst þess að ákvörðun sjóðsins í málinu verði staðfest.

Í athugasemdum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er vísað til þess að niðurstaða útreiknings í greinargerð stofnunarinnar sýni hverjar áætlaðar heildarbætur séu á ári miðað við þá bótafjárhæð sem reiknuð sé fyrir tímabilið október til desember 2019. Niðurstaðan segi því ekki endilega til um hver heildarniðurstaða ársins sé, enda hafi aðstæður kæranda tekið breytingum á árinu 2019 sem hafi haft áhrif á forsendur húsnæðisbóta. Heildargreiðslur á húsnæðisbótum til kæranda á árinu 2019 nemi því 367.446 kr. en ekki 301.224 kr. Stofnunin bendi á að hafi forsendur húsnæðisbóta tekið breytingum sé mikilvægt að fjárhæð bóta sé uppfærð í samræmi við raunverulegar aðstæður kæranda. Síðasti endurreikningur kæranda hafi tekið mið af hækkuðum tekjum hans sem hafi leitt til þess að fjárhæð húsnæðisbóta hafi lækkað á móti, sbr. 17. gr. laganna. Þeim heildargreiðslum sem kærandi hafi átt rétt á hafi verið jafnað á þá mánuði sem hefðu verið eftir á árinu 2019. Að mati stofnunarinnar sé þetta verklag í samræmi við 25. gr. laga um húsnæðisbætur og með þessu móti sé jafnframt verið að koma í veg fyrir líkur á ofgreiðslu húsnæðisbóta sem kunni að valda óþægindum fyrir kæranda til lengri tíma litið. Hvað varði innheimtu ofgreiddra bóta þá hafi stofnunin enn sem komið er ekki innheimt húsnæðisbætur hjá kæranda vegna ofgreiðslu á árinu 2019. Stofnunin árétti að komi í ljós við lokauppgjör að kærandi hafi fengið ofgreitt vegna ársins 2019 muni hann fá senda tilkynningu þess efnis. Stofnunin hafni því að tekjuáætlunin gangi gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Meðalhófs hafi verið gætt við ákvarðanatöku í máli kæranda, enda byggi áætlun vegna tímabilsins október til desember 2019 á rauntekjum hans og þegar greiddum húsnæðisbótum ársins 2019. Ef tekjur kæranda yrðu áætlaðar með þeim hætti sem kærandi geri kröfu um þá myndi sú áætlun leiða til ofgreiðslu húsnæðisbóta, sem gæti talist fremur íþyngjandi en sú áætlun er stofnunin hafi lagt til grundvallar.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Íbúðalánasjóðs, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, dags. 23. október 2019, um endurreikning á húsnæðisbótum kæranda. Í kæru er einnig vísað til ákvörðunar velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um að fella niður greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda hefur ekki verið tekin sérstök ákvörðun af hálfu Reykjavíkurborgar vegna málsins. Úrskurðarnefndin telur því rétt að afmarka umfjöllun málsins við ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um endurreikning húsnæðisbótanna. Telji kærandi að velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafi einnig tekið stjórnvaldsákvörðun í máli hans sem hann vill kæra til úrskurðarnefndarinnar er honum leiðbeint um að gera það í sérstakri kæru.

Kærandi fékk greiddar húsnæðisbætur að fjárhæð 32.460 kr. á mánuði fyrir tímabilið janúar til september 2019. Í október 2019 var gerð ný tekju- og eignaáætlun sem lögð var til grundvallar við útreikning húsnæðisbóta fyrir síðustu þrjá mánuði ársins. Niðurstaða útreikningsins leiddi til þess að húsnæðisbætur kæranda lækkuðu í 25.102 kr. á mánuði síðustu þrjá mánuði ársins 2019. Heildartekjur kæranda á mánuði frá og með október 2019 voru áætlaðar 405.510 kr. og voru þær byggðar á meðaltali tekna hans á tímabilinu júlí til september 2019. Kærandi hefur mótmælt þeim útreikningi og telur að leggja eigi til grundvallar endurreikningi meðaltal tekna hans á árinu 2019 sem hann telur vera u.þ.b. 345.406 kr.

Í 8. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að húsnæðisbætur séu mánaðarlegar greiðslur sem greiðast til umsækjanda, sbr. þó 4. mgr. 21. gr., og skuli ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við grunnfjárhæðir sem miðast við fjölda heimilismanna, sbr. 3. tölul. 3. gr., að teknu tilliti til tekna, sbr. 17. gr., eigna, sbr. 18. gr. og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði, sbr. 19. gr. Ágreiningur málsins er takmarkaður við tekjur kæranda, sbr. 17. gr. laganna, en ekki er ágreiningur um önnur atriði er haft geta áhrif á fjárhæð húsnæðisbóta, svo sem fjölda heimilismanna, eignir eða greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði.

Í 20. gr. laga um húsnæðisbætur er kveðið á um útreikning húsnæðisbóta. Þar segir:

„Til grundvallar útreikningi húsnæðisbóta hvers mánaðar skal framkvæmdaraðili leggja 1/ 12 af áætluðum tekjum og eignum heimilismanna, 18 ára og eldri, á því almanaksári þegar húsnæðisbætur eru greiddar ásamt fjölda heimilismanna og húsnæðiskostnaði, sbr. einnig 16.–19. gr. Þegar réttur til húsnæðisbóta miðast við hluta úr almanaksári skal þó miðað við þær tekjur sem áætlaðar eru fyrir sama tímabil innan almanaksársins og greiðslur húsnæðisbóta standa yfir. Miðað skal við að hver mánuður sé 30 dagar.“

Um áætlun á meðal annars tekjum umsækjanda og heimilismanna er nánar fjallað í reglugerð nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur. Í 17. gr. hennar kemur fram að stofnunin skuli áætla meðal annars tekjur heimilismanna á grundvelli 17. gr. laga um húsnæðisbætur, svo fljótt sem verða megi eftir móttöku umsóknar er uppfylli ákveðin skilyrði og þar eftir í lok hvers almanaksárs. Áætlun skuli byggð á nýjustu upplýsingum á hverjum tíma. Veita skuli umsækjanda kost á að koma að athugasemdum við áætlun innan hæfilegs frests sem stofnunin ákveði. Telji umsækjandi áætlun gefa ranga mynd af áætluðum tekjum skuli hann tilkynna stofnuninni um það og eftir atvikum leggja fram gögn. Fallist stofnunin á athugasemdir umsækjanda skuli hún leiðrétta áætlun. Í 5. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar segir að verði breytingar á meðal annars tekjum skuli áætlun uppfærð í samræmi við breytingar og lögð til grundvallar útreikningi húsnæðisbóta og greiðsluáætlun.

Þá segir í 2. mgr. 20. gr. laga um húsnæðisbætur að framkvæmdaraðili skuli byggja áætlanir sínar samkvæmt 1. mgr. á nýjustu upplýsingum á hverjum tíma, sbr. 14. og 15. gr. laganna. Sú regla kemur einnig fram 1. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 þar sem segir að reglulega skuli sannreyna þær upplýsingar sem ákvörðun um rétt til húsnæðisbóta byggist á og að jafnaði eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Í 23. gr. laga um húsnæðisbætur er fjallað um eftirlit og kemur þar fram að framkvæmdaraðili skuli reglulega sannreyna þær upplýsingar sem ákvörðun um rétt til húsnæðisbóta byggist á. Í 25. gr. laganna er kveðið á um endurreikning á húsnæðisbótum. Þar segir í 1. mgr. að rétt til húsnæðisbóta megi endurskoða hvenær sem er og endurreikna fjárhæð húsnæðisbóta þannig að húsnæðisbætur verði í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna. Í 2. mgr. kemur fram að þegar endanlegar upplýsingar um meðal annars tekjur liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli framkvæmdaraðili endurreikna fjárhæðir húsnæðisbóta vegna þess almanaksárs á grundvelli þeirra upplýsinga. Í 3. mgr. kemur fram að leiði endurreikningur samkvæmt 1. og 2. mgr. til breytinga á fjárhæð húsnæðisbóta skuli leiðrétta húsnæðisbæturnar, sbr. 26. gr. laganna. Í 4. mgr. kemur fram að ráðherra sé heimilt að setja nánari reglur í reglugerð um endurreikning húsnæðisbóta.

Nánar er fjallað um endurreikning í athugasemdum við 25. gr. laganna, en þar segir:

„Lagt er til að framkvæmdaraðila verði heimilt að endurskoða rétt umsækjanda til húsnæðisbóta hvenær sem er en ætla má að slíkur endurreikningur eigi sér stað í kjölfar eftirlits skv. 23. gr. frumvarpsins. Þannig er fjárhæð húsnæðisbóta endurreiknuð í því skyni að húsnæðisbætur samræmist þeim breytingum sem orðið hafa á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna. Komi til slíks endurreiknings einhvern tímann innan viðkomandi almanaksárs er gert ráð fyrir að framkvæmdaraðili jafni áætluðum heildargreiðslum ársins á alla mánuði almanaksársins, eða eftir atvikum þá mánuði eða hluta úr mánuði sem veita rétt til húsnæðisbóta, og greiði húsnæðisbætur samkvæmt því þá mánuði sem eftir eru af almanaksárinu. Mikilvægt er að endurreikningur fari fram innan almanaksársins þegar breytingar verða á forsendum húsnæðisbóta svo fjárhæðir þeirra séu í sem mestu samræmi við raunverulegar aðstæður. Þannig má komast hjá þeim óþægindum sem ofgreiðsla eða vangreiðsla húsnæðisbóta kann að hafa fyrir umsækjendur til lengri tíma litið.“

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur vísað til þess að ákvæði 20. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 geri það að verkum að „reikniregla“ 20. gr. laganna skiptist upp í fjórðunga yfir tekjuárið og taki mið af tekjuupplýsingum sem séu fyrirliggjandi hverju sinni. Þegar um slíkan endurreikning sé að ræða beri að jafna eftirstöðvum þeirrar grunnfjárhæðar sem viðkomandi eigi rétt til á þá mánuði sem eftir eru á almanaksárinu og greiða bætur eftir því. Af hálfu kæranda hefur komið fram að útreikningur stofnunarinnar á tekjum hans síðustu þrjá mánuði ársins 2019 í hinni kærðu ákvörðun sé ekki í samræmi við raunverulegar tekjur hans þá mánuði og hefur hann lagt fram gögn er renna stoðum undir það.

Úrskurðarnefndin tekur fram að meginregla laga um húsnæðisbætur er varðar útreikning húsnæðisbóta hvers mánaðar er sú að leggja skal til grundvallar 1/12 af áætluðum tekjum og eignum heimilismanna, 18 ára og eldri, á því almanaksári sem húsnæðisbætur koma til greiðslu. Þá áætlun er heimilt að endurskoða hvenær sem er, enda á hún að vera byggð á nýjustu upplýsingum á hverjum tíma. Ákvæði 20. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 leggur þá skyldu á Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að sannreyna þær upplýsingar sem áætlun byggir á eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Úrskurðarnefnd velferðarmála gerir ekki athugasemd við það að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skuli á grundvelli framangreindra laga- og reglugerðarákvæði miða ársfjórðungslega endurskoðun sína að jafnaði við tekjur umsækjanda síðasta ársfjórðungs þar á undan, enda verður ekki annað séð að slík vinnuregla sé málefnaleg og í samræmi við markmið laga og reglugerðar um húsnæðisbætur um reglulega endurskoðun húsnæðisbóta er ávallt byggi á nýjustu upplýsingum. Úrskurðarnefndin tekur þó fram að það verður hvorki ráðið af ákvæðum laga um húsnæðisbætur né reglugerð nr. 1200/2016 að slík reikniregla sé fortakslaus, enda gerir 20. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 ráð fyrir því að umsækjanda sé gefinn kostur á að koma að athugasemdum við upplýsingar sem fram koma við eftirlit og áhrif geta haft á rétt hans til húsnæðisbóta. Telji hann þær rangar skal hann tilkynna um það og leggja fram gögn því til staðfestingar.

Ljóst er að kæranda var þann 23. október 2019 gefinn kostur á að gera athugasemd við endurreikning Íbúðalánasjóðs sem hann gerði 29. og 31. sama mánaðar, sbr. þá málsmeðferð sem kveðið er á um í 4. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 1200/2016. Lagði hann þá fram sundurliðaðar upplýsingar um tekjur sínar það sem af var árinu 2019, auk upplýsinga um áætlaðar tekjur í október, nóvember og desember 2019. Þá lagði hann fram greiðsluskjal og bréf Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. ágúst 2019, er sýndi upplýsingar um leiðrétt réttindi sem hann fékk greidd í ágúst 2019 vegna fyrstu 8 mánaða ársins. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála gaf það skjal ekki til kynna að um varanlega breytingu á tekjum hans væri ræða. Þá lagði hann fram leiðrétta greiðsluáætlun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. ágúst 2019, en þar var meðal annars að finna áætlaðar upplýsingar hans um tekjur síðustu þrjá mánuði ársins 2019. Samkvæmt framangreindu lagði stofnunin ekki rétt mat á fyrirliggjandi gögn í máli kæranda. Þegar af þeirri ástæðu er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, dags. 23. október 2019, um útreikning á húsnæðisbótum til handa A, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta