Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 244/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 244/2023

Fimmtudaginn 6. júlí 2023

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. maí 2023, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 16. febrúar 2023, um að synja umsókn hans um akstursþjónustu aldraðra.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 31. október 2022, sótti kærandi um akstursþjónustu aldraðra, samtals 15 ferðir á mánuði í 12 mánuði. Með bréfi miðstöðvar Reykjavíkurborgar, dags. 11. janúar 2023, var umsókn kæranda synjað á grundvelli 11. gr. reglna Reykjavíkurborgar um akstursþjónustu aldraðra. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti þá synjun 16. febrúar 2023. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi, dags. 16. mars 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. maí 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. maí 2023, var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst úrskurðarnefndinni 5. júní 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. júní 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála er þess krafist að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs frá 16. febrúar 2023 verði ógilt og samþykkt verði að veita kæranda ferðaþjónustu fyrir eldra fólk, samtals 15 ferðir í mánuði í 12 mánuði. Til vara sé þess krafist að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs frá 16. febrúar 2023 verði ógilt og samþykkt verði að veita kæranda ferðaþjónustu fatlaðra, 15 ferðir í mánuði í 12 mánuði.

Kærandi hafi sótt um akstursþjónustu fyrir eldra fólk hinn 31. október 2021, samtals 15 ferðir á mánuði í 12 mánuði. Með bréfi miðstöðvar Reykjavíkurborgar, dags. 11. janúar 2023, hafi fyrrgreindri umsókn verið synjað á grundvelli 11. gr. reglna Reykjavíkurborgar um akstursþjónustu aldraðra. Málið hafi verið tekið fyrir á fundi áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hinn 16. febrúar 2023 og synjun miðstöðvar Reykjavíkurborgar staðfest. Með tölvupósti hinn 1. mars 2023 hafi kærandi óskað eftir ítarlegum rökstuðningi fyrir ákvörðuninni sem hafi borist hinn 16. mars 2023.

Kærandi sé X ára, með MND-sjúkdóminn (e. Motor Neurone Disease) og búi á hjúkrunarheimilinu C. Kærandi hafi formlega greinst með sjúkdóminn árið 2017, þó sjúkdómurinn hafi gert vart við sig mörgum árum fyrr. Kæranda og aðstandendum hans hafi raunar orðið ljóst árið 2009, er kærandi hafi verið X ára, að hann væri með MND sjúkdóminn, enda höfðu einkenni þá fyrst komið fram. Um sé að ræða banvænan sjúkdóm sem ágerist venjulega hratt og herji á hreyfitaugar líkamans sem flytji boð til vöðvanna. Af honum leiði máttleysi og lömun í handleggjum, fótleggjum, munni, hálsi og svo framvegis. Að lokum sé um algera lömun að ræða sem dragi sjúklinginn til dauða. Vitsmunalegur styrkur haldist þó óskaddaður og sjúklingur geti lifað mannsæmandi lífi í einhvern tíma fái hann nauðsynlega þjónustu og aðstoð. Sökum fötlunar sinnar geti kærandi hvorki búið sjálfstætt án aðstoðar né ferðast með hefðbundnum hætti, svo sem með almenningssamgöngum eða með einkabíl vina og ættingja. Kærandi sé bundinn við rafmagnshjólastól og þurfi þar af leiðandi á sérútbúnu ökutæki að halda til að komast ferða sinna. Kærandi hafi greinst formlega með MND-sjúkdóminn 2017, þá X ára að aldri. Segja megi að hann falli að einhverju leyti á milli flokka í velferðarkerfinu vegna þessa. Kæranda hafi reynst afar torsótt að sækja þá aðstoð sem hann nauðsynlega þarfnist vegna síns sjúkdóms þó engum vafa sé undiropið að kærandi þarfnist aðstoðar vegna sjúkdómsins en ekki vegna aldurstengdra þátta. Kæranda sé mismunað með ólögmætum hætti.

Kærandi byggi á því að synjun áfrýjunarnefndar velferðarráðs feli í sér ólögmæta mismunun. Í því samhengi vísist til stjórnarskrár Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, einkum 65. gr., samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem hafi verið undirritaður hinn 30. mars 2007 og fullgiltur af Íslands hálfu 23. september 2016, mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, einkum 14. gr., laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, einkum 29. gr. og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 11. gr. laga nr. 37/1993. Tilvísuð lagaákvæði eigi það sameiginlegt að vera samofin þeim hugmyndum sem flestir menn hafi um réttlæti og sanngirni.

Mismununin sem kærandi telji sig verða fyrir sé tvíþætt. Annars vegar feli ákvörðunin í sér mismunun hans sem einstaklings með MND-sjúkdóminn sem dvelji á hjúkrunarheimili samanborið við þá einstaklinga sem búi sjálfstætt. Hins vegar feli ákvörðunin í sér mismunun hans sem einstaklings sem greinist með MND-sjúkdóminn eftir 67 ára aldur samanborið við þá sem greinist fyrr á lífsleiðinni. Fyrrgreind mismunum snúi að því að einstaklingar með MND-sjúkdóminn sem búi sjálfstætt hafi mun ríkari rétt til akstursþjónustu en þeir sem dvelji á hjúkrunarheimilum líkt og kærandi geri, án þess þó að sú mismunun byggi á málefnalegum og hlutlægum grunni.

Í 11. gr. reglna Reykjavíkurborgar um akstursþjónustu aldraðra sé tekið fram að reglurnar gildi ekki um þá sem dvelji á hjúkrunarheimilum og þurfi að leita þjónustu utan stofnunarinnar. Í 14. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra komi þó fram að slíkum stofnunum beri að tryggja að þar sé veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta auk endurhæfingar. Kærandi eigi því rétt á takmarkaðri akstursþjónustu á vegum hjúkrunarheimilisins sem snúi að bráðnauðsynlegum tilfellum. Sú akstursþjónusta sem kæranda sé tryggð á þessum grunni sé langt því frá svo viðamikil að hún réttlæti að kærandi sé útilokaður frá annarri akstursþjónustu sem hann annars ætti sannarlega rétt á ef hann byggi sjálfstætt.

Kærandi geti ekki bókað neinn akstur sjálfur og sé ofurseldur hjúkrunarheimilinu hvað varði ferðir hans utan stofnunarinnar. Þá geti kærandi ekki heldur bókað akstur í gegnum hjúkrunarheimilið hvenær sem honum detti í hug og mörg tilfelli falli utan þeirrar þjónustu sem hjúkrunarheimilið telji sér skylt að veita. Til dæmis þegar stilla þurfi hjálpartæki vegna MND-sjúkdómsins, hreinsa eyru kæranda og heyrnarmæla eða þegar heimsækja þurfi heimilislækni í almenna skoðun, svo nokkur dæmi séu tekin. Þá sé ótalið það sem raunverulega skipti mestu máli, þegar kærandi hyggist heimsækja vini og ættingja utan sjúkrastofnunarinnar og eiga með þeim glaðan dag. Þegar svo beri undir þurfi kærandi að bóka til þess leigubíl með tveggja til þriggja daga fyrirvara sem rúmi rafmagnshjólastólinn og greiða fyrir það um það bil 20.000 kr. Aðrir einstaklingar með MND-sjúkdóminn sem búi sjálfstætt, og eigi þar af leiðandi rétt á akstursþjónustu, geti bókað akstur samdægurs fyrir lítið brot af þeim kostnaði sem kærandi þurfi sjálfur að greiða. Kærandi telji því framangreindar reglur og ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs mismuna MND-sjúklingum innan sjúkrastofnana sem eigi þess ekki kost að fá niðurgreidda akstursþjónustu til þess að hitta vini og ættingja utan sjúkrastofnunarinnar eða sinna öðrum erindagjörðum sem stofnunin telji sér ekki skylt að greiða fyrir. Þá skuli tekið fram að grundvöllur góðrar andlegrar heilsu og forsenda þess að lifa mannsæmandi lífi byggi á því að eiga þess raunverulegan kost að umgangast aðra og taka þátt í samfélaginu utan veggja sjúkrastofnunar. Á meðan kærandi þurfi að greiða 20.000 kr. fyrir hvert skipti sem hann hyggist yfirgefa hjúkrunarheimilið að eigin frumkvæði sé brotið gróflega gegn grundvallarmannréttindum hans.

Síðar greinda mismununin snúi að því að einstaklingur sem greinist með MND-sjúkdóminn eftir 67 ára aldur geti ekki sótt um örorkumat og verði þar af leiðandi af mikilvægum réttindum á grundvelli laga nr. 40/1991 um þjónustu sveitarfélaga eins og t.d. akstursþjónustu, sbr. 29. gr. laganna. Það sé skýrlega tekið fram í 1. gr. reglna fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu að hafi fatlaður einstaklingur átt rétt á að nota akstursþjónustu fatlaðs fólks fyrir 67 ára aldur eigi hann rétt á þeirri þjónustu eftir að 67 ára aldri sé náð óski hann þess að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum reglnanna. Hefði kærandi greinst fyrr með sinn sjúkdóm ætti hann því skýlausan rétt til akstursþjónustu á þeim grundvelli. Þá eigi þeir einstaklingar sem greinist eftir 67 ára aldur ekki heldur kost á því að sækja um NPA (notendastýrða persónulega aðstoð) á grundvelli laga nr. 38/2018 og neyðist því til þess að flytja á hjúkrunarheimili sökum sjúkdóms síns. Það valdi því að þeir einstaklingar eigi ekki lengur rétt á akstursþjónustu á grundvelli akstursþjónustu aldraðra, sbr. hina kærðu ákvörðun.

Fyrir liggi að aðrir sjúklingar með MND-sjúkdóminn eigi alla jafnan aðgang að akstursþjónustu. Það eitt og sér að kærandi í fyrirliggjandi máli dvelji á hjúkrunarheimili og hafi greinist formlega með sjúkdóminn eftir 67 ára aldur eigi ekki að takmarka rétt hans til þeirrar þjónustu sem hann bráðnauðsynlega þurfi á að halda og möguleika hans að hitta vini og ættingja utan veggja hjúkrunarheimilisins. Sér í lagi þegar orsök þeirra vandamála sem kærandi glími við sé augljóslega af völdum MND-sjúkdómsins en ekki vegna annarra aldurstengdra þátta.

Þá byggi kærandi jafnframt á því að leiðbeiningarskyldu og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins hafi ekki verið gætt, sbr. 7. gr. og 10. gr. laga nr. 37/1993, sem leiði óhjákvæmilega til ógildingar ákvörðunarinnar. Að mati kæranda hafi borið að leiðbeina honum um möguleika þess að sækja um akstursþjónustu á grundvelli reglna fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu, sbr. 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, enda hafi komið fram á umsókn kæranda að hann hefði MND-sjúkdóminn. Þá hafi fyrri umsóknir kæranda um akstursþjónustu aldraðra sem hafi verið samþykktar á meðan kærandi hafi búið sjálfstætt einnig borið það með sér að hann glímdi við MND-sjúkdóminn.

Að sama skapi telji kærandi að málið hafi ekki verið nægjanlega rannsakað og upplýst áður en ákvörðun hafi verið tekin, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1993. Reykjavíkurborg hafi borið að rannsaka málið betur í ljósi þess að kærandi sé með MND-sjúkdóminn og vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi séu í málinu, og eftir atvikum kanna hvort umsækjandi ætti rétt á akstursþjónustu fatlaðra. Kærandi telji svo vera þar sem einkenni sjúkdómsins hafi verið farin að gera vart við sig fyrir 67 ára aldur og hending ein hafi ráðið því hvenær hann hafi verið formlega greindur með sjúkdóminn.

Að öllu framangreindu virtu verði að telja að kærandi eigi rétt á þeirri þjónustu sem sótt hafi verið um og engin hlutlæg, málefnaleg rök mæli gegn því að hann njóti þeirra réttinda. Því beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og úrskurða að Reykjavíkurborg skuli veita kæranda akstursþjónustu, 15 ferðir á mánuði í 12 mánuði.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er vísað til þess að kærandi sé X ára gamall ellilífeyrisþegi og búi á hjúkrunarheimilinu C. Hann sé […] en sumarið 2019 hafi hann greinst með taugahrörnunarsjúkdóminn MND (Motor Neourone Disease). Undanfarin ár hafi líkamleg færni kæranda versnað og þjónustuþörf hans aukist. Kærandi hafi áður verið með heimahjúkrun frá Reykjavíkurborg, auk heimstuðnings í formi þrifa, daglegrar aðstoðar við næringu og athafnir daglegs lífs. Þar að auki hafi kærandi verið með liðveislu og akstursþjónustu aldraðra. Þjónustuþarfir kæranda hafi farið vaxandi og árið 2022 hafi hann tvisvar farið í hvíldarinnlögn, fyrst um vorið og síðan í október. Í seinni innlögn kæranda hafi verið tekin ákvörðun um að hann myndi ekki flytja aftur í eigin húsnæði.

Þann 31. október 2022 hafi kærandi sótt um akstursþjónustu aldraðra, 15 ferðir á mánuði í 12 mánuði, til og frá hjúkrunarheimili til að viðhalda félagslegri virkni og tengslum við fjölskyldu. Umsókn kæranda hafi verið synjað með bréfi miðstöðvar Reykjavíkurborgar, dags. 11. janúar 2023. Með tölvupósti, dags. 6. febrúar 2023, hafi dóttir kæranda, fyrir hans hönd, skotið málinu til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 16. febrúar 2023. Synjun miðstöðvar Reykjavíkurborgar hafi verið staðfest með vísan til 11. gr. reglna Reykjavíkurborgar um akstursþjónustu aldraðra.

Núgildandi reglur Reykjavíkurborgar um akstursþjónustu aldraðra hafi verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 15. mars 2018, á fundi borgarráðs 22. mars 2018 og tekið gildi þann 13. apríl 2018. Reglurnar séu settar með stoð í X. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og kveði á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum sé heimilt að veita.

Í X. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sé að finna ákvæði er lúti að þjónustu við aldraða sem sveitarfélögum beri að veita. Framangreind löggjöf um félagsþjónustu sveitarfélaga tilgreini þá lágmarksþjónustu sem sveitarfélögum beri að veita en sveitarfélögum sé í sjálfvald sett hvort þau veiti meiri þjónustu en lög kveði á um. Akstursþjónusta aldraðra sé ekki lögbundin þjónusta ólíkt því sem gildi um ýmsa aðra þjónustu, svo sem fjárhagsaðstoð, sbr. VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Akstursþjónusta aldraðra sé þjónusta sem Reykjavíkurborg hafi ákveðið að veita og í því skyni hafi Reykjavíkurborg sett reglur um akstursþjónustu aldraðra. Í 1. gr. framangreindra reglna komi fram að markmið með akstursþjónustu aldraðra sé að gera öldruðum einstaklingum í Reykjavík kleift að búa lengur heima.

Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um akstursþjónustu aldraðra skuli umsækjandi um akstursþjónustu búa sjálfstætt. Samkvæmt upplýsingum sem hafi legið fyrir á fundi áfrýjunarnefndar velferðarráðs þann 16. febrúar 2023 dvelji kærandi á C hjúkrunarheimili og því sé ljóst að kærandi búi ekki sjálfstætt. Þar af leiðandi sé fyrrgreint skilyrði 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um akstursþjónustu aldraðra ekki uppfyllt. Þá sé einnig tekið fram í 11. gr. reglna Reykjavíkurborgar um akstursþjónustu aldraðra að reglurnar gildi ekki um akstursþjónustu fyrir aldraða sem séu á stofnunum, svo sem hjúkrunarheimilum og þurfi að leita þjónustu utan stofnunarinnar, svo sem sérfræðihjálpar, rannsókna- og sjúkraþjálfunar, sbr. ákvæði 14. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra þar sem fram komi að slíkum stofnunum beri að tryggja að þar sé veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta auk endurhæfingar. Þá segi einnig í framangreindu lagaákvæði að þjónusta á hjúkrunarheimilum skuli byggð á einstaklingsbundnu mati á heilsufarslegum og félagslegum þörfum hins aldraða.

Reykjavíkurborg sé heimilt að setja sér reglur um akstursþjónustu aldraðra líkt og að framan greini, ásamt málefnalegum skilyrðum fyrir því að akstursþjónusta verði samþykkt. Skilyrði 3. tölul. 1. mgr. 3. reglna Reykjavíkurborgar um akstursþjónustu aldraðra sé í samræmi við markmið framangreindra reglna um að gera öldruðum kleift að búa sem lengst heima hjá sér. Kærandi búi á hjúkrunarheimili og fái því þjónustu þaðan, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Því verði ekki fallist á afstöðu kæranda að um ólögmæta mismunum sé að ræða líkt og fram komi í greinargerð kæranda til úrskurðarnefndar, dags. 15. maí 2023, þar sem tekið sé fram að kærandi hefði átt rétt á akstursþjónustu aldraðra ef hann byggi enn sjálfstætt. Þá sé rétt að árétta að þegar akstursþjónusta aldraðra sé veitt á grundvelli framangreindra reglna skipti ekki máli hvaða sjúkdóm viðkomandi sé með heldur sé horft til þess hvort viðkomandi sé ófær um að nota almenningssamgöngur vegna langvarandi hreyfihömlunar. Því komi ekki sérstaklega til álita í því samhengi hvort um sé að ræða einstakling með MND sjúkdóm eður ei.

Þá sé tekið fram í greinargerð kæranda til úrskurðarnefndar, dags. 15. maí 2023, að um mismunun sé að ræða þar sem kærandi hafi greinst með MND sjúkdóminn eftir 67 ára aldur og ætti þar af leiðandi ekki rétt á akstursþjónustu fatlaðs fólks samkvæmt reglum fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu. Vitnað sé í 2. mgr. 1. gr. framangreindra reglna þar sem fram komi að ef fatlaður einstaklingur hafi átt rétt á að nota akstursþjónustu fatlaðs fólks fyrir 67 ára aldur eigi hann rétt á þeirri þjónustu eftir að 67 ára aldri sé náð óski hann þess að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum í reglunum. Reykjavíkurborg bendi á að í 1. mgr. 1. gr. framangreindra reglna komi meðal annars fram að akstursþjónusta fatlaðs fólks sé ætluð til afnota fyrir þá íbúa Reykjavíkur sem ekki eigi rétt á niðurgreiddri akstursþjónustu frá öðrum aðilum eða rétt á akstri samkvæmt öðrum lögum, reglugerðum eða reglum. Þar sem kærandi sé á hjúkrunarheimili sé framangreint skilyrði 1. mgr. 1. gr. framangreindra reglna ekki uppfyllt og ætti hann því ekki heldur rétt á akstursþjónustu fatlaðs fólks samkvæmt fyrrgreindum reglum. Þá sé í VII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga fjallað um stuðningsþjónustu og vikið sé að akstursþjónustu fyrir fatlað fólk í framangreindum kafla, þ.e. 29. gr. laganna. Fjallað sé um skyldur sveitarfélaga hvað varði stuðningsþjónustu í 26. gr. laganna en í 2. mgr. 26. gr. komi fram að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 26. gr. sé sveitarfélagi ekki skylt að veita stuðningsþjónustu á stofnunum, svo sem sjúkrahúsi og öldrunarstofnun. Fötluðu fólki sem dvelji á hjúkrunarheimili og hafi náð 67 ára aldri sé því almennt synjað um akstursþjónustu.

Ekki sé unnt að taka undir þau sjónarmið sem fram komi í greinargerð kæranda til úrskurðarnefndar, dags. 15. maí 2023, um að ekki hafi verið gætt að leiðbeiningarskyldu og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 7. gr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til þess sem að framan sé rakið hafi akstursþjónusta fatlaðs fólks ekki verið veitt fötluðu fólki eftir 67 ára aldur sem ekki hafi verið með umrædda þjónustu fyrir þann aldur. Reykjavíkurborg bendi á að kærandi hafi fengið MND greiningu árið 2017, þá á X. aldursári. Það að greinast með MND sjúkdóm leiði ekki sjálfkrafa til fötlunargreiningar en samkvæmt 1. mgr. 1. gr. reglna um sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu sé það skilyrði að fötlun umsækjanda falli að skilgreiningu 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Með vísan til framangreinds hafi áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfest synjun miðstöðvar Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um akstursþjónustu aldraðra, þ.e. 15 ferðir á mánuði í 12 mánuði, á grundvelli 3. og 11. gr. reglna Reykjavíkurborgar um akstursþjónustu aldraðra. Ljóst sé að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um akstursþjónustu eldri borgara í Reykjavík, lögum nr. 125/1999 um málefni aldraðra, lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, stjórnsýslulögum nr. 37/1993 eða öðrum reglum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn kæranda um akstursþjónustu aldraðra með vísan til 11. gr. reglna Reykjavíkurborgar um akstursþjónustu aldraðra.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við þjónustu við aldraða, sbr. 1. mgr. 2. gr.

Í X. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um þjónustu við aldraða. Þar segir í 1. mgr. 38. gr. að sveitarstjórn skuli stuðla að því að aldraðir geti búið við eðlilegt heimilislíf í umgengni við aðra svo lengi sem verða megi. Jafnframt að tryggð verði nauðsynleg stofnanaþjónusta þegar hennar sé þörf. Samkvæmt 40. gr. laganna skal sveitarstjórn sjá um að félagsþjónusta aldraðra sé fyrir hendi í sveitarfélaginu eftir þörfum, meðal annars heimaþjónusta, félagsráðgjöf og heimsending matar. Jafnframt skal tryggja öldruðum aðgang að félags- og tómstundastarfi við þeirra hæfi. Sveitarfélagi er þó ekki skylt að veita þjónustu samkvæmt lagagreininni á sjúkrahúsi eða öldrunarstofnun. Þá kemur fram í 41. gr. laga nr. 40/1991 að aldraðir eigi rétt á almennri þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum, en að öðru leyti fari um málefni þeirra eftir sérlögum um málefni aldraðra.

Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á þjónustu við aldraða. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Akstursþjónusta aldraðra er þjónusta sem Reykjavíkurborg hefur ákveðið að veita og í því skyni hefur Reykjavíkurborg sett reglur um akstursþjónustu aldraðra. Samkvæmt 1. gr. reglna Reykjavíkurborgar um akstursþjónustu aldraðra er markmið með þeirri þjónustu að gera öldruðum einstaklingum í Reykjavík kleift að búa lengur heima. Í 3. gr. reglnanna er kveðið á um skilyrði fyrir samþykki umsóknar. Þar segir í 1. mgr. að umsækjandi skuli uppfylla öll eftirfarandi skilyrði til að umsókn verði samþykkt og skilyrðin verði að vera uppfyllt á meðan umsækjandi fái akstursþjónustu aldraðra:

1. Umsækjandi skal eiga lögheimili í Reykjavík.

2. Umsækjandi skal vera 67 ára eða eldri.

3. Umsækjandi skal búa sjálfstætt.

4. Umsækjandi skal vera ófær um að nota almenningssamgöngur vegna langvarandi

hreyfihömlunar.

5. Umsækjandi hefur ekki aðgang að eigin bifreið.

Í 11. gr. reglnanna kemur fram að reglurnar gildi ekki um akstursþjónustu fyrir aldraða sem séu á stofnunum, svo sem hjúkrunarheimilum og þurfi að leita þjónustu utan stofnunarinnar, svo sem sérfræðilæknishjálpar, rannsókna- og sjúkraþjálfunar, sbr. ákvæði 14. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra þar sem fram komi að slíkum stofnunum beri að tryggja að þar sé veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta auk endurhæfingar.

Líkt og Reykjavíkurborg hefur greint frá er akstursþjónusta aldraðra ekki lögbundin þjónusta ólíkt því sem gildir um ýmsa aðra þjónustu sem kveðið er á um í lögum nr. 40/1991. Reykjavíkurborg hefur ákveðið í sínum reglum að akstursþjónusta aldraðra gildi einungis fyrir þá sem búi sjálfstætt, enda markmið þeirra að gera öldruðum einstaklingum í Reykjavík kleift að búa lengur heima. Óumdeilt er að kærandi er búsettur á hjúkrunarheimili og uppfyllir hann því ekki það skilyrði reglnanna.

Að því virtu og með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun. 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 16. febrúar 2023, um að synja umsókn A, um akstursþjónustu aldraðra, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta