Mál nr. 134/2011
Miðvikudaginn 11. janúar 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 134/2011:
A
gegn
félagsmálaráði Akureyrar
og kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR
Með ódagsettu bréfi en mótteknu 23. september 2011, skaut A, til úrskurðarnefndar tveimur synjunum félagsmálaráðs Akureyrar. Fyrri synjunin er frá 22. júní 2011 og var hún tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 5. júlí 2011. Synjunin varðar umsókn kæranda um styrk að fjárhæð 39.879 kr. Síðari synjunin er frá 14. september 2011 og tilkynnt kæranda með bréfi dagsettu samdægurs. Synjunin varðar umsókn um styrk að fjárhæð 50.000 kr.
I. Málavextir og málsmeðferð
Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð að fjárhæð 39.879 kr. með umsókn, dags. 19. maí 2011, fyrir tímabilið frá 1. maí til 31. maí 2011, fyrir fæðiskaupum og lækniskostnaði. Honum var synjað um aðstoðina þar sem tekjur hans voru hærri en framfærslugrunnur sem miðað er við af hálfu Akureyrarbæjar. Kærandi sótti að nýju um fjárhagsaðstoð með umsókn, dags. 4. ágúst 2011, fyrir tímabilið frá 1. ágúst til 31. ágúst 2011, til greiðslu tannlæknakostnaðar. Þeirri umsókn var einnig synjað þar sem tekjur kæranda voru yfir mælikvarða framfærslugrunns. Kærandi skaut báðum þessum ákvörðun til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála með kæru móttekinni 23. september 2011. Úrskurðarnefndinni barst umbeðin greinargerð Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar, dags. 5. október 2011, ásamt gögnum málsins. Kæranda var send greinargerðin og gögnin og honum gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri. Hann sendi úrskurðarnefndinni bréf sem var móttekið 8. október 2011.
Kærandi er 33 ára gamall einhleypur maður. Hann nýtur örorkulífeyris og hefur verið greindur með sjúkdóminn geðklofa. Í kæru til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að kærandi sé nú í 30% atvinnu. Meðal gagna málsins er greiðsluáætlun Tryggingastofnunar, dags. 13. júní 2011, vegna kæranda fyrir árið 2011, en þar er gerð grein fyrir tekjuliðum kæranda, öðrum en atvinnutekjum hans fyrir hlutastarfið, og frádráttarliðum flokkað eftir mánuðum. Kærandi hefur búið á áfangaheimili fyrir geðsjúka en leigir nú húsnæði á almennum markaði. Í greinargerð Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar kemur fram að kærandi hafi leitað eftir fjárhagsaðstoð í nokkrum mæli frá árinu 2004. Hann sé eignalaus og hafi á köflum verið tekjulítill. Hann hafi fengið aðstoð í samræmi við reglur félagsmálaráðs Akureyrar um fjárhagsaðstoð að teknu tilliti til aðstæðna hans á hverjum tíma. Hann hafi einnig fengið aðstoð varðandi atvinnumál í gegnum atvinnu með stuðningi (AMS) og aðstoð með húsnæðismál.
Í gögnum málsins kemur jafnframt fram að kærandi fór til útlanda veturinn 2010–2011 á eigin vegum í von um að komast í endurhæfingu vegna sjúkdóms síns. Hann varð fjárvana og neyddist til þess að snúa aftur heim. Í kjölfar þess sótti hann um húsbúnaðarstyrk hjá Fjölskyldudeild Akureyrar og fékk greiddan slíkan styrk að fjárhæð 50.000 kr. Kærandi hafði átt einhverja búslóð áður en hann fór utan til lækninga en selt hana eða gefið.
II. Málsástæður kæranda
Kærandi bendir á að um sé að ræða tvær kærur. Annars vegar varðandi styrk sem hann hafi sótt um hjá Fjölskyldudeild Akureyrarbæjar vegna bágrar fjárhagsstöðu þar sem útgjöld mánaðarins hafi farið yfir getu hans til þess að kaupa helstu nauðsynjar. Hins vegar sé um að ræða erindi vegna vangetu hans til að greiða tannlæknakostnað. Fyrri fjárhæðin nemi 39.879 kr. og sú síðari 50.000 kr. eða samtals 89.879 kr. Rökstuðningur kæranda er sá að þegar fjárhagsleg innkoma heimilis dugir ekki fyrir annaðhvort húsaleigu eða mat eða hvorutveggja, sem hafi átt við í hans tilfelli, megi telja þann einstakling eða heimili fátækt. Samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar, lögum, mati velferðarráðuneytisins og vitsmunalegri hugsun, sé það ekki í lagi að fólk eigi ekki fyrir lífnauðsynjum. Kærandi kveður grunnbætur sínar eftir skatt vera um 160.000 kr. og þá fái hann húsaleigubætur sem nemi 29.000 kr. Hann fái 68.000 kr. í laun hjá fyrirtækinu sem hann sé í hlutastarfi hjá. Eftir skatta og gjöld fái hann alls um 230.000 kr. Kærandi kveðst vera orðinn þunglyndur af peningaáhyggjum og með geðröskun í ofanálag og hann sé hættur að reyna að spara pening. Með smá aðstoð gæti hann komið fjárhagnum í lag áður en hann brenni allar brýr að baki sér og skatturinn eða einhver annar geri hjá honum fjárnám. Kærandi bendir á að hann þurfi endurhæfingu, mat og húsaskjól. Allt kosti þetta peninga og þá hafi hann ekki.
III. Sjónarmið kærða.
Fram kemur hjá Fjölskyldudeild Akureyrarbæjar að kærandi hafi leitað eftir fjárhagsaðstoð í nokkrum mæli frá árinu 2004. Hann sé eignalaus og hafi á köflum verið tekjulítill. Hann hafi fengið aðstoð í samræmi við reglur félagsmálaráðs Akureyrar um fjárhagsaðstoð að teknu tilliti til aðstæðna hans á hverjum tíma. Hann hafi enn fremur fengið aðstoð varðandi atvinnumál í gegnum atvinnu með stuðningi og aðstoð með húsnæðismál. Á þessu ári hafi kærandi þrisvar sinnum sótt um fjárhagsaðstoð. Fyrst 5. maí 2011 og þá hafi hann fengið húsbúnaðarstyrk að fjárhæð 50.000 kr. Síðan hafi hann sótt um framfærsluaðstoð 17. maí 2011 að fjárhæð 39.879 kr. vegna þess að hann væri orðinn peningalaus. Umsókninni hafi verið hafnað á þeim forsendum að umsækjandi væri 16.000 kr. yfir framfærslugrunni Akureyrarbæjar. Hafi sá útreikningur byggt á greiðsluáætlun TR frá 22. apríl 2011. Félagsmálaráð Akureyrar staðfesti þá niðurstöðu. Í greinargerð félagsráðgjafa komi fram að tekjur kæranda hafi verið nokkru hærri eða 175.245 kr. og hann hafi því verið 43.628 kr. yfir framfærslugrunni. Fram kemur að kærandi hafi verið í B á haustönn 2010 en vorið 2011 hafi hann ákveðið að fara í tilraunameðferð við sjúkdómi sínum til Englands. Ferðin hafi ekki verið farin í samráði við lækni eða aðra fagaðila sem þekki málefni kæranda og hann hafi komið heim áður en nokkur meðferð hafi hafist vegna fjárskorts. Þessi ferð hafi sett kæranda í mikinn vanda, meðal annars vegna þess að hann sagði upp leiguíbúð sem hann hafði á leigu hjá Akureyrarbæ og seldi eða gaf flestar eigur sínar.
Þriðja og síðasta umsókn frá kæranda sé dagsett 4. ágúst 2011 en þar sæki hann um 50.000 kr. í tannlæknastyrk. Þeirri umsókn hafi verið synjað vegna þess að tekjur kæranda hafi þá verið 64.000 kr. yfir framfærslugrunni.
IV. Niðurstaða
Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur félagsmálaráðs Akureyrar um fjárhagsaðstoð.
Í máli þessu er ágreiningur um það hvort félagsmálaráði Akureyrar beri að greiða kæranda 39.879 kr. í fjárhagsaðstoð og 50.000 kr. til greiðslu tannlæknakostnaðar.
Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.
Meðal gagna þessa máls eru reglur félagsmálaráðs Akureyrar um fjárhagsaðstoð sem tóku gildi 1. janúar 2005 með síðari breytingum. Í 15. gr. reglnanna um mat á fjárþörf kemur fram að við ákvörðun á fjárhagsaðstoð skuli grunnfjárþörf til framfærslu lögð til grundvallar og frá henni dregnar heildartekjur. Tekið skuli tillit til sérstakra aðstæðna eftir því sem við eigi, sbr. IV. kafla reglnanna. Í 16. gr. reglnanna er fjallað um framfærslugrunn. Fram kemur að fjárhagsaðstoð til einstaklings 18 ára og eldri taki mið af útgjöldum vegna daglegs heimilishalds og geti numið allt að 131.617 kr. á mánuði. Framfærslugrunnur vegna einstaklinga hafi stuðulinn 1,0 en vegna hjóna og fólks í sambúð 1,6.
Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð þann 17. maí 2011 eins og fram hefur komið og var þeirri beiðni synjað af hálfu félagsmálaráðs Akureyrar 22. júní 2011. Í apríl 2011 fékk hann greiddar hjá Tryggingastofnun 175.245 kr. og voru tekjur hans því töluvert umfram framfærslugrunn skv. 16. gr. framangreindra reglna. Ekki verður séð að aðstæður kæranda hafi fallið að IV. kafla reglnanna um heimildir vegna sérstakra aðstæðna.
Í 26. gr. áðurnefndra reglna félagsmálaráðs Akureyrar um fjárhagsaðstoð kemur fram að heimilt er að veita fjárhagsaðstoð til greiðslu nauðsynlegra tannlækninga til einstaklinga sem hafa notið fjárhagsaðstoðar til framfærslu í lengri tíma, hafa átt við atvinnuleysi að stríða í lengri tíma eða eru lífeyrisþegar. Hámark aðstoðar skal vera 55.000 kr. á ári. Kostnaðaráætlun tannlæknis skal ávallt fylgja með umsókn. Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð, 50.000 kr., til greiðslu fyrir tannlækningar, þann 4. ágúst 2011, en var synjað um það af hálfu félagsmálaráðs Akureyrar 14. september 2011. Í júlímánuði 2011 hafði kærandi í tekjur 230.668 kr. hjá Tryggingastofnun. Tekjur hans voru því töluvert umfram framfærslugrunn 16. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð.
Kærandi hefur bent á að tekjur hans séu langt undir þeim viðmiðunum sem gefnar hafa verið út, svokallað neysluviðmið. Slík neysluviðmið geta ein og sér, að mati úrskurðarnefndarinnar, hins vegar ekki haggað almennum reglum einstakra sveitarfélaga um framfærslugrunn sem notast er við til viðmiðunar við fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að hinar kærðu ákvarðanir hafi verið í samræmi við reglur sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð og að mat félagsmálaráðs Akureyrar á aðstæðum kæranda hafi verið málefnalegt. Verður því að fallast á ákvarðanir félagsmálaráðs Akureyrar.
Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun félagsmálaráðs Akureyrar frá 22. júní 2011, um að synja A um fjárhagsaðstoð, er staðfest.
Ákvörðun félagsmálaráðs Akureyrar frá 14. september 2011, um að synja A um fjárhagsaðstoð til greiðslu fyrir tannlækningar, er staðfest.
Ása Ólafsdóttir,
formaður
Margrét Gunnlaugsdóttir Gunnar Eydal